Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2015

Höfnun beiðni um undanþágu frá almennum skilyrðum tollfrelsis búslóða

22.5.2015

Reifun

X kærði ákvörðun Tollstjóra um að hafna beiðni um undanþágu frá almennum skilyrðum tollfrelsis búslóða. X sem flutt hafði ásamt fjölskyldu sinni til landsins árið 2012 hafði flutt inn hluta búslóðar við komu til landsins en haldið eftir hluta búslóðarinnar erlendis. Upphaflega stóð til að búa tímabundið á landinu en árið 2015 óskaði X eftir því að flytja tollfrjálst til landsins þann hluta búslóðarinnar sem varð eftir. X taldi að aðstaða fjölskyldunnar félli undir undanþáguákvæði frá meginreglu um tollskyldu í reglugerð um ýmis tollfríðindi.

Niðurstaða: Tollstjóri vísar til 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 16. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008 hvað varðar skilyrði fyrir tollfrjálsum innflutningi búslóða. Tollstjóri telur að með framlögðum gögnum hafi X sýnt nægilega fram á að upphaflega hafi ætlunin verið að dvelja í skemmri tíma á landinu en að síðar hafi dvölin framlengst til varanlegrar búsetu. Því telji Tollstjóri rétt eins og máli þessu var háttað að veita X undanþágu skv. 2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti dags. 23. mars sl., hefur X kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 6. mars 2015, um höfnun á beiðni um undanþágu frá almennum skilyrðum tollfrelsis búslóða.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Þann 5. mars 2015 barst Tollstjóra fyrirspurn frá kæranda varðandi tollfrjálsan innflutning á búslóð. Fyrirspurninni var svarað af hálfu Tollstjóra samdægurs en þar var kæranda ráðlagt að óska eftir undanþágu frá almennum skilyrðum tollfrelsis búslóða þar sem ljóst var að umrædd skilyrði voru ekki uppfyllt í tilfelli hans. Kærandi fylgdi ofangreindum leiðbeiningum.

Þann 6. mars 2015 hafnaði embætti Tollstjóra beiðni um undanþágu frá skilyrði 1. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008 á þeim grundvelli að of langur tími hafi liðið frá því að kærandi fluttist til landsins og þá hafi kærandi þegar nýtt sér tollfrjálsa heimild til innflutnings búslóðar eftir flutninginn.

Sú ákvörðun Tollstjóra að hafna beiðni um undanþágu frá almennum skilyrðum tollfrelsis búslóða var kærð með tölvupósti dags. 23. mars 2015. Með bréfi sem sent var bæði að heimilisfangi kæranda í Reykjavík og í Berlín þann 24. apríl var kæranda tilkynnt um tafir við uppkvaðningu úrskurðar í málinu.

III. Meginröksemdir kæranda

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi og fjölskylda hans, sambýliskona og tveir synir, hafi búið í lengri tíma í Berlín. Kærandi hafi rekið eigið fyrirtæki og sambýliskona hans hafi átti hlut í öðru fyrirtæki þar sem hún hafði einnig verið framkvæmdastjóri. Þá kemur fram að fjölskyldan hafi flutt til Íslands sumarið 2012 og flutt hluta búslóðar meðferðis en skilið hluta eftir í leiguíbúð sem kærandi og sambýliskona hans notuðust við í vinnuferðum ytra. Ætlunin hafi verið að búa á landinu í 1-2 ár og því til staðfestingar sendi kærandi gögn um áætlaða skólavist sonar síns í Berlín fyrir veturinn 2014-2015. Þá kemur fram að aðstæður fjölskyldunnar hafi breyst og að kærandi og sambýliskona hans hafi sagt upp leiguíbúð þeirra í Berlín og vilji nú flytja inn þann hluta búslóðarinnar sem skilinn var eftir árið 2012. Því sé um að ræða tilvik þar sem sérstaklega standi á eins og segir í undanþáguákvæði 2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.

Af þessum sökum óskar kærandi eftir því að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um að hafna beiðni um undanþágu frá almennum skilyrðum tollfrelsis búslóða.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Undantekningar frá meginreglunni er m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands eru tollfrjálsar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. Ráðherra getur með reglugerð takmarkað niðurfellingu samkvæmt þessum lið við notkun, vöruflokka eða hámarksverð að teknu tilliti til dvalartíma erlendis, fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna.

Í II. kafla reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi er hugtakið búslóð skilgreint og þar koma fram upplýsingar um almenn skilyrði sem innflytjandi búslóðar þarf að uppfylla til að njóta tollfrelsis. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar teljast til búslóða í þessu sambandi heimilismunir, t.d. húsgögn, búsáhöld og aðrir persónulegir munir, sem eru tollfrjálsir við búferlaflutning.

Almenn skilyrði tollfrelsis búslóða eru listuð í 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þar kemur fram að undanþága frá greiðslu gjalda af búslóð sé m.a. háð þeim skilyrðum að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins. Jafnframt er sett það skilyrði að búslóðarmunir séu notaðir, í eigu innflytjanda og fjölskyldu hans eigi skemur en eitt ár og að þeir séu eingöngu ætlaðir til nota við heimilishald viðkomandi hérlendis. Undanþágan tekur þó til ónotaðra búslóðarmuna og búslóðarmuna sem viðkomandi hefur átt í skemmri tíma og ætlar að nota hér á landi, enda sé verðmæti þeirra eigi meira en kr. 140.000.- miðað við smásöluverð á innkaupsstað, sbr. 3. tl. 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar. Þá segir að viðkomandi eigi að hafa búslóðina með sér er hann flytur búferlum til landsins eða flytji hana til landsins eigi síðar en 6 mánuðum frá því að hann tók sér bólfestu hér á landi eða öðlast hér lögheimili. Tollstjóri getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á, svo sem ef dvöl manns hér hefur upphaflega verið ákveðin um skemmri tíma en framlengist síðan til varanlegrar búsetu, sbr. 4. tl. ákvæðisins.

Ljóst er að kærandi uppfyllti öll skilyrði 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar við flutning fyrri hluta búslóðarinnar til landsins árið 2012 og var sá hluti afgreiddur tollfrjálst. Þá er einnig ljóst að upphaflega var ætlun kæranda og fjölskyldu hans að dvelja í takmarkaðan tíma hér á landi sbr. framlögð gögn kæranda, þ.á.m. gögn um skráningu sonar hans í skóla í Berlín veturinn 2014-2015. Í undanþáguákvæði 2. málsl. 4. tl. 1. mgr. greinarinnar er tekið dæmi um aðstæður þar sem sérstaklega er talið standa á en það er s.s. ef dvöl manns hér á landi hefur upphaflega verið ákveðin um skemmri tíma en framlengist síðan til varanlegrar búsetu. Tollstjóri telur rétt , eins og máli þessu er háttað og með hliðsjón af framlögðum gögnum, að veita kæranda undanþágu skv. 2. málsl. 4. tl. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Þá telur Tollstjóri rétt að taka fram að undanþágan á aðeins við um búslóð sem var þá þegar í eigu kæranda við flutning lögheimilis til landsins sbr. úrskurð Ríkistollanefndar nr. 2/2012.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun beiðni um undanþágu frá almennum skilyrðum tollfrelsis búslóða, er felld úr gildi.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum