Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2011

Ákvörðun tollverðs vegna bifreiðar flutt inn með búslóð

29.3.2011

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 15. nóvember 2010, hefur K kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 23. september 2009, um tollverð bifreiðarinnar X, sem flutt var til landsins þann 7. september 2010 með sendingu nr. S ARN 07 09 0 NL RTM S002. Kærandi krefst þess að tollverð verði endurskoðað og lækkað.

II. Málsmeðferð

Þann 7. september 2010 flutti kærandi inn búslóð og bifreiðina X, sem er af gerðinni Jeep Grand Cherokee Laredo 4x2, árgerð 2001, frá L, þar sem hún hafði verið búsett í 12 ár. Þann

9. september 2010 var kæranda veitt heimild til tímabundins, tollfrjáls innflutnings bifreiðarinnar til 11. október 2010. Leyfið var síðar framlengt tvisvar, alls til 20. nóvember 2010. Aðflutningsskýrsla var lögð inn þann 16. september 2010. Enginn vörureikningur fylgdi skýrslunni. Með athugasemd dags. 23. september 2010 var tollverð bifreiðarinnar metið og ákvarðað USD 4.500.- Þessari ákvörðun mótmælti kærandi með kæru dags. 15. nóvember 2010.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að verð bifreiðarinnar beri að meta á bilinu USD 1.800.- til 2.300.- og vísar þar til vefsíðunnar consumerguideauto.howstuffworks.com. Hún hafi einnig fengið upplýsingar frá B sem hafi gefið þær upplýsingar að ofangreind bifreið væri metin á kr. 500.000.- til 700.000.-, þá sem fjórhjóladrifin bifreið. X sé hins vegar ekki fjórhjóladrifin, mikið keyrð, lakkið sé rispað og ryðguð beygla á hægra frambretti. Eins þurfi að skipta um bremsur og leiðslu sem stjórnar vökvaflæði inn á vökvastýri.Enginn vörureikningur liggi fyrir, þar sem bifreiðin hafi verið keypt 31. desember 2004 og hún hafi vegna skilnaðar ekki getað nálgast reikninginn.

IV. Niðurstaða

Í 1. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005 er að finna meginreglu þess efnis að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð, sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu hennar til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiða má af ákvæðum 15. gr. laganna. Í reglugerð 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru, með síðari breytingum, er nánar fjallað um tollverð vöru í samræmi við reglugerðarheimild 16. gr. tollalaga.

Í 2. málsl. 2. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar kemur fram að verði tollverð ekki ákvarðað á grundvelli viðskiptaverðs, skal það ákvarðað skv. 57. – 62. gr. Í 63. – 70. grein reglugerðarinnar eru sérákvæði vegna innflutnings ökutækja.

Hvorki liggur fyrir kaupsamningur né vörureikningur um bifreiðina. Í 56. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru með síðari breytingum er vísað í 57.-62. gr. Þar er mælt fyrir um hvernig tollverð vöru skuli ákveðið þegar viðskiptaverð vöru verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar. Meginreglan er sú að leggja skuli til grundvallar viðskiptaverð sams konar vöru á sams konar viðskiptastigi, sem seld er eða flutt inn á sama eða svipuðum tíma og varan sem verið er að virða, sbr. 57. grein reglugerðarinnar.

Í samræmi við 2. mgr. 57. gr. reglugerðarinnar hefur embættið, við innflutning notaðra bifreiða, gert könnun á því hvort sambærilegar bifreiðar (bifreiðar sömu tegundar, undirtegundar og árgerðar) hafi verið fluttar inn á sama eða svipuðum tíma, þ.e.a.s. í þeim tilvikum sem embættið telur að ekki sé hægt að styðjast við framlagða reikninga eða ef viðskiptaverð liggur ekki fyrir eins og í þessu máli. Við ákvörðun fob-verðs bifreiðarinnar var innflutningur bifreiða af sömu tegund, undirtegund og árgerð kannaður en engin sambærileg bifreið fannst þegar miðað er við árgerð, tegund og undirtegund svo að embætti Tollstjóra telur að í þessu tilviki sé ekki unnt að beita ákvæðum 57. – 62. greinar reglugerðarinnar.

Þegar ekki reynist unnt að ákvarða tollverð ökutækis á grundvelli 14. gr. tollalaga eða 57.-61. gr. reglugerðarinnar ber að beita 62. gr. reglugerðarinnar. Tollverð skal vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og það er tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra, reiknað út samkvæmt ákvæðum 66. gr., sbr. 65. gr. reglugerðarinnar. Því er ekki hægt að fallast á kröfu kæranda um að tollverð verði ákvarðað í samræmi við upplýsingar sem hún aflaði sér á heimasíðunni consumerguideauto.howstuffworks.com. Uppfletting var gerð í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra þann 1. febrúar 2011 en bifreiðaskrá var síðast uppfærð þann 14. janúar 2010. Samkvæmt skránni er verð nýrrar bifreiðar af gerðinni Grand Cherokee Laredo 4000 cc 195 hö beinskipt, árgerð 2001, kr. 4.450.000.- en uppreiknað útsöluverð kr. 8.481.700.-

Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 er líklegt fob-verð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund áætlað með þeim hætti að af útsöluverði ökutækisins skv. bifreiðaskrá er afreiknaður virðisaukaskattur, álagning seljanda sem skal áætluð 12%, vörugjald sem og áætluð fjárhæð gjalda þeirra sem innifalin eru í tollverði skv. 2. mgr. 15. gr. tollalaga.

Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. ber svo að reikna út fyrning bifreiðarinnar sem er 1,5 % fyrir hvern byrjaðan mánuð í 12 mánuði, 1% fyrir næstu 24 mánuði og 0,5 % fyrir hvern mánuð eftir það þar til náð hefur verið 90% fyrningu sem er hámarksfyrning. Vegna aldurs bifreiðarinnar er heildarfyrning 117% skv. útreikningi, en fyrning hennar var við mat tollverðs reiknuð með hámarksfyrningu, eða 90%. Samkvæmt þessum útreikningi reiknast tollverð bifreiðarinnar X kr. 500.264.- á eftirfarandi hátt:

Verð ökutækis 8.481.700.-
Virðisaukaskattur frádreginn 1.723.373.-
Álagning frádregin 724.106.-
Vörugjald frádregið 2.064.339.-
Vátrygging frádregin 58.668.-
Flutningsgjald frádregið 113.055.-
Fyrning 90% frádregin 3.418.343.-
Fob-verð 379.816.-
Flutningsgjald 113.055.-
Vátrygging 7.393.-
Tollverð 500.264.-

Aðflutningsgjöld reiknast alls kr. 457.804.- en þau fela í sér spilliefnagjald, kr. 3.000.-, vörugjald, kr. 260.137.- og virðisaukaskatt, kr. 194.667.-

Embætti Tollstjóra telur að meta verði tollverð bifreiðarinnar skv. ákvæðum reglugerðar nr. 1100/2006, þar sem ekki liggur fyrir vörureikningur fyrir bifreiðina, sbr. útskýringar kæranda þar um.

Með hliðsjón af framansögðu er það mat embættisins að tollverð bifreiðarinnar X skuli reiknað eftir ákvæðum 65. og 66. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 og endurreiknast tollverð hennar kr. 500.264.-

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að tollverð bifreiðarinnar X ákvarðast kr. 500.264.-

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum