Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 18/2011

Höfnun endurgreiðslu vörugjalds af eldsneyti

24.8.2011

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 23. maí 2011, hefur K, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra dags. 24. mars 2011 um höfnun kröfu um endurgreiðslu vörugjalds af eldsneyti keypt á árunum 2007 til 2010. Kærandi krefst þess að vörugjald verði endurgreitt í samræmi við umsókn þar um, dags. 16. desember 2010.

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 16. desember 2010, lagði kærandi inn erindi til Tollstjóra, þar sem farið var fram á endurgreiðslu vörugjalds sem greitt hafði verið fyrir bensín á árunum 2007-2010 auk vaxta. Flestar flugvélar sem tilheyra félögum kæranda geta nýtt hvort sem er venjulegt bensín eða flugvélabensín. S staðsetti árið 2006 bensíntank á flugvelli kæranda við F skv. samkomulagi við kæranda og afgreiðir á hann 95 oktana bifreiðabensín sem flugmenn afgreiða sjálfir á flugvélar sínar. Lagður var fram listi þar sem flugmenn skrá sjálfir magn bensíns sem þeir taka í hvert skipti. Beiðni kæranda um endurgreiðslu var hafnað með ákvörðun Tollstjóra, dags. 24. mars 2011, og ákvörðun byggð á að ekki lægi fyrir fullnægjandi sönnun fyrir notkun bensíns á flugvélarnar. Með kæru, dags. 23. maí 2011, krafðist kærandi þess að ákvörðun um höfnun yrði ógild og vörugjald endurgreitt í samræmi við umsókn þar um.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur skilyrði fyrir endurgreiðslu vera uppfyllt. Þá geri Tollstjóri meiri kröfur til sönnunar í tilfelli kæranda en almennt sé gert varðandi undanþágur frá greiðslu vörugjalds af bensíni, en flugvélabensín (avgas) sé selt í sjálfsafgreiðslu á flugvöllum víða um land. Gæsla og eftirlit sé mun minni en sú sem viðhöfð sé hjá kæranda. Þá fái sendimenn erlendra ríkja endurgreiðslu vörugjalds af bensíni gegn því að leggja fram reikninga hjá Utanríkisráðuneytinu. Réttur þeirra hafi fyrir skömmu verið víkkaður til að senda mánaðarlega inn yfirlitsreikninga til grundvallar endurgreiðslu. Kæranda sé ekki kunnugt um formlegt eftirlit með sjálfsafgreiðslu sendimanna. Hann heldur því fram að hægt sé að sanna notkun bensínsins með því að kalla flugmenn til vitnis.

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, skal m.a. greiða vörugjald af eldsneyti, sbr. 27. kafla viðauka I við tollalög nr. 88/2005. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu á almennt að skýra þröngt. Því er það mat Tollstjóra, að skilyrði undanþágu verði tvímælalaust að vera uppfyllt.

Í frumvarpi sem varð að lögum nr. 29/1993 kemur m.a. fram að þar sé eingöngu fjallað um gjaldtöku af ökutækjum og tengdum vörum og eldsneyti. Þá kemur fram í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins (nú 17. gr. laga nr. 29/1993) að á þeim tíma sem lögin voru samin hafi hvorki verið lagður tollur né bensíngjald á bensín sem notað er á flugvélar. Frumvarpið innihélt því tillögu þess efnis að heimilt væri að fella niður vörugjöld af bensíni sem notað er á flugvélar. Flugvélabensín, sem notað kann að vera í öðrum tilgangi, t.d. til að knýja bíla, skuli hins vegar vera gjaldskylt.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 29/1993 kemur fram að bensín sem notað verður eða hefur sannanlega verið notað á flugvélar skuli undanþegið vörugjaldi. Í 14. og 15. gr. laganna er kveðið á um að greiða skuli vörugjald af hverjum lítra af bensíni sem og sérstakt vörugjald, bensíngjald, af bensíni. Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að tekjum af bensíngjaldi skuli einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun. Þessi málsgrein rennir frekari stoðum undir athugasemdir frumvarps að lögum nr. 29/1993 að vörugjöld skuli leggjast á ökutæki og tengdar vörur og eldsneyti.

Í reglugerð nr. 255/1993 um vörugjöld af eldsneyti er að finna frekari reglur um vörugjöld af eldsneyti, sbr. heimild ráðherra í 28. gr. laganna til að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd þeirra. Þar er m.a. kveðið á um fjárhæð almenns vörugjalds af bensíni og greiðslu sérstaks vörugjalds, bensíngjalds, af bensíni, sbr. 1. og 3. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að eigi skuli greiða bensíngjald af flugvélabensíni, enda flokkist það í tollskrárnúmer 2710.1110 og sönnur séu færðar á að það hafi verið notað eða verði notað á flugvélar. Af framangreindu er ljóst að afdráttarlaus krafa er gerð til sönnunar þess að bensín, sem að öðrum kosti væri vörugjaldsskylt skv. fyrrgreindum ákvæðum, verði undanþegið vörugjöldum. Embætti Tollstjóra telur að skriflega færður listi fyrir kaup manna á bensíni í sjálfsafgreiðslu úr tanki sem ekkert formlegt eftirlit er með geti ekki talist fullnægjandi sönnun þess að eldsneytið hafi í reynd verið notað á flugvélar.

Eins og fram hefur komið hér að ofan eru ekki lögð vörugjöld á flugvélabensín (avgas). Það liggur því í hlutarins eðli að ekki er nauðsynlegt að sambærilegt eftirlit sé með afgreiðslu slíks bensíns, enda hvergi að finna lagaákvæði sem kveða á um skilyrði fyrir undanþágu vörugjalda. Þannig er ekki grundvöllur til að bera saman þessar afgreiðslur. Í reglugerð nr. 327/2003 um endurgreiðslu almenns og sérstaks vörugjalds af bensíni til sendimanna erlendra ríkja er í 1. gr. kveðið á um að erlend sendiráð og sendierindrekar skuli fá endurgreitt almennt og sérstakt vörugjald af bensíni vegna bifreiða í þeirra eigu. Skilyrði endurgreiðslu er að bifreiðin sé á sérstökum skráningarmerkjum fyrir erlend sendiráð skv. 20. gr. reglugerðar nr. 78/1997 um skráningu ökutækja. Utanríkisráðuneytið afgreiðir beiðni um endurgreiðslu, sem fylgja skal frumrit reikninga sem endurgreiðslubeiðni er byggð á. Lágmarksfjárhæð hvers reiknings með VSK. skal vera kr. 7.000.- og skulu reikningar vera greiddir. Önnur skilyrði eru ekki sett fyrir endurgreiðslu vörugjalds, svo að kröfur um framlögð gögn og sönnun á notkun eldsneytisins eru eðli málsins samkvæmt aðrar en þegar um ræðir undanþágu skv. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 29/1993. Þar af leiðandi er ekki hægt að fallast á þá kröfu kæranda að sömu forsendur geti gilt gagnvart undanþágu vörugjalds skv. 17. gr. laga nr. 29/1993 og fyrir endurgreiðslu vörugjalds skv. ákvæðum reglugerðar nr. 327/2003.

Með vísan til þess sem fram hefur komið að ofan er ekki grundvöllur til að fallast á að skilyrði 17. gr. laga nr. 29/1993 um sönnun þess að eldsneyti hafi verið notað á flugvélar sé uppfyllt. Þar af leiðandi ber að hafna kröfu kæranda um endurgreiðslu vörugjalds sem greitt var við kaup á bensíni á árunum 2007 til 2010.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á kröfu kæranda um endurgreiðslu vörugjalds vegna bensínkaupa K á árunum 2007-2010, dags. 24. mars 2011, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum