Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2011

Tollflokkun á bifreið af gerðinni Volkswagen Transporter

28.6.2011

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 20. apríl 2011, hefur H kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 25. febrúar 2011, um tollflokkun á bifreiðinni Volkswagen Transporter með fastanúmer N. Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun tollstjóra um að flokka bifreiðina í tollflokkinn 8704.2128 verði endurskoðuð og að bifreiðin verði tollafgreidd samkvæmt q-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og til vara að bifreiðin verði felld undir h-lið 2. mgr. sömu greinar.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 22. febrúar 2011 var bifreiðin N, sem er af gerðinni Volkswagen Transporter, flutt til landsins frá Þýskalandi með sendingu með sendingarnúmerið S ARN 22 02 1 DE CUX W034. Þann 25. febrúar 2011 var lögð inn SMT-aðflutningsskýrsla og bifreiðin flokkuð af innflytjanda í tollflokkinn 8704.2191 sem ökutæki til vöruflutninga (sendibíll). Sama dag endurskoðaði tollsérfræðingur Tollstjóra tollflokkun bifreiðarinnar og gerði athugasemd við skýrsluna. Taldi hann réttara að fella ökutækið undir tollflokk 8704.2128, þar sem um pallbíl væri að ræða. Ákvörðunin var byggð á upplýsingum í gerðarviðurkenningu Umferðarstofu þar sem fram kemur að bifreiðin var flutt inn sem fullbúinn vöruflutningabíll, án lokaðs vöruflutningarýmis, með skráða CO2 losun 219.0 að heildarþyngd 2800 kg. Þann 28. febrúar 2011 barst Tollstjóra tölvupóstur frá kæranda þar sem farið var fram á að bifreiðin yrði tollafgreidd með fyrirvara um að breytingar verði á vörugjaldi. Bifreiðin var tollafgreidd sem bifreið með palli á pappír þann sama dag og 44% vörugjald að upphæð kr. 1.455.953.- lagt á. Ákvörðun um breytingu á tollflokkun var kærð með bréfi dags. 20. apríl 2011. Kærunni fylgdu gögn um gerð bifreiðarinnar, teikningar, tækniupplýsingar, gögn frá framleiðanda ásamt verðreikningi fyrir innkaupapöntuninni.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að bifreiðin hafi verið rangt tollflokkuð með tilliti til gerðar hennar og notkunarmöguleika. Bifreiðin sé þeirrar gerðar að vera aðeins með ökumannshúsi ásamt hreyfli og grind og hafi í pöntunarlista framleiðanda vörunúmerið 7FL135. Sérstaklega þurfi að panta og flytja inn pallinn sem beri vörunúmerið ZP1. Því sé um að ræða viðbætt vöruflutningarými en ekki pallbíl í hefðbundnum skilningi þess orðs. Kærandi fer fram á að bifreiðin verði tollafgreidd í samræmi við q-lið 1. mgr. eða til vara skv. h-lið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 29/1993 með síðari breytingum.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í málinu snýst annars vegar um tollflokkun bifreiðarinnar N og hins vegar um hvort hún uppfylli skilyrði fyrir lækkuðum vörugjöldum.

Kærandi færði bifreiðina í tollflokk 8704.2191 við framvísun SMT-aðflutningsskýrslu en undir þennan tollflokk falla ökutæki til vöruflutninga samkvæmt 2. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 en vörur sem falla þar undir bera 13% vörugjald. Til að sendibifreið geti fallið undir ofangreindan tollflokk þarf að vera um að ræða sendibifreið sem aðallega er ætluð til vöruflutninga undir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, með stýrishús og lokað flutningsrými án farþegasæta, sbr. h-lið 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. tollalaga. Bifreiðin N hefur hins vegar pall til vöruflutninga en ekki stýrishús og lokað flutningsrými. Pallurinn var festur á bifreiðina þegar hún kom til landsins og hún tollafgreidd sem bifreið með palli. Er slíkt í samræmi við gerðarviðurkenningu ökutækisins hjá Umferðarstofu og skráningu byggða á henni en þar er yfirbygging skráð sem BA sem stendur fyrir pallbíl í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins nr. 46/2007 um samræmda skráningu ökutækja og tengivagna þeirra. Tollsérfræðingur embættisins gerði athugasemd við skýrsluna og breytti tollflokkun þannig að bifreiðin var flokkuð undir vörulið 8704.2128. Undir umræddan vörulið falla; „ný ökutæki til vöruflutninga með vörupalli“. Aðaleiginleiki Volkswagen Transporter pallbíla er, eins og nafnið gefur til kynna, flutningur hvers kyns varnings.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005 skulu innflytjendur færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar sem birtar eru í viðauka I við tollalögin. Reglurnar eru birtar fremst í tollskránni en einnig er að finna athugasemdir í byrjun hvers flokks og kafla skrárinnar sem ráða túlkun hverju sinni. Tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi flokka og kafla samkvæmt túlkunarreglu 1. Þá segir í 1. málsl. reglunnar að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða skal jafnframt byggð á orðalagi vöruliða, undirliða og sérhverri tilheyrandi athugasemd við þá í viðeigandi köflum tollskrárinnar skv. túlkunarreglu 6. Íslenska tollskráin er byggð á alþjóðlegri fyrirmynd og hefur Alþjóðatollastofnunin (World Customs Organization (WCO)) gefið út skýringarbækur um túlkun hennar (Explanatory Notes). Miða ber túlkun íslensku tollskrárinnar við samræmda lýsingu vara í þeirri alþjóðlegu. Þau tollskrárnúmer sem hér er um deilt eru byggð á skiptingu samkvæmt samræmdu skránni og því ber að líta til skýringargagna Alþjóðatollastofnunarinnar við túlkun þeirra. Skýringar við vörulið 8704.2128 er að finna í kafla XVII á bls. 8704-1 – 8704-3 og eru þar taldar upp nokkrar gerðir ökutækja sem falla undir þann vörulið. Lýsing á þeim ökutækjum sem falla undir vöruliðinn er svohljóðandi: „The classification of certain motor vehicles in this heading is determined by certain features which indicate that the vehicles are designed for the transport of goods rather than for the transport of persons. These features are especially helpful in determining the classification of motor vehicles, generally vehicles having gross vehicle weight rating of less than 5 tonnes, which have either a separate closed rear area or an open rear platform normally used for the transport of goods…“. Lýsing þessi á ökutækjum sem falla undir vörulið 8704.2128 í tollskrá er einmitt lýsingin á bifreiðinni sem hér er til umfjöllunar. Kemur þessi lýsing jafnframt saman við þær myndir og önnur gögn, til að mynda frá framleiðanda ökutækisins, sem Tollstjóri miðaði tollflokkun sína við.

Meginreglan er sú að greiða skal vörugjald af skráningarskyldum ökutækjum skv. 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Heimild til undanþágu eða lækkunar vörugjalds er m.a. að finna í 4. gr. laganna. Kærandi fer fram á að bifreiðin verði undanþegin vörugjaldi skv. q-lið 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna og til vara að 13 % vörugjald verði lagt á í samræmi við ákvæði h-liðar 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar.

Með lögum nr. 156/2010 um breytingu á lögum nr. 29/1993, 39/1988 og 87/2004, sem tóku gildi þann 1. janúar 2011 voru með 2. gr. laganna gerðar breytingar á 4. gr. laga nr. 29/1993 og þar með skilyrðum fyrir undanþágu eða lækkun vörugjalds. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 156/2010 kemur fram að lagt sé til að ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, njóti ekki sérstaks lægra vörugjalds eins og verið hefur. Áréttað er að pallbílar falli þar undir þar sem ekki þyki tilefni til að meðhöndla þá í skattalegu tilliti á annan hátt en aðra fólksbíla út frá almennum notum þeirra. Þess í stað er lagt til nýtt ákvæði sem kveður á um að sendibifreiðar með sambyggt stýrishús og flutningsrými, án farþegasæta í flutningsrými, sem aðallega eru ætlaðir til nota í atvinnurekstri njóti undanþágu. Frumvarpið og lögin eru þar með skýr að því leiti að pallbílar njóta ekki lengur lækkaðra vörugjalda ólíkt því sem gildir um svokallaðar sendibifreiðar, þ.e.a.s. sendibifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til vöruflutninga, undir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, með sambyggt stýrishús og flutningsrými og án farþegasæta í farmrými, sem áfram njóta lægra vörugjalds. Pallbílar falla ekki undir þessa skilgreiningu, burtséð frá tilgangi til notkunar. Um að ræða fullbúinn pallbíl sem uppfyllir hvorki skilyrði til undanþágu frá vörugjaldsskyldu skv. q-lið 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 29/1993 né skv. h-lið 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar.

Með vísan til framangreinds er því niðurstaða Tollstjóra sú að tollflokkun bifreiðar þeirrar sem um er deilt í þessu máli skuli standa óbreytt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem að framan er rakið, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 25. febrúar 2011, um tollflokkun bifreiðarinnar N sem barst til landsins í sendingu með sendingarnúmer S ARN 22 02 1 DE CUX W034 í tollflokk 8704-2128, skuli standa óröskuð.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum