Virðisaukaskattsskrá

Þeim sem eru að hefja virðisaukaskattsskyldan atvinnurekstur, er skylt að tilkynna um það skriflega til ríkisskattstjóra, eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst. Til þess er notað eyðublað RSK 5.02. Ríkisskattstjóri úthlutar þá umsækjanda virðisaukaskattsnúmeri sem hann notar í rekstri sínum.

Þeir sem eru í virðisaukaskattsskyldum rekstri eiga að innheimta og skila virðisaukaskatti af allri sölu sinni og afhendingu á vörum og verðmætum, vinnu og þjónustu.

Undanþegið virðisaukaskatti

Í lögum um virðisaukaskatt kemur fram hvaða velta er undanþegin skattinum (12. gr.) og hvaða starfsemi er ekki virðisaukaskattskyld (2. gr.). Sjá tengla í ítarefni.

Þeir sem selja vörur eða þjónustu fyrir minna en 2.000.000 kr. (án VSK.) á sérhverju tólf mánaða tímabili þurfa ekki að innheimta virðisaukaskatt og þar að leiðandi ekki að skrá sig og sækja um virðisaukaskattsnúmer. Þessi undanþága er valkvæð. Kjósi aðili með veltu undir 2.000.000 kr. á ári að tilkynna sig til skráningar á virðisaukaskattsskrá þá skal hann innheimta virðisaukaskatt af sölu, annars ekki.

Kjósi aðili að standa utan virðisaukaskattsskrár verður hann virðisaukaskattsskyldur fari veltan yfir 2.000.000 kr. markið. Hann verður tilkynningar- og skráningarskyldur þegar honum má vera ljóst að sala muni ná 2.000.000 kr. markinu á 12 mánaða tímabili. Hér er ekki átt við almanaksárið.

Skil á rekstrarári

Virðisaukaskattur er vörsluskattur sem leggst ofan á verð vöru og þjónustu. Sá sem innheimtir skattinn skal skila honum í ríkissjóð á gjalddaga hvers uppgjörstímabils.

Algengasta uppgjörstímabilið, sem kallast almennur skilamáti, er tveir mánuðir (janúar - febrúar, mars - apríl, maí - júní, o.s.frv.). Gjalddagi, sem er jafnframt eindagi, er 5. dagur annars mánaðar eftir lok tímabilsins. Fyrir fyrsta tímabilið (jan/feb) er hann 5. apríl, þá 5. júní o.s.frv.

Ársskil og bændaskil

Skilamáti er ákvarðaður við nýskráningu og ræðst af félagsformi, umfangi rekstrar, reiknuðu endurgjaldi í einstaklingsrekstri eða eftir atvikum af sérstökum aðstæðum. Þeir sem eru í almennum skilamáta geta einnig verið færðir í ársskil fari velta þeirra undir kr. 4.000.000 á næstliðnu almanaksári. Gjalddagi í ársskilum er 5. febrúar.

Bændur eru með sex mánaða uppgjörstímabil; janúar - júní og júlí - desember. Gjalddagar í landbúnaðarskilum eru 1. mars og 1. september, sem jafnframt eru eindagar.

Skylda að skila rafrænt

Virðisaukaskattsskýrslum skal skila rafrænt, annað hvort á skattur.is eða með skeytasendingum beint úr bókhaldskerfi. Sjá nánar í kaflanum um rafræn skil. Greiðslu skal einnig skila rafrænt, með greiðslu á kröfu í vefbanka sem stofnast um leið og skýrslu er skilað.

Því aðeins er hægt að skila á pappír að sótt sé um það til ríkisskattstjóra og hann meti ástæður til undanþágu frá rafrænum skilum gildar. Undanþágan er veitt í eitt ár í senn, hið lengsta.

Álag vegna síðbúinna skila

Berist virðisaukaskattsskýrsla ekki á réttum tíma er lagt álag á skilafjárhæðina sem er 1% á dag fyrstu 10 dagana og síðan taka dráttarvextir við. Sé engin virðisaukaskattsskyld velta á einhverju tímabili er mikilvægt að skila núllskýrslu, því annars ber ríkisskattstjóra að áætla virðisaukaskattinn. Skýrslu sem sýnir inneign, þegar innskattur er hærri en útskattur, er skilað eins og hefðbundnum skýrslum og á sama tíma.

Ef leiðrétta þarf innsenda skýrslu getur gjaldandi sjálfur gert leiðréttingar rafrænt allt þar til álagningu á viðkomandi tímabil er lokið, sem er mánuði eftir eindaga. 

Árið gert upp - framtalsskil

 Að rekstrarári loknu er ársuppgjöri virðisaukaskatts skilað á eyðublöðum vegna atvinnurekstrar, sem eru hluti af framtalsskilum. Lögaðilar skila skattframtali rekstraraðila (RSK 1.04) og einstaklingar með rekstur skila rekstrarskýrslu (RSK 4.11) eða landbúnaðarskýrslu (RSK 4.08) með framtali sínu. Sé velta í einstaklingsrekstri yfir 20 milljónum króna á ári notar framteljandi eyðublaðið RSK 1.04.

Þrjú eyðublöð geta þurft að fylgja að auki vegna virðisaukaskatts:

  • RSK 10.25 - samanburðarskýrsla. Þar eru veltutölur, innskattur og útskattur borin saman við það sem skilað var á rekstrarárinu á virðisaukaskattsskýrslum.
  • RSK 10.26 - leiðréttingarskýrsla. Hún er aðeins notuð ef fram kemur mismunur í samanburðinum á framtali og virðisaukaskattsskýrslum.
  • RSK 10.27 - afstemmingarblað. Það er aðeins notað er framteljandi er bæði í virðisaukaskattsskyldum rekstri og í starfsemi sem er ekki virðisaukaskattsskyld samkvæmt 2. grein virðisaukaskattslaga.

Lögaðilar með eitt virðisaukaskattsnúmer þurfa ekki að skila samanburðarskýrslu þar sem samanburðurinn er hluti af skattframtali rekstraraðila. Sama gildir um bændur sem skila Landbúnaðarskýrslu en ekki öðrum rekstrarblöðum. Eigi lögaðilar og bændur fleiri en eitt virðisaukaskattsnúmer þarf að skila einni samanburðarskýrslu fyrir hvert númer.

Þeir sem eru í skilamáta þar sem uppgjörstímabil er skemmra en tveir mánuðir geta ekki notað RSK 10.26 vegna leiðréttinga eftir árið og þurfa í staðinn að skila einni virðisaukaskattsskýrslu (RSK 10.01) fyrir hvert tímabil sem þarf að leiðrétta.

Auk ársuppgjörsins er leiðréttingarskýrslan einnig notuð ef velta hjá rekstraraðila, sem skráður er í ársskil, fer yfir 4.000.000 kr. á tólf mánaða tímabili. Þá verður hann að skila leiðréttingarskýrslu RSK 10.26 og gera upp áfallinn skatt ársins. Við það færist hann í almennan skilamáta, sem eru tveggja mánaða skil.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Skattskyld velta - 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Starfsemi sem ekki er skattskyld - 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Uppgjörstímabil - reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti

Velta undanþegin virðisaukaskatti - 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Virðisaukaskattsskrá - reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila

Eyðublöð

Afstemming virðisaukaskatts vegna blandaðrar starfsemi - RSK 10.27

Landbúnaðarskýrsla (einstaklingsrekstur) - RSK 4.08 

Leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts - RSK 10.26

Rekstrarskýrsla (einstaklingsrekstur) - RSK 4.11 

Samanburðarskýrsla virðisaukaskatts - RSK 10.25 

Skattframtal rekstraraðila - RSK 1.04 

Tilkynning til virðisaukaskattsskrár (og launagreiðendaskrár) - RSK 5.02

Virðisaukaskattsskýrsla - RSK 10.01

Athugið að virðisaukaskattsskýrslu (10.01) skal skila rafrænt en getur þurft að nota á pappír vegna leiðréttinga (í stað RSK 10.26) hjá þeim sem eru með skemmra uppgjörstímabil en tvo mánuði.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum