Breyting á skráningu sf./slf.

Tilkynna skal til fyrirtækjaskrár breytingar er verða á skráningarskyldum atriðum innan mánaðar frá því að ákvörðun var tekin um breytingu.

Afgreiðslutími tilkynninga er um tíu til tólf virkir dagar frá því að gögn eru lögð inn til fyrirtækjaskrár séu þau fullnægjandi og greiðsla (eða greiðslukvittun) fylgir með gögnunum. Hægt er að senda skannað afrit af tilkynningum á netfangið fyrirtaekjaskra@skatturinn.is Ekki er nauðsynlegt að skila inn frumritum af gögnum.

Skráningarskyld atriði eru:

Stjórn

 • Í félagssamningi kemur fram hvort heimilt sé að kjósa stjórn eða ekki. Ekki er skylda að hafa stjórn í samlagsfélögum og sameignarfélögum.
 • Félagsfundur kýs stjórn.
 • Stjórn skal kosin í samræmi við félagssamning félagsins.
 • Tilkynna þarf um breytingu á stjórn innan mánaðar frá því að félagsfundur fór fram.
 • Allir nýir stjórnarmenn þurfa að skrifa undir tilkynningu um nýja stjórn og staðfesta þannig að þeir taki að sér að vera í stjórn.
 • Tilkynning skal einnig vera undirrituð af meirihluta stjórnar, prókúruhafa eða öllum félagsmönnum.
 • Séu allir stjórnarmenn nýir er nauðsynlegt að meirihluti fyrri stjórnar skrifi einnig undir tilkynninguna eða allir félagsmenn.
 • Hér má nálgast tilkynningu um breytingu á stjórn, nr. 17.42. Vakin er athygli á því að greiða þarf skráningargjald. Sjá gjaldskrá.

Framkvæmdastjóri (framkvæmdastjórn)

 • Ekki er skylda að skrá framkvæmdastjóra hjá sameignar- og samlagsfélögum
 • Sé stjórn hjá félaginu ræður hún framkvæmdastjóra annars félagsfundur.
 • Tilkynna þarf um breytingu á framkvæmdastjóra innan mánaðar frá því að ákvörðun um ráðningu er tekin á félagsfundi eða stjórnarfundi.
 • Nýr framkvæmdastjóri þarf að undirrita tilkynninguna og staðfesta þannig að hann taki að sér að vera framkvæmdastjóri.
 • Meirihluti stjórnar, skráður prókúruhafi eða allir félagsmenn þurfa einnig að undirrita tilkynninguna.
 • Vinsamlegast hafið í huga að ef eyðublað fyrirtækjaskrár er notað er nauðsynlegt að skrá inn alla framkvæmdastjóra og prókúruhafa, ekki eingöngu þau atriði sem verið er að breyta.
 • Hér má nálgast tilkynningu um breytingu á framkvæmdastjórn, nr. 17.43. Vakin er athygli á því að greiða þarf skráningargjald. Sjá gjaldskrá.

Prókúruhafi

 • Sé stjórn hjá félaginu veitir hún prókúru annars félagsfundur.
 • Athygli er vakin á því að í sumum félagssamningum kemur fram hver eigi að vera með prókúru, er þá ekki hægt að fella niður þá prókúru nema breyta félagssamningi.
 • Tilkynna þarf um breytingu á prókúruhafa innan mánaðar frá stjórnarfundi eða félagsfundi er samþykkti breytingu á prókúru.
 • Nýr prókúruhafi þarf að undirrita tilkynninguna og staðfesta þannig að hann taki að sér að vera með prókúru.
 • Meirihluti stjórnar, skráður prókúruhafi eða allir félagsmenn þurfa einnig að undirrita tilkynninguna.
 • Vinsamlegast hafið í huga að ef eyðublað fyrirtækjaskrár er notað er nauðsynlegt að skrá inn alla framkvæmdastjóra og prókúruhafa, ekki eingöngu þau atriði sem verið er að breyta.
 • Hér má nálgast tilkynningu um breytingu á prókúru, nr.17.43. Vakin er athygli á því að greiða þarf skráningargjald. Sjá gjaldskrá.

Endurskoðandi/skoðunarmaður

 • Ekki er nauðsynlegt að kjósa endurskoðendur/skoðunarmenn hjá sameignar- og samlagsfélögum, þó geta verið ákvæði í félagssamningi sem skylda félög til að kjósa endurskoðanda/skoðunarmann
 • Félagsfundur kýs endurskoðanda/skoðunarmann, sé hann kosinn.
 • Kosning endurskoðanda/skoðunarmanns skal vera í samræmi við félagssamning félagsins.
 • Tilkynna þarf um breytingu á endurskoðanda/skoðunarmanni innan mánaðar frá því að hluthafafundur fór fram.
 • Nýr endurskoðandi/skoðunarmaður þarf að skrifa undir tilkynninguna og staðfesta þannig að hann taki að sér endurskoðun/skoðun félagsins.
 • Tilkynning skal einnig vera undirrituð af meirihluta stjórnar, prókúruhafa eða öllum félagsmönnum.
 • Hér má nálgast tilkynningu um breytingu á endurskoðun, nr. 17.45. Vakin er athygli á því að greiða þarf skráningargjald. Sjá gjaldskrá.

Nafn félags

Félagsfundur þarf að samþykkja breytingu á nafni félags.

 • Þegar nafni félags er breytt er nauðsynlegt að breyta félagssamningi félagsins í samræmi við það.
 • Nauðsynlegt er að skila til fyrirtækjaskrár tilkynningu um breytingu á nafni þar sem skrifað er undir sérstakan nafnafyrirvara.
 • Einnig er nauðsynlegt að skila inn nýjum félagssamningi þar sem hið nýja nafn kemur fram. Nýr félagssamningur skal vera dagsettur þann dag er félagsfundur samþykkti nafnabreytingu og undirritaðar af öllum félagsmönnum.
 • Meirihluti stjórnar, skráður prókúruhafi eða allir félagsmenn þurfa að skrifa undir tilkynningu um nafnabreytingu.
 • Tilkynna þarf um nafnabreytingu innan mánaðar frá því að félagsfundur samþykkti nafnabreytingu.
 • Gott er að lesa yfir viðmiðunarreglur um firmaheiti áður en nýtt nafn á félag er valið.
 • Hér má nálgast tilkynningu um breytingu á nafni, nr. 17.41. Vakin er athygli á því að greiða þarf skráningargjald. Sjá gjaldskrá.

Heimilisfang félags

 • Sé verið að flytja lögheimili innan sveitarfélags er nóg að tilkynna um lögheimilisflutning á þar til gerðu eyðublaði.
 • Sé verið að flytja lögheimili milli sveitarfélaga þarf félagsfundur að samþykkja slíkt.
 • Sameignarfélög þurfa að leggja fram nýjan félagssamning þegar lögheimili er flutt milli sveitarfélaga.
 • Samlagsfélög þurfa eingöngu að leggja fram tilkynningu um lögheimilisflutning.
 • Meirihluti stjórnar, skráður prókúruhafi eða allir félagsmenn þurfa að skrifa undir tilkynningu um breytingu á heimilisfangi.
 • Tilkynna þarf um flutning á heimilisfangi innan mánaðar frá því að ákvörðun um flutning átti sér stað.
 • Hér má nálgast tilkynningu um breytingu á heimilisfangi, nr. 17.40. Vakin er athygli á því að greiða þarf skráningargjald. Sjá gjaldskrá.

Tilgangur félags

 • Félagsfundur breytir tilgangi félags.
 • Tilkynna þarf um breytingu á tilgangi innan mánaðar frá því að félagsfundur samþykkti breytingu.
 • Breyta skal félagssamningi félagsins í samræmi við breyttan tilgang.
 • Félagssamningur skal vera dagsettur þann dag er félagsfundur samþykkti breytingu á tilgangi og skal nýr tilgangur koma fram í félagssamningi þess.
 • Allir félagsmenn verða að undirrita nýjan félagssamning.
 • Meirihluti stjórnar, skráður prókúruhafi eða allir félagsmenn þurfa að skrifa undir tilkynningu um breytingu á tilgangi.
 • Hér má nálgast tilkynningu um breytingu á tilgangi, nr. 17.47. Vakin er athygli á því að greiða þarf skráningargjald. Sjá gjaldskrá.

Breytingar á félagssamningi

 • Aðeins félagsfundur getur breytt félagssamningi.
 • Samþykki félagsfundur breytingar á félagssamningi skal tilkynna breytingar til fyrirtækjaskrár og leggja fram afrit af nýjum félagssamningi ásamt tilkynningu innan mánaðar frá því að félagsfundur samþykkti breytingarnar.
 • Félagssamningur skal vera dagsettar þann dag er félagsfundur samþykkti breytingar og undirritaðar af öllum félagsmönnum.
 • Meirihluti stjórnar, skráður prókúruhafi eða allir félagsmenn þurfa að skrifa undir tilkynningu um breyttar samþykktir.

Breytingar á félagsmönnum

 • Verði breyting á félagsmönnum skal það tilkynnt til fyrirtækjaskrár innan mánaðar frá því að breyting átti sér stað.
 • Nauðsynlegt er að leggja fram nýjan félagssamning þar sem fram kemur hverjir séu eigendur, eignarhlutur þeirra og skal hann undirritaður af öllum félagsmönnum.
 • Meirihluti stjórnar, skráður prókúruhafi eða allir félagsmenn þurfa að skrifa undir tilkynningu um breytingu á félagsmönnum. Einnig þurfa fyrri félagsmenn sem ganga úr félaginu að skrifa undir tilkynninguna.
 • Hér má nálgast tilkynningu um breytingu á félagsmönnum. Vakin er athygli á því að greiða þarf skráningargjald. Sjá gjaldskrá.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

 • Um sameignarfélag, sjá lög um sameignarfélög nr. 50/2007.
 • Um samlagsfélög, sjá lög um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903.

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum