Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 19/2011

Höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af gjöf

13.10.2011

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR

I. Kæra

Með bréfi, dags. 26. ágúst 2011, hefur A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 24. ágúst 2011, um höfnun niðurfellingar aðflutningsgjalda af póstsendingu nr. AL004696051IS.

Kærandi krefst þess að téð ákvörðun verði endurskoðuð.

II. Málsmeðferð

Þann 25. júlí 2011 barst hingað til landsins sending með viðtökunúmerinu AL004696051IS. Varan var sett á lager fyrir ótollafgreiddar vörur og móttakanda send tilkynning um sendinguna. Skráður móttakandi var félagið M en á eftir skástriki þar fyrir aftan var skráð nafnið A. Sendandi vörunnar var félagið S. Þann 24. ágúst sl. barst tollmiðlun Íslandspósts tölvupóstur frá starfsmanni móttakanda þess efnis að opna ætti sendinguna til að finna vörureikning svo hægt væri að tollafgreiða sendinguna. Sendingin var tollafgreidd á E-3 skýrslu sama dag og keyrð til viðtakanda. Kærandi greiddi tilskilin gjöld og móttók sendinguna þann 25. ágúst 2011. Innheimt gjöld voru alls kr. 1.406.- þar af tollur að fjárhæð kr. 225.- og virðisaukaskattur að fjárhæð kr. 631.- Þá innheimti Íslandspóstur kr. 550.- í tollmeðferðargjald. Kærandi kærði álagningu gjalda með bréfi dags. 26. ágúst 2011.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að um gjaldfrjálsan innflutning hafi verið að ræða þar sem sendingin hafi verið gjöf. Kærandi hafi verið í sumarfríi þegar tilkynning til skrifstofu hans kom frá póstinum um að borist hefði gjaldskyld sending. Kærandi hafi fengið gjöfina senda á vinnustað enda líklegra að hann væri viðstaddur til að taka við henni á þeim tíma er póstur væri borin út. Kollegi hans á vinnustað hafi þá komið þeim skilaboðum á framfæri að um gjöf væri að ræða en starfsmaður Tollstjóra ekki fallist á þær skýringar. Þann 25. ágúst 2011 hafi sendill Íslandspósts komið með pakkann og kærandi greitt 1.406 kr. til þess að fá pakkann afhentan en kvittað fyrir móttöku með fyrirvara þess efnis að innheimtan væri andstæð lögum.

IV. Niðurstöður

Meginreglan er sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum við innflutning. Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota, nema annað sé tekið fram í tollskrá, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Virðisaukaskattur er lagður á við innflutning í samræmi við ákvæði 1. og 34. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Ágreiningur er um það hvort tilgreind sending skuli vera undanþegin aðflutningsgjöldum á þeirri forsendu að um gjöf sé að ræða. Í a – lið 8.tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu vegna gjafa en ákvæðið tekur einnig til virðisaukaskatts, sbr. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Undanþágan er nánar útfærð í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Þar kemur fram að tækifærisgjafir að verðmæti allt að kr. 10.000.- sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa meðferðis frá útlöndum vegna tilefna sem tengjast einkalífi, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, séu undanþegnar aðflutningsgjöldum.

Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu eru háðar þröngri túlkun og ríkar kröfur eru gerðar til þess að skilyrðum þeirra sé ótvírætt fullnægt. Í framkvæmd hefur 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 ávallt verið túlkuð á þann veg þar sé einvörðungu átt við einstakling með orðunum „aðili búsettur erlendis“. Af aðflutningsskjölum er ljóst að skráður sendandi vörunnar er félagið S sem er lögaðili. Skilyrðum undanþágunnar er þar með ekki fullnægt.

Rétt er að taka það fram að hér er einvörðungu fjallað um álagningu aðflutningsgjalda á sendinguna þar sem ákvörðun um álagningu þeirra er kæranleg til Tollstjóra, sbr. 1. mgr. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005. Embætti Tollstjóra er ekki bært til þess að taka afstöðu til réttmætis tollmeðferðargjalds þess sem Íslandspóstur innheimtir fyrir umsýslu við tollafgreiðslu enda ekki um að ræða aðflutningsgjald í skilningi 1. tl. 1. gr. laganna.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda af póstsendingu nr. AL004696051IS, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum