2005

Dómur Hæstaréttar Íslands, 3. febrúar 2005, í máli nr. 336/2004

3.2.2005

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Magnúsi Þormari Hilmarssyni

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Eysteini Sigurðssyni og

Skeifunni fasteignamiðlun ehf.

(Jón Magnússon hrl.)

 Virðisaukaskattur. Sekt. Vararefsing. Einkahlutafélag.

M og E voru sakfelldir fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt sem framin voru í rekstri S ehf.  Ekki var talið að brot þeirra væru stórfelld í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga og var þeim því ekki gert að sæta fangelsisrefsingu. Þar sem S ehf. hafði notið hagnaðar af brotum M og E var lögaðilanum gert að greiða sektarfjárhæðina óskipt með þeim, sbr. 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.

 Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. maí 2011 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði, Eysteinn Sigurðsson, krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara refsimildunar og að refsing hans verði bundin skilorði.

Ákærði, Magnús Þormar Hilmarsson, krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar og að fullnustu hennar verði frestað.

Skeifan fasteignamiðlun ehf., krefst aðallega sýknu en til vara refsimildunar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu Eysteins og Magnúsar Þormars og heimfærslu brota þeirra til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum.

Samkvæmt framansögðu hafa ákærðu verið sakfelldir fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 3.924.748 krónur, en þar af nam oftalinn innskattur 2.793.000 krónur. Þegar brot ákærðu eru virt er þess að gæta að Skattstjórinn í Reykjavík hafði með bréfum til Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. 7. nóvember og 11. desember 2000 óskað eftir upplýsingum um hvernig greiðslum til sölumanna væri hagað. Þessu erindi svaraði bókari fyrirtækisins með bréfi 27. desember það ár, þar sem meðal annars kom fram að ákærðu Eysteinn og Magnús Þormar hefðu allar götur frá því fyrirtækið hóf rekstur hagað reikningsgerð á hendur því sem einstaklingar í sjálfstæðum rekstri. Reikningar þeirra væru því gefnir út með útskatti sem fyrirtækið nýtti sem innskatt í sínum rekstri við skil á virðisaukaskatti. Samkvæmt þessu lá ljóst fyrir gagnvart skattyfirvöldum hvernig staðið var að skattskilum að þessu leyti, auk þess sem fram hefur komið í málinu að ákærðu stóðu skil á þeim virðisaukaskatti sem þeir innheimtu hjá fyrirtækinu. Að öllu þessu virtu verða brot ákærðu ekki talin stórfelld í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður ákærðu ekki gert að sæta fangelsisrefsingu.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 skal fésekt nema að lágmarki tvöfaldri þeirri greiðslu sem ekki var staðið skil á. Þar sem virðisaukaskattur var ekki réttilega tilgreindur samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum verður ekki farið niður fyrir það lágmark á grundvelli heimildar í 2. málslið ákvæðisins, sbr. 3. gr. laga nr. 134/2005. Samkvæmt þessu verður ákærðu hvorum um sig gert að greiða 4.000.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins, en sæta ella fangelsi í þrjá mánuði. Þá verður fallist á það með héraðsdómi að Skeifan fasteignamiðlun ehf. hafi notið hagnaðar af brotum ákærðu og verður lögaðilanum því gert að greiða sektarfjárhæðina óskipt með ákærðu, sbr. 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988.

Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærðu og Skeifunni fasteignamiðlun ehf. verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjanda sinna fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð

Ákærði, Eysteinn Sigurðsson, greiði 4.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði.

Ákærði, Magnús Þormar Hilmarsson, greiði 4.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði.

Skeifan fasteignamiðlun ehf. greiði óskipt með ákærðu 8.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði Eysteinn og Skeifan fasteignamiðlun ehf. greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda sinna fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

Ákærði Magnús Þormar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Ákærðu og Skeifan fasteignamiðlun ehf. greiði óskipt annan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, 80.738 krónur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum