Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 16/2011

Höfnun beiðni um niðurfellingu og leiðréttingu aðflutningsgjalda af gjöf

29.8.2011

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 22. júlí 2011, sem barst lögfræðideild Tollstjóra sama dag kærði O skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu með sendingarnúmer P

150 12 07 1 IS B76 899. Um var að ræða ýmis matvæli sem komu til landsins með póstsendingu sem kærandi var skráður fyrir sem viðtakandi. Kærandi krafðist þess að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar yrðu leiðrétt og felld niður, þar sem um gjöf hafi verið að ræða.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 12. júlí 2011 komu til landsins ýmis matvæli með póstsendingu nr. P 150 12 07 1 IS B76 899. Þrátt fyrir að sendingin væri merkt sem gjöf var við tollskoðun sendingarinnar ekkert sem benti til þess að um gjöf væri að ræða auk þess sem tollverðir fundu reikning fyrir vörunum í pakkanum. Aðflutningsgjöld voru ákvörðuð og lögð á í samræmi við vörureikning að fjárhæð 77 evrur eða 12.717 kr. og námu álögð gjöld alls 3.793 kr.

Kærandi sendi tollmiðlun tölvupóst þann 14. júlí sl. þar sem fram kom að um væri að ræða gjöf frá skyldmenni. Aðeins væri um að ræða lítilræði af matvælum sem sum hver fengjust ekki hér á landi. Sama dag móttók kærandi sendinguna á heimili sínu og greiddi af henni álögð gjöld. Þann 15. júlí sendi kærandi tollmiðlun annan tölvupóst þar sem fram kom að hún hefði móttekið sendinguna og farið yfir innihald hennar. Hélt kærandi því fram að sendingin hefði aðeins innihaldið hluta þeirra vöruliða sem fram hefðu komið á reikningnum. Þá hefði systir hennar eingöngu látið reikninginn fylgja með fyrir tollverði til að hafa til viðmiðunar. Þann 18. júlí var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun Tollstjóra að endurgreiða henni ofgreiddan virðisaukaskatt þar sem hún hafði greitt 24,5% virðisaukaskatt í stað 7% líkt og rétt hefði verið þar sem um matvöru var að ræða. Embættið hafnaði hins vegar þeirri kröfu kæranda að endurgreiða aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar þar sem ekki var talið sýnt fram á að undanþágur reglugerðar nr. 630/2008 ættu við. Kærandi kærði álagningu gjalda með bréfi dags. 22. júlí 2011.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að um hafi verið að ræða gjöf frá systur hennar sem búsett sé á Spáni. Gjöfin hefði verið send henni í tilefni af nafnadegi heilagrar Olgu sem er verndardýrlingur hennar en kærandi er kaþólskrar trúar. Kærandi telur einnig þá fjárhæð sem lögð var til grundvallar við álagningu aðflutningsgjalda of háa. Sendingin hafi aðeins innihaldið hluta þeirra vöruliða sem fram hafi komið á meðfylgjandi reikningi og heildarverðmæti hennar hafi verið undir 10.000 kr. Þar sem um tækifærisgjöf var að ræða, að verðmæti undir 10.000 kr., hafi henni ekki borið að greiða aðflutningsgjöld af henni, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, er kveðið á um almenna tollskyldu, þ.e. að hver sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins.

Í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu þegar um gjafir er að ræða. Undanþágan er nánar útfærð í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Til að þessi undanþáguheimild hafi gildi þurfa skilyrði áðurnefndra greina að vera uppfyllt en þau ber að túlka þröngt líkt og aðrar undanþágur frá almennri tollskyldu. Skilyrði ofangreindrar undanþágu er að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða. Gjafir vegna afmælis, brúðkaups, jóla eða fermingar teljast meðal annars vera gjafir af sérstöku tilefni í þessu samhengi. Sending þarf einnig að bera það með sér að um sé að ræða gjöf frá gefanda búsettum erlendis og að tengsl séu milli hans og þess sem gjöfina fær. Þá má verðmæti gjafa ekki vera meira en 10.000 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 10.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti.

Ágreiningur stendur um það hvort tilgreind sending innihaldi tækifærisgjöf og falli þar með undir tollfrjálsa vöru, skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, eða beri almenna tollskyldu, sbr. 3. gr. laganna. Kærandi hefur haldið því fram að það fyrra eigi við þar sem um gjöf í tilefni af nafnadegi hennar hafi verið að ræða. Eins og áður hefur komið fram ber að túlka undanþágur frá almennri tollskyldu þröngt. Þegar um gjafasendingu er að ræða verður að líta til þess hvort hún beri það með sér að vera gjöf og hvort tengsl séu milli gefanda búsettum erlendis og þess sem gjöfina fær. Óumdeilt er að tengsl séu á milli gefanda og gjafþega enda eru þær systur. Við tollskoðun var hins vegar ekkert sem benti til þess að umrædd sending væri gjöf, henni var ekki pakkað sérstaklega inn auk þess að henni fylgdi reikningur sem kærandi hefur staðfest að hafi verið fyrir tollverði til að hafa til viðmiðunar. Þegar meta á hvort að aðili eigi rétt á niðurfellingu aðflutningsgjalda á grundvelli 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 verður þar að auki eðli málsins samkvæmt að líta til þess hvert tilefni gjafarinnar er. Kærandi hefur ekki haldið því fram að um afmælisgjöf í skilningi ákvæðisins sé að ræða heldur gjöf í tilefni af dýrlingadegi heilagrar Olgu sem er verndardýrlingur hennar. Samkvæmt dýrlingatali kaþólsku kirkjunnar eru slíkir dýrlingadagar hvern dag allan ársins hring. Kærandi telur það fela í sér mismunun á grundvelli trúbragða að viðurkenna ekki nafnadaga dýrlinga og gjafir af því tilefni sem tækifærisgjafir líkt og afmælisgjafir. Það er staðreynd að dýrlingadagar og nafnadagar í tilefni af þeim eru hluti kaþólskrar trúar. Tollfríðindi í tilefni af afmæli einstaklings eru hins vegar óháð trúbrögðum. Hver og einn einstaklingur á þar með rétt á að njóta tollfríðinda vegna gjafa af slíku tilefni einu sinni á ári. Ekki verður því fallist á að veiting undanþága frá greiðslu lögbundinna gjalda vegna afmælisgjafa en ekki vegna gjafa í tilefni nafnadaga feli í sér mismunun.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. tollalaga er tollverð innfluttra vara viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu þeirra til útflutnings til landsins. Því ber að fara eftir viðskiptareikningi þegar aðflutningsgjöld sendingar eru ákvörðuð. Á reikningi sem fylgdi sendingunni kom fram að heildarverð þess varnings sem sendur var kæranda væri 77 evrur. Var því miðað við þessa fjárhæð við ákvörðun tollverðs. Kærandi fór fram á leiðréttingu aðflutningsgjalda þar sem tollverð hafi verið rangt ákvarðað. Þegar möguleikar á leiðréttingu aðflutningsgjalda eftir tollmeðferð eru metnir verður að taka mið af því hvort þörf sé vöruskoðunar til að staðreyna réttmæti leiðréttingar og hvort að unnt sé að koma henni við. Vöruskoðun getur til að mynda verið nauðsynleg þegar ágreiningur er um það hvort meðfylgjandi reikningar gefi rétta mynd af innihaldi sendingar. Sendingin sem mál þetta varðar var afhent kæranda þann 14. júlí sl. Erindi kæranda þar sem farið var fram á leiðréttingu aðflutningsgjalda þar sem reikningsverð hefði verið rangt barst embætti Tollstjóra ekki fyrr en 15. júlí. Tollstjóra var þannig ekki unnt að staðreyna með vöruskoðun hvort að leiðrétting aðflutningsgjalda ætti rétt á sér, enda var búið að tollafgreiða sendinguna og kærandi hafði þegar fengið hana afhenta.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til niðurfellingar aðflutningsgjalda, skv. a-lið 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 680/2008, af vörum í sendingu nr. P 150 12 07 1 IS B76 899 ekki uppfyllt. Ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda af sendingu nr. P 150 12 07 1 IS B76 899 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum