Dómur Hæstaréttar, 25. mars 2021 í máli nr. 29/2020
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
GEGN
Júlíusi Vífli Ingvarssyni (Hörður Felix Harðarson lögmaður)
LYKILORÐ
- Peningaþvætti
- Sjálfsþvætti
- Fyrning
- Afturvirkni laga
- Sératkvæði
REIFUN
J var ákærður fyrir peningaþvætti samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á árunum 2010 til 2014 geymt ávinning af skattalagabrotum inni á erlendum bankareikningi í sínu nafni og ráðstafað þeim fjármunum á árinu 2014 inn á annan erlendan bankareikning sem var í eigu vörslusjóðs sem skráður var í Panama og J var rétthafi að. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í málinu væru uppfylltar þær kröfur um sönnun frumbrots og ávinnings sem væru gerðar í peningaþvættismálum. Óumdeilt var að skattalagabrot J voru fyrnd og að ávinningur brotanna féll til fyrir þann tíma er sjálfsþvætti var gert refsivert með lögum nr. 149/2009. Í dóminum var rakið að sú háttsemi J sem lýst væri í ákæru hefði staðið yfir þegar sjálfsþvætti var gert refsivert 1. janúar 2010 og þar til J ráðstafaði ávinningnum inn á annan bankareikning 2014. Kæmi því ekki til álita að 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, um bann við afturvirkri beitingu refsilaga, kæmi í veg fyrir að verknaður J teldist refsiverður. Með vísan til forsögu 264. gr. almennra hegningarlaga, tilgangs ákvæðisins og þeirra hagsmuna sem því væri ætlað að vernda var talið að brot gegn því sem fælu í sér ástandsbrot fyrndust ekki fyrr en ástandinu lyki, sbr. 1. mgr. 82. gr. laganna. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu J var því staðfest. Refsing J var ákveðin fangelsi í sex mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
3. Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Ágreiningsefni
4. Með ákæru héraðssaksóknara 28. júní 2018 var ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa árin 2010 til 2014 geymt á tilgreindum reikningi sínum hjá bankanum UBS á Ermarsundseyjunni Jersey andvirði 131 til 146 milljóna króna, í bandaríkjadölum, evrum og sterlingspundum, sem að hluta voru ávinningur refsiverðra brota, þar sem um var að ræða tekjur sem ákærða höfðu hlotnast nokkrum árum fyrr, en ekki talið fram til skatts og því ekki greitt tekjuskatt og útsvar af þeim í samræmi við ákvæði skattalaga, ásamt vöxtum af því fé. Jafnframt var ákærða gefið að sök að hafa árið 2014 ráðstafað umræddum fjármunum af reikningnum í UBS inn á tilgreindan reikning í bankanum Julius Bär í Sviss, sem tilheyrði vörslusjóðnum Silwood Foundation, en rétthafar þess sjóðs voru ákærði, eiginkona hans og börn. Loks segir í verknaðarlýsingu ákærunnar að fjárhæð hins ólögmæta ávinnings hafi verið á bilinu 49 til 57 milljónir króna. Þetta var talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
5. Ákærði var sakfelldur í samræmi við ákæru með héraðsdómi 18. desember 2018 og refsing hans ákveðin fangelsi í tíu mánuði skilorðsbundið til tveggja ára. Með dómi Landsréttar 8. maí 2020 var sú niðurstaða staðfest bæði um sakfellingu og refsingu.
6. Með ákvörðun Hæstaréttar 27. júlí 2020 var veitt leyfi til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að líta yrði svo á að úrlausn um meðal annars beitingu 1. og 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Málsatvik
7. Með bréfi 29. apríl 2016 tilkynnti Skattrannsóknarstjóri ríkisins ákærða að hafin væri rannsókn á skattskilum hans vegna tekjuáranna 2010 til og með 2015. Að undangenginni gagnaöflun og skýrslutökum lauk skattrannsóknarstjóri rannsókn sinni með skýrslu 29. desember sama ár.
8. Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra leiddi rannsókn á bankareikningum í eigu ákærða í útibúum banka á Ermarsundseyjunni Jersey í ljós að fjármunir þeir sem ákæra lýtur að hafi orðið til í tengslum við starfsemi bílaumboðsins Ingvars Helgasonar hf.
9. Undir rannsókn málsins afhenti ákærði bréf 20. maí 2016 ásamt fylgigögnum sem svar við fyrrgreindri tilkynningu skattrannsóknarstjóra 29. apríl sama ár. Með bréfinu fylgdi yfirlit yfir bankareikning ákærða hjá UBS á Jersey frá stofnun og þar til honum var lokað árið 2014 þegar fjármunirnir voru fluttir á bankareikning Silwood Foundation hjá Julius Bär í Sviss. Þá fylgdi bréfinu afrit af beiðni til ríkisskattstjóra 1. apríl 2016 um leiðréttingu á útreikningi auðlegðarskatts.
10. Við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra hafði ákærði réttarstöðu sakbornings. Hann gaf skýrslu hjá embættinu 6. september 2016 og staðfesti að hafa átt fjármuni á bankareikningi hjá UBS á eyjunni Jersey. Bankareikningurinn hefði verið stofnaður árið 2005 og verið „dormant account”. Ákærði sagðist hafa eignast þessa fjármuni fyrir árið 2005 en þeir hefðu komið til vegna samninga, þóknana og viðskipta sem hann hefði átt þátt í þegar hann gegndi starfi framkvæmdastjóra og var hluthafi í Ingvari Helgasyni hf. Ákærði kvaðst ekki geta lagt fram gögn um hvernig hann hefði eignast fjármunina. Þá greindi hann frá því að ekki hefðu verið greiddir skattar af þeim en tók fram að greiddur yrði tekjuskattur af fjármununum þegar greitt yrði úr vörslusjóðnum.
11. Ákærði gaf aftur skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra 24. nóvember 2016. Þá voru lagðar fyrir hann þrjár millifærslukvittanir sem aflað var hjá skattyfirvöldum á Jersey. Sú fyrsta, 5. október 2005, sýnir færslu að fjárhæð 57.247,42 bresk pund inn á bankareikning ákærða í UBS. Fram kemur að millifært var af reikningi í eigu „Ingvar Helgason ... Sigríður G. Helgason ... Helgi Ingvarsson ... Guðmundur Ágúst Ingvarsson ... Júlíus Ingvarsson”. Næsta millifærslukvittun, 18. nóvember 2005, sýnir færslu að fjárhæð 162.526,91 bandaríkjadal inn á bankareikning ákærða í UBS af reikningi í eigu „Helgason I+S +Ingvarsson´s”. Sú þriðja, 21. nóvember 2005, sýnir færslu að fjárhæð 312.654,78 evrur sem kom af reikningi í eigu „Helgason I+S + Ingvarsson´s”. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að fyrsta millifærslan hafi komið af reikningi í SG Hambros á Jersey en hinar tvær af reikningum hjá Standard Chartered á Jersey. Við fyrrnefnda skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra sagði ákærði að þessir fjármunir hefðu orðið til í viðskiptum Ingvars Helgasonar hf. Hann kvað samkomulag hafa verið milli sín, bræðra sinna og foreldra um að gera þetta með þessum hætti en ekki hefðu verið greiddir skattar af þessum fjármunum.
12. Í sömu skýrslutöku var lögð fyrir ákærða millifærslukvittun sem aflað var hjá skattyfirvöldum á Jersey þar sem fram kom að lagðar voru 301.338,29 evrur inn á reikning ákærða í UBS á Jersey 16. apríl 2010. Fram kom á kvittuninni að greiðslan væri frá Standard Chartered og væri gerð að beiðni „J V Ingvarsson”. Ákærði óskaði þá eftir að fá að skýra þetta síðar. Með tölvupósti 14. desember 2016 lagði ákærði fram yfirlit yfir reikning hjá Standard Chartered ásamt bréfi þar sem fram kom að reikningurinn hefði verið stofnaður í mars 2004 í nafni ákærða og eiginkonu hans. Við stofnun hans voru lagðar inn 290.000 evrur og var fjárhæðin ekki hreyfð fyrr en honum var lokað í apríl 2010 en þá var fjárhæðin ásamt vöxtum lögð inn á bankareikning ákærða hjá UBS.
13. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra 29. desember 2016 kemur fram að allir þessir fjármunir hafi verið geymdir á erlendum bankareikningum í þeim tilgangi, að því er virtist, að komast hjá skattlagningu þeirra. Niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra voru að ákærði hefði staðið skil á efnislega röngum skattframtölum og að auðlegðarskattstofn væri vantalinn vegna innstæðna á erlendum bankareikningum.
14. Með bréfi 5. janúar 2017 vísaði skattrannsóknarstjóri máli ákærða til héraðssaksóknara. Þar kom fram að málið væri sent til lögreglurannsóknar á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn á skattskilum ákærða. Hann hefði ekki gert skattyfirvöldum grein fyrir umræddum fjármunum, hvorki er hann fékk þá í hendur með yfirfærslu yfir á bankareikninga í hans eigu né gert grein fyrir erlendum innstæðum sínum vegna þeirra á skattframtölum. Ákærða hefði borið að gera skattyfirvöldum grein fyrir fjármununum þegar hann fékk þá í hendur og greiða af þeim skatt í samræmi við skattalög. Kynni háttsemi ákærða að varða við 1. og 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði mætti til skýrslutöku hjá héraðssaksóknara 11. september 2017 og var honum meðal annars gefið að sök peningaþvætti. Hann neitaði að tjá sig um sakargiftir en lagði fram yfirlýsingu um afstöðu sína til þeirra og rannsóknar málsins. Að lokinni rannsókn héraðssaksóknara var mál þetta höfðað með fyrrgreindri ákæru 28. júní 2018.
Niðurstaða
Löggjöf og þróun hennar
15. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í 2. mgr. að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og ákvæði 77. gr. laganna gildi þá eftir því sem við eigi.
16. Refsiákvæði gegn peningaþvætti komu inn í íslenska löggjöf með lögum nr. 80/1993 um aðgerðir gegn peningaþvætti. Samkvæmt 2. gr. laganna lutu þau að skyldu fjármálastofnana til að taka ekki þátt í að varðveita, yfirfæra eða hagnýta eign eða breyta henni úr einu eignarformi í annað þegar vitneskja eða rökstuddur grunur væri til staðar um að rekja mætti uppruna eignar til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni. Samhliða var með 1. gr. laga nr. 39/1993, um breyting á almennum hegningarlögum, lögfest ákvæði 173. gr. b þess efnis að hver sem tæki við eða aflaði sér eða öðrum ávinnings af fíkniefnalagabroti samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga skyldi sæta fangelsi allt að 10 árum. Sömu refsingu skyldi sá sæta sem geymdi eða flytti slíkan ávinning, aðstoðaði við afhendingu hans eða stuðlaði á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíku broti. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 39/1993 kom fram að fyrri hluta þess hafi verið ætlað að ná beint til þeirra sem stæðu að fíkniefnaviðskiptum, þar sem unnt væri að sanna að þeir hefðu tekið á móti peningum eða öðrum ávinningi af viðskiptunum. Með því að refsing væri ekki einungis lögð við því að taka við eða útvega sér ávinning af fíkniefnabroti heldur einnig útvega öðrum slíkan ávinning væri stefnt að því að viðkomandi gæti ekki losnað undan refsiábyrgð með því að afhenda maka sínum eða öðrum fjármunina. Síðari hluti greinarinnar hafði það að markmiði að takmarka fíkniefnaviðskipti með því að leggja refsingu við hinum ýmsu aðferðum sem unnt væri að viðhafa til að aðstoða aðra við undanskot ávinnings. Með 1. gr. laga nr. 49/1993 kom sams konar viðbót inn í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þetta var gert til innleiðingar á tilskipun ráðs Evrópubandalagsins 10. júní 1991 nr. 91/308/EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið væri notað til peningaþvættis.
17. Með 1. gr. laga nr. 39/1995 um breyting á almennum hegningarlögum voru færð inn í 262. gr. ákvæði er mæltu fyrir um allt að sex ára fangelsisrefsingu við meiri háttar skattsvika- og bókhaldsbrotum sem unnin væru af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi.
18. Með lögum nr. 10/1997, um breyting á almennum hegningarlögum o.fl., voru gerðar umtalsverðar breytingar á refsiákvæðum um peningaþvætti. Með 4. gr. laganna kom nýtt ákvæði um peningaþvætti inn í 264. gr. laganna. Samkvæmt því varð þvætti ávinnings af brotum á almennum hegningarlögum gert að sjálfstæðu refsiverðu broti án tillits til þess um hvaða brotategund samkvæmt þeim lögum var að ræða. Lagabreytingin var liður í að fullgilda tvo alþjóðasamninga á sviði refsiréttar, annars vegar samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólögmætri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988 og hins vegar samning um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990 sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins. Eftir breytinguna var í 264. gr. mælt fyrir um að hver sem tæki við eða aflaði sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt almennum hegningarlögum skyldi sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum. Sömu refsingu skyldi sá sæta sem geymdi eða flytti slíkan ávinning, aðstoðaði við afhendingu hans eða stuðlaði á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Væri brot ítrekað eða stórfellt gat refsing orðið varðhald eða fangelsi allt að fjórum árum. Við lögfestingu 264. gr. var 173. gr. b almennra hegningarlaga felld brott þar sem verknaðarlýsing þeirrar greinar rúmaðist innan hins nýja ákvæðis. Hins vegar þótti ekki rétt að lækka refsihámark fyrir þvætti ávinnings af fíkniefnabrotum frá því sem þá var og var því sérregla sett í þágildandi 2. mgr. 264. gr. þar sem hámarksrefsing fyrir þau brot var áfram 10 ár. Með lögum nr. 10/1997 var jafnframt bætt ákvæðum inn í fern sérrefsilög, það er áfengis-, lyfja- og tollalög og lög um ávana- og fíkniefni, þess efnis að meðferð ávinnings af brotum á þeim lögum væri refsiverð eftir því sem segði í 264. gr. almennra hegningarlaga.
19. Í athugasemdum við fyrrgreinda 4. gr. laga nr. 10/1997 kemur fram að með ákvæðinu væri komið til móts við 1. mgr. 6. gr. fyrrgreinds samnings um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum og næði skilgreining þess á þvætti til allra atriða sem talin væru upp í samningnum vegna orðanna „stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti”. Ákvæðið gerði, á samsvarandi hátt og 173. gr. b áður, ekki aðeins skýrlega refsiverða þá háttsemi að njóta ávinnings af broti sem annar hefur framið, heldur einnig þá háttsemi að aðstoða mann við að koma undan ávinningi, án skilyrðis um að viðkomandi hefði nokkurn ábata af slíkri aðstoð. Þá var áréttað að sérreglur um aðstoð við að koma undan ávinningi af auðgunarbrotum, sbr. 254. gr. og 263. gr. almennra hegningarlaga, stæðu áfram óbreyttar.
20. Með 2. gr. laga nr. 38/1999 um breytingu á lögum nr. 80/1993 var hugtakið peningaþvætti í þeim lögum skilgreint til samræmis við þær breytingar sem leiddu af lögum nr. 10/1997. Við gildistöku laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka voru lög nr. 80/1993 felld úr gildi. Um sama efni gilda nú lög nr. 140/2018. Samkvæmt skilgreiningu laganna, og áður laga nr. 64/2006, er um peningaþvætti að ræða þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við ávinningi, nýtir ávinning eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum; einnig þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum. Með lögunum var innleidd tilskipun Evrópusambandsins 20. maí 2015, nr. 2015/849/EB, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka.
21. Með lögum nr. 32/2001 um breytingu á almennum hegningarlögum var hámarksrefsing vegna brota gegn 173. gr. a hækkuð í 12 ár og var refsimörkum 264. gr. vegna þvættis ávinnings vegna slíks fíkniefnalagabrots breytt til samræmis við það.
22. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 149/2009, sem tóku gildi 1. janúar 2010 og breyttu 264. gr. almennra hegningarlaga í núverandi horf, segir að við breytingar á ákvæðinu sé horft til 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi frá 15. nóvember 2000, svonefnds Palermo-samnings, og athugasemda í skýrslu FATF (Financial Action Task Force) um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi frá 13. október 2006. Með breytingunni sé gildissvið peningaþvættisbrotsins samkvæmt 1. mgr. 264. gr. rýmkað þannig að það taki ekki einungis til frumbrota á almennum hegningarlögum, heldur einnig til refsiverðra frumbrota á öðrum lögum sem fullnægi að öðru leyti hlutrænum og huglægum efnisskilyrðum ákvæðisins. Jafnframt væri markmið lagabreytingarinnar að gera ákvæðið skýrara með því að orða í lokamálslið 1. mgr. greinarinnar sérstaklega þær verknaðaraðferðir sem slíkt brot tæki til, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 6. gr. Palermo-samningsins. Við túlkun einstakra verknaðarþátta yrði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti væri í megindráttum hver sú starfsemi sem lyti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem væri ávinningur af brotastarfsemi. Meginmarkmiðið væri að gera háttsemina refsiverða og höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kynni að leiða.
23. Þá var með fyrrgreindum lögum nr. 149/2009 lögfest ákvæði um sjálfsþvætti í 2. mgr. 264. gr. sem felur í sér að sá sem framið hefur frumbrot, og fremur jafnframt peningaþvættisbrot samkvæmt 1. mgr., skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu að með málsgreininni sé horft til athugasemda í skýrslu FATF-nefndarinnar um að óljóst væri hvort gildandi lagareglur tækju til sjálfsþvættis. Þá segir enn fremur að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafi verði þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. Í athugasemdunum er tekið fram að hvað varði mat á því hvort nægilega sé sýnt fram á að ávinningur stafi af frumbroti raski þær breytingar sem lagðar séu til í frumvarpinu í engu þeirri túlkun á 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem lögð hafi verið til grundvallar í dómi Hæstaréttar 8. nóvember 2001 í máli nr. 200/2001. Með rýmkun á gildissviði ákvæðisins skuli sömu sjónarmið lögð til grundvallar þegar metið sé hvort ávinningur stafi af broti samkvæmt öðrum refsilögum en almennum hegningarlögum.
Frumbrotið
24. Ákærði byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ætluð brot hans gegn skattalögum, sem myndað hafi hinn ólögmæta ávinning sem í ákæru greini, sé órannsökuð og ósönnuð. Ákærði mótmælir þeirri afstöðu ákæruvaldsins að á honum hvíli að sanna hver hafi verið uppruni fjármunanna og að ekki hafi verið um skattskyldar tekjur að ræða. Hann hefur haldið því fram að vegna þess hversu langt sé um liðið frá ætluðu skattalagabroti sé engin leið að staðreyna hver uppruni fjármunanna hafi verið og ef um tekjur hafi verið að ræða sé ekki nokkur leið að staðreyna í hvaða löndum tekjumyndunin hafi verið, hvort um hafi verið að ræða fjármagnstekjur eða launatekjur og hvort horfa þurfi til tvísköttunarsamninga í þeim efnum.
25. Hinn ólögmæti ávinningur var, eins og í ákæru greinir, talinn hafa numið milli 49 og 57 milljónum króna. Í dómi Landsréttar er rakið að við munnlegan flutning málsins hafi verið upplýst af hálfu ákæruvaldsins að fjárhæð hins ólögmæta ávinnings væri fengin með því að reikna samtals 38% tekjuskatt og útsvar á fjárhæðir þær sem verið hefðu á reikningum ákærða og í ákæru greindi, á tímabilinu 2010 til 2014, en sú prósenta væri lægsta hlutfall tekjuskatts og útsvars á þessu tímabili. Enn fremur væri ljóst að fjármunirnir sem ákærði fékk inn á reikning sinn væru tekjur sem honum hefði borið að greiða af tekjuskatt og útsvar.
26. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi liggur fyrir að á því árabili sem ákæra tekur til voru fjármunir í bandaríkjadölum, evrum og sterlingspundum, að andvirði 131 til 146 milljóna króna, á bankareikningi í eigu ákærða í UBS á Jersey. Ákærði færði fjármunina árið 2014 á bankareikning í Sviss í eigu vörslusjóðsins Silwood Foundation með lögheimili í Panama sem ákærði var rétthafi að. Ákærði bar fyrir héraðsdómi að umræddir fjármunir væru þóknunargreiðslur og umboðslaun sem samið hefði verið um við erlenda viðskiptamenn Ingvars Helgasonar hf. en þar hefði hann hafið störf árið 1982. Greiðslurnar hefðu lagst af um 10 árum síðar. Um þessar greiðslur vísaði hann til skýrslu sinnar við rannsókn skattrannsóknarstjóra á ætluðum skattalagabrotum sínum. Í þeim skýrslum kom meðal annars fram að um hefði verið að ræða þóknanir og umboðslaun sem runnið hefðu inn á sameiginlega reikninga ákærða, foreldra hans og tveggja bræðra. Samkomulag hefði verið um skiptingu fjármunanna en eftir andlát föður síns og eins bróður hefði hlut ákærða verið ráðstafað inn á reikninga í eigu ákærða árið 2005. Ákærði bar jafnframt fyrir héraðsdómi að hann hefði búið á Íslandi frá árinu 1982 en ekki talið umræddar þóknanir og umboðslaun fram til skatts. Hann kvaðst hins vegar ekki geta fullyrt um hver skattskyldan hefði verið.
27. Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi bar ákærði fyrir héraðsdómi að þær innstæður sem voru á umræddum reikningum á hans nafni á tímabilinu 2010 til 2014, og hann síðan ráðstafaði inn á bankareikning sjóðs sem hann var rétthafi að, hafi verið hans hluti af tekjum í formi þóknana og umboðslauna á árunum 1982 til 1992 frá erlendum viðskiptamönnum félags sem hann starfaði hjá. Ákærði hefur viðurkennt að hann hafi verið búsettur hér á landi frá árinu 1982 en ekki talið umræddar tekjur fram til skatts hér á landi. Hann hefur ekki borið því við að hafa greitt skatt af þessum tekjum annars staðar en hér á landi.
28. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sem vísað er til í 2. mgr. greinarinnar sem tekur til sjálfsþvættis, er áskilið að um ávinning sé að ræða af broti samkvæmt þeim lögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 og þegar litið er til eðlis og tilgangs ákvæðanna verður hins vegar ekki gerð sú krafa að fyrir liggi hvaða brot sé nákvæmlega um að ræða. Verður að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt sé nægilega fram á að ávinningur stafi af refsiverðri háttsemi.
29. Fallist er á með Landsrétti að með vísan til framburðar ákærða og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu sé hafið yfir vafa að á umræddum reikningum hafi verið fjármunir sem voru að stofni til skattskyldar tekjur ákærða og að hluti þeirra hafi verið ávinningur af skattalagabrotum hans. Þótt einhver hluti þessara fjármuna hafi verið til kominn vegna vaxtatekna og gengishagnaður eru, með vísan til framburðar ákærða og þeirra sjónarmiða sem ákæruvaldið hefur teflt fram um áætlaðan ávinning ákærða, uppfylltar þær kröfur um sönnun frumbrots og ávinnings hans af því sem samkvæmt framansögðu eru gerðar í peningaþvættismálum.
30. Með vísan til alls framangreinds er ekki fallist á að rannsókn af hálfu skattyfirvalda eða ákæruvalds á skattalagabrotum ákærða sé svo áfátt að sýkna beri hann af þeim sökum. Samkvæmt því er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að hafið sé yfir vafa að sá hluti fjármunanna sem ákæra tekur til hafi verið ólögmætur ávinningur af skattalagabrotum hans.
Heimfærsla til refsiákvæða, afturvirk beiting refsilaga og fyrning sakar
31. Ákærði hefur viðurkennt að hafa geymt umrædda fjármuni sína á reikningi sínum í UBS á Ermarsundseyjunni Jersey á árunum 2010 til 2014 og jafnframt þá ráðstöfun fjárins að hafa lagt það á árinu 2014 inn á bankareikning í Julius Bär í Sviss í nafni vörslusjóðs sem skráður er í Panama og hann er rétthafi að. Hann hefur hins vegar neitað að hafa gerst sekur um peningaþvætti.
32. Af hálfu ákærða er annars vegar byggt á því að ætlað brot hans gegn 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sé fyrnt og hins vegar á því að bann 1. mgr. 2. gr. laganna við afturvirkri beitingu refsilaga og grundvallarreglur stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu komi í veg fyrir sakfellingu þar sem sjálfsþvætti hafi ekki verið refsivert fyrr en lög nr. 149/2009 tóku gildi 1. janúar 2010. Óumdeilt er að þeir fjármunir sem um ræðir hafi verið komnir í eigu og vörslu ákærða í síðasta lagi árið 2005.
33. Í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga segir meðal annars að hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur skuli dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Aldrei megi þó dæma refsingu nema heimild hafi verið til þess í lögum þegar verk var framið og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum. Sama leiðir einnig af 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
34. Um upphaf fyrningarfrests sakar er meðal annars fjallað í 1. og 2. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. málslið 1. mgr. kemur fram sú meginregla að fyrningarfrestur teljist frá þeim degi er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Í 2. mgr. segir hins vegar að ef refsinæmi er háð því að nokkru leyti eða öllu að háttsemi hafi í för með sér tiltekna afleiðingu hefjist fyrningarfrestur ekki fyrr en afleiðing þessi kemur fram. Hinu sama gegni að sínu leyti ef refsinæmi er háð því að tiltekið atvik beri að höndum eftir að háttsemi er uppi höfð og tekur sök þá ekki að fyrnast fyrr en atvik þetta hefur gerst.
35. Niðurstaða um það hvort fallist verður á umræddar varnir ákærða um fyrningu sakar og bann við afturvirkni refsilaga ræðst fyrst og fremst af því hvenær sú háttsemi ákærða sem lýst er í ákæru og þar er talin fela í sér brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga telst hafa staðið yfir og hvenær henni telst hafa lokið.
36. Í 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er aðeins vísað til þess að sá sem framið hafi frumbrot og jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Um verknaðarlýsingu er þannig vísað til 1. mgr. sem kveður á um að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum.
37. Ákvæði 1. mgr. 264. gr. felur í sér samsetta brotalýsingu en í refsirétti eru slíkar brotalýsingar taldar til rýmkaðra brota. Í ákvæðinu er annars vegar lýst ólögmætu ástandi beinlínis, það er verknaðarþáttunum að nýta, geyma og leyna sem fela í sér nokkurn varanleika, og hins vegar afmarkaðri verknaðarþáttum sem standa stutt yfir, svo sem að taka við, afla sér, umbreyta, flytja eða senda. Ákvæðið er þannig upptalning á verknaðarþáttum sem hver um sig gæti verið sjálfstætt peningaþvættisbrot en jafnframt verður að líta svo á að það lýsi háttsemi þar sem einn verknaðarþáttur getur tekið við af öðrum og myndað brotaheild sem virða beri sem eitt brot.
38. Í ákæru er annars vegar lýst þeirri háttsemi ákærða að geyma ávinning skattalagabrota á tilteknum bankareikningi sínum í banka á Ermarsundseyjunni Jersey frá árinu 2010 til ársins 2014. Þessi lýsing á háttsemi, sem staðið hefur yfir á tilgreindu árabili, felur í sér lýsingu á ástandsbroti sem svarar til verknaðarlýsingar í 1. mgr. 264. gr. og felur samkvæmt eðli og tilgangi ákvæðisins í sér refsivert sjálfsþvætti. Samkvæmt ákæru ráðstafaði ákærði árið 2014 fjármununum af umræddum bankareikningi inn á annan reikning hjá Julius Bär í Sviss, sem tilheyrði vörslusjóðnum Silwood Foundation en rétthafar vörslusjóðsins voru ákærði, eiginkona hans og börn. Ákærði lét þessara fjármuna ekki getið í skattframtali sínu. Hann leyndi ávinningnum enn frekar með því að færa hann á milli erlendra bankareikninga í ríkjum sem hafa ríka bankaleynd og inn í sjóð skráðan í Panama þangað sem afar litlar líkur voru á að ávinningurinn yrði rakinn. Þannig er í ákæru lýst ráðstöfun sem fól í sér að ávinningi var umbreytt og uppruna hans, eðli og staðsetningu leynt og fellur að verknaðarlýsingu 1. mgr. 264. gr.
39. Samkvæmt framansögðu var sú háttsemi sem lýst er í ákæru brotaheild sem stóð yfir frá þeim tíma sem sjálfsþvætti var gert refsivert 1. janúar 2010 með lögum nr. 149/2010 og þar til ákærði ráðstafaði á árinu 2014 ávinningi skattalagabrotanna inn á bankareikning í Sviss á nafni vörslusjóðs sem hann var rétthafi að. Fyrir liggur að ákærði geymdi þennan sama ávinning á reikningum sínum fyrir árið 2010 og að sú háttsemi var ekki refsiverð á þeim tíma. Ákærða er hins vegar í máli þessu aðeins gefið að sök að hafa geymt og síðar ráðstafað ávinningnum eftir að sjálfsþvætti var gert refsivert. Með vísan til þess að það refsiverða ástand sem lýst er í refsiákvæðinu var til staðar við gildistöku laganna og sú brotaheild sem ákærða er gefin að sök stóð enn yfir á árinu 2014 telst sá verknaður sem lýst er í ákæru hafa verið framinn eftir að sjálfsþvætti var gert refsivert 1. janúar 2010. Ekki kemur því til álita að 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar komi í veg fyrir að verknaður ákærða teljist refsiverður.
40. Ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga mælir sem fyrr segir fyrir um að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og skuli ákvæði 77. gr. laganna þá gilda eftir því sem við á. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi að framangreindum lögum nr. 149/2009 er áréttað að frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti sem af því stafi verði tvö sjálfstæð brot. Tilvísun ákvæðisins til brotasamsteypu mælir gegn því að litið verði svo á að annað brotanna tæmi sök gagnvart hinu. Af þessu samspili frumbrots og sjálfsþvættisbrots leiðir jafnframt að ekki verður litið svo á að upphafstími fyrningar teljist sá sami fyrir frumbrot og sjálfsþvættisbrot. Fyrning frumbrots leiðir þannig ekki sjálfkrafa til þess að sjálfsþvættisbrot teljist fyrnt.
41. Af hálfu ákærða er vísað til þess að miða beri upphafstíma fyrningar sjálfsþvættisbrots við tileinkun verðmæta. Að mati ákærða eigi sömu sjónarmið við um upphafstíma fyrningar peningaþvættis og hylmingar samkvæmt 254. gr. almennra hegningarlaga. Í athugasemd í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 20/1981 um breyting á almennum hegningarlögum er meðal annars fjallað um breytingar á 82. gr. laganna um upphaf fyrningarfrests. Þar segir að ekki séu lagðar til breytingar á 1. mgr. 82. gr. en þó fjallað um ákvæðið eins og það var og sagt að ýmsir örðugleikar væru á að afmarka upphaf fyrningarfrests en ógerlegt væri að leysa úr þeim álitamálum öllum í lagatexta. Tekið var fram að við nokkur auðgunarbrot sem leiddu til eða fælu í sér tiltekið ástand er ríkti um lengri eða skemmri tíma þætti réttmætt að miða upphaf fyrningar við það er maður kasti eign sinni á mun, sbr. 246. gr. laganna eða legði launung á hann eða veitti honum viðtöku enda væri hugrænum refsiskilyrðum fullnægt, sbr. 254. gr. laganna. Þessi athugasemd gengur í berhögg við orðalag 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga sem þó var ekki talin ástæða til að breyta með frumvarpinu. Hún verður helst skilin á þann veg að talið hafi verið óeðlilegt að upphaf fyrningarfrests ólögmætrar meðferðar fundins fjár og hylmingar yrði ákvarðað með öðrum hætti en annarra auðgunarbrota. Þetta getur hins vegar engu breytt um upphafstíma fyrningar annarra brota sem 1. mgr. 82. gr. laganna tekur til samkvæmt ótvíræðu orðalagi sínu.
42. Sjálfsþvætti samkvæmt 2. mgr. 264. gr. er utan auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga. Með vísan til forsögu ákvæðisins, tilgangs þess og þeirra hagsmuna sem því er ætlað að vernda er ekkert tilefni til annars en að brot gegn ákvæðinu sem fela í sér verknaðarþætti sem falla að skilgreiningu ástandsbrota fyrnist ekki fyrr en því ástandi lýkur í samræmi við ótvírætt orðalag 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga.
43. Brot það sem ákærða er gefið að sök varðar allt að sex ára fangelsi og fyrnist því á tíu árum samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem sú háttsemi sem lýst er í ákæru og telst refsiverð sem sjálfsþvætti samkvæmt verknaðarlýsingu 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga stóð enn yfir á árinu 2014 var brotið ófyrnt þegar skýrsla var tekin af ákærða hjá héraðssaksóknara 11. september 2017 vegna rannsóknar á hendur honum sem sakborningi vegna meðal annars brots gegn fyrrnefndu lagaákvæði, sbr. 4. mgr. 82. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um heimfærslu brots ákærða til refsiákvæða og sakfellingu hans.
Refsing og sakarkostnaður
44. Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun hennar, við þær aðstæður að frumbrotið er fyrnt, ber einkum að líta til þess að af 3. mgr. 264. gr. má ráða að eðlilegt sé að refsing fyrir sjálfsþvættisbrot taki mið af þeirri refsingu sem við frumbrotinu hefði legið. Með hliðsjón af því en að öðru leyti með vísan til hins áfrýjaða dóms verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex mánuði sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir.
45. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.
46. Af hálfu ákærða var því lýst yfir í greinargerð og við flutning málsins fyrir Hæstarétti að kæmi til þess að hinn áfrýjaði dómur yrði staðfestur um sakfellingu ákærða væri ekki gerð krafa um ákvörðun málsvarnarlauna vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Samkvæmt úrslitum málsins og framansögðu verður ákærði dæmdur til að greiða annan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Júlíus Vífill Ingvarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, 166.963 krónur.
Sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara
1. Ég er sammála meirihluta dómenda um að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að á bankareikningum þeim sem nefndir eru í ákæru hafi verið fjármunir sem voru að stofni til skattskyldar tekjur ákærða og að hluti fjármunanna hafi verið ávinningur af skattalagabrotum hans. Jafnframt er ég sammála því að meðferð ákærða á þessum ávinningi hafi falið í sér peningaþvætti samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á hinn bóginn er ég ekki samþykkur niðurstöðu meirihlutans um að þetta brot hans skuli teljast ófyrnt.
2. Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda hefur yfirlýst markmið með lagasetningu um peningaþvætti verið að samræma íslenskar reglur alþjóðlegum samningum og gerðum Evrópusambandsins sem ætlað er að koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi, einkum vegna fíkniefnabrota, kynferðisbrota og mansals. Að öðru leyti en því sem hér síðar verður rakið vísast í atkvæði meirihlutans þegar kemur að umfjöllun um þá margvíslegu lagasetningu sem átt hefur sér stað um málefnið allt frá árinu 1993.
3. Með lögum nr. 10/1997 um breytingu á almennum hegningarlögum var þvættisbrot látið ná til ávinnings af öllum brotum á þeim lögum og ákveðnum sérrefsilögum en ekki einvörðungu til þvættis ávinnings af fíkniefnabrotum og auðgunarbrotum, sbr. umfjöllun í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi að lögunum. Þar er rakið hvers vegna ekki þótti rétt að fara þá leið að víkka út ákvæði hegningarlaga um hlutdeild svo að uppfylla mætti alþjóðlegar skuldbindingar Íslands varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti, heldur setja sérstakt ákvæði í hegningarlögin þar um, 264. gr. Þar sagði einnig að nýyrðið „peningaþvætti“ lýsti best inntaki þessa erlenda hugtaks sem ætti sér enga skýra samsvörun á sviði íslensks refsiréttar. Hugtakið „hylming“ þætti til dæmis of þröngt til að þjóna þessu hlutverki þótt það væri mjög eðlisskylt. Jafnframt sagði að ákvæði 22. gr. almennra hegningarlaga um hlutdeild næðu að nokkru leyti til þvættisbrota. Í 4. mgr. þeirrar greinar væri gerð refsiverð eftirfarandi hlutdeild sem fælist í því að veita brotamanni eða öðrum, eftir að brot væri fullframið, liðsinni til þess að halda við ólögmætum afleiðingum brots eða njóta hagnaðar af því. Ákvæði þetta áskildi þó að sá sem veitti liðsinni til að koma undan ávinningi nyti sjálfur hagnaðar af því, en það væri þrengri verknaðarlýsing en kæmi fram í 6. gr. svokallaðs þvættissamnings sem var annar af tveimur alþjóðasamningum er lágu til grundvallar lagasetningunni. Að auki sagði að ekki yrði þá unnt að refsa fyrir tilraun eða hlutdeild í þvættisbroti eins og krafist væri í þvættissamningnum þar sem brot samkvæmt 4. mgr. 22. gr. gæti ekki verið sjálfstætt brot heldur væri órjúfanlega tengt öðru broti.
4. Markmið lagabreytingarinnar var sagt tvíþætt. Annars vegar væri skýrlega gert refsivert að maður nyti ávinnings af broti sem annar hefði framið. Hins vegar væri lögð refsing við ýmsum aðferðum sem viðhafa mætti til að aðstoða við undanskot á ávinningi afbrota, án skilyrðis um að viðkomandi hefði nokkurn ábata af aðstoðinni. Væri tiltekin í ákvæðinu sú háttsemi að geyma, flytja eða aðstoða við afhendingu ávinnings en ekki reynt að telja með tæmandi hætti hvers konar aðstoð félli undir ákvæðið. Þannig yrði refsivert að stuðla á hvers konar annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af afbroti. Í dæmaskyni var nefnt að undir ákvæðið félli sú háttsemi að leyna, senda, millifæra af bankareikningum, umbreyta, veðsetja eða fjárfesta með ávinningnum. Síðan var áréttað að ákvæði 254. og 263. gr. almennra hegningarlaga um hylmingu í tengslum við auðgunarbrot stæðu áfram óbreytt en væru ekki felld inn í 264. gr. samkvæmt frumvarpinu. Yrði að líta á þessi ákvæði sem sérreglur gagnvart 264. gr. með gildissvið sem yrði eftir sem áður bundið við auðgunarbrot í XXVI. kafla laganna.
5. Með lögum nr. 149/2009 voru að nýju gerðar viðamiklar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga um peningaþvætti, jafnframt því sem aukið var mjög við heimildir til upptöku eigna í tengslum við brot gegn peningaþvætti, sbr. VII. kafli A hegningarlaganna. Leiddi þetta til þess að ákvæði 264. gr. laganna spanna nú afar víðtækt svið og umfram þær lágmarkskröfur sem Ísland hefur að þjóðarétti skuldbundið sig til að uppfylla. Verður einnig ráðið að ákvæði 264. gr. séu víðtækari en sambærileg ákvæði sumstaðar annarsstaðar á Norðurlöndunum.
6. Ákvæði 1. mgr. 264. gr. taka nú eftir orðanna hljóðan yfir það að hver sá sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af refsiverðu broti eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum. Þá tekur 2. mgr. greinarinnar um sjálfsþvætti einnig til framangreindrar háttsemi að viðlagðri sömu refsingu. Samkvæmt 3. mgr. eru refsimörk vegna þvættis ávinnings af meiri háttar fíkniefnalagabroti samkvæmt 173. gr. a laganna höfð hærri eða 12 ár. Auk þess er peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. refsivert að viðlagðri allt að sex mánaða fangelsisrefsingu þótt framið sé af gáleysi, sbr. 4. mgr. greinarinnar.
7. Til viðbótar þessu voru gerðar tvær breytingar með lögum nr. 149/2009 á 264. gr. sem í ljósi XXII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður einnig að telja að skipti máli í þessu sambandi. Fyrir breytinguna hafði í 3. mgr. 264. gr. sérstaklega verið kveðið á um að væri ávinningur smávægilegur og engin sérstök atvik ykju saknæmi brotsins skyldi mál ekki höfðað nema almannahagsmunir krefðust. Jafnframt hafði verið í síðari málslið 4. mgr. greinarinnar ákvæði um að fella mætti niður refsingu ef brotið sem ávinningur stafaði frá varðaði ekki þyngri refsingu en fangelsi allt að einu ári. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi að lögunum voru bæði þessi ákvæði felld brott með skírskotun til þess að í skýrslu svokallaðrar FATF-nefndar hefði verið vikið að því að ekki hefðu fengist skýringar á því af hálfu Íslands hvað teldist „smávægilegur“ ávinningur í þessu sambandi. Hvorki í ákvæðinu sjálfu né lögskýringargögnum væri að finna hlutlægt viðmið um þetta. Í ljósi eðlis og alvarleika peningaþvættis og þar sem refsihámark vegna slíks brots myndi hækka umtalsvert við breytingu á lögunum væri lagt til að ákvæði 3. mgr. 264. gr. félli brott. Þá sagði að sömu röksemdir væru fyrir þeirri tillögu að fella brott síðari málslið 4. mgr. greinarinnar, en efnislega væri ekki hróflað við því að refsa mætti fyrir gáleysisbrot.
8. Samkvæmt framansögðu ná ákvæði 264. gr. eftir efni sínu yfir hvers kyns háttsemi vegna smárra sem stórra refsiverðra brota sem hafa í för með sér einhvers konar fjárhagslegan ávinning og verður ekki séð að höfuðmáli skipti um heimfærslu hvort andlagið er mikils eða lítils virði og þá enn síður hvort það tengist skipulagðri brotastarfsemi eða ekki. Þá er heldur ekki gerð krafa um að fyrir liggi um hvaða frumbrot sé nákvæmlega að ræða sem liggur til grundvallar heldur nægir að ávinningur sé ekki af lögmætum toga og til kominn vegna refsiverðs brots, hvort heldur sem er á sérrefsilögum eða almennum hegningarlögum. Þarf heldur ekki að skipta máli hvort frumbrot er fyrnt eða ekki. Brot samkvæmt greininni má telja samhverft en ekki þarf að sína fram á tjón eða aðrar afleiðingar háttsemi svo hún verði heimfærð undir greinina. Til viðbótar ber að hafa í huga að samkvæmt orðalagi 264. gr. er leynd ekki nauðsynlegt skilyrði brots. Samkvæmt þessu má segja að hugtakið peningaþvætti sé ekki lýsandi um þá háttsemi sem greinin tekur til heldur fjallar hún almennt um ólögmæta meðferð ávinnings, eða margvíslega meðferð ólögmæts ávinnings, af ásetningi eða eftir atvikum af gáleysi og af fyrndum sem ófyrndum brotum.
9. Það er viðurkennd skýringarregla að sérhæfð refsiákvæði tæmi sök gagnvart öðrum almennari ef verknaðarlýsingar tveggja eða fleiri ákvæða taka til eins og sama afbrotsins þannig að einungis einu þeirra verði beitt um háttsemina. Getur þetta einkum komið til ef verknaðarlýsing í ákvæði er hluti af lýsingu þess ákvæðis sem látið er tæma sökina, háttsemin er metin sem einn verknaður og ákvæðið leggur að minnsta kosti jafnháa eða þyngri refsingu við henni. Við mat á þessu síðastnefnda hlýtur að koma til álita að líta ekki einungis til refsiramma heldur einnig til þess hvenær fyrningarfrestir byrja að líða. Ef ákvæði er látið tæma sök gagnvart einu eða fleiri ákvæðum þá er frumskilyrði að heimfæra megi háttsemina undir hvert og eitt það ákvæði sem um ræðir. Þegar litið er til þess hversu almenn og víðtæk ákvæði 264. gr. eru er síður en svo loku fyrir það skotið að önnur refsiákvæði geti í einhverjum tilvikum tæmt sök gagnvart greininni. Við mat á því skiptir ekki síst máli hvort viðtaka ávinnings af broti telst nauðsynlegur hluti fullframningar frumbrots eða hvort einhverjar viðbótarathafnir koma til í kjölfar frumbrotsins. Ætla má að fyrningarfrestur tæki þá að líða við fullframningu brotsins sem tæmir sökina.
10. Í 1. málslið 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga segir að fyrningartími taki að líða frá þeim degi er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. laganna fyrnast á 10 árum brot sem ekki liggur við þyngri refsing en 10 ára fangelsi, en samkvæmt 4. tölulið fyrnast brot á 15 árum ef þyngsta refsing við broti er meira en 10 ára tímabundið fangelsi. Eins og áður segir nær refsirammi fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. sex ára fangelsi og fyrnast þau brot því á 10 árum. Á hinn bóginn er refsihámark vegna peningaþvættis á ágóða vegna meiri háttar fíkniefnalagabrota allt að 12 ára fangelsi og fyrnast þau því á 15 árum.
11. Eins og að framan hefur verið nefnt eru ákvæði 254. gr. almennra hegningarlaga um hylmingu um margt keimlík ákvæðum 264. gr. laganna. Þannig varða báðar greinarnar geymslu og ýmiss konar meðferð ágóða sem fenginn er fyrir auðgunarbrot þótt verknaðarlýsing 264. gr. sé bæði víðtækari og taki einnig til ávinnings vegna annarra hagnaðarbrota. Þá er hún nokkuð fjarlægari háttsemislýsingu frumbrots en 254. gr. sem felur í raun í sér eftirfarandi hlutdeild, þótt ekki sé skilyrði refsiábyrgðar fyrir hylmingu að frumbrot sannist í refsimáli gegn þeim sem það framdi. Einnig er í 263. gr. laganna, líkt og í 4. mgr. 264. gr., gerð refsiverð viðtaka eða kaup á hlutum af gáleysi sem fengnir hafa verið fyrir auðgunarglæp. Gáleysið þarf þó að vera stórfellt.
12. Samkvæmt ákvæðum 254. gr. nægir til fullframningar brots að maður haldi ólöglega fyrir eiganda hlut eða öðru verðmæti sem aflað hefur verið með tilgreindum auðgunarbrotum, tekur þátt í ávinningi af slíku broti, aðstoðar annan mann til þess að halda slíkum ávinningi eða stuðlar á annan hátt að því að halda við ólöglegum afleiðingum brots. Með sambærilegum hætti eru brot samkvæmt 264. gr. fullframin þegar viðhöfð er einhver sú háttsemi sem tiltekin er í greininni. Í báðum þessum greinum felst efnisleg lýsing á fleiri en einu broti þótt virða megi þau sem eitt brot, brotaeind eða brotaheild, sem eftir atvikum getur falið í sér svokallað rýmkað ástandsbrot. Þegar svo háttar til er meginreglan sú að upphaf fyrningarfrests miðast við lok síðasta refsiverða verknaðar eða verknaðarþáttar, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga.
13. Þrátt fyrir þá brotaflokkun sem færa má ákvæði 254. gr. undir, eins og að framan er rakið, hefur upphafstími fyrningarfrests hylmingarbrota eigi að síður verið talinn hefjast um leið og brot er fullframið, óháð því hvort ástand það sem kemst á með hylmingunni varir um langa eða skamma hríð. Verður ekki séð að máli þurfi að skipta hvort á þeim tíma sé ráðist í áframhaldandi aðgerðir til að viðhalda hylmingu sama brotaandlags svo sem eins og að færa fjármuni milli bankareikninga.
14. Í refsirétti er almennt viðurkennt að það sé einkum alvarleiki brots sem ráða eigi lengd fyrningarfresta þótt vissulega skipti einnig máli önnur sjónarmið svo sem það hversu broti er auðleynt. Þá er meginreglan sú að miða fyrningarfresti við almenn refsimörk og sagði um það í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 20/1981 um breyting á almennum hegningarlögum að lögfesting þeirrar aðferðar horfði til að létta álagi af rannsóknar-, ákæru- og dómsvaldi, en refsimörk sem slík væru talin veita vísbendingu um það hversu alvarlegt brot sé. Jafnframt sagði að ýmsir örðugleikar væru í lagaframkvæmd við að afmarka upphaf fyrningarfrests en ógerlegt væri að leysa úr þeim álitamálum öllum í lagatexta.
15. Þrátt fyrir framanritað hefur 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga síðar tekið breytingum að þessu leyti. Þannig var með lögum nr. 23/2016 sett ákvæði í 2. málslið 1. mgr. greinarinnar þar sem talin eru upp nokkur dæmi þess að við tiltekin brot skuli miða við annan upphafstíma fyrningarfrests en í 1. málslið greinir. Líkt og framangreind ákvæði um peningaþvætti voru þessi ákvæði sett með vísan til alþjóðlegs samnings.
16. Í lögskýringargögnum með frumvarpi að lögum nr. 20/1981 var einnig sérstaklega tekið fram að við nokkur auðgunarbrot, sem leiða eigi til eða fela í sér tiltekið ástand er ríkir um lengri eða skemmri tíma, þyki réttmætt að miða upphaf fyrningar við það er maður kastar eign sinni á mun, sbr. 246. gr. almennra hegningarlaga, eða leggur launung á hann eða veitir honum viðtöku, enda sé hugrænum refsiskilyrðum fullnægt, sbr. 254. gr. laganna. Á hinn bóginn verður ekki séð að orð hafi verið haft um upphaf fyrningarfrests í lögskýringargögnum við setningu laga nr. 149/2009 eða fyrri laga er varða peningaþvætti en þó var höfðað mjög til skyldleika 264. gr. við 254. gr. og 263. gr. laganna.
17. Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið verður alls ekki með öruggum hætti ráðið hvernig fara skal með fyrningu vegna peningaþvættisbrota. Verði önnur regla um upphafstímamark fyrningarfrests látin gilda um 264. gr. en 254. gr. leiðir það til þess að unnt verður að koma höndum yfir ávinning af ýmsum brotum mörgum árum eftir að móttaka hans átti sér stað hafi hinn brotlegi eða annar móttakandi ávinnings ekki losað sig við hann. Verður að telja að brýnt tilefni hafi verið til að taka af skarið um það í lögum ef ætlunin var að haga málum með öðrum hætti en í tilviki hylmingarbrota, eins og upphafstíma fyrningar þeirra brota hefur mótast í framkvæmd og áréttað var í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 20/1981. Var löggjafanum í lófa lagið að haga skipan mála með skýrari hætti en gert er. Að þessu virtu og til samræmis við skýringarreglur sem gilda í refsirétti um jafn víðtæk ákvæði eins og um ræðir í 264. gr. almennra hegningarlaga, ber að beita þeirri lögskýringu af tveimur tækum sem er ákærða hagfelldari. Þegar allt framanritað er haft í huga er varhugavert annað en að telja að miða skuli upphafstíma fyrningarfrests þess brots sem um ræðir í máli þessu við fullframningu þess, líkt og gert hefur verið vegna eðlislíkra brota gegn 254. gr. almennra hegningarlaga.
18. Samkvæmt framansögðu verður við það að miða að fyrningartími brots ákærða hafi byrjað að líða eigi síðar en á árinu 2010 er háttsemi hans var gerð refsiverð að lögum og brot hans var fullframið. Verður þá einnig við það að miða að síðari millifærsla sama brotaandlags á árinu 2014 hafi ekki þýðingu við mat á upphafstíma fyrningarfrests. Fyrningartími var því liðinn er ákærði gaf fyrst skýrslu við rannsókn málsins og ber að sýkna hann af refsikröfu ákæruvalds og leggja sakarkostnað á öllum dómstigum á ríkissjóð.