Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 15/2011

Höfnun á beiðni um niðurfellingu virðisaukaskatts af póstsendingu

23.9.2011

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR

I. Kæra

Með bréfi, dags. 27. júní 2011, hefur S, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 21. júní 2011, um álagningu virðisaukaskatts á póstsendingu nr. CC182373945SE.

Kærandi krefst leiðréttingar álagðra gjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 21. júní sl. barst hingað til lands póstsending nr. CC182373945SE sem innihélt bækling og heyrnartól. Upphaflega var pakkinn sendur frá Þýskalandi til Lundar í Svíþjóð, en þaðan barst hann hingað til lands. Tilskilin gjöld voru lögð á vörurnar við komu hingað til lands. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með bréfi kæranda dags. 27. júní 2011.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að um sé að ræða ólögmæta álagningu þar sem virðisaukaskattur hafi verið innheimtur í tvígang af tilgreindri sendingu. Kærandi heldur því fram að þar sem virðisaukaskattur hafi verið innheimtur í Þýskalandi þá sé um ólögmæta tvísköttun að ræða þegar greiða þurfti virðisaukaskatt af vörunni við innflutning hingað til lands. Þá telur kærandi að þessi málsmeðferð fáist ekki samræmst reglum EES- samningsins.

IV. Niðurstöður

Meginregla tollalaga nr. 88/2005 er sú að almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. laganna.

Innheimta ber virðisaukaskatt af öllum innflutningi með aðflutningsgjöldum. Ákvæði tollalaga, auk reglugerða settum skv. þeim lögum, gilda um álagningu virðisaukaskatts við innflutning að því leyti sem eigi er kveðið í lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 37. gr. virðisaukaskattslaga. Samkvæmt 1. gr. sömu laga skal virðisaukaskattur greiddur af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að greiða skal virðisaukaskatt af öllum vörum. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu ber almennt að skýra þröngt. Með vísan til ofangreinds og rótgróinnar stjórnsýsluframkvæmdar er það mat embættis Tollstjóra að skilyrði fyrir undanþágu verði tvímælalaust að vera uppfyllt.

Virðisaukaskattur skal innheimtur af tollverði skattskyldrar vöru við innflutning á vöru að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð, sbr. 34. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Álagning virðisaukaskatts byggir á tollverði sem ákvarðast af viðskiptaverði vöru eða þjónustu samkvæmt framlögðum reikningum sem fylgja vöru við innflutning hverju sinni að viðbættum aðflutningsgjöldum og öðrum kostnaðarliðum, sbr. 14. og 15. gr. tollalaga. Nefnd ákvæði ber að skýra á þann veg að erlendur virðisaukaskattur sem greiddur er af kaupanda er hluti af viðskiptaverðinu við ákvörðun tollverðs ef ekki eru lagðar fram sönnur þess að hann hafi verið endurgreiddur. Í gögnum þessa máls er ekkert sem sýnir fram á að virðisaukaskattur hafi fengist endurgreiddur. Virðisaukaskattur sem greiddur var erlendis var því hluti af viðskiptaverði vörunnar við ákvörðun tollverðs.

Ísland er þriðja land gagnvart Evrópusambandinu þegar kemur að inn- og útflutningi, auk skattamála. Með samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska Efnahagssvæðið, var hvorki tekin upp samræmd innheimta tolla né skatta milli ESB- og EFTA- ríkjanna. Því verður ekki fallist á þau rök kæranda að umrædd álagning virðisaukaskatts sé andstæð reglum EES samningsins. Þá taka þeir tvísköttunarsamningar sem Ísland á aðild að einungis til tekju- og eignarskatts en ekki til álagningu virðisaukaskatts. Röksemdum kæranda er varðar ólögmæta tvísköttun er því hafnað.

Skattskyldan nær til allrar þjónustu, vara og verðmæta, nýrra og notaðra nema sérstakar undanþágur í lögum leiði til annarrar niðurstöðu, sbr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Undanþágur frá álagningu og innheimtu virðisaukaskatts við innflutning eru tæmandi taldar í 36. gr. laganna. Hvorki í lögum um virðisaukaskatt né í tollalögum er að finna undanþágu eða heimild til niðurfellingar á virðisaukaskatti á innihaldi tilgreindrar póstsendingar.

Rétt þykir að taka það fram að í framangreindu máli er einvörðungu fjallað um álagningu virðisaukaskatts vegna sendingarinnar, þar sem sú álagning er kæranleg til embættis Tollstjóra, skv. 1. mgr. 117. gr. tollalaga. Embættið tekur hins vegar ekki afstöðu til réttmætis tollmeðferðargjalds þess sem Íslandspóstur tekur fyrir að sjá um tollafgreiðslu sendingarinnar, þar sem ekki er um að ræða aðflutningsgjöld, sbr. 1. tl. 1. gr. tollalaga.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til niðurfellingar virðisaukaskatts af vörum í sendingu nr. CC182373945SE ekki fyrir hendi. Kröfu kæranda er því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á niðurfellingu virðisaukaskatts af sendingu nr. CC182373945SE, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum