Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2012

Innheimta eftirgefins vörugjalds af leigubifreið

25.1.2015

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 19. desember 2010, hefur G, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 3. nóvember 2011, um innheimtu eftirgefins vörugjalds af leigubifreið með fastnúmer X.

Kærandi krefst þess að fallið verði frá innheimtu eftirgefins vörugjalds.

II. Málsmeðferð

Þann 30. nóvember 2007 sótti kærandi, sem stundar leigubifreiðaakstur, um lækkun vörugjalds í 10% af leigubifreiðinni X samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Þá undirritaði kærandi yfirlýsingu þann 3. desember 2007 þar sem hann skuldbatt sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru um nýtingu bifreiðarinnar, m.a. um lágmarkstekjur af leigubifreiðaakstri og skyldu til að senda Tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslum samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum. Í yfirlýsingunni er jafnframt kveðið á um skyldu kæranda til greiðslu ógreidds vörugjalds, verði brotið gegn fyrrgreindum skilyrðum, sbr. 2. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar.

Með bréfi dags. 5. janúar 2010 fór embætti Tollstjóra þess á leit að staðfest endurrit af skattskýrslum næstu tveggja heilla almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt yrði skilað inn og var gefinn 15 daga frestur til þess að verða við þessu. Kærandi skilaði inn skattskýrslu fyrir tekjuárið 2008. Þann 28. apríl 2010 var tekin ákvörðun um innheimtu eftirgefins vörugjalds að fjárhæð kr. 1.319.945.-, byggð á þeim rökum að tekjur kæranda voru ekki nægjanlegar. Kærandi lagði fram erindi hjá embætti Tollstjóra dags. 12. október 2011, þar sem farið var fram á endurskoðun ákvörðunar embættis Tollstjóra, dags. 28. apríl 2010, um innheimtu eftirgefins vörugjald af leigubifreiðinni X. Með bréfi dags. 3. nóvember 2011 féllst embætti Tollstjóra á að endurupptaka málið og ákvarða samkvæmt þeim gögnum sem þá lágu fyrir í málinu, þrátt fyrir að kærufrestur var liðinn. Endurupptekin ákvörðun um innheimtu vörugjalds af umræddri bifreið var staðfest og gefinn var 60 daga kærufrestur. Ákvörðunin var kærð með bréfi dags. 19. desember 2011.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi bendir á að í tollalögum nr. 88/2005 og reglugerð nr. 331/2000 sé að finna heimild til lækkunar og niðurfellingar vörugjalds, ef aflahæfi manns er verulega skert vegna veikinda eða varanlegs sjúkdóms og að ekki sé skilyrði að viðkomandi sé algjörlega óvinnufær. Kærandi leggur fram læknisvottorð sem sýnir fram á að hann sé 75% öryrki. Ennfremur heldur kærandi því fram að það sé ekki ætlun löggjafans að 100% örorka séu skilyrði til niðurfellingar, þ.e. að einstaklingur sé 100% öryrki, rúmfastur og með umönnunarþörf.

Kærandi telur sig þannig uppfylla skilyrði til þess að Tollstjóri geti fallist á lægra endurgjald en kveðið er á um í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum og reglum fjármálaráðuneytis um reiknað endurgjald, sbr. 4. ml. 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000.

IV. Niðurstöður

Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum, nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Samkvæmt 3. gr. laganna skal vörugjald lagt á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr., eftir gjaldflokkum miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum. Í flokk I falla ökutæki með 2.000 rúmsentímetra sprengirými eða minna og leggst á þau 30% vörugjald. Í flokk II falla ökutæki með yfir 2.000 rúmsentímetra sprengirými og leggst 45% vörugjald á þau. Umrædd leigubifreið fellur í flokk I og leggst því 30% vörugjald á slíkar bifreiðar að öllu jöfnu. Á leigubifreiðar til fólksflutninga leggst lægra vörugjald samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 5. gr. laganna. Á ökutæki í flokki I leggst 10% vörugjald, en á ökutæki í flokki II leggst 13% vörugjald. Við tollafgreiðslu bifreiðarinnar var lagt á 10% vörugjald. Um er að ræða undanþágu frá skattskyldu sem bundin er ákveðnum skilyrðum. Nánar er kveðið á um skilyrði lækkunar í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum í samræmi við heimild í 3. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Álagning lægra vörugjalds á leigubifreiðar samkvæmt 3.tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum er m.a. háð því skilyrði að rétthafi lækkunar vörugjalds hafi í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Miðað er við flokk E4 í reglum nr. 3/2008 um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2008. Undir flokk E fellur ýmis starfsemi einyrkja, ófaglærða og vélstjórnenda. Fyrir tekjuárin 2008 og 2009 skulu tekjur að lágmarksupphæð kr. 2.664.000.- taldar fram í tekjur í flokki E4. Rétthafi lækkunar vörugjalds samkvæmt 15. gr. reglugerðarinnar skal því hafa og telja fram a.m.k. kr. 1.864.800.- í tekjur af reiknuðu endurgjaldi af akstri leigubifreiða fyrir tekjuárið 2008 eða tekjuárið 2009. Samkvæmt skattframtali 2009 fyrir tekjuárið 2008 taldi kærandi fram kr. 888.000.- í reiknað endurgjald fyrir akstur leigubifreiðar. Er þessi fjárhæð kr. 976.800.-, eða rétt um 52% undir því lágmarki sem kveðið er á um og nægir því ekki til að uppfylla skilyrði 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar. Engin heimild er skv. fyrrgreindum ákvæðum til að taka tillit til afskrifta eða tapreksturs innan rekstrarreiknings.

Eins og fram hefur komið hefur kærandi skerta starfsorku, sbr. framlagt læknisvottorð. Í 4. ml. 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 er að finna heimild til handa Tollstjóra til að fallast á lægra endurgjald, t.d. vegna alvarlegra veikinda eða ef bifreið ónýtist, enda liggi fyrir viðhlítandi gögn og rökstuðningur rétthafa sem réttlætt geta slíka ákvörðun. Um er að ræða sérstaka undanþágu frá skattskyldu og ber þar af leiðandi að túlka skilyrði til uppfyllingar hennar þröngt í samræmi við viðtekin lögskýringarviðhorf. Tilgangur þessarar undanþágu er að íþyngja ekki aðila, sem ekki hefur getað unnið til að afla sér tekna, t.d. vegna alvarlegra veikinda sem krefjast langvarandi meðferðar og verða til þess að viðkomandi verði ótímabundið óvinnufær, s.s. hjartaveikinda, krabbameins eða svipaðra sjúkdóma eða ef bifreið ónýtist í slysi. Því verður að telja rétt að einvörðungu sé hægt að líta til ófyrirséðra atvika sem gera rétthafa lækkaðs vörugjalds ókleift að afla sér tekna með akstri leigubifreiðar, svo undanþáguheimild þessi eigi við. Er það mat Tollstjóra að fyrirliggjandi mál falli ekki undir þau tilvik sem fjallað er um í 4. ml. 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Veikindi kæranda urðu til þess að vinnuorka hans skertist en hann varð ekki með öllu óvinnufær. Auk þess að veikindi verða að teljast ófyrirséð tekur ofangreind heimild aðeins til veikinda sem koma almennt upp eftir að lækkun vörugjalds hefur verið framkvæmd og verða til þess að undanþáguþegi er ótímabundið alfarið óvinnufær. Þar með geta skilyrði fyrrgreinds undanþáguákvæðis ekki talist uppfyllt.

Embætti Tollstjóra bendir í þessu samhengi á úrskurð Ríkistollanefndar í máli nr. 10/2010, en þar staðfestir nefndin ofangreint mat Tollstjóra. Í úrskurði nefndarinnar kemur jafnframt fram að áður en breyting á reglugerð nr. 331/2000 kom til, sbr. reglugerð nr. 446/2009, gat tilvik kæranda aldrei fallið innan undanþágumarka. Með reglugerð nr. 446/2009 sé heimiluð ákveðin undanþágutilvik frá tekjumörkum, s.s. vegna alvarlegra veikinda eða að leigubifreið ónýtist. Tollstjóra ber að túlka og meta hvaða tilvik rúmast innan þessarar undanþágu. Meginsjónarmið Tollstjóra eru að ef taka eigi tillit til veikinda viðkomandi þurfi þau að hafa verið ófyrirséð.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 gilda ákvæði 20. gr. reglugerðarinnar um greiðslu fulls vörugjalds og lögveð, sé brotið gegn skilyrðum fyrir lækkun vörugjalds. Þar segir að brjóti aðili, sem nýtur lækkunar vörugjalds gegn skilyrðum sem sett eru um nýtingu ökutækis o.fl. skuli hann greiða ógreitt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar eða niðurfellingar. Kæranda ber því að greiða til baka eftirgefið vörugjald að fjárhæð kr. 1.319.945.- auk dráttarvaxta.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um álagningu 30% vörugjalds á leigubifreiðina X og innheimtu


mismunar á fjárhæð vörugjalds sem greitt var við tollafgreiðslu og fulls vörugjalds auk virðisaukaskatts af því , dags. 3. nóvember 2011, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum