Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 13/2011

Höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af sýnishornum

23.7.2011

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR

I. Kæra

Með bréfi sem barst embætti Tollstjórar þann 31. maí 2011, hefur N, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 31. mars 2011, um höfnun niðurfellingar aðflutningsgjalda á póstsendingu með sendingarnúmer A 974 29031 GB EMA D064.

Kærandi krefst leiðréttingar álagðra aðflutningsgjalda og endurgreiðslu.

II. Málsmeðferð

Þann 29. mars 2011 barst hingað til landsins með hraðþjónustu DHL, póstsending nr. A 974 29031 GB EMA D064. Samkvæmt yfirlýsingu frá sendanda innihélt sendingin sýnishorn af bómullar handklæðum að verðmæti 100 USD. Sendingin var því flokkuð í aðflutningsskýrslu sem baðlín undir tollskrárnúmerinu 6302.9109 og grundvölluðust útreikningar aðflutningsgjalda á þessum upplýsingum. Kærandi kveðst hafa gert tollayfirvöldum grein fyrir því að sendingin innihéldi m.a. sýnishorn sem væru undanþegin aðflutningsgjöldum skv. a-lið 11. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. tl. 1. mgr. 41. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Tollvörður gaf kæranda kost á að gerð yrðu göt á öll sýnishorn þannig að þau yrðu ónothæf sem almenn verslunarvara og bæru þannig engin aðflutningsgjöld. Kærandi hafnaði þeirri málsmeðferð og greiddi aðflutningsgjöld af þeirri fjárhæð sem fór fram úr hámarksverðmæti sýnishorna.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að innihald sendingarinnar sé sýnishorn sem eiga að vera undanþegin aðflutningsgjöldum. Kærandi telur sig hafa sýnt fram á að hvert sýnishorn sé undir þeirri hámarksfjárhæð sem kveðið er á um í reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Kærandi bendir á að ekki hafi verið rengt að um sé að ræða sýnishorn samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 41. gr. reglugerðarinnar, heldur snýr álitaefnið aðeins að túlkun ákvæði laga- og reglugerðar á hámarksverðmæti sýnishorna.

Samkvæmt almennri textaskýringu orðalags 1. tl. 1. mgr. 41. gr. reglugerðarinnar þá eigi 5000 kr. hámarkið við um hvert sýnishorn. Ekkert bendir til þess að ekki mega nýta sömu sendingu undir fleiri en eitt sýnishorn til þess að takmarka flutningakostnað, svo lengi sem heildarverðmæti sendingarinnar sé ekki verulegt. Kærandi telur að hafa megi hliðsjón af þeim reglum sem gilda um gjafir í reglugerð nr. 630/2008. Við það er miðað í 32. gr. reglugerðarinnar að meta skuli hverja gjöf sérstaklega, hvað varðar 10.000 kr. hámarks verðmæti, ef sýnt þykir að mörgum gjöfum hafi verið pakkað saman til flutnings af hagkvæmnisástæðum. Kærandi kveðst ekki sjá ástæðu til annars en að samræmi sé milli gjafa og sýnishorna hvað þetta atriði varðar.

Kærandi bendir á að markmið bæði laga- og reglugerðarákvæðisins sé að undanþiggja sýnishorn frá almennri álagningu aðflutningsgjalda, svo lengi sem verðmæti þess er í hófi enda séu þau ekki ætluð til sölu sem almenn verslunarvara heldur aðeins til athugunar áður en ákvörðun um kaup eru tekin. Kærandi telur það ekki falla undir markmið ákvæðanna að gera sendanda ókleift að samnýta sömu sendinguna undir fleiri en eitt sýnishorn, enda hafi það í för með sér að sendandi þurfi að greiða fyrir fleiri sendingar, sem skapi meira álag á tollayfirvöld við tollafgreiðslu en bæti hinsvegar hag flutningafyrirtækis sem notast er við.

Kærandi heldur því fram að tilgreind ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda gangi í bága við framangreind ákvæði tollalaga sem og reglugerðar eins og þeim er beitt í þessu máli, þá sé brotið í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Undantekning frá meginreglunni er m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Undantekningar frá almennri tollskyldu ber að túlka þröngt og verður því að gera ríkar kröfur um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Í a-lið 11. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að sýnishorn verslunarvara og auglýsingaefnis skuli vera tollfrjáls, enda sé verðmæti sendingar óverulegt. Jafnframt skulu vera tollfrjáls sýnishorn verslunarvara sem gerð hafa verið ónothæf sem almenn verslunarvara.

Í reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi hafa verið sett skilyrði fyrir tollfrelsi m.a. skv. 6. gr. tollalaga, sbr. reglugerðarheimild í 2. mgr. 6. gr. laganna. Í 1. tl. 1. mgr. 41. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sýnishorn verslunarvara, þó ekki áfengi eða tóbak, og auglýsingaefnis, að verðmæti allt að kr. 5000 séu undanþegin aðflutningsgjöldum við innflutning enda beri sendingin með sér að um sé að ræða sýnishorn vöru. Þó skal slík vara vera undanþegin aðflutningsgjöldum þótt uppgefið verðmæti sé meira, hafi varan verið gerð ónothæf sem almenn verslunarvara. Verðlítil sýnishorn og auglýsingaefni fyrir innflutta sýningarvöru, sem ætlað er til ókeypis dreifingar á sýningu, skal jafnframt undanþegið framangreindum verðmætismörkum.

Ágreiningur sá, er mál þetta varðar, stendur um túlkun áðurnefndra ákvæða tollalaga og reglugerðar. Óumdeilt er að um sýnishorn vöru er að ræða og snýr því úrlausn málsins að því hvernig verðmæti sýnishorna eins og það kemur fram í ákvæðum reglugerðar og tollalaga sé túlkað. Orðalag a-liðar 11. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna, er þannig háttað að sýnishorn verslunarvara og auglýsingaefnis er undanþegið aðflutningsgjöldum, enda sé verðmæti sendingar óverulegt. Ekki er hægt að leggja annan skilning í tilgreint ákvæði laganna en svo að átt sé við að heildarverðmæti sendingar sé óverulegt en ekki stakra sýnishorna. Þessu er nánar útlistað í 41. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi, en þar segir að sýnishorn verslunarvara séu undanþegnar aðflutningsgjöldum við innflutning að verðmæti allt að kr. 5000, enda beri sendingin með sér að um sé að ræða sýnishorn.

Skv. 2. ml. a-liðar 11. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 2. ml. 1. mgr. 1. tl. 41. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi, eru sýnishorn undanþegin aðflutningsgjöldum þótt uppgefið verðmæti sé meira enn sem nemur kr. 5000, hafi varan verið gerð ónothæf sem almenn verslunarvara. Tollvörður bauð kæranda upp á ofangreint úrræði við úrvinnslu þessa máls en því var hafnað.

Um tækifærisgjafir er fjallað í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Samkvæmt ákvæðinu skal hver gjöf metin sérstaklega með tilliti til hámarksverðmætis ef mörgum gjöfum er pakkað saman í eina sendingu af hagkvæmnisástæðum. Kærandi telur að túlka eigi ákvæði 41. gr. reglugerðar nr. 630/2008 rúmt með tilliti til orðalags og efnis 32. gr. reglugerðarinnar sem tekur til gjafa. Hvort reglugerðarákvæði um sig felur í sér nánari útfærslu á 1. mgr. 6. gr. tollalaga sem kveður á um undanþágu frá meginreglunni um almenna tollskyldu. Í báðum tilfellum er um að ræða undanþágu á almennri tollskyldu sem túlka ber þröngt. Sú rúma túlkun sem kærandi telur að gilda eigi um ofangreint fæst ekki samræmst þeim grundvallar túlkunarreglum sem gilda um undanþágur á tollskyldu.

Meginreglan um almenna tollskyldu er skýrt kveðin í 3. gr. tollalaga. Allar undantekningar frá meginreglunni eru háðar þröngri túlkun og ríkar kröfur eru gerðar við mat á skilyrðum tollívilnunar. Með vísan í þrönga túlkun undanþáguákvæða er ekki hægt að leggja annan skilning í umrædd ákvæði reglugerðar og tollalaga en þann að hámarksverðmæti sýnishorna miðist við samanlagt verðmæti sendingar. Texti ákvæðanna verður því ekki túlkaður á þann veg að miðað sé við að hvert sýnishorn megi vera að hámarki kr. 5000. Þá er ekki á hægt að fallast á það með kæranda að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu þessa máls.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til niðurfellingar aðflutningsgjalda, skv. a-lið 11. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 41. gr. reglugerðar nr. 630/2008, af vörum í sendingu nr. A 974 29031 GB EMA D064 ekki uppfyllt. Ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda er því staðfest. 

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda af sýnishornum í sendingu nr. A 974 29031 GB EMA D064, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum