Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 11/2011

Höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af gjöf

1.7.2011

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR

I. Kæra

Með bréfi, dags. 20. maí 2011, hefur H kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 20. maí 2011, um höfnun niðurfellingar aðflutningsgjalda á póstsendingum nr. P 150 17051 IS R12 8902 og P 150 18051 IS 30967.

Kærandi krefst leiðréttingar álagðra aðflutningsgjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 17. og 18. maí 2011 bárust til landsins sendingar nr. P 150 17051 IS R12 8902 og P 150 18051 IS 30967 sem innihéldu blautbúninga. Viðtakanda voru sendar komutilkynningar samdægurs. Þann 18. maí barst tollmiðlun Íslandspósts tölvupóstur frá kæranda, þar sem fram kom að um væri að ræða gjafir frá systur kæranda í útlöndum. Tollverðir skoðuðu sendingarnar sem innihéldu alls tvo blautbúninga og höfnuðu að um tollfrjálsar gjafir væri að ræða. Þann 20. maí sl. svaraði tollmiðlun Íslandspósts tölvupóstinum og fór fram á verðmæti sendinganna og tilefni gjafanna. Sama dag barst á faxi til tollmiðlunar útprentun af heimasíðu, þar sem verð á búningunum á útsölu kom fram. Hins vegar barst tollmiðlun Íslandspósts ekki svar við þeirri spurningu um hvert tilefni gjafanna væri. Í framhaldi var gerð tollskýrsla, aðflutningsgjöld lögð á og sendingar afhentar gegn greiðslu aðflutningsgjalda.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að um gjafir frá systur hans í Bretlandi sé að ræða. Kveður kærandi umræddar sendingar hafa verið afmælisgjafir til þeirra hjóna. Kærandi kveðst vera ósáttur við að ekki var fallist á að téðar sendingar hafi verið gjafir og hann verið látinn greiða gjöld af heildarverðmæti varanna í stað þess að frá væru dregnar tvisvar sinnum 10.000 kr. Kærandi kveðst tilbúinn að greiða þau aðflutningsgjöld sem honum ber, þ.e. byggð á tollverði þar sem frá hafa verið dregnar kr. 20.000.

IV. Niðurstöður

Meginregla tollalaga nr. 88/2005 er sú að almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt tollalögum, sbr. 3. gr. laganna. Undantekning frá meginreglunni er að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Allar undantekningar ber að túlka þröngt og verður því að gera ríkar kröfur um að skilyrðum fyrir undantekningu á almennri tollskyldu séu fyrir hendi.

Í 8. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að gjafir, sem sendar eru til landsins eru tollfrjálsar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til að tollfrelsi gjafar liggi fyrir þarf að vera um að ræða gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 10.000 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 10.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti.

Í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, sbr. reglugerðarheimild í 2. mgr. 6. gr. tollalaga, segir að með gjöfum af sérstöku tilefni skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sem undanþegnar eru aðflutningsgjöldum, sé átt við tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa meðferðis frá útlöndum vegna tilefna sem tengjast einkalífinu, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, enda sé verðmæti þeirra að hámarki kr. 10.000 miðað við smásöluverð á innkaupsstað.

Ágreiningur stendur um hvort tilgreindar sendingar innihaldi afmælisgjafir og falli þar með undir tollfrjálsa vöru, skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, eða beri almenna tollskyldu, sbr.

3. gr. laganna. Skilyrði ofangreindrar undanþágu er að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða. Gjafir vegna afmælis, brúðkaups, jóla eða fermingar teljast meðal annars vera gjafir af sérstöku tilefni í þessu samhengi. Sending þarf einnig að bera það með sér að um sé að ræða gjöf frá gefanda búsettum erlendis og að tengsl séu milli hans og þess sem gjöfina fær. Tollmiðlun Íslandspósts fór þess á leit við kæranda að fá upplýsingar um verðmæti og tilefni gjafanna. Upplýsingar bárust um verðmæti þeirra, með vísan til útprentunar af vefsíðu þar sem vörurnar voru pantaðar, en ekki var tilgreint hvert tilefni gjafanna væri. Kærandi hreyfði fyrst við þeirri málsástæðu að um væri að ræða afmælisgjafir handa sér og konu sinni í kæru til embættis Tollstjóra. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá á kærandi afmæli þann 28. janúar og kona hans þann 23. ágúst. Gjafirnar bárust hins vegar hingað til lands þann 17. og 18. maí sl. Þegar lagt er mat á það hvort í raun sé um að ræða afmælisgjafir í sendingum sem þessum er meðal annars horft til þess hvaðan gjöf er send, þá með sérstöku tilliti til sendingartíma. Tekið er mið af aðstæðum hverju sinni, en ekki er gerð krafa um að gjöf komi á afmælisdegi viðtakanda. Út frá sanngirnissjónarmiðum er t.d. í einstaka tilvikum gefinn stærri tímarammi þegar sendingar koma lengra frá og sendingartíminn er þ.a.l. lengri. Sendingar sem um ræðir í þessu máli komu frá Bretlandi, en ekki getur talist að sendingartími þaðan teljist svo langur að gefa beri lengri tímafrest. Ekkert annað hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til að taka tillit til sérstakra sjónarmiða. Þegar litið er til þess hversu langur tími líður á milli afmælisdaga kæranda og konu hans og afhendingardegi sendinganna, þá er ekki hægt að fallast á það að umræddar sendingar geti talist vera afmælisgjafir í skilningi a-liðar 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 680/2008.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til niðurfellingar aðflutningsgjalda, skv. a-lið 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 680/2008, af vörum í sendingu nr. P 150 17051 IS R12 8902 ekki uppfyllt. Ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda af sendingum nr. P 150 17051 IS R12 8902 og P 150 18051 IS 30967, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum