Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/2011

Ákvörðun tollverðs og álagning aðflutningsgjalda á póstsendingu

26.4.2011

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 15. mars 2011, hefur K kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 19. janúar 2011, um ákvörðun tollverðs og álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu nr. P 150 10 01 1 IS B007413. Kærandi krefst leiðréttingar álagðra aðflutningsgjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 17. janúar 2011 barst kæranda skrifleg tilkynning um póstsendingu nr. P 150 10 01 1 IS B007413 frá Íslandspósti, dags. 14. janúar 2011, auk beiðni um upplýsingar um innihald sendingarinnar til tollgæslu. Á tollyfirlýsingu á pakkanum kom fram að um gjöf væri að ræða. Sendandi skráði verðmæti sendingarinnar sem USD 500.- á tollyfirlýsingu á sendingunni. Kærandi upplýsti að um gjöf væri að ræða frá fjölskylduvinum í Bandaríkjunum. Þann 18. janúar sl. barst kæranda tölvupóstur frá tollverði þar sem tilkynnt var um að sendandi hafi tryggt innihald sendingarinnar fyrir USD 500.- Farið var fram á að lagður yrði fram vörureikningur vegna gjafarinnar, að öðrum kosti yrði sendingin tollafgreidd í samræmi við tryggða upphæð. Kærandi sendi tölvupóst með frekari upplýsingum, m.a. að sambærileg vara væri dýrust hjá T fyrir USD 350.- Þann 19. janúar 2011 var tekin ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda og kæranda tilkynnt um hana. Álögð aðflutningsgjöld voru alls kr. 18.493.-, tollskýrslugerð kr. 2.788.85, tollmeðferðargjald kr. 450.- og geymslugjald kr. 318.72. Ákvörðun um tollverð og álagningu aðflutningsgjalda var kærð með bréfi dags. 15. mars 2011.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur álögð aðflutningsgjöld ekki í samræmi við verðmæti vörunnar og bendir á að um gjöf hafi verið að ræða vegna fæðingar sonar hennar, sem fæddist þann 26. október 2010. Þar fyrir utan bendir kærandi á að sendingin hafi farið frá B þann 16. desember 2010 og krefst upplýsinga um hvers vegna sendingin hafi verið í tæpan mánuð í skoðun hjá tollgæslunni áður en hún var send henni.

IV. Niðurstaða

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum er kveðið á um almenna tollskyldu, þ.e. að hver sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Virðisaukaskattur er lagður á við innflutning í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Rétt er að taka fram að hér er einvörðungu fjallað um álagningu aðflutningsgjalda vegna sendingarinnar, þar sem álagning þeirra er kæranleg til Tollstjóra skv. 1. mgr. 117. gr. tollalaga. Embætti tollstjóra getur hins vegar ekki tekið afstöðu til réttmætis tollmeðferðargjalds þess, sem Íslandspóstur tekur fyrir að sjá um tollafgreiðslu sendingarinnar, þar sem ekki er um að ræða aðflutningsgjald, sbr. 1. tölul. 1. gr. tollalaga.

Í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu, þegar um gjafir er að ræða. Undanþágan er nánar útfærð í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þar kemur fram að tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa meðferðis frá útlöndum vegna tilefna sem tengjast einkalífi, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum, enda sé verðmæti þeirra að hámarki kr. 10.000.- miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Sængurgjöf vegna fæðingar telst tækifærisgjöf skv. fyrrgreindu ákvæði. Í greininni kemur einnig fram að sé verðmætið meira en kr. 10.000.- skal reikna aðflutningsgjöld af því verðmæti sem er umfram þá fjárhæð.

Tollverð innfluttra vara er viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins, sbr. 14. gr. tollalaga. Á tollyfirlýsingu á fylgiblaði með sendingunni lýsir sendandi því yfir að innihald sendingarinnar sé silfurbolli til gjafar til barns að verðmæti USD 500.- Auk þess kemur fram að sendandi lét vátryggja sendinguna og að tryggingarupphæð sé USD 500.- Þrátt fyrir ítrekaða beiðni tollvarða þar um skilaði kærandi ekki vörureikningi til að sýna fram á lægra vöruverð, en í kæru kemur fram að kærandi telur slíka gjöf ekki vera meira virði en USD 350.- Því varð að ganga út frá því verðmæti sem sendandi gaf upp á tollyfirlýsingu. Af USD 500.- voru dregnir USD 85.35 eða kr. 10.000.- í samræmi við tollgengi tollafgreiðsludags sem var kr. 117,17. Tollverð var því kr. 48.854.- eftir að afsláttur vegna gjafar hafði verið veittur. Álögð aðflutningsgjöld voru alls kr. 18.492.-, þar af virðisaukaskattur að upphæð kr. 13.629.-, tollur að upphæð kr. 4.858.- og kr. 5.- í úrvinnslugjöld.

Eins og fram hefur komið að ofan getur tollstjóri ekki tekið afstöðu til greiðslna vegna tollskýrslugerðar, tollmeðferðargjalds og geymslugjalds, þar sem um er að ræða gjöld sem Íslandspóstur innheimtir fyrir þjónustu sína.

Sendingin var póstlögð þann 16. desember 2010 í Bandaríkjunum. Samkvæmt sendingarnúmeri barst hún til Íslands þann 10. janúar 2011. Skrifleg tilkynning um sendinguna var gerð þann 14. janúar 2011 og barst kæranda þann 17. janúar 2011. Þar af leiðandi er ljóst að sendingin var ekki í tollskoðun í lengri tíma en eðlilegt getur talist.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um tollverð og álagningu aðflutningsgjalda á sendingu nr. P 150 10 01 1 IS B00 7413, dags. 19. janúar 2011 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum