Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/2015

Ákvörðun um álagningu virðisaukaskatts á málverk

18.5.2015

Reifun

B kærði ákvörðun Tollstjóra um að leggja virðisaukaskatt á málverk sem B keypti af grískum listamanni og flutti til landsins. B taldi sig ekki eiga að greiða virðisaukaskatt af umræddu málverki þar sem kveðið er á um undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts á málverk í 4. tl. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Niðurstaða: Til að njóta umræddrar undanþágu þurfa listaverk að uppfylla tvö skilyrði, að listamaðurinn sjálfur sé innflytjandi og að verkið flokkist í tollskrárnúmer 9701.1000- 9703.0000. Tollstjóri hafnaði því að umrædd sending gæti fallið undir áðurgreinda undanþágu þar sem kærandi var sjálfur skráður sem innflytjandi sendingarinnar. Vísaði Tollstjóri til skýrs orðalags áðurgreinds ákvæðis og þeirrar almennu lögskýringarreglu að allar undanþágur frá skattskyldu skulu túlka þröngt. Varð því ákvörðun um álagningu virðisaukaskatt staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti dags. 12. apríl sl., hefur B, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 1. apríl 2015, um höfnun á beiðni um undanþágu á greiðslu virðisaukaskatts af málverki.

Kærandi fer fram á að umrætt málverk sé undanþegið greiðslu virðisaukaskatts.

II. Málsmeðferð

Þann 3. mars 2015 barst hingað til lands sending nr. X sem innihélt málverk. Kærandi er skráður innflytjandi á aðflutningsskýrslu sendingarinnar og var honum gert að greiða aðflutningsgjöld af málverkinu. Sendingin var tollafgreidd þann 11. mars 2015. Kærandi sendi Tollmiðlun Íslandspósts tölvupóst þann 15. mars sama ár og óskaði eftir skýringum á gjaldtökunni. Þann 16. mars sendi kærandi Tollstjóra tölvupóst þar sem hann ítrekaði mál sitt. Tollstjóri svaraði tölvupóstinum þann 1. apríl sl. þar sem skýrt var frá því að undanþága frá greiðslu virðisaukaskatts í þessu tilviki eigi bara við um þegar listamaðurinn flytur sjálfur inn eigið verk til landsins. Kærandi átti í nokkrum tölvupóstsamskiptum við Tollstjóra í kjölfarið og var að endingu bent á rétt sinn til að kæra ákvörðun um gjaldskyldu til Tollstjóra skv. 117. gr. tollalaga.

Kæra vegna ofangreindrar ákvörðunar Tollstjóra um álagningu virðisaukaskatts barst embættinu með tölvupósti dags. 12. apríl 2015.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi kveðst hafa keypt umrætt málverk af grískum listmálara sem sjálfur sá um að flytja það til landsins og greiða af sendingunni flutningskostnað. Kærandi kveðst hafa verið krafinn um greiðslu að fjárhæð 59.291 ISK við móttöku málverksins, þó svo að í 4. tl. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sé kveðið á um undanþágu frá virðisaukaskatti við innflutning á listaverki.

Kærandi telur að það sé misskilningur að ofangreind undanþága eigi eingöngu við ef listamaðurinn sjálfur flytur inn verk eftir sig og að undanþágan eigi ekki við í þessu tilviki, enda torskilið hvernig áðurgreint ákvæði virðisaukaskattslaga eigi að virka ef ekki í þessu tilviki. Kærandi hafi ekki flutt málverkið inn til landsins og ekki gert neinar ráðstafanir því tengdu, fyrir utan að kaupa það. Telur kærandi að ákvæðið sé sett fram með þessum hætti til að draga fram mörk milli sölu listamanna á eigin verkum og sölu þeirra sem hafa miðlun eða atvinnu af sölu á listaverkum en eru ekki listamenn sjálfir. Ekki sé ætlast til þess að erlendir listamenn fylgi verkum sínum eftir til landsins og fái þau afhent til sín persónulega úr tollinum og eigi þau hér á landi eða afhendi þau svo til kaupanda. Telur kærandi að slíkt geti ekki staðist.

Kærandi bendir á að til hliðsjónar megi athuga að sala á tilteknum frumverkum listamanna sé undanþegin virðisaukaskatti innanlands, sbr. ákvæði 2. tl. 4. gr. virðisaukaskattslaga. Sala innanlands hafi fyrst eingöngu verið undanþegin greiðslu virðisaukaskatts ef listamenn seldu verk sín beint til kaupanda. Síðar hafi ákvæðið einnig verið látið taka til uppboðssölu enda sé það ein leið fyrir listamennina að selja frumverk sín. Þannig sé sala listamanna sjálfra á eigin verkum eingöngu undanþegin en sala annarra á sömu verkum sé ekki undanþegin skattskyldu. Salan þurfi því að vera beint frá listamanni. Kærandi telur að sama gildi um innflutning enda sé það speglun þessarar reglu.

Kærandi kveðst hafa keypt málverkið beint frá listamanni eins og skýrt komi fram á reikningi.

IV. Niðurstöður

Meginregla tollalaga nr. 88/2005 er sú að almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt tollalögum, sbr. 3. gr. laganna. Um er að ræða undanþágu á þessari meginreglu laganna og því ber að beita þröngri túlkun í samræmi við almennar lögskýringarreglur og eru ríkar kröfur gerðar um að skilyrði fyrir undanþágu á almennri tollskyldu séu fyrir hendi.

Í máli þessu er deilt um það hvort málverk það sem kærandi keypti af erlendum listamanni og flutt var inn hingað til lands skuli falla undir undanþágu 4. tl. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 2. tl. 39. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Samkvæmt nefndum ákvæðum skulu listaverk vera undanþegin virðisaukaskatti, flokkist þau undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 og séu flutt inn af listamanninum sjálfum eða á hans vegum. Umrædd undanþága hefur því tvö skilyrði, sem bæði þurfa að vera uppfyllt svo vara geti notið undanþágunnar.

Ekki kom til skoðunar hvort málverk það sem hér um ræðir falli undir áðurgreind tollskrárnúmer þar sem embætti Tollstjóra telur hitt skilyrði undanþágunnar ekki uppfyllt. Ágreiningurinn í þessu máli lítur þannig að því hvort umrætt málverk uppfylli það skilyrði að vera flutt inn af listamanninum sjálfum eða á hans vegum. Samkvæmt aðflutningsskýrslu sendingarinnar er kærandi skráður sem innflytjandi sendingarinnar. Með vísan til orðalags ákvæðis 4. tl. 36. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. 2. tl. 39. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi, verður listamaðurinn sjálfur að flytja inn eigið verk svo undanþágan eigi við. Í 2. tl. 39. gr. áðurnefndrar reglugerðar kemur að auki fram að verkið megi vera flutt inn á vegum listamannsins. Tollstjóri lítur svo á að þegar listamaðurinn hefur selt verkið fyrir flutning hingað til lands, þar sem kaupandi er móttakandi verksins, þá sé ekki hægt að líta svo á að verkið sé flutt inn á vegum listamannsins. Með vísan til skýrs orðalags undanþáguákvæðis 4. tl. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 2. tl. 39. gr. reglugerðar nr. 630/2008 fellst Tollstjóri ekki á að kærandi sé undanþeginn greiðslu virðisaukaskatts af umræddu málverki.

Þá vísar kærandi til ákvæðis 2. tl. 4. gr. virðisaukaskattslaga, sem tekur til sölu listamanns á eigin verkum innanlands, en þar kemur m.a. fram að listamenn, að því varðar sölu þeirra á eigin verkum, skuli undanþegnir skattskyldu. Kærandi byggir á því að sama sjónarmið eigi við um innflutning og sölu innanlands, þ.e. að salan þurfi að vera beint frá listamanni til að hún sé undanþegin virðisaukaskatti. Þessi túlkun er í ósamræmi við skýrt orðalag 4. tl. 36. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. 2. tl. 39. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi og fæst ekki samræmst þeirri almennu lögskýringarreglu að leggja beri þrengjandi lögskýringu til grundvallar þegar lög kveða á um undanþágu frá greiðslu skatta.

Með vísan til ofangreinds teljast skilyrði fyrir undanþágu virðisaukaskatts af vöru í sendingu nr. X ekki uppfyllt. Ákvörðun um höfnun á beiðni um undanþágu á greiðslu virðisaukaskatts er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun beiðni um undanþágu virðisaukaskatts á málverk er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum