Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 21/2017

Synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts

25.10.2017

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna innflutnings á vél og krafðist þess að fá endurgreiddan 59% af greiddum virðisaukaskatti vegna innflutningsins. Höfnun Tollstjóra byggði á því að A væri á virðisaukaskattskrá og gæti því ekki hlotið endurgreiðslu með vísan til 63. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008.

Litið var til þess að kærandi stundar blandaðan rekstur, annars vegur rekstur menntastofnunar og hins vegar ákveðinn atvinnurekstur sem rekinn væri í samkeppni við skattskylda aðila. Skráning kæranda á virðisaukaskattskrá var eingöngu bundin við síðarnefnda reksturinn en óumdeilt var að innflutt vél kæranda væri rannsóknartæki sem eingöngu yrði nýtt við rannsóknir og kennslu og væri því óviðkomandi atvinnurekstri kæranda. Einnig var tekið tillit til þess að kæranda væri óheimilt samkvæmt virðisaukaskattslögum að nýta sér greiddan virðisaukaskatt vegna kaupanna í skattskyldum rekstri sínum.

Að ofangreindu virtu var talið að umsókn kæranda um endurgreiðslu 59% virðisaukaskatts vegna innflutnings á téðri vél uppfyllti skilyrði reglugerðar um ýmis tollfríðindi enda væri kærandi ekki skattskyldur aðili samkvæmt virðisaukaskattslögum hvað varðar kennslu sína og rannsóknir. Var því fyrri ákvörðun Tollstjóra felld úr gildi og fallist á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti dags. 30. október 2017, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 30. ágúst 2017, um synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sendingar X.

Kærandi krefst þess að fá endurgreiddan 59% af greiddum virðisaukaskatti vegna nefndrar sendingar á grundvelli 9. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 35. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008.

II. Málsmeðferð

Í byrjun desember 2016 flutti kærandi inn vél með sendingu sem bar sendingarnúmerið X. Aðflutningsskýrslu vegna sendingarinnar var skilað inn til Tollstjóra þann 8. desember 2016 og var vélin tollafgreidd samdægurs.

Með umsókn til Tollstjóra, dags. 6. júlí 2017, sótti kærandi um endurgreiðslu 59% af greiddum virðisaukaskatti vegna nefndrar sendingar, samtals að fjárhæð kr. 2.621.337, í ljósi þess að 59% af kaupverði vélarinnar hafði verið greitt með tveimur styrkjum. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2017, synjaði Tollstjóri kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts þar sem talið var að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um endurgreiðslu með vísan til 63. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008, sem kveður á um að ekki skuli endurgreiða virðisaukaskatt til aðila sem eru skráðir á virðisaukaskattskrá. Með tölvupósti dags. 30. október 2017, kærði kærandi ákvörðun Tollstjóra um synjun endurgreiðslu.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi er menntastofnun sem sér um ýmsar rannsóknir en er auk þess í ákveðinni atvinnustarfsemi og þar af leiðandi skráður á virðisaukaskattskrá Ríkisskattstjóra. Kærandi telur að þar sem virðisaukaskattskylda sín sé eingöngu bundin við afmarkaðan hluta starfsemi sinnar sem er í samkeppni við önnur fyrirtæki en ekki kennslu- og rannsóknarverkefni sín þá eigi 63. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi ekki við um umsókn kæranda. Kærandi tekur fram að vél sú sem umsóknin byggist á sé rannsóknartæki sem eingöngu er notuð við rannsóknir við skólann og sé því algjörlega ótengd virðisaukaskattsstarfsemi skólans. Umrædd vél hafi að 59% hluta verið keypt fyrir styrkfé og af þeim sökum telur kærandi að endurgreiða beri sér hlutfallslegan virðisaukaskatt, sbr. 35. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi.

Með vísan til ofangreinds telur kærandi sig uppfylla öll skilyrði tollalaga og reglugerðar nr. 630/2008 um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna innflutnings á vél sem kom til landsins með sendingu X.

IV. Niðurstöður

Almennt ber að greiða aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins, skv. meginreglu 3. og 5. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í tilviki tækja og búnaðar til vísindarannsókna sem vísindastofnanir kaupa fyrir m.a. styrki er aftur á móti gerð undantekning frá þessari meginreglu sem kveður á um að slíkar vörur skuli vera undanþegnar aðflutningsgjöldum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 9. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 35. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi. Um er að ræða undanþágu frá meginreglu laganna og samkvæmt almennum og viðteknum lögskýringarsjónarmiðum þá ber að túlka hana þröngt og gerðar eru ríkar kröfur um að skilyrðum hennar sé fullnægt.

Um tæki og búnað vísindastofnana er fjallað í 35. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi en þar kemur fram að slíkar vörur sem vísindastofnanir kaupa fyrir styrki eða eiga kost á endurgjaldslaust frá erlendum aðilum til láns eða eignar skuli undanþegnar aðflutningsgjöldum, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

  1. Tækin og búnaðurinn verði nýttur beint til rannsóknarstarfa hjá viðkomandi stofnun.
  2. Fyrir liggi formleg staðfesting á styrkveitingu, láni eða gjöf, eftir því sem við á, og yfirlýsing viðkomandi vísindastofnunar um viðtöku vörunnar.
  3. Nemi styrkur hluta af verðmæti vöru, skal reikna aðflutningsgjöld af því verðmæti sem er umfram styrkfjárhæð.
  4. Sé um að ræða gjöf skulu ekki vera fjárhagsleg tengsl á milli gefanda og gjafþega.

Óumdeilt er að vél sú sem um ræðir uppfyllir ofantalin skilyrði reglugerðar um ýmis tollfríðindi. Synjun Tollstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts grundvallaðist aftur á móti á

63. gr. reglugerðarinnar en þar segir að þegar aðflutningsgjöld eru endurgreidd samkvæmt reglugerðinni skuli ekki endurgreiða þann virðisaukaskatt sem skattskyldir aðilar samkvæmt ákvæðum virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 hafa greitt við innflutning heldur skal sá virðisaukaskattur fara í gegnum inn- og útskattskerfi virðisaukaskattslaga. Því ber að líta til þess hvort kærandi teljist skattskyldur aðili skv. lögum um virðisaukaskatt, án tillits til þess hvort hann sé skráður á virðisaukaskattskrá.

Samkvæmt 1. gr. virðisaukaskattslaga skal greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu. Skattskyldan nær til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, að undanskyldum nokkrum tilvikum sem sérstaklega eru tilgreind í 3. mgr. 2. gr. laganna. Þar er í 3. tl. 3. mgr. tekið fram að rekstur skóla og menntastofnana skuli vera undanþeginn skattskyldu. Þá segir enn fremur í 4. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt, sem fjallar um innskatt, að þeir sem eru undanskyldir skattskyldu skv. 3. mgr. 2. gr. megi einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem varða hina skattskyldu þætti í starfsemi þeirra.

Fyrir liggur að kærandi stundar blandaðan rekstur, annars vegur rekstur menntastofnunar og hins vegar ákveðinn atvinnurekstur sem rekinn er í samkeppni við skattskylda aðila. Skráning kæranda á virðisaukaskattskrá er eingöngu bundin við síðarnefnda reksturinn en óumdeilt er að innflutt vél kæranda er rannsóknartæki sem eingöngu mun verða nýtt við rannsóknir og kennslu og er því óviðkomandi atvinnurekstri kæranda. Einnig ber að líta til þess að kæranda er óheimilt samkvæmt virðisaukaskattslögum að nýta sér greiddan virðisaukaskatt vegna sendingar X í rekstri sínum.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það mat Tollstjóra að umsókn kæranda um endurgreiðslu 59% virðisaukaskatts vegna innflutnings á vél uppfylli skilyrði reglugerðar um ýmis tollfríðindi enda er kærandi ekki skattskyldur aðili samkvæmt virðisaukaskattslögum hvað varðar kennslu sína og rannsóknir. Ákvæði 63. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi á því ekki við nefndan innflutning og því ber að samþykkja umsókn kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 30. ágúst 2017, um synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sendingar X, er felld úr gildi. Fallist er á kröfu kæranda um endurgreiðslu 59% af greiddum virðisaukaskatti vegna nefndrar sendingar.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum