Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 9/2015

Ákvörðun um álagningu gjalda á innflutningsgjöf

14.8.2015

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um álagningu gjalda á innflutningsgjöf. Um er að ræða matarpotta sem kærandi heldur fram að hafi verið innflutningsgjöf frá móður sinni. Heldur kærandi því fram að um sé að ræða gjöf af sérstöku tilefni og mótmælir þeim háu aðflutningsgjöldum sem lögð voru á sendinguna.

Niðurstaða: Í 32. gr. reglugerðarinnar eru tekin dæmi um hvers konar tækifærisgjafir geti fallið undir undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda og eru þar nefndar jóla- afmælis- eða fermingargjafir. Allar undanþágur frá gjaldskyldu skal túlka þröngt. Í ljósi þess telur Tollstjóri að flutningur í nýtt leiguhúsnæði sé ekki sambærilegt þeim tilefnum sem talin eru upp í áðurgreindu ákvæði. Telur Tollstjóri því að umrædd innflutningsgjöf geti ekki talist til tækifærisgjafar í skilningi 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 9. júní 2015, hefur A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 8. maí 2015 um höfnun beiðni um gjafafríðindi af innflutningsgjöf.

Kærandi mótmælir álagningu aðflutningsgjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 30. apríl 2015 barst hingað til lands frá Póllandi sending nr. X, sem innihélt búsáhöld, nánar tiltekið glerpotta. Kæranda var send tilkynning um sendinguna samdægurs. Þann 8. maí sama ár var ákvörðun tekin hjá embætti Tollstjóra um höfnun gjafafríðinda á þeim grundvelli að gjöfin félli ekki undir gjafaákvæði 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Sendingin var tollafgreidd þann 11. maí. Kæra vegna álagningar aðflutningsgjalda barst embættinu með bréfi dags. 9. júní sl., þar sem kærandi kærir álagningu gjalda að fjárhæð 36.163 kr.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi kveður að sendingin hafi innihaldið gæða matreiðslupotta, þ.e. glerpotta frá Zepter sem hafi verið innflutningsgjöf frá móður kæranda. Telur kærandi að um sé að ræða gjöf af sérstöku tilefni, þar sem hann hafi flutt í nýja leiguíbúð í febrúar sl. Kærandi heldur því fram að með þessu hafi móðir hans verið að styðja sig, þar sem hann hafi flust til landsins á síðasta ári.

Kærandi mótmælir því háa aðflutningsgjaldi sem greiða þurfti fyrir sendinguna, að fjárhæð kr. 36.163.

IV. Niðurstöður

Meginregla tollalaga nr. 88/2005 er sú að almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt tollalögum, sbr. 3. gr. laganna. Undantekningu frá þessari meginreglu er m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Allar undantekningar ber að túlka þröngt og verður því að gera ríkar kröfur um að skilyrðum fyrir undantekningu á almennri tollskyldu séu fyrir hendi.

Gjafir sem sendar eru til landsins eru tollfrjálsar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, það er að segja að um sé að ræða gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 13.500 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 13.500 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti, sbr. 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga.

Í reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi er ofangreint ákvæði tollalaga nánar útfært, sbr. reglugerðarheimild í 2. mgr. 6. gr. tollalaga. Í 32. gr. reglugerðarinnar kemur fram að með gjöfum af sérstöku tilefni skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sem undanþegnar eru aðflutningsgjöldum, sé átt við tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa meðferðis frá útlöndum vegna tilefnis sem tengist einkalífinu, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, enda sé verðmæti þeirra að hámarki kr. 13.500 miðað við smásöluverð á innkaupsstað.

Ágreiningur stendur um hvort umrædd sending innihaldi gjöf sem teljist falla undir skilgreiningu gjafaákvæðis a-liðar 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, eða beri almenna tollskyldu, sbr. 3. gr. laganna. Ljóst er að verðmæti varningsins sem um ræðir er umfram þá fjárhæð sem tilgreind er í ofangreindum ákvæðum um gjafafríðindi, og stendur því ágreiningurinn um hvort varningurinn skuli tollskyldur umfram 13.500 kr. eða skuli með öllu bera gjöld.

Kærandi ber fyrir sig að sendingin innihaldi innflutningsgjöf og skuli því falla undir ofangreinda undanþágu. Í 32. gr. reglugerðarinnar eru tekin dæmi um hvers konar tækifærisgjafir geti fallið undir undanþáguna og eru þar nefndar jóla- afmælis- eða fermingargjafir. Allar undanþágur frá gjaldskyldu skal túlka þröngt. Í ljósi þess telur Tollstjóri að flutningur í nýtt leiguhúsnæði sé ekki sambærilegt þeim tilefnum sem talin eru upp í áðurgreindu ákvæði. Telur Tollstjóri því að umrædd innflutningsgjöf geti ekki talist til tækifærisgjafar í skilningi 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Með vísan til ofangreinds teljast skilyrði til lækkunar aðflutningsgjalda af vöru í sendingu nr. X, ekki fyrir hendi. Ákvörðun um höfnun á veitingu gjafafríðinda er staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun á veitingu gjafafríðinda er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum