2002

Dómur Hæstaréttar Íslands, 18. apríl 2002, í máli nr. 29/2002

18.4.2002

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Bjarna Guðbergi Sigurðssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Stjórnsýsla. Andmælaréttur. Leiðbeiningarskylda stjórnvalds.

B var ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti. Að atvikum málsins virtum þótti ljóst að við meðferð málsins á stjórnsýslustigi hefði B á öllum stigum þess verið gefinn kostur á að tjá sig, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993, með þeirri undantekningu þó að það var ekki gert sérstaklega áður en málinu var vísað til opinberrar meðferðar. Talið var að af ástæðum, sem vörðuðu B, hefði þegar þar var komið ekki annar kostur verið fyrir hendi og var frávísunarkröfu hans því hafnað. Hafði ítrekað verið leitað eftir afstöðu B til framhalds málsins en hann í engu sinnt því. Með því að talið var fullnægt þeim refsiskilyrðum sem leidd yrðu af 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu B. Brot B voru að hluta til framin áður en 262. gr. laga nr. 19/1940 var breytt með lögum nr. 39/1995. Með hliðsjón af verknaðarlýsingu 3. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, voru brot B ekki talin meiri háttar eða sakir hans miklar og honum því ekki gert að sæta fangelsisrefsingu fyrir þau, heldur látið við það sitja að dæma hann til sektargreiðslu.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en ella að hann verði sýknaður. Verði á hvorugt fallist krefst hann þess að refsing verði milduð.

I

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa ekki staðið tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti, sem hann innheimti í sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni á árunum 1994 til 1999 að báðum árum meðtöldum, samtals að fjárhæð 2.728.920 krónur. Er fjárhæðin sundurliðuð milli uppgjörstímabila eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi. Bú ákærða mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 6. janúar 1999 og í kjölfar þess hófu skattyfirvöld rannsókn á virðisaukaskattsskilum hans, sem lauk með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins 17. október 2000. Sendi hann málið til yfirskattanefndar 11. maí 2001 og krafðist þess að nefndin gerði ákærða að greiða sekt vegna brota á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með áorðnum breytingum. Með úrskurði 25. júní sama árs vísaði yfirskattanefnd málinu frá sér þar eð ekki lægi fyrir afstaða ákærða til þess að málið hlyti meðferð fyrir nefndinni. Með bréfi 25. júlí 2001 vísað skattrannsóknarstjóri málinu síðan til ríkislögreglustjóra til opinberrar rannsóknar. Var tekin lögregluskýrsla af ákærða 31. sama mánaðar og gefin út ákæra á hendur honum 7. ágúst 2001, sem þingfest var fyrir héraðsdómi 23. sama mánaðar. Af hálfu ákærða var þess krafist að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, sem var synjað með úrskurði 9. nóvember 2001.

II

Ákærði styður aðalkröfu sína þeim rökum að ekki hafi verið gætt andmælaréttar hans áður en skattyfirvöld tóku ákvörðun um að senda málið lögreglu til opinberrar rannsóknar. Hafi þau áður sent það yfirskattanefnd til meðferðar, en afgreiðsla máls fyrir stjórnvaldi vegna brota á skattalögum sé skattgreiðanda hagfelldari en dómsmeðferð að því leyti að hún fari þá fram fyrir luktum dyrum og leiði ekki til fangelsisvistar takist skattgreiðandanum ekki að inna af hendi þá sekt, sem honum kann að vera gerð. Líta verði því svo á að vísun málsins til yfirskattanefndar hafi verið ívilnandi ákvörðun stjórnvalds og að skilyrði hafi ekki verið fyrir hendi til að afturkalla þá ákvörðun. Stjórnvöld fylgi þeirri meginreglu að nemi ætlaður undandráttur frá skatti lægri fjárhæð en 5.000.000 krónum skuli mál afgreitt af stjórnvöldum og einungis í undantekningartilvikum af dómstólum. Brjóti það gegn jafnræðisákvæði stjórnarskrár að yfirskattanefnd og skattrannsóknarstjóri velji menn með þeim hætti, sem gert hafi verið í tilviki ákærða, til að sæta opinberri málsmeðferð. Af hálfu ákærða er því loks haldið fram að yfirskattanefnd hafi borið að taka mál hans til efnisúrlausnar. Hafi nefndinni verið í lófa lagið að birta honum tilkynningu um málið með stefnuvotti, en jafnvel án slíks aðdraganda hefði nefndinni verið skylt að afgreiða málið þótt afstaða hans lægi ekki fyrir.

Meðal málsgagna er ábyrgðarbréf skattrannsóknarstjóra til ákærða 25. október 2000, þar sem honum var tikynnt um lok skattrannsóknar. Var þar jafnframt vísað til þess að ákærða hafi tvívegis áður verið gefinn kostur á að andmæla niðurstöðum, sem komist hafði verið að, en engin viðbrögð orðið við því. Sé því endanleg skýrsla, dagsett 17. október 2000, efnislega samhljóða fyrri drögum og fylgdi eintak hennar bréfinu. Í því sagði síðan að ákærði kynni að hafa bakað sér refsiábyrgð vegna brota á lögum um virðisaukaskatt og lægi fyrir að taka ákvörðun um refsimeðferð málsins. Áður en ákvörðun um það yrði tekin gæfist ákærða kostur á að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð, en í því fælist að hann gæti óskað eftir að ekki yrði aðhafst frekar í málinu, það sent yfirskattanefnd til úrlausnar eða því vísað til opinberrar rannsóknar. Bent var á að úrskurðir yfirskattanefndar væru fullnaðarúrskurðir um sektarfjárhæðir. Í bréfinu var loks vísað til 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds og ákærða bent á að kynna sér meðfylgjandi skýringablað skattrannsóknarstjóra um refsimeðferð vegna skattsvika. Er þar meðal annars tekið fram að það sé hinn síðastnefndi, sem ákveði hvort máli verði vísað til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd eða opinberar rannsóknar hjá lögreglu og refsimeðferðar fyrir dómstólum. Þar kemur einnig fram að vararefsing í formi fangelsis fylgi ekki sektarúrskurðum yfirskattanefndar.

Engin svör bárust frá ákærða við þessu bréfi. Vísaði skattrannsóknarstjóri málinu síðan til yfirskattanefndar 11. maí 2001, svo sem áður er getið, og tilkynnti ákærða jafnframt um það sama dag. Með ábyrgðarbréfi nefndarinnar til ákærða 16. sama mánaðar var honum gefinn kostur á að skila vörn í tilefni af kröfu skattrannsóknarstjóra um að honum yrði gert að greiða sekt. Bréfið var endursent með því að þess var ekki vitjað. Var þá reynt að ná fram birtingu tilkynningarinnar eftir ákvæðum b. liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en án árangurs. Í frávísunarúrskurði yfirskattanefndar 25. júní 2001 var meðal annars tekið fram að máli verði ekki vísað til sektarmeðferðar fyrir nefndinni nema það hafi áður verið borið undir gjaldanda og hann gefið til kynna á sannanlegan hátt að hann mælti því ekki í gegn að málið hlyti slíka meðferð.

Að virtu því, sem að framan er rakið, er ljóst að við meðferð málsins á stjórnsýslustigi var ákærða á öllum stigum þess gefinn kostur á að tjá sig, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, með þeirri undantekningu þó að það var ekki gert sérstaklega áður en skattrannsóknarstjóri sendi málið ríkislögreglustjóra 25. júlí 2001. Á því stigi hafði yfirskattanefnd vísað málinu frá sér vegna tómlætis ákærða um að láta uppi afstöðu sína, en skattrannsóknarstjóri hafði áður reynt árangurslaust að fá hann til að láta í ljós vilja sinn um það í hvaða farveg málinu skyldi beint og gætt leiðbeiningarskyldu sinnar. Af ástæðum, sem vörðuðu ákærða, var þegar þar var komið ekki annar kostur fyrir hendi en að vísa málinu til opinberrar meðferðar, svo sem gert var. Að virtu því, sem að framan er rakið, verður ekki fallist á með ákærða að þeir annmarkar hafi orðið á meðferð málsins á stjórnsýslustigi að taka beri kröfu hans um vísun þess frá héraðsdómi til greina.

III

 Varðandi varakröfu sína um sýknu vísar ákærði til þess að ákæra í málinu sé reist á kröfu innheimtumanns ríkissjóðs. Sú krafa hafi hins vegar ekki verið ákveðin af skattyfirvöldum, heldur bendi allt til að lögregla hafi gert það. Í því sambandi vekur hann athygli á að skattrannsóknarstjóri hafi sent málið til ríkisskattstjóra 25. október 2000, sem hafi lýst yfir í bréfi 31. sama mánaðar að hann hygðist ekki nýta sér heimild til að endurákveða skatt samkvæmt 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988. Telur ákærði að engin skattkrafa, sem ákveðin hafi verið með lögmætum hætti, standi því að baki ákæru í málinu.

Fram er komið að ákærði skilaði virðisaukaskattsskýrslu fyrir mörg greiðslutímabil á þeim árum, sem ákæra tekur til. Fyrir tilstuðlan endurskoðanda hans afhenti ákærði síðar leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts, er tóku til allra þeirra uppgjörstímabila, sem í ákæru greinir, annarra en tímabila ársins 1998, en fyrir það ár skilaði hann skattframtali. Tekur heildarfjárhæð virðisaukaskatts, sem hann er í ákæru talinn hafa látið undir höfuð leggjast að skila, mið af innsendum  leiðréttingarskýrslum og framtölum ákærða, en af hálfu ákæruvalds er lýst yfir að ekkert hafi komið fram við skattrannsókn, sem bendi til að skýrslurnar væru rangar, og því engin ástæða til þess fyrir ríkisskattstjóra að endurákveða skattinn.

Varðandi þessa málsvörn ákærða er að öðru leyti til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með áorðnum breytingum er lýst refsivert að skattskyldur aðili afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatt, sem hann hefur innheimt eða bar að innheimta. Eftir þessu verður unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma. Fjárhæð skattsins, sem ákærði er sakaður um að hafa ekki skilað, var þannig í gjalddaga lögum samkvæmt á tilteknum degi að loknu hverju uppgjörstímabili og þurfti ekki sjálfstæð álagning skattyfirvalda til að koma að auki svo greiðsluskylda félli á ákærða. Telst hér fullnægt þeim refsiskilyrðum, sem leidd verða af nefndu lagaákvæði. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður sakfelling ákærða staðfest, sem og heimfærsla brota hans til refsiákvæða.

IV

Brot ákærða voru að hluta framin áður en 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var breytt með lögum nr. 39/1995, sem tóku gildi 1. júlí 1995. Fjárhæð virðisaukaskatts, sem gjaldféll eftir þann tíma, nam 2.170.993 krónum. Þegar höfð er hliðsjón af verknaðarlýsingu 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, verða brot ákærða ekki talin meiri háttar eða sakir hans miklar. Verður honum því ekki gert að sæta fangelsisrefsingu fyrir þau.

Fjárhæð þess skatts, sem féll í gjalddaga eftir gildistöku laga nr. 42/1995 um breyting á refsiákvæðum nokkurra skattalaga, nam 2.231.297 krónum, en 497.623 krónur gjaldféllu fyrir það tímamark. Að þessu virtu verður ákærða gert að greiða sekt í ríkissjóð, sem telst hæfilega ákveðin 4.700.000 krónur. Komi fangelsi í þrjá mánuði í hennar stað verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð

Ákærði, Bjarni Guðbergur Sigurðsson, greiði 4.700.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum