2004

Dómur Hæstaréttar Íslands, 9. desember 2004, í máli nr. 274/2004

9.12.2004

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Sigurði Inga Jónassyni og

Þorfinni Hilmarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Þjófnaður. Tilraun til þjófnaðar. Fíkniefnalagabrot. Hegningarauki. Skilorðsrof. Samverknaður. Skilorð.

S var sakfelldur fyrir sex þjófnaði, tvær tilraunir til þjófnaðar og tvö fíkniefnalagabrot. Rauf S skilorð eldri dóma. Var refsing S ákveðin sem hegningarauki við fimm mánaða refsingu samkvæmt eldri héraðsdómi. Við ákvörðun refsingarinnar var tekið tillit til ungs aldurs S og þess að hann átti sjálfur frumkvæði að því að upplýsa eitt brotanna og játaði önnur brot sín greiðlega. Hins vegar var litið til þess að fimm brotanna voru framin í félagi við aðra og þess að þjófnaðarbrotin vörðuðu veruleg verðmæti. Var S ákveðin refsing í einu lagi fangelsi í 12 mánuði. Í sama máli var Þ sakfelldur fyrir tvo þjófnaði og eina tilraun til þjófnaðar. Rauf Þ skilorð eldri dóms. Var refsing Þ ákveðin sem hegningarauki við fjögurra mánaða refsingu samkvæmt eldri héraðsdómi. Við ákvörðun refsingarinnar var tekið tillit til ungs aldurs Þ og þess að hann játaði brot sín greiðlega. Hins vegar var litið til þess að brotin voru framin í félagi við aðra og vörðuðu veruleg verðmæti. Var refsing Þ ákveðin í einu lagi 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu ákærðu, en staðfestingar á ákvæðum héraðsdóms um upptöku fíkniefna og greiðslu ákærða Sigurðar á skaðabótum til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. að höfuðstól 335.660 krónur.

Ákærði Sigurður Ingi Jónasson krefst þess að refsing hans verði milduð og skilorðsbundin. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. verði vísað frá dómi.

Ákærði Þorfinnur Hilmarsson krefst þess að refsing hans verði skilorðsbundin.

I

Ákærði Sigurður Ingi Jónasson á, þrátt fyrir ungan aldur, að baki nokkurn sakaferil. Hann var 26. júní 2002 fundinn sekur um þjófnaði, eignaspjöll, nytjastuld og umferðarlagabrot, sem framin voru frá 17. september 2001 til 17. febrúar 2002. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 90 daga, skilorðsbundið í þrjú ár. Þann 21. ágúst 2002 var hann sakfelldur fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot 25. maí 2002 og dæmdur í fangelsi í 90 daga, skilorðsbundið í þrjú ár. Ekki verður af þessum dómi ráðið að dómara hafi verið kunnugt um dóminn 26. júní sama árs, en refsingu hefði með réttu átt að ákveða sem hegningarauka við refsingu samkvæmt þeim dómi. Með dómi 3. febrúar 2003 var Sigurður fundinn sekur um þjófnað, en ekki gerð frekari refsing. Þann 29. október 2003 hlaut hann dóm fyrir tvo þjófnaði, vopnalagabrot og fíkniefnalagabrot, sem framin voru á tímabilinu 22. desember 2002 til 4. apríl 2003. Var hann talinn hafa rofið skilorð dómsins frá 21. ágúst 2002 og dæmd refsing í einu lagi, fangelsi í 105 daga, skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var Sigurður með dómi 28. nóvember 2003 fundinn sekur um þjófnað, umferðarlagabrot og brot á 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þann 21. júní 2003. Var hann talinn hafa rofið skilorð dómsins frá 21. ágúst 2002. Var refsing samkvæmt þeim dómi tekin upp og honum gerð refsing í einu lagi, fangelsi í fimm mánuði, skilorðsbundin í þrjú ár. Virðist sem héraðsdómara hafi ekki verið kunnugt um framangreindan dóm 29. október sama árs, en sem fyrr segir hafði dómurinn 21. ágúst 2002 verið dæmdur upp með þeim dómi. Með réttu hefði átt að ákveða refsingu í þessu máli sem hegningarauka við refsingu samkvæmt dóminum 29. október 2003. Að auki hefur Sigurður gengist undir tvær sáttir og hlotið einn dóm fyrir umferðarlagabrot, sem ekki skiptir máli fyrir úrlausn þessa máls.

Í þessu máli er ákærði Sigurður fundinn sekur um sex þjófnaði, tvær tilraunir til þjófnaðar og tvö fíkniefnalagabrot framin á tímabilinu 24. september 2003 til 29. nóvember sama árs. Þjófnaðir 24. september 2003 og 8. nóvember sama árs, tilraun til þjófnaðar 9. nóvember 2003 og fíkniefnalagabrot sama dag voru framin áður en dómurinn 29. október 2003 var birtur ákærða. Með þessum brotum hefur hann rofið skilorð dómsins 21. ágúst 2002. Önnur brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir voru framin eftir birtingu dómsins 29. október 2003 og hefur Sigurður því með þeim rofið skilorð hans. Með síðasta brotinu, þjófnaði 29. nóvember 2003, rauf hann þó skilorð dómsins 28. nóvember 2003, en hann var viðstaddur uppsögu þess dóms. Verður refsing ákærða fyrir öll brotin, að því síðastnefnda undanskildu, ákveðin sem hegningarauki við refsingu samkvæmt þeim dómi. Verður refsing ákærða tiltekin eftir ákvæðum 60. gr., sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Verður refsing samkvæmt dóminum 29. október 2003 tekin upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi eftir ákvæðum 77. gr. þeirra laga. Við ákvörðun refsingar verður tekið tillit til ungs aldurs ákærða og þess að hann hafði sjálfur frumkvæði að því að upplýsa brotið 24. september 2003 og játaði önnur brot sín greiðlega. Hins vegar verður til þess að líta að fimm brotanna voru framin í félagi við aðra, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og þess að þjófnaðarbrotin vörðuðu veruleg verðmæti. Þegar allt framangreint er virt telst refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Ákærði hefur samkvæmt framansögðu á síðastliðnum tveimur og hálfu ári fjórum sinnum fengið skilorðsbundna dóma en rofið skilorð þeirra allra. Þykir í ljósi þess ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna verður staðfest

Fallast verður á það með ákærða að bótakrafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sé vanreifuð, enda verður ráðið af gögnum málsins að verulegum hluta þýfisins úr innbrotinu 24. september 2003 hafi verið skilað samdægurs. Verður þessari kröfu því vísað frá héraðsdómi.

II

Ákærði Þorfinnur Hilmarsson var með dómi 19. júní 2002 fundinn sekur um húsbrot og nytjastuld og gerð 25.000 króna sekt. Með dómi 4. apríl 2003 var hann sakfelldur fyrir fimm þjófnaði og umferðarlagabrot á tímabilinu frá 20. mars 2002 til 2. desember sama árs. Var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðbundið í tvö ár. Þann 19. desember 2003 var hann fundinn sekur um þjófnað 25. febrúar 2003 og tilraun til þjófnaðar 16. júlí sama árs. Jafnframt því að um hegningarauka var að ræða rauf hann skilorð dómsins 4. apríl 2003, sem var dæmdur upp og refsing ákærða ákveðin í einu lagi, fangelsi í fjóra mánuði, skilorðbundið í þrjú ár.

Í þessu máli er Þorfinnur fundinn sekur um þjófnað 8. nóvember 2003, tilraun til þjófnaðar 25. nóvember sama mánaðar og þjófnað 27. sama mánaðar. Brotin eru framin fyrir uppsögu dómsins 19. desember 2003 og verður við ákvörðun refsingar höfð hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga. Með brotum þessum hefur ákærði jafnframt rofið skilorð dómsins 4. apríl 2003. Verður ákærða því ákveðin refsing í einu lagi fyrir þau brot sem hann var þá sakfelldur fyrir og þau brot sem hér eru til meðferðar, sbr. 60 og 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður litið til ungs aldurs ákærða og þess að hann játaði brot sín greiðlega. Á hinn bóginn verður að líta til þess að brotin vörðuðu veruleg verðmæti og voru framin í félagi við aðra, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þegar allt framangreint er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Þegar litið er til þess hvernig högum ákærða er nú háttað og ungs aldurs hans þykir mega skilorðbinda refsingu hans og skal hún falla niður að þremur árum liðnum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð

Ákærði, Sigurður Ingi Jónasson, skal sæta fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði, Þorfinnur Hilmarsson, skal sæta fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar hans og fellur hún niður að þremur árum liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna er staðfest.

Bótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. að höfuðstól 335.660 krónur er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum