Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2015

Álagning tolla á vörusendingu frá Kína

5.2.2015

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um að leggja toll á sendingu sem B flutti inn frá Kína. B taldi sig ekki eiga að greiða toll af umræddri sendingu með vísan til kínversks uppruna og fríverslunarsamnings Íslands og Kína sem gengin var í gildi við tollafgreiðslu sendingarinnar.

Niðurstaða: Tollstjóri vísar til 3. gr. tollalaga um almenna tollskyldu og til ákvæða 7. gr. tollalaga um að framkvæmd við niðurfellingar, lækkun, eða endurgreiðslu tolls vegna fríverslunar- og milliríkjasamninga skuli vera að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í viðkomandi samningi. Til að njóta fríðindameðferðar samkvæmt samningnum þarf m.a. að uppfylla skilyrði um gilda upprunasönnun sbr. 35. gr. Kínasamningsins. Þar sem vottorð það sem kærandi lagði fram uppfyllir ekki umrædd skilyrði og kæranda tókst ekki að afla gildrar upprunasönnunar eftirá, með vísan til 5. tölul. 6. gr. Kínasamningsins var niðurstaða Tollstjóra um gjaldskyldu kæranda staðfest.


Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 31. ágúst 2014, hefur B f.h. A, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um álagningu tolla á sendingu sem kærandi flutti inn frá Kína og tollafgreidd var hinn 3. júlí 2014. Kærandi krefst endurákvörðunar álagðra aðflutningsgjalda með vísan til kínversks uppruna vörunnar og til Fríverslunarsamnings Íslands og Kína (hér eftir samningsins) sem gekk í gildi þann 1. júlí 2014.

II. Málsmeðferð

Kærandi flutti til landsins vörusendingu frá Kína með eftirfarandi sendingarnúmeri, X. Sendingin var tollafgreidd og aðflutningsgjöld skuldfærð á fyrirtækið þann 3. júlí 2014. Um er að ræða sendingu sem inniheldur, samkvæmt hjálögðum reikningi dagsettum 2. júní 2014, 1336 pör af gúmmístígvélum (Neoprane Boot) og var vörusendingin send frá seljanda í Kína

7. maí 2014 og flutt þaðan til Ísland með viðkomu í Rotterdam. Tollmiðlari skilaði inn tollskýrslu og sá um afgreiðslu sendingarinnar f.h. kæranda og var ekki farið fram á fríðindameðferð á umræddri sendingu í framlagðri aðflutningsskýrslu. Sendingin var tollafgreidd og afhending hennar heimil á grundvelli framlagðra gagna hinn 3. júlí 2014. Kærandi hafði samband við embætti Tollstjóra eftir að varan hafði verið tollafgreidd og vísaði til þess að þar sem umrædd vara væri upprunnin í Kína og hafi verið tollafgreidd eftir að samningurinn tók gildi, hinn 1. júlí 2014, bæri kæranda ekki að greiða toll af sendingunni. Þessu til stuðnings vísaði kærandi til framlagðs vottorðs frá seljenda vörunnar, dagsettu 15. maí 2014 um að varan væri af kínverskum uppruna. Kæranda var tjáð að umrætt vottorð uppfyllti ekki skilyrði samningsins með vísan til 35. gr. Jafnframt var kæranda bent á kæruheimild skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Kæra vegna ofangreindrar ákvörðunar Tollstjóra barst embættinu þann 3. september 2014 með bréfi dags. 31. ágúst sama ár.

Með bréfi dagsettu 3. október 2014 var kæranda send tilkynning um tafir á afgreiðslu málsins og með bréfi dagsettu 13. október var kæranda send áskorun um framlagningu gilds upprunavottorðs með vísan til þess sem fram kemur í kæru um að slíkt vottorð sé væntanlegt. Með tölvupósti dagsettum 3. nóvember sama ár fór kærandi fram á framlengdan frest til að afla upprunavottorðs til 5. desember 2014. Umræddur frestur var veittur kæranda með tölvupósti dagsettum 4. nóvember. Með tölvupósti dagsettum 1. desember 2014 fór kærandi fram á framlengingu frests vegna erfiðleika við öflun upprunavottorðs til loka janúar 2015. Umræddur frestur var veittur kæranda með tölvupósti dagsettum 2. desember 2014.

Í bréfi kæranda, dagsettu 26. janúar 2015, kemur m.a. fram að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi ekki tekist að afla upprunavottorðs á því formi sem samningurinn gerir ráð fyrir og að vonir kæranda til þess að fá slíkt vottorð séu nú brostnar. Bent er á að gilt og gott upprunavottorð hafi fylgt sendingunni og krafa kæranda um niðurfellingu tolla á grundvelli heimildar í 39. gr. ítrekuð.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að hafa verið í góðri trú um að hinn nýi fríverslunarsamningur væri í gildi við afhendingu [tollafgreiðslu] umræddrar vörusendingar og að þar með fengi varan fríðindameðferð í samræmi við fríverslunarsamninginn, enda skilyrði til slíkrar meðferðar samkvæmt samningnum uppfyllt að mati kæranda.

Kærandi telur að þeir annmarkar sem kunna að vera á upprunavottorði því er fylgdi sendingunni frá Kína eigi ekki að koma að sök í þessu máli, enda ljóst að mati kæranda að umrædd sending uppfylli öll önnur skilyrði samningsins til að njóta fríðindameðferðar, sem nefnd eru í 2. þætti samningsins.

Kærandi kveðst hafa haft loforð [frá seljenda] um að honum mundi verða sent upprunavottorð til framlagningar við tollafgreiðslu sendingarinnar á téðum degi, en sending þess hafi dregist af ástæðum sem kæranda verður ekki um kennt. Kærandi áskilur sér rétt til að leggja slíkt upprunavottorð, sem sannarlega sé á leiðinni, fram jafnskjótt og það berist, ef þurfa þyki.

Til áréttingar kröfum sínum færir kærandi fram eftirfarandi lagarök. Samkvæmt 1. tl. 7. gr. tollalaga hafi starfsmönnum Tollstjóra borið að fella niður tolla á umræddri vörusendingu þar sem á því tímamarki sem sendingin var tollafgreidd var genginn í gildi fríverslunarsamningur milli upprunalandsins Kína og Íslands.

Til vara byggir kærandi á því, að meðan vöntun upprunavottorðs skv. fríverslunarsamningnum við Kína varir, skuli taka fyrirliggjandi upprunavottorð [upprunayfirlýsingu] gilt með því að hið staðlaða vottorð sem von er á hafi engu meiri efnislegri þýðingu, en núverandi vottorð [yfirlýsing]. Sé því hér um hreint formsatriði að ræða. Þar að auki sé skýlaus heimild í samningnum til handa embættis Tollstjóra að falla frá kröfum um að sýna upprunavottorð og veita fríðindameðferð engu að síður, sbr. 39. gr. samningsins. Í ljósi alls þessa telur kærandi það ekki samræmast reglum um meðalhóf að starfsmenn tollembættisins beri fyrir sig slíkt formsatriði hvað upprunavottorð [upprunayfirlýsingu] varðar, með svo íþyngjandi hætti sem raun ber vitni.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra verði felld úr gildi og að byggt verði á því að samningurinn hafi verið í fullu gildi við afhendingu varanna hinn 3. júlí síðastliðinn, og að skuldfærður tollur af vörusendingunni að fjárhæð kr. 667.368,- [auk virðisaukaskatts í réttu hlutfalli] verði felldur niður.

Með bréfi dagsettu 26. janúar 2015 svarar kærandi áskorun Tollstjóra um framlagningu gilds upprunavottorðs. Þar kemur m.a. fram að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, sem sýnt er fram á með afritum tölvupóstsamskipta kæranda við útflytjanda í Kína, hafi ekki tekist að afla upprunavottorðs á því formi sem samningurinn gerir ráð fyrir og að vonir kæranda til þess að fá slíkt vottorð séu nú brostnar. Kærandi áréttar að gilt og gott upprunavottorð hafi fylgt sendingunni þrátt fyrir að vera ekki á því formi sem samningurinn kveður á um. Þá er krafa kæranda um undanþágu frá framlagningu upprunasönnunar og niðurfellingu tolla á grundvelli heimildar í 39. gr. samningsins ítrekuð. Kærandi telur að það ákvæði sýni að vilji löggjafans við gerð samningsins hafi ekki verið sá að skilyrðið um hið tiltekna form á upprunavottorði, eða að upprunavottorð sé sýnt yfirleitt – sé ófrávíkjanlegt. Þá ítrekar kærandi að það geti ekki samrýmst reglunni um meðalhóf að starfsmenn Tollstjóra beri fyrir sig slíkt formsatriði hvað upprunavottorðið varðar, með svo íþyngjandi hætti sem raun ber vitni.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum er kveðið á um almenna tollskyldu. Í því felst að hver sá er sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga, er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Tollstjóri annast framkvæmd niðurfellingar, lækkun, eða endurgreiðslu tolls vegna fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að sbr. 7. gr. og 40. gr. tollalaga nr. 88/2005. Eins og fram kemur í 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, skal slík framkvæmd vera að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru og í samræmi við ákvæði í viðkomandi fríverslunar- og milliríkjasamningi. Þar af leiðir að meðferð upprunasönnunar í tengslum við umsókn um niðurfellingu gjalda skal haga í samræmi við ákvæði þess fríverslunarsamnings sem í hlut á hverju sinni.

Í fyrirliggjandi máli er farið fram á að framlögð upprunayfirlýsing [upprunavottorð] frá útflytjanda vörusendingarinnar, C, dagsett 15. maí 2014, verði tekin sem skjalfest sönnun uppruna skv. 35. gr. samningsins. Einnig er gerð krafa um að fallið verði frá framlagningu upprunasönnunar með vísan til heimildar í 39. gr. samningsins. Sú krafa er ítrekuð í bréfi kæranda dagsettu 26. janúar 2015.

Um skyldur innflytjanda sem fer fram á ívilnandi tollmeðferð er kveðið í 40. gr. samningsins. Þar eru tilgreind þrjú atriði sem innflytjanda ber að uppfylla. Í fyrsta lagi skal innflytjandi að eigin frumkvæði, lýsa yfir skriflega í tollskýrslu/aðflutningsskýrslu að varan sé upprunavara. Í öðru lagi ber innflytjanda að hafa undir höndum gilda upprunasönnun þegar aðflutningaskýrsla er útbúin. Í þriðja lagi þarf innflytjandi að leggja fram upprunalegt upprunavottorð eða upprunayfirlýsingu og önnur skrifleg gögn sem tengjast innflutningi vörunnar, óski tollyfirvöld þess.

Í 2. mgr. 7. gr. samningsins er kveðið á um afnám innflutningstolla samningsaðila á upprunavörur hins samningsaðilans í áföngum í samræmi við I. viðauka. Um upprunareglur og skilgreiningu á því sem talist getur upprunavara er síðan fjallað í 3. kafla samningsins. Í 35. gr. samningsins er fjallað um skjalfesta sönnun uppruna og tilgreint hvaða sönnun skuli leggja fram við innflutning til að eiga rétt á ívilnandi tollmeðferð samkvæmt samningnum. Annarsvegar er þar tilgreint upprunavottorð, sbr. 36. gr., og hinsvegar upprunayfirlýsing, sbr. 37. gr. Í samningnum er einnig að finna undanþágu frá framlagningu skjalfestrar upprunasönnunar, þ.e. upprunavottorði eða upprunayfirlýsingu, samkvæmt nánari skilyrðum í 39. gr.

Um útgáfu upprunavottorða er sem fyrr segir kveðið á um í 36. gr. samningsins, þar segir m.a. að viðurkenndar stofnanir samningsaðila, en þessar stofnanir eru nánar skilgreindar í 34. gr., skulu gefa út upprunavottorð eins og kveðið er á um í V. viðauka, samkvæmt umsókn útflytjanda, og að í upprunavottorði skuli vera; einkvæmt vottorðsnúmer, tilgreind ein vara eða fleiri í einni vörusendingu, tilgreint á hvaða grundvelli sé rétt að telja vörurnar upprunalegar í skilningi 3. kafla, öryggisþættir, s.s. sýnisdæmi um undirritun eða stimplun. Form vottorðsins er síðan skilgreint í V. viðauka.

Um útgáfu upprunayfirlýsingar fer eftir 37. gr. samningsins. Þar er að finna heimild fyrir viðurkenndan útflytjanda skv. 38. gr., til að gefa út upprunayfirlýsingu í samræmi við form í viðauka VI. Til að teljast viðurkenndur útflytjandi skv. 38. gr. samningsins og mega gefa út upprunayfirlýsingu, þarf útflytjandi m.a. að hafa fengið úthlutað einstöku leyfisnúmeri frá yfirvöldum í sínu samningsríki. Samningsaðilarnir þurfa síðan að skiptast á upplýsingum um viðurkennda útflytjendur, leyfisnúmer þeirra og stimpla þá sem þeir mega nota til útgáfu upprunayfirlýsinga, áður en til útgáfu viðurkennds útflytjanda á upprunayfirlýsingu kemur (tekið skal fram að samningsaðilarnir skiptust á slíkum upplýsingum fyrir gildistöku samningsins). Auk einstaks leyfisnúmers viðurkennds útflytjanda skal hver upprunayfirlýsing bera raðnúmer sem útflytjandi heldur skrá yfir og afhendir tollyfirvöldum samkvæmt 4. mgr. 38. gr.

Um undanþágu frá því að leggja fram upprunavottorð eða upprunayfirlýsingu gilda ákvæði í 39. gr. samningsins. Þar er samningsaðila heimilað að falla frá kröfu um framlagningu upprunavottorðs eða upprunayfirlýsingar við fríðindameðferð samkvæmt nánari skilgreiningu. Þar er m.a. tíundað að undanþáguákvæðið geti aðeins náð til sendinga upprunavöru sem fara ekki yfir 600 bandaríkjadali að verðgildi. Hvað Ísland varðar hefur verið tekin ákvörðun um að beita þessari undanþáguheimild þegar um smásendingar, þ.e. sendingar undir 600 bandaríkjadölum að verðgildi, er að ræða, enda uppfylli þær skilyrði umræddrar greinar og kaflans um upprunamál að öðru leiti.

Umrætt skjal, sem kærandi krefst að tekið sé sem gild upprunasönnun og byggir meginkröfu sína um fríðindameðferð á ber titilinn „CERTIFICATE OF ORIGIN“ (upprunavottorð á íslensku) en er stimplað af útflytjandanum C. Umrætt skjal uppfyllir ekki þær kröfur sem kveðið er á um í 36. gr., sbr. V. viðauka, að teknu tilliti til 34. gr. samningsins. Einnig kom til skoðunar hvort umrætt skjal geti talist uppfylla skilyrði samningsins sem gild upprunasönnun með tilliti til upprunayfirlýsingar skv. 37. gr. og VI. viðauka. Þó að skjalinu svipi frekar til skilgreinds forms/sniðmáts upprunayfirlýsingar heldur en upprunavottorðs, þá fer því fjarri að skjalið standist þær kröfur sem þar þurfa að koma fram. Þar má nefna, auk þess sem titillinn, útlit/form og texti yfirlýsingarinnar er rangur, að tilvísun til samningsins og upprunareglna hans vantar. Auk þess vantar m.a. upplýsingar um raðnúmer yfirlýsingar, skráningarnúmer/leyfisnúmer viðurkennds útflytjanda, tollskrárnúmer og brúttóþyngd. Einnig skal tekið fram að umræddur útflytjandi sem gefur út skjal það sem hér um ræðir hefur hvorki verið tilkynntur sem viðurkennd stofnun með tilliti til útgáfu upprunavottorða samkvæmt 4.mgr. 36. gr., m.t.t. 34. gr., né sem viðurkenndur útflytjandi skv. 3. mgr., 38. gr.

Hvað varðar tilvísun kæranda til heimildar Tollstjóra til að falla frá kröfu um framlagningu gildrar upprunasönnunar skv. 39. gr. samningsins, vísast til þess að umrædd sending er að FOB verðmæti 34,920 bandaríkjadala, en umrædd heimild getur aðeins gilt fyrir sendingar upp að 600 bandaríkjadala að verðmæti. Tollstjóri hefur því enga heimild til að falla frá skilyrðum um framlagningu upprunasönnunar hvað umrædda vörusendingu varðar.

Með vísan til ofangreinds er niðurstaðan sú að embætti Tollstjóra hafnar því að skilyrði séu til þess að endurgreiða aðflutningsgjöld með þeim hætti sem krafist er af hálfu kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda á sendingu nr. X dags. 3. júlí 2014, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga með áorðnum breytingum.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum