Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 14/2015

Tollflokkun bifreiðar

9.11.2015

Reifun

K kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun bifreiðar. Um er að ræða bifreið sem við innflutning var fullbúin sjúkrabifreið, en var breytt eftir innflutning til landsins þannig að allt sem einkenndi hana sem sjúkrabifreið var fjarlægt svo að úr varð sendibifreið. Kærandi fór fram á að tollflokkun bifreiðarinnar yrði færð úr tollskrárnúmeri 8704.3240 í 8704.2199 og mismunur á vörugjöldum yrði endurgreiddur.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. skal greiða vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987. Gjaldskyldan nær til allra skráningarskyldra ökutækja, nýrra sem notaðra, sem flutt eru til landsins eða eru framleidd, unnið að eða sett saman hér á landi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1993. Ekki er að finna heimild í áðurgreindum lögum eða í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, til að endurgreiða mismun á vörugjaldi eftir aðvinnslu bifreiðar. Í lögunum og reglugerð eru eigendur ökutækja hins vegar gjaldskyldir ef ökutæki þeirra hækka um gjaldflokk við aðvinnslu fyrir nýskráningu eða við breytingu innan fimm ára frá nýskráningardegi, sbr. 9. gr. laganna og 3. tl. 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Embætti Tollstjóra úrskurðar að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á bifreið með fastanúmerið X er staðfest


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 6. október 2015, hafa K, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 7. september 2015 um tollflokkun bifreiðar með fastanúmer X.

Kærandi fer fram á að bifreiðin verði tollflokkuð í tollskrárnúmer 8704.2199 en ekki í tollskrárnúmer 8703.3240 og að mismunur á vörugjöldum verði endurgreiddur.

II. Málsmeðferð

Þann 18. ágúst 2015 barst hingað til lands bifreið á sendingarnúmerinu X. Við innflutning var bifreiðin tollflokkuð sem sendibíll sem ber 13% vörugjald. Þann 2. september 2015 sendi kærandi Tollstjóra tölvupóst þar sem óskað var eftir upplýsingum um tollafgreiðslu bifreiðarinnar. Starfsmaður Tollstjóra svaraði kæranda þann 3. september sama ár og óskaði eftir því að fá myndir af umræddri bifreið. Kærandi sendi umbeðnar myndir og í kjölfarið var gerð athugasemd á aðflutningsskýrslu sendingarinnar um að tollflokkun bifreiðarinnar væri röng. Ekki ætti að tollflokka sjúkrabifreið sem fólksbifreið en myndirnar bæru það með sér að um fullbúna sjúkrabifreið væri að ræða. Skýrslan var leiðrétt og var bifreiðin tollafgreidd á tollskrárnúmerið 8703.3240 og bar 65% vörugjald.

Þann 7. september sama ár sendi kærandi Tollstjóra tölvupóst með beiðni um leiðréttingu á ofangreindri tollafgreiðslu. Óskaði kærandi eftir því að fá að leggja inn leiðrétta aðflutningsskýrslu þar sem til stæði að taka allt úr bílnum breyta honum í sendibíl. Tollstjóri svaraði kæranda samdægurs þar sem fram kom að aðvinnsla á ökutæki nái aðeins til hækkunar (viðbótarvörugjald) en ekki til lækkunar á gjöldum og var vísað til reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum í því sambandi. Nokkur tölvupóstsamskipti fóru fram, þar sem kæranda var að lokum bent á kæruheimild í 117. gr. tollalaga. Kæra vegna ofangreindrar tollafgreiðslu barst embætti Tollstjóra með bréfi dags. 6. október sl.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi kveðst hafa flutt inn umrædda bifreið fyrir viðskiptavin sinn S, en þeir sérhæfa sig í að leggja raflagnir fyrir ýmis fyrirtæki. Bifreiðin þykir henta vel fyrir þessa atvinnustarfsemi þar sem hún er með vel skipulögðum kassa sem hefur að geyma margar hirslur sem henta rekstrinum vel.

Við tollafgreiðslu var bifreiðin tollflokkuð í tollskrárnúmer 8704.2299 sem notuð bifreið að heildarþyngd yfir 5 tonn og með vörurými, enda muni hún koma til með að vera notuð sem slík. Kærandi kveður Tollstjóra hafa gert athugasemd við skýrsluna þar sem bifreiðin væri útbúin sem sjúkrabifreið og ætti því að flokkast sem fólksbifreið sem bæri hæstu mögulegu vörugjöld. Þá vísar kærandi til ljósmynda, sem eru fylgiskjöl kæru þessarar, þar sem sjá má að búið er að fjarlægja bláu forgangsljósin, merkingar á bifreiðinni og rúmið aftan í bifreiðinni. Telur kærandi að þannig sé búið að fjarlægja þá hluti sem annars myndu leiða til þess yrði tollflokkuð sem sjúkrabifreið í tollskrárnúmer 8703.3240. Ennfremur tekur kærandi fram að bifreiðin sé 4,6 tonn og ætti því að flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199 sem notuð bifreið undir 5 tonnum að heildarþyngd með vörurými. Þá byggir kærandi á því að bifreiðin sé skráð sem sendibifreið hjá Umferðastofu (núverandi Samgöngustofa).

Kærandi fer fram á það að bifreiðin verði tollflokkuð í tollskrárnúmer 8704.2199 en ekki í nr. 8703.3240 og að mismunur á vörugjöldum verði endurgreiddur í samræmi við það.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu stendur um það hvort aðvinnsla á bifreið eftir að hún hefur verið flutt inn til landsins og tollafgreidd geti leitt til endurgreiðslu á vörugjaldi en kærandi byggir á því að aðvinnslan leiði til þess að bifreiðin eigi að flokkast í annan tollflokk og bera lægri gjöld. Eins og áður hefur komið fram gerði Tollstjóri athugasemd við aðflutningsskýrslu kæranda þar sem myndir af bifreiðinni sýndu fram á að um fullbúna sjúkrabifreið væri að ræða. Kærandi tollafgreiddi bílinn á tollskrárnúmer 8703.3240 og greiddi aðflutningsgjöld í samræmi við athugasemd Tollstjóra. Eftir tollafgreiðslu óskaði kærandi eftir leiðréttingu á gjöldum þar sem aðvinnsla hafi farið fram á bifreiðinni og taldi kærandi bifreiðina þá flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199 sem beri lægra vörugjald. Tollstjóri hafnaði því á þeim grundvelli að ekki sé heimild til að endurgreiða mismun á vörugjaldi þegar aðvinnsla hefur leitt til lækkunar gjalda.

Um leiðréttingar á aðflutningsskýrslu eftir tollafgreiðslu er fjallað í 116. gr. tollalaga. Kveðið er á um að verði innflytjandi þess var innan sex ára talið frá tollafgreiðsludegi vöru að upplýsingar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, voru rangar eða ófullnægjandi skuli hann leggja fram beiðni hjá Tollstjóra um viðeigandi leiðréttingar, sbr. 1. mgr. 116. gr. tollalaga. Í þessu fellst heimild fyrir innflytjanda að fá tollafgreiðslu leiðrétta sýni hann fram á að afgreiðslan hafi byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og er m.a. heimild til að óska eftir breyttri tollflokkun vörunnar eigi þessar forsendur við. Mál kæranda er öðru vísi vaxið og getur ekki fallið undir 116. gr. tollalaga enda voru forsendur fyrir upphaflegri tollafgreiðslu bifreiðarinnar réttar og hefur kærandi ekki haldið öðru fram. Vara skal tollafgreiðast í því ástandi sem hún er í við innflutning og er ekki að finna heimild í tollalögum til aðvinnslu vöru eftir tollafgreiðslu og leiðréttingar á tollafgreiðslu í samræmi við þá aðvinnslu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. skal greiða vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987. Gjaldskyldan nær til allra skráningarskyldra ökutækja, nýrra sem notaðra, sem flutt eru til landsins eða eru framleidd, unnið að eða sett saman hér á landi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1993. Ekki er að finna heimild í áðurgreindum lögum eða í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, til að endurgreiða mismun á vörugjaldi eftir aðvinnslu bifreiðar. Í lögunum og reglugerð eru eigendur ökutækja hins vegar gjaldskyldir ef ökutæki þeirra hækka um gjaldflokk við aðvinnslu fyrir nýskráningu eða við breytingu innan fimm ára frá nýskráningardegi, sbr. 9. gr. laganna og 3. tl. 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi vísar til þess að bifreiðin sé skráð sem sendibifreið hjá Samgöngustofu. Í því sambandi þykir rétt að benda á að Tollstjóri er bundinn af og tollalögum og tollskrá hvað varðar tollflokkun, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Það að Samgöngustofa skrái bifreiðina sem sendibifreið í ökutækjaflokk hjá sér hefur þannig ekki úrslitaþýðingu varðandi hvaða tollskrárnúmer bifreiðin hlýtur við tollflokkun enda byggir sú skráning ekki á tollskrá. Með vísan til alls ofangreinds telst ekki heimild fyrir endurgreiðslu á vörugjaldi vegna innflutnings bifreiðar með fastanúmerið X. Ákvörðun um höfnun endurgreiðslu er staðfest og flokkast bifreiðin í tollskrárnúmer 8703.3240.

Í málinu hefði kæranda verið rétt að leggja fram útfyllta vörugjaldsskýrslu vegna aðvinnslu eða framleiðslu ökutækis, með beiðni um endurgreiðslu á vörugjaldi. Það hefði þó ekki breitt efnislegri niðurstöðu í þessu máli og telur Tollstjóri því rétt að úrskurða í málinu í stað þess að draga málið óþarflega með því að óska eftir skýrslunni.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á bifreið með fastanúmerið X er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 3 mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um yfirskattanefnd nr. 30/1992.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum