Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2 /2007

Aðflutningsgjöld af bifreiðunum

26.1.2007

Embættið hefur móttekið bréf yðar, dags. 5. janúar 2007, þar sem kærð er sú ákvörðun sýslu- mannsins í Hafnarfirði að hafna framlögðum vörureikningum innflytjanda og ákvarða tollverð ofangreindra bifreiða á grundvelli regl. nr. 374/1995. Bifreiðarnar voru tollafgreiddar með leyfi tollstjóra 10. og 22. nóvember 2007. Innflytjandi greiddi álögð aðflutningsgjöld með fyrirvara.

Sendingarnúmer: S-ARN-25-10-6-DE-CUX-W085, S-ARN-25-10-6-DE-CUX-W086 S-ARN-08-11-6-DE-CUX-W048, S-ARN-08-11-6-DE-CUX-W050

Bifreiðarnar, sem hér um ræðir eru allar af gerðinni Land Rover. Undirtegund X og Þ er Range Rover Sport HSE en Z og Y Range Rover TD 6 Vogue. Allar bifreiðarnar eru árgerð 2006.

Innflytjandi A keypti bifreiðarnar, af HUG Import, Rheingoldstrase 2, 68623 Lampertheim Germany, fyrrihluta októbermánaðar 2006.

Tollverðir skoðuðu bifreiðarnar sem reyndust vel með farnar og lýtalausar.Við innflutning hafði bifreiðunum verið ekið frá 9.675 til 29.710 km.

Í reglugerð nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun, með síðari breytingum, eru sérreglur um heimild tollstjóra að hafna því að leggja framlagðan vörureikning til grundvallar tollverðs vöru og ákvarða tollverð þegar viðskiptaverð hennar verður ekki lagt til grundvallar af einhverjum ástæðum.

Sérákvæði um innflutning ökutækja eru í V. kafla reglugerðarinnar. Í 17. gr. kemur fram að tollstjóri skuli bera viðskiptaverð ökutækis, eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum, saman við viðmiðunarverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Tollstjóri skal athuga hvort viðskiptaverð ökutækis sé óeðlilega lágt miðað við ástand þess, innflutningsverð sams konar ökutækis sem flutt hefur verið til landsins á sama tíma eða markaðsverð sambærilegra ökutækja erlendis.

Verðsamanburður leiddi í ljós að auglýst verð sambærilegra ökutækja í viðskiptalandinu var hærra. Með bréfum til innflytjanda, dags.27. október og 16. nóvember 2006, var óskað skýringa á hinum hagkvæmu viðskiptum.

Innflytjandi skýrði lágt innkaupsverð bifreiðanna með bréfum dags, 30.október og 16. nóvember 2006. Þar kemur m.a. fram að bifreiðarnar voru keyptar af söluaðila Land Rover í Þýskalandi og þar hafi þeir verið notaðir sem sýninga-og lánsbifreiðar og hefðu ekki staðið til boða á almennum markaði en vegna umsvifa sinna í bílaviðskiptum hafi erlendi seljandinn notið þeirra forréttinda að eignast bifreiðarnar fyrir sanngjarnt verð.

Ekki var talið að skýringar innflytjanda nægðu til að réttlæta lágt innkaupsverð bifreiðanna og því var honum tilkynnt með bréfum, dags. 9. og 21. nóvember 2006, að ákveðið hafi verið að hafna framlögðum vörureikningum og að tollverð bifreiðanna hafi verið ákvarðað samkv. 20. og 21. gr. reglugerðar nr.394/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun.

Tollverð bifreiðarinnar Z var ákvarðað ISK 4.920.237, X ISK 4.420.034, Y ISK 5.001.699 og Þ ISK 4.347.132.

Umboðsmaður innflytjanda segir m.a. í kæru sinni að margsinnis hafi verið óskað rökstuðnings tollstjóra á þeirri ákvörðun að hafna framlögðum vörureikningum sem kærandi segir fullgilda og óvéfengjanlega enda gefna út af virtum og viðurkenndum umboðssala bifreiða í Þýskalandi. Ekki hefur verið tekið tillit til gagna og upplýsinga umbjóðanda míns og tel ég mikilvægt að mál þetta fái skjóta úrlausn og full tillit verði tekið til framlagðra vörureikninga þar sem úrlausn málsins varðar mikilvæga hagsmuni umbjóðanda míns. Að lokum gerir kærandi þá kröfu að fyrri ákvarðanir tollstjóra verði endurskoðaðar og aðflutningsgjöld ákvörðuð á grundvelli framlagðra vörureikninga.

Innflytjandi hélt því fram , í skýringum sínum á lágu kaupverði bifreiðanna, að þær hafi verið sýninga-og lánsbifreiðar fyrir bifreiðaumboð.

AWS er sölu og umboðsaðili fyrir Land Rover bifreiðar í Þýskalandi. Embættið sendi fyrirspurn til fyrirtækisins varðandi fortíð bifreiðanna. AWS staðfestir í svari sínu að umræddar bifreiðar hafi verið sýningabílar (demonstration vehicle) og af þeim ástæðum verið seldir á lægra verði.

10. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, kveður á um að sé ekki hægt að ákvarða tollverð vöru samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar skal tollverðið vera viðskiptaverð sams konar vara sem seldar hafa verið og fluttar inn á sama eða svipuðum tíma. Ennfremur kemur fram í greininni að finnist meira en eitt viðskiptaverð á sams konar vörum, skal nota lægsta verðið við ákvörðun á tollverði vörunnar.

Fyrri hluta ársins 2006 voru tollafgreiddar tvær bifreiðar af sömu tegund, undirtegund og árgerð og tvær af þeim bifreiðum sem hér er fjallað um þ.e. Þ og X. Bifreiðarnar voru keyptar notaðar, á sambærilegum markaðssvæðum og höfðu verið notaðar sem sýningabílar. Kaupverð þeirra var EUR 35.807.11 og EUR 38.453.31. Bifreiðunum hafði verið ekið innan við 5.000 km við innflutning.

Kaupverð Þ var, samkvæmt framlögðum vörureikningi, EUR 37.000. Bifreiðin kom til landsins 25. október 2006 og hafði henni þá verið ekið 16.135 km. Kaupverð X var, samkvæmt framlögðum vörureikningi, EUR 38.000. Bifreiðin kom til landsins 8. nóvember 2006 og hafði henni þá verið ekið 9.375 km.

Í mars 2006 var tollafgreidd bifreið af sömu tegund, undirtegund og árgerð og bifreiðarnar Y og Z. Bifreiðin var keypt ný á sambærilegu markaðssvæði á EUR 40.511.

Samkvæmt framlögðum reikningi var Y keypt á EUR 41.000. Bifreiðin kom til landsins 25. október 2006 og hafði þá verið ekið 11.287 km. Viðskiptaverð Z var samkvæmt framlögðum reikningi EUR 40.500. Bifreiðin kom til landsins 8. nóvember 2006 og hafði þá verið ekið 29.710 km.

Innflytjandi virðist ekki hafa keypt umræddar bifreiðarnar á óeðlilega lágu verði eins og ofangreindur samanburður sýnir. Kaupverð er svipað en þær eru keyptar meira en hálfu ári síðar og mun meira eknar en þær bifreiðar sem teknar voru til viðmiðunar.

Embættið kannaði viðskiptaverð sambærilegra bifreiða á vefsíðum bílasala í Þýskalandi. Verð bifreiðanna reyndist í flestum tilfellum hærra en taka verður tillit til að þær bifreiðar sem hér um ræðir voru seldar án virðisaukaskatts og fyrrnefndur söluaðili Land Rover bifreiða, sem ekki hefur hagsmuna að gæta, hefur staðfest að bifreiðarnar hafi verið notaðar til sýninga og reynslu- aksturs.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, með vísan til alls þess sem að framan er rakið, að ákvörðun tollstjórans í Hafnarfirði frá 9. og 16. nóvember 2006, þar sem því var hafnað að þeir vörureikningar sem A lagði farm vegna tollafgreiðslu á fjórum Land-Rover bifreiðum, með skráningarnúmerunum X, Y, Z og Þ væru lagðir til grundvallar tollverði bifreiðanna, skuli felld úr gildi. Tollverð bifreiðanna skal ákvarðast samkvæmt þeim vörureikningum sem innflytjandi lagði fram vegna tollafgreiðslu bifreiðanna.

Úrskurður þessi er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningardegi þessa bréfs, sbr. 1. mgr.118. gr. tollalaga nr.88/2005.

Reykjavík, 26. janúar 2007

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum