Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2020 í máli nr. S-121-2019
Dómur 15. október 2020.
Mál nr. S-121/2019:
Héraðssaksóknari
(Ásmunda Björg Baldursdóttir saksóknari)
gegn
A
(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
Dómur
Árið 2020, fimmtudaginn 15. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-121/2019: Ákæruvaldið gegn A, en málið var dómtekið 17. f.m.
Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 14. febrúar 2019, á hendur:
„A
Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2008, 2010 og 2011 vegna tekjuáranna 2007, 2009 og 2010, með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna framangreindra ára, tekjur, samtals að fjárhæð 115.778.442, í formi úttekta ákærða úr félögunum X ehf. og Z ehf., sem skattskyldar eru samkvæmt 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, en með því komst ákærði hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar samtals að fjárhæð kr. 43.938.610, sem sundurliðast sem hér greinir:
Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að
ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að dæmd verði
vægasta refsing sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist skv. tímaskýrslu.
Upphaf lögreglurannsóknar málsins má rekja til þess er skattrannsóknarstjóri
ríkisins vísaði máli ákærða til rannsóknar hjá héraðssaksóknara með bréfi
dagsettu 9. febrúar 2017.
Tekin var skýrsla af ákærða og fleirum hjá
lögreglunni en ekki þykir ástæða til að rekja þær hér.
Framburður ákærða fyrir
dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa búið í Kaupmannahöfn á árinu 2006,
þaðan sem hann hefði rekið fyrirtæki á Norðurlöndum. Hann hefði selt í félagi
sem hann átti vorið 2007 og fengið í sinn hlut 120 milljónir króna. Hann kvaðst
hafa notað 80 milljónir af þessari fjárhæð til að kaupa Z ehf. og 40
milljónir hefðu verið í hlutabréfum sem hann hefði keypt á þessum tíma, en þeir
peningar hefðu tapast í hruninu. Hann kvaðst nú hafa setið undir ásökunum í
áratug en ekki þykir ástæða til að rekja framburðinn um þetta.
Ákærði kvaðst
aldrei hafa tekið peninga út úr félögunum eins og honum er gefið að sök í
ákærunni.
Spurður um 34.302.442 krónur tekjuárið 2009 kvað ákærði féð hafa
komið frá skandinavísku félagi sem selt hefði verið og tekjur úr því hefðu
verið fluttar hingað til lands og hann hefði greitt skatta af þeim.
Ákærði
kvaðst hafa verið eigandi félagsins X ehf. og hann hefði verið
framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi á þeim tíma sem ákæran tekur
til. Félagið hefði sameinast Z ehf. í byrjun árs 2012, en ákærði hefði átt
Z til helminga við annan mann.
Ákærði staðfesti skattframtal vegna
tekjuársins 2007. Hann kvað Deloitte hafa séð um gerð skattframtalsins og taldi
hann félagið hafa átt að hafa undir höndum öll gögn til að gera framtalið. Hann
taldi framtaldar tekjur samkvæmt framtalinu réttar.
Á skattframtali ákærða
vegna tekjuársins 2007 er gerð grein fyrir hlutabréfaeign ákærða í félaginu
Y ehf. í upphafi árs 2007. Spurður um kaup og sölu á þessum hlutabréfum
kvaðst hann hafa keypt eignarhlutinn á 40 milljónir króna og selt á 60
milljónir.
Ákærði lýsti aðdraganda flutnings síns hingað til lands á árinu 2006
eða 2007. Hann hefði látið foreldra sína hafa 15 milljónir króna á árinu 2006
vegna sumarbústaðarkaupa þeirra en það hefði verið hluti kaupverðs hlutabréfa í
Y ehf. sem hann hefði keypt af föður sínum, en ákærði kvað félagið í raun
hafa verið verðlaust á þessum tíma. Samkomulag hefði verið um að samningurinn
um hlutabréfakaupin yrði gerður 1. janúar 2017, af ástæðum sem ákærði lýsti.
Gögn málsins sýni að kaupin hafi verið gerð á þeim tíma. Ákærði kvað það hafa
gerst síðar að menn hefðu tekið að renna hýrum augum til félagsins og ákærði þá
selt hlutabréfin í því vorið 2007 fyrir 60 milljónir króna og þannig hagnast um
20 milljónir króna og greitt skatta af hagnaðinum. Það að halda því fram að
þetta hefði verið gjafagerningur væri í algerri andstöðu við það sem það var í
raun, að sögn ákærða.
Meðal gagna málsins er yfirlit af bankareikningi í eigu
ákærða. Þar koma fram innborganir; önnur 15.4.2007, að fjárhæð 240 milljónir
króna, og hin, 24.4.2007, að fjárhæð 1.726.000 krónur. Spurður um þetta kvað
ákærði þetta hafa verið greiðslur vegna sölu á félaginu Skipholti 17 ehf., sem
ákærði hefði átt ásamt fleirum. Þegar félagið var selt hefði öll fjárhæðin
verið lögð inn á reikning ákærða, eins og fram komi í gögnum málsins, þótt
hlutur ákærða hefði verið helmingur sölufjárhæðarinnar.
Spurður um framtöl
vegna tekjuáranna 2009 og 2010 gaf ákærði sömu svör og hann gaf um framtalið
vegna tekjuársins 2007, sem rakið var að framan. Hann kvað Deloitte hafa unnið
framtölin og félagið hefði haft til þess fullnægjandi gögn að hans mati.
Framtölin gefi rétta mynd af tekjum ákærða þessi ár.
Meðal gagna málsins er
samantekt yfir innborganir á bankareikning ákærða frá Z ehf. á árinu 2009,
að fjárhæð 34.302.442 krónur. Spurður um þessar greiðslur taldi ákærði að þetta
hefðu verið greiðslur frá félaginu Hringturni sem lagðar hefðu verið inn á
reikning frá Z ehf., en ástæðan hefði verið sú að Hringturn hefði ekki átt
bankareikning á Íslandi. Peningarnir hefðu upphaflega komið frá
Nordia-bankanum. Þeir væru tilkomnir vegna þess að félagið hefði verið leyst
upp og selt og ákærði hefði greitt fjármagnstekjuskatt af þessum tekjum seinna,
eftir að hafa talið greiðslurnar fram sem fjármagnstekjur.
Meðal gagna málsins
eru gögn sem sýna að hinn 10. júní 2010 voru lagðar inn 20 milljónir króna á
vörslureikning hjá Arion banka. Ákærði kvaðst telja að þetta hefði verið arður
sem hann hefði talið fram sem fjármagnstekjur, á sama hátt og gert hefði verið
vegna tekjuársins 2009 og lýst var.
Ákærði tók fram að starfsmenn Deloitte
hefðu greint sér frá því að gerð hefðu verið mistök við skattframtalsgerðina og
spurt ákærða hvað ætti að gera. Þetta hefði átt sér stað áður en rannsókn
málsins hófst, en komið í ljós eftir að almennt fyrirspurnarbréf
Ríkisskattstjóra um allt annað erindi barst. Þessi vinna hafi þá farið af stað
á vegum Deloitte. Rætt hefði verið um það hvort hægt væri að leiðrétta mistökin
yfir langan tíma eða gera það á annan hátt. Ákærði hefði sagt að hann vildi
greiða skattskuld sína sem hann kynni að standa í vegna mistakanna og það hefði
hann gert, eins og gögn málsins sýni. Hann kvaðst hafa fengið sérfræðinga
Deloitte til að vinna skattframtölin fyrir sig. Deloitte hefði viðurkennt
mistök og hefði ákærði þurft að súpa seyðið af því. Þá hefði ákærði reynt að
skila leiðréttum skattframtölum. Hann kvaðst, samkvæmt öllu því sem rakið hefur
verið, hvorki hafa staðið skil á röngum skattframtölum af ásetningi né gáleysi.
Meðal gagna málsins er skattframtal ákærða vegna tekjuársins 2006. Í yfirliti
yfir kröfur í framtalinu er tilgreind krafa á hendur Áka Jónssyni, að fjárhæð
15 milljónir króna. Ákærði kvað þetta vera innborgunina inn á hlutabréfin, sem
rakið var að framan.
Teknar voru skýrslur af Páli Grétari Steingrímssyni,
endurskoðanda hjá Deloitte. Í framburði sínum lýsti hann mistökum sem gerð voru
hjá Deloitte og rakin verða síðar og fram koma í bréfum sem rakin verða. Fram
kemur í skýrslutökunum að Deloitte hafi við gerð skattframtals X ehf.,
vegna tekjuársins 2007, haft undir höndum gögn sem sýndu að félagið ætti
118.971.026 krónur í fjárvörslu hjá Kaupþingi banka hf. Hann skýrði hvernig
mistökin við gerð skattframtala ákærða sem hér um ræðir áttu sér stað og
hvernig þau hefðu verið leiðrétt.
Niðurstaða
Tekjuárið 2007
Ákærða er hér gefið
að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram tekjur að fjárhæð
61.476.000 krónur og að um hafi verið að ræða úttektir úr félögunum sem í ákæru
greinir. Ákærði neitar því að hafa tekið fjármuni út úr þessum félögum. Hins
vegar hafi hans bankareikningur verið notaður vegna X ehf. sem ekki
hefði átt bankareikning. Fjárhæð vegna ársins 2007 sýnist þannig tilkomin,
samkvæmt gögnum málsins, þó það sé ekki alveg ljóst af ákærunni: X
hafi selt hlut sinn í Skipholti 17 ehf. og hafi 121.726.000 krónur verið lagðar
inn á reikning ákærða. Yfirskattanefnd lækkaði þessa fjárhæð um 80.250.000
krónur, eins og fram kemur í úrskurði nefndarinnar frá 30. janúar 2019.
Mismunurinn, eða 41.476.000 krónur, ersamkvæmt ákærunni sagður vanframtaldar
tekjur ákærða auk 20 milljóna króna sem ákærði hagnaðist um af sölu hlutabréfa
í Skipholti 17.
Í gögnum málsins er lýst fjármálagerningum vegna félaganna
Skipholts 17 ehf., X ehf. og Z ehf. Fyrir liggur að ákærði gerði
fjárvörslusamning við Kaupþing banka hf. Ákærði hefur borið að fjármunir á þeim
reikningi hafi verið eign X ehf. en ekki hans persónulega eign. Í
bréfi Deloitte til Ríkisskattstjóra, dagsettu 8. febrúar 2013, segir að
fjármunir á fjárfestingarreikningi hjá Arion banka hf. hafi verið eign X. Í bréfinu er svofelldur kafli:
„Um er að ræða fjárfestingarreikning
sem var skráður ranglega á nafn eiganda félagsins, A
(hér eftir „gjaldandi“). Að forminu til var umræddur fjárfestingarreikningur
hjá Arion banka hf. skráður á nafn gjaldanda, en einungis vegna formlegs
ómöguleika á þeim tíma sem fjárfestingarreikningurinn var undirritaður.
Umræddur fjárfestingarreikningur var stofnaður vegna sölu hlutabréfa á árinu
2007 og tilheyrðu réttilega félaginu, þrátt fyrir að formleg skráning þeirra
hafi verið á eiganda félagsins og eina stjórnarmann þess, enda átti félagið þá
ekki bankareikning í sínu nafni. Vegna þessara formlegu annmarka hafði við gerð
skattframtals félagsins misfarist að taka tillit til færslna með nægjanlega
greinagóðum hætti sem gerði það að verkum að skattframtöl félagsins voru ekki
rétt hvað það varðaði. Á þeim grunni var óskað eftir endurupptöku á
skattframtölum félagsins. Að sama skapi voru skattframtöl gjaldanda röng hvað
þetta varðar vegna sjálfvirkrar færslu í kerfi ríkisskattstjóra inn á framtöl
gjaldanda.“
Þá liggur fyrir meðal gagna málsins yfirlýsing frá þáverandi
viðskiptastjóra hjá Kaupþingi banka um að X ehf. hafi átt fjármunina
sem bankinn ávaxtaði á reikningi í nafni ákærða.
Enginn þeirra aðila sem hér
komu að málum komu fyrir dóminn.
Verður niðurstaðan um þetta byggð á
trúverðugum framburði ákærða, sem frá upphafi hefur borið að fjármunirnir sem
hér um ræðir hafi verið eign X ehf. Ýmis gögn styðja framburð ákærða
um þetta, svo sem bréf Deloitte sem rakið var og óstaðfest yfirlýsing
viðskiptastjóra Kaupþings sem vísað er til. Fram er komið að fyrir mistök var
ekki rétt talið fram á skattframtölum félagsins X ehf. og fyrir liggur
að mistök starfsmanna Deloitte urðu þess valdandi að X ehf., sem átti
121.476.000 krónur í vörslum ákærða, gerði ekki nákvæma grein fyrir ráðstöfun
þessara fjármuna í ársreikningi og skattframtölum félagsins gjaldaárin 2008 til
2011 og hafði þetta í för með sér villu í framtölum ákærða sama tímabil.
20
milljónir króna af brotaandlagi skv. þessum ákærulið eru í ákærunni sagðar hafa
verið úttektir ákærða úr félögunum X og/eða Z ehf. Ákærði hefur
andmælt þessu og er ósannað að hann hafi tekið þessa fjármuni úr félögunum í
formi úttekta eins og lýst er í ákærunni. Þá sýnist á því byggt í ákærunni að
þessir fjármunir hafi verið hagnaður ákærða af sölu hlutabréfa sem ákærði hafði
áður keypt á 40 milljónir en selt á 60 milljónir. Virðist á því byggt að 40
milljónir hafi verið of lágt verð fyrir hlutabréfin og mismunurinn sé gjöf sem
ákærða hafi borið að greiða af skatta samkvæmt því sem í ákæru greinir. Ákærði
hafnar þessu og telur að engin gögn hafi verið lögð fram sem sanni þetta.
Ákæruvaldið byggi á niðurstöðu skattakerfisins sem hafi stuðst við 2. mgr. 57.
gr. laga nr. 90/2003 um það hvert eðlilegt kaupverð hefði átt að vera og hafi
skattyfirvöld talið það hafa verið 60 milljónir króna. Hér fyrir dómi hefur
engin sönnunarfærsla farið fram um það að kaupverð ákærða á hlutabréfunum sem
um ræðir hafi verið óeðlilega lágt. Ákærði greindi frá þessum viðskiptum á
skattframtali sínu og greiddi fjármagnstekjuskatt af viðskiptunum. Með vísan
til þessa er ósannað að ákærði hafi keypti hlutabréfin á of lágu verði þannig
að meta megi mismuninn á kaupverði og söluverði sem gjöf sem skattleggja
beri, eins og talið er í ákærunni. Með vísan til framanritaðs er ákærði
sýknaður af þessum hluta ákærunnar vegna tekjuársins 2007.
Hvað varðar
41.476.000 krónur sem er hluti sakarefnis samkvæmt þessum ákærulið er vísað til
þess sem rakið verður síðar um saknæmisskilyrði.
Tekjuárin 2009 og 2010
2009
Ákærði kvað greiðslurnar sem um ræðir ekki hafa verið sína eign heldur eign X ehf. Reikningur ákærða hefði verið notaður þar sem X hefði
ekki átt bankareikning og kvaðst ákærði ekki hafa verið eigandi þessara
fjármuna. Greiðslurnar sem hér um ræðir, og vegna tekjuársins 2010, hefðu verið
greiðslur frá Z ehf. inn á bankareikning ákærða hjá Arion banka, en sá
reikningur hefði verið notaður til að móttaka greiðslurnar sem tilheyrðu X ehf.
2010
20 milljónir króna sem hér um ræðir voru lagðar inn á
fjárvörslureikning í nafni ákærða. Fram kemur í greinargerð ákærða að þessir
fjármunir hafi ekki verið honum til frjálsrar ráðstöfunar fremur en aðrir
fjármunir tilheyrandi X ehf. Fyrir liggur að ákærði skilaði
fjármagnstekjuskatti af öllum fjármununum.
Eins og rakið var neitar ákærði sök
og lýsti hann því að mistök hefðu komið í ljós við gerð skattframtala félaga í
hans eigu og persónulegra skattframtala hans sjálfs. Er mistökin uppgötvuðust
hefði verið leitað eftir því að leiðrétta þau, og það verið gert og ákærði þá
greitt skatta og gjöld sem á hann hefðu verið lögð og hann hefði ekki haft
ásetning til að skila röngum skattframtölum né gæti það talist gáleysi af hans
hálfu eins og málavöxtum væri háttað.
Ríkisskattstjóri sendi hinn 10. október
2011 fyrirspurn, samkvæmt 96. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, til X ehf. Tilefnið var skoðun Ríkisskattstjóra á færslu hlutabréfaviðskipta
lögaðila vegna lagabreytingar sem gerð hafði verið. Með bréfi Deloitte, f.h.
skattaðilans Í grjótinu ehf., dagsettu 12. apríl 2012, barst svar vegna
fyrirspurnarinnar sem lýst er að framan. Með bréfi Deloitte, dagsettu 13. apríl
2012, var send beiðni um endurupptöku skattframtala Í grjótinu vegna áranna
2008, 2009, 2010 og 2011. Í bréfinu er svofelldur kafli:
„Við skoðun á
skattskilum félagsins í kjölfar fyrirspurnabréfa ríkisskattstjóra kom í ljós að
fjárfestingarreikningur félagsins hafði verið skráður fyrir mistök á nafn
A, eiganda félagsins. Fjárfestingarreikningur þessi var
stofnaður vegna sölu af af sölu hlutabréfa á árinu 2007 og tilheyrðu félaginu.
Af þeim sökum hafði við gerð skattframtals félagsins misfarist að taka tillit
til færslna með nægjanlega greinagóðum hætti sem gerði það að verkum að
skattframtöl félagsins voru 8 ekki rétt hvað það varðaði. Í framhaldi verður
skattframtöl eiganda félagsins leiðrétt, þar sem líklegt er að umræddar færslur
hafa sjálfkrafa færst á framtöl hans.“
Með bréfi Deloitte, f.h. ákærða,
dagsettu 13. júní 2012, var send beiðni til Ríkisskattstjóra um endurupptöku og
leiðréttingu álagningar ákærða tímabilin sem ákæran tekur til. Í bréfinu er
svofelldur kafli:
„Við skoðun á skattskilum félagsins í kjölfar
fyrirspurnabréfa ríkisskattstjóra kom í ljós að fjárfestingarreikningur
félagsins hafði verið skráður fyrir mistök á nafn A, en A er eigandi
félagsins. Fjárfestingarreikningur þessi var stofnaður vegna sölu af af sölu
hlutabréfa á árinu 2007 og tilheyrðu réttilega félaginu. Af þeim sökum hafði
við gerð skattframtals félagsins misfarist að taka tillit til færslna með
nægjanlega greinagóðum hætti sem gerði það að verkum að skattframtöl félagsins
voru ekki rétt hvað það varðaði. Hjá ríkisskattstjóra liggur fyrir beiðni
félagsins um endurupptöku á grundvelli 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 á
skattframtölum 2008 til og með 2011, sbr. bréf þar um dagsett 13. apríl 2012.
Að sama skapi voru skattframtöl A ekki rétt, m.a. vegna þess að umræddar
færslur færðust sjálfkrafa á framtöl hans.“
Þá er í gögnum málsins lýst
samskiptum starfsmanna Deloitte f.h. ákærða og félaga hans, úrskurðum
Ríkisskattstjóra, samskiptum við skattrannsóknarstjóra og úrskurðum
Yfirskattanefndar o.fl., sem ekki þykir, eins og á stendur, þörf á að rekja
frekar hér. Þá liggur fyrir að ákærði hefur greitt þau gjöld sem á hann hafa
verið lögð með álagi og þá er lýst endurgreiðslum til ákærða vegna ofgreiddra
gjalda.
Ákærði hefur staðfest að skattframtölin sem skilað var vegna áranna sem
í ákæru greinir hafi ekki verið rétt af ástæðum sem raktar voru. Deloitte hefði
gert mistök sem leiðrétt voru strax og þau urðu ljós. Ákærði neitar því að
tekjur að fjárhæð 115.778.442 krónur hafi verið úttektir hans úr félögunum sem
í ákæru greinir.
Ákærða er gefið að sök brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra
hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr.
22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Saknæmisskilyrði skv. 1.
mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga er ásetningur eða stórfellt gáleysi.
Saknæmisskilyrði skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 er ásetningur eða
stórkostlegt hirðuleysi og í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 er vísað til laga
nr. 90/2003 um saknæmisskilyrði. Ákærði ber ábyrgð á því að skila réttum
skattframtölum. Ráða má af framburði ákærða og af framburði Páls Grétars
Steingrímssonar endurskoðanda og af öðrum gögnum málsins að fjarri lagi er að
ákærði hafi haft ásetning til að láta undir höfuð leggjast að telja rétt fram á
skattframtölunum sem í ákæru greinir.
Sakfelling ákærða á grundvelli þess að
hann hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi eða stórkostlegt hirðuleysi ræðst m.a.
af því hvort hann hafi gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna
skattframtölin sem hann skilaði og vísað er til í ákæru, en krafðist að yrðu leiðrétt strax og mistökin komu í ljós, voru eins og raun ber vitni. Þótt
ákærði losni ekki undan refsiábyrgð með því að fela öðrum framtalsgerðina
verður að virða málavexti í heild þegar afstaða er tekin til þess hvort ákærði
hafi gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna skattframtölunum var skilað
eins og hann bar fyrir dóminum, og þá að háttsemin hafi hvorki verið framin af
stórfelldu gáleysi né stórkostlegu hirðuleysi. Ber hér m.a. að líta til þess að
ákærði hafði falið til þess bæru félagi að annast skattamál sín og félaga í
sinni eigu, eins og rakið var. Fram kemur í bréfum Deloitte til skattyfirvalda
að mistök voru gerð við vinnslu skattframtala ákærða og félaga í hans eigu, sem
leiddu til þess að skattframtölin þörfnuðust leiðréttinga sem leitað var eftir
strax og það varð ljóst og áður en rannsókn málsins hófst. Með vísan til þessa
og málavaxta að öðru leyti er það mat dómsins að ákærði hafi gefið trúverðugar
skýringar á þessu og hann verði hvorki sakaður um ásetning né gáleysi við skil
framtalanna sem í ákæru greinir. Saknæmisskilyrði eru því ekki uppfyllt og ber
að að sýkna ákærða.
Ríkissjóður greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. 3.968.620
króna málsvarnarlaun Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, að meðtöldum
virðisaukaskatti.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, A, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. 3.968.620 króna
málsvarnarlaun Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns.
Guðjón St. Marteinsson