Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 10/2015

Höfnun beiðni um tollfrelsi búslóðar

28.8.2015

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um synjun á tollfrelsi búslóðar hennar. Hafði hún verið búsett í Svíþjóð frá janúar 2009 til desember 2013, en kom þá til Íslands vegna fæðingarorlofs tengdadóttur sinnar. Í september 2014 hélt hún aftur til Svíþjóðar og bjór þar til maí 2015.

Niðurstaða: Til að njóta undanþágu fyrir búslóðir verður innflytjandi að hafa verið búsettur erlendis í a.m.k. eitt næstliðið ár áður en búferlaflutningar áttu sér stað, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Af máli kæranda var ljóst að hún náði ekki að uppfylla þá kröfu og var höfnun á beiðni um tollfrelsi íbúðar hennar því staðfest. Ekki var tekin afstaða til annarra skilyrða ákvæðisins vegna þessa.

Reykjavík, 28. ágúst 2015

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með erindi, dags. 23. apríl sl., hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 16. mars 2015, um höfnun á beiðni um tollfrelsi búslóðar hennar og B við innflutning til landsins.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Þann 10. mars 2015 óskaði kærandi með tölvupósti eftir því að fá búslóð sína tollfrjálsa til landsins, en búslóðina var ráðgert að flytja til landsins um sumarið. Beiðni kæranda var hafnað þann 16. mars 2015 á þeim grundvelli að of langt væri um liðið frá því að hún flutti lögheimili sitt til landsins og vísaði Tollstjóri til 4. tl. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi máli sínu til stuðnings.

Í kjölfar þess, þann 23. apríl 2015, óskaði kærandi eftir því að ákvörðun Tollstjóra um höfnun yrði endurskoðuð. Var þeirri ósk tekið sem kæru í samræmi við 117. gr. tollalaga. Tollstjóri óskaði þann 26. maí sl. eftir gögnum sem sýnt gætu fram á samfellda fasta búsetu kæranda í Svíþjóð a.m.k. síðastliðið ár á undan. Þann 23. júní s.á. bárust Tollstjóra umbeðin gögn frá kæranda. Um var að ræða bankayfirlit frá Svíþjóð, fimm húsaleigusamninga fyrir fasteign kæranda á Íslandi ásamt ljósmyndum af innbúi kæranda.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi kveðst hafa verið búsett í Svíþjóð frá janúar 2009 til dagsins í dag. Var hún yfirleitt á Íslandi í nokkrar vikur á sumrin og aftur í kringum jól eða áramót auk tilfallandi annarra tímabila. Þá kveðst kærandi hafa verið mestmegnis á Íslandi frá desember 2013 til september 2014 vegna fæðingarorlofs tengdadóttur sinnar. Kærandi áréttar að þrátt fyrir að hún hafi flutt lögheimili sitt til Íslands fyrir fimm árum, hafi heimili hennar eftir sem áður verið í Svíþjóð á liðnum árum. Kærandi hafi sem dæmi allt frá árinu 2009 leigt út hús sitt á Akureyri, líkt og skattskýrslur og þinglýstir leigusamningar sýni fram á. Þá hafi kærandi haldið til hjá ættingjum þegar hún var á Íslandi.

Ástæðu þess að kærandi og maki hennar fluttu lögheimili sitt aftur til Íslands kveður kærandi vera þá að án lögheimilis á Íslandi hafi komið upp ýmis óþægindi með póst og fleira, auk þess sem að skatttekjur þeirra sköpuðust nær eingöngu á Íslandi, þar sem að þar ættu þau fyrirtæki og leigðu út húsnæði sitt. Þá hafi þau aldrei vitað fyrirfram hve lengi þau myndu dvelja þar í landi. Reyndin hafi aftur á móti orðið sú að hún var iðulega meirihluta ársins í Svíþjóð líkt og fram hafi komið, og vann lítilsháttar utan heimilisins, s.s. við íslenskukennslu og blaðburð, en hann hafi þó verið meira en hún á Íslandi. Til hafi staðið að kærandi hjálpaði syni sínum, sem einnig býr í Svíþjóð, með barnagæslu þar til sonur hans færi á leikskóla í ágúst 2015, en kærandi hafi aftur á móti orðið fyrir slysi 18. maí sl. og þurft að hætta barnagæslunni og farið af þeim sökum til Íslands fyrr en áætlað var. Kærandi vill nú flytja búslóð sína til Íslands og hætta heimilishaldi í Svíþjóð.

Kærandi byggir á því að skv. 4. tl. 6. gr. tollalaga skuli búslóð njóta tollfrelsis þótt að ráðherra geti með reglugerð takmarkað það með ýmsum hætti. Bendir kærandi á að þær takmarkanir virðist fyrst og fremst beinast að því að koma í veg fyrir að tollfrelsisákvæðið veiti óeðlilega mikið rými til þess að flytja vörur inn tollfrjálst undir því yfirskyni að um búslóð sé að ræða. Þá telur kærandi að grunnhugmyndin sé sú að þegar um búslóð sé að ræða, sem sé að umfangi og verðmæti í samræmi við fjölskyldustærð og dvalartíma erlendis, skuli hún vera tollfrjáls. Kærandi bendir á að sá hluti búslóðarinnar sem keyptur var í Svíþjóð hafi verið keyptur á fyrstu árum búsetu hennar þar í landi og því löngu búið að greiða af þeim gjöld þar og engar forsendur til þess að fá þau gjöld niðurfelld líkt og um útflutning frá Svíþjóð væri að ræða. Kærandi telur að fái hún ekki að flytja búslóð sína til landsins njótandi tollfrelsis sé það mismunun og tvísköttun.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Af vörum, sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, skal greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá, sbr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Undantekningar frá þessari meginreglunni er m.a. að finna í 1. mgr. 6 gr. tollalaga nr. 88/2005, en samkvæmt 4. tl. eru búslóðir þeirra sem flytjast búferlum hingað til lands tollfrjálsar enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. eitt ár áður en flust var til landsins. Frekari skilyrði fyrir tollfrelsi búslóða má finna í 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Í 1. tl. þeirrar greinar er gerð krafa um að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár frá búferlaflutningum til landsins. Um undanþáguákvæði er að ræða frá meginreglunni um gjaldskyldu og verður því að túlka undanþágur þröngt.

Kærandi kveðst hafa verið búsett í Svíþjóð frá janúar 2009 til desember 2013, en dvalist á Íslandi að mestu leyti í níu mánuði eftir það vegna fæðingarorlofs tengdadóttur sinnar. Í september 2014 hélt hún aftur til Svíþjóðar þar sem hún dvaldi þar til í maí sl. þegar hún snéri heim vegna meiðsla. Þar sem kærandi hafði aðeins verið búsett í u.þ.b. níu mánuði í Svíþjóð á næstliðnu ári þegar hún flutti búferlum til landsins í maí sl., telst hún ekki uppfylla skilyrði 1. töluliðar 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þar sem kærandi uppfyllir ekki 1. tölulið ákvæðisins, tekur Tollstjóri ekki afstöðu til undanþágu 4. tl. 16. gr. reglugerðarinnar, sem kærandi byggir mál sitt á, né annarra töluliða nefnds ákvæðis.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun á tollfrelsi búslóðar kæranda, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum