Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 17/2011

Höfnun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf

8.9.2011

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR

I. Kæra

Með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, hefur K kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 15. júní 2011 um höfnun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf til F.

Kærandi óskar eftir endurskoðun ákvörðunar um að hafna beiðni um endurgreiðslu.

II. Málsmeðferð

Þann 13. maí 2011 sótti kærandi um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna gjafar á sturtubekk sem ætlaður er til nota fyrir fatlaða einstaklinga sem sækja nám sitt við F. Umsókn um endurgreiðslu var hafnað með bréfi embættis Tollstjóra, dags. 15. júní sl. Ákvörðun um höfnun byggði á því að gjafþegi uppfyllti ekki skilyrði um að vera mannúðar- eða líknarstofnun. Ákvörðun Tollstjóra um höfnun umsóknarinnar var kærð með bréfi kæranda dags. 3. ágúst 2011.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur skilyrði fyrir endurgreiðslu vera uppfyllt, þar sem um er að ræða lögbundna aðstöðu fyrir fatlaða einstaklinga er sækja nám sitt við F. Við skólann sé starfrækt starfsbraut þar sem m.a. eru mjög fatlaðir nemendur og þurfi þeir á slíkum sturtubekk að halda. Kærandi heldur því fram að þarna sé skólinn að veita fötluðum nemendum þjónustu hliðstæða þeirri sem boðið sé upp á hjá þeim stofnunum sem taldar eru upp í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.

IV. Niðurstöður

Samkvæmt heimild í 6. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal endurgreiða virðisaukaskatt af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi. Endurgreiðsluheimild samkvæmt þessari málsgrein er bundin sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi og koma fram í b-lið 8. tl. 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, nú b-liður 9. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. Ljóst er af framangreindu að löggjafinn hefur gert það að grundvallarskilyrði fyrir endurgreiðslu að umræddar gjafir skuli vera nýttar með beinum hætti til mannúðar- eða líknarstarfsemi, sbr. úrskurð fjármálaráðuneytisins frá 28. nóvember 2005.

Nánari skilyrði fyrir endurgreiðslu eru listuð í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Þar kemur fram að tæki, búnaður og aðrar fjárfestingarvörur sem gefnar eru til nota í starfssemi sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnana, dvalar- og vistheimila og sambýla fyrir fatlaða, greiningarstöðva, öldrunarstofnana og stofnana í hliðstæðri starfsemi, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum.

Meginregla laga um virðisaukaskatt er að greiða skuli virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, sbr. 1. gr. laganna. Undanþágur frá skattalögum eru skýrðar þröngt og byggist það sjónarmið á mikilvægi þess að við framkvæmd laga sé gætt að því að jafnræði sé með borgurunum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Liður í því er að láta reglur gilda með sama hætti um alla, nema ótvírætt megi telja að undanþáguákvæði eigi við. Með skírskotun til almennra reglna um jafnræði borgara þá ber að skýra undanþáguákvæði 42. gr. laga um virðisaukaskatt þröngt. Enda er það viðurkennt lögskýringarsjónarmið að túlka beri skattaundanþágur þröngt. Skilyrði fyrir undanþágu greiðslu virðisaukaskatts verður því tvímælalaust að vera uppfyllt.

Starfsemi Fjölbrautaskóla sem menntastofnunar er í eðli sínu ólík starfsemi þeirra stofnana og félaga sem talin eru upp í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Þær stofnanir og félög sem eru talin upp í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 eiga það allar sameiginlegt að starfsemi þeirra snýr að aðhlynningu eða aðstoð við vistmenn eða þá sem þangað leita.

Að mati embættis Tollstjóra getur framhaldsskóli líkt og F ekki fallið undir ofangreindar stofnanir eða samtök. Tæki eða búnaður sem færður er framhaldsskóla að gjöf getur því að mati Tollstjóra ekki talist vera gefin mannúðar- eða líknarstofnun og nýtur þ.a.l. ekki undanþágu gjalda á grundvelli framangreindrar heimildar. Umræddur sturtubekkur getur því ekki talist vera nýttur með beinum hætti í þágu mannúðar- eða líknarstarfsemi.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 6. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. nú b- liður 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og

33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 ekki uppfyllt. Ákvörðun Tollstjóra um höfnun endurgreiðslu virðisaukaskatts, dags. 15. júní 2011, er staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun, dags. 15. júní 2011, um höfnun endurgreiðslu virðisaukaskatts af sturtubekk er kærandi gaf F, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum