Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1 /2011

Álagning aðflutningsgjalda fartölvu

4.1.2011

Í dag var hjá embætti tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi sem barst Tollstjóra þann 22. september 2010, hefur A, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um álagningu flutnings- og vátryggingargjalds á fartölvu sem hann hafði meðferðis við komu til landsins með flugi. Kærandi krefst þess að fallið verði frá álagningu flutnings- og vátryggingargjalds og að ofangreind gjöld verði endurgreidd.

II. Málsmeðferð

Kærandi kom til landsins þann 13. ágúst 2010 með flugi frá Berlin Tegel og hafði meðferðis fartölvu af gerðinni Lenovo Ideapad S12. Við tollafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli framvísaði kærandi vörureikningi þar sem fram kom að innkaupsverð tölvunnar var PLN 1.699. Tollvörður ákvarðaði flutnings- og vátryggingargjald að upphæð kr. 3.109 sem bætt var við viðskiptaverð vörunnar, þ.e. innkaupsverð samkvæmt framlögðum reikningi, við útreikning tollverðs. Aðflutningsgjöld voru lögð á tollverð hinnar innfluttu vöru. Á reikningi Tollstjóra nr. KEF-2010-03126R er tollverð vörunnar skráð kr. 63.871.-, þar af verð skv. reikningi, kr. 60.762.- og flutnings- og vátryggingarkostnaður að fjárhæð kr. 3.109.- Álögð gjöld voru gjald af eftirlitsskyldum rafföngum (0.15%), kr. 47.- og virðisaukaskattur, 25,5% að fjárhæð kr. 8.012.- Alls voru því lögð á aðflutningsgjöld að fjárhæð kr. 32.330.- sem kærandi greiddi með kreditkorti. Kærandi mótmælti álagningu vátrygginga- og flutningskostnaðar á viðskiptaverð við útreikning tollverðs hinnar innfluttu vöru með kæru sem barst embætti Tollstjóra þann 22. september 2010.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að lagaheimild hafi skort til að leggja áætlað flutnings- og vátryggingargjald við innkaupsverð við útreikning tollverðs með vísan til ákvæða virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 um skattverð. Enginn flutningskostnaður eða kostnaður vegna vátryggingar hafi fallið til við innflutning enda hafi hann haft tölvuna með sér í handfarangri, en 20 kg farangur auk einnar tösku í handfarangur hafi verið innifalinn í verði flugmiða. Kærandi vísar einnig til úrskurðar ríkistollanefndar nr. 8/2001 sem hann telur að hafi fordæmisgildi í málinu en þar komi fram að miða beri tollverð við vörureikning og að óheimilt sé því að ákvarða verð frá öðrum matskenndum þáttum, svo sem verð vöru án afsláttar. Með vísan til alls ofangreinds skorti og lagastoð til ákvörðunar flutnings- og vátryggingargjalds ofan á viðskiptaverði við útreikning tollverðs, sbr. og einnig 40. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í málinu snýst fyrst og fremst um útreikning tollverðs og það hvort flutnings- og vátryggingakostnaður sé hluti þess. Kærandi vísar til úrskurðar Ríkistollanefndar nr. 8/2001 með þeim rökum að þar komi fram að miða beri tollverð við vörureikning og óheimilt sé því að ákvarða verð út frá öðrum matskenndum þáttum svo sem verði án afsláttar. Málsatvik í tilvitnuðu máli eru afar ólík. Þar reyndi einkum á það hvort Tollstjóra hefði verið heimilt að ákvarða tollverð á grundvelli reglna um mat á viðskiptaverði sem eiga einungis við þegar vörureikningur liggur ekki fyrir, en í málinu lá fyrir að kærandi hafði keypt vöruna á sérkjörum sem bundin voru tilteknum skilyrðum. Verð það sem greitt var fyrir vöruna var óumdeilt enda lá fyrir reikningur því til sönnunar. Komst nefndin því að þeirri niðurstöðu að Tollstjóra hefði borið að taka mið af vörureikningi við ákvörðun tollverðs, óháð sérstökum afsláttarkjörum.

Innheimta ber virðisaukaskatt af öllum innflutningi með aðflutningsgjöldum. Ákvæði tollalaga nr. 88/2005, auk reglugerða settum skv. þeim lögum, gilda um álagningu virðisaukaskatts við innflutning að því leyti sem eigi er ákveðið í virðisaukaskattslögum, sbr. 37. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1998.

Álagningarstofn innfluttra vara er tollverð þeirra. Í V. kafla tollalaga nr. 88/2005, nánar tiltekið 14. og 15. gr., er fjallað um tollverð og tollverðsákvörðun. Tollverð innfluttra vara er viðskiptaverð þeirra með þeim leiðréttingum sem leiða af ákvæðum 15. gr. tollalaga. Við ákvörðun tollverðs skal bæta flutnings- og vátryggingakostnaði við það reikningsverð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hina innfluttu vöru, samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. laganna. Í 3. mgr. 15. gr. er síðan áskilið að viðbætur samkvæmt 14. gr. skuli einungis ákvarða á grundvelli hlutlægra og mælanlegra atriða.

Við ákvörðun tollverðs er meginreglan sú að miða skuli við verð samkvæmt framlögðum reikningi, liggi hann fyrir, að viðbættum þeim kostnaðarliðum sem leiða af 15. gr. tollalaga, þ.á m. flutnings- og vátryggingakostnaði. Í 16. gr. tollalaga er kveðið á um heimild fjármálaráðherra til að setja nánari reglur um ákvörðun tollverðs, mat á tollverði og um það hvaða þættir skuli teljast hluti tollverðs samkvæmt ákvæðum 15. gr. laganna. Slíkar reglur voru settar með reglugerð nr. 1100/2006 um vörslu og meðferð ótollafgreiddrar vöru. Í 7. kafla reglugerðar nr. 1100/2006 er að finna reglur um tollverð og mat á tollverði. Samkvæmt

3. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar skulu kostnaðarliðir og gjöld sem um ræðir í 2. mgr. 15. gr. tollalaga, þ. á m. flutnings- og vátryggingarkostnaður, innifalin í tollverði, án tillits til þess hvort kostnaðarliðirnir og gjöldin hafi raunverulega verið greidd eða ekki, enda sé unnt að ákvarða þau á grundvelli hlutlægra og mælanlegra atriða.

Með vísan til ofangreinds hefur verið talið heimilt að leggja umrædd gjöld ofan á raunverulegt reikningsverð innfluttra vara við útreikning tollverðs, þ.e. að leggja flutnings- og vátryggingakostnað ofan á það verð sem er greitt var eða greiða bar, enda var miðað við hlutlæg og mælanleg atriði við ákvörðun þeirra. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu vátrygginga- og flutningskostnaðar á fartölvu er kærandi kom með til landsins í flugi, þann 13. ágúst 2010 var því tekin í samræmi við ákvæði tollalaga og reglugerðar nr. 1100/2006.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda á fartölvu af gerðinni Lenovo Ideapad S12, dags. 13. ágúst 2010 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum