Tollafgreiðsla ökutækja

Tollafgreiðsla 

Tollafgreiðsla innfluttra ökutækja er mismunandi eftir því hvort um er að ræða :

 • Nýtt eða notað ökutæki keypt til landsins
 • Ökutæki á íslenskum skráningarnúmerum endurflutt til landsins ( sjá nánar )
 • Ökutæki á erlendum númerum flutt inn með búslóð ( sjá nánar )
 • Ökutæki á erlendum skráningarnúmerum flutt tímabundið til landsins ( sjá nánar )

Nýtt eða notað ökutæki keypt til landsins

Skilyrði fyrir tollafgreiðslu skráningarskylds ökutækis er að ökutækið hafi verið forskráð (fengið fastnúmer) hjá Samgöngustofu. Innflytjanda ber því að snúa sér til Samgöngustofu áður en farið er fram á tollafgreiðslu skráningarskylds ökutækis, upplýsingar um skráningu ökutækja er að finna á vef Samgöngustofu.

Aðflutningsgjöld af ökutækjum eru greidd af tollverði (innkaupsverði, flutningsgjaldi og flutningstryggingu) ökutækisins. Aðflutningsgjöldin eru: vörugjald, úrvinnslugjald á rafgeyma og hjólbarða, sem fylgja ökutækinu og 24% virðisaukaskattur.

Með þessari reiknivél er hægt að reikna gjöld sem greiða þarf við innflutning á helstu gerðum ökutækja

Á sum ökutæki eru ekki lögð vörugjöld. Í slíkum tilvikum þarf aðeins að greiða 24% virðisaukaskatt auk úrvinnslugjalds, nema það sé sérstaklega undanskilið.

Ákveðnir aðilar geta sótt um lækkun vörugjalds til dæmis ökukennarar, leigubílstjórar, björgunarsveitir og fleiri.

Innflutningur rafmagns- og tengiltvinnbifreiða


Tímabundið var felldur niður virðisaukaskattur að ákveðnu hámarki við innflutning rafmagnsbifreiða. Sú heimild féll niður í lok árs 2023.

Niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagnsbifreiðar gilti til 31.12.2023. Engin niðurfelling er á árinu 2024.

Áður voru gjöld einnig felld niður af tengiltvinnbifreiðum. Eftir að 15.000 slíkar bifreiðar sem notið höfðu þess háttar ívilnunar höfðu verið skráðar í ökutækjaskrá var hámarkinu náð. Engin gjöld eru nú felld niður við innflutning á tengiltvinnbifreiðum.

Sjá einnig: https://island.is/rafbilastyrkir


Tollflokkun

Ökutæki tollflokkast í 87. kafla tollskrár. Í sumum tilvikum flokkast þau eftir þyngd og í öðrum eftir vélarstærð, einnig skal flokka eftir skráðri losun koltvísýrings þar sem það á við. Mikilvægt er að kynna sér vel tollflokkun ökutækja eða leita sérfræðiálits ef vafi er um tollflokkun. Hægt er að leita upplýsinga með því að hafa samband.

Gjöld af ökutækjum

Greiða ber í ríkissjóð vörugjald af skráningarskyldum ökutækjum, jafnt nýjum sem notuðum. Gjaldskyldan nær jafnt til ökutækja sem flutt eru til landsins eða framleidd eru hér á landi, unnið er að eða sett eru saman hér á landi. Einnig leggjast önnur gjöld á ökutæki við innflutning samkvæmt tollskrá svo sem virðisaukaskattur og úrvinnslugjöld.

Ökutæki undanþegin vörugjaldi

 • Dráttarbifreiðar fyrir festivagna og sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd.
 • Ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga og eru yfir 5 tonn að heildarþyngd.
 • Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar, kranabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd yfir 5 tonn.
 • Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru yfir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd.
 • Dráttarbifreiðar að heildarþyngd 4 tonn eða meira sem gerðar eru til nota utan þjóðvega.
 • Slökkvibifreiðar og sjúkrabifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum.
 • Sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagnar og festivagnar til landbúnaðarnota.
 • Dráttarvélar.
 • Beltabifreiðar (snjóbílar), yfir 700 kg að eigin þyngd, sérstaklega ætlaðar til aksturs í snjó.
 • Haffær ökutæki á hjólum fyrir láð og lög.
 • Ökutæki í eigu erlendra sendiráða, sendiræðisskrifstofa og sendiræðismanna sé slíkt skylt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Sama gildir um alþjóðasamtök og alþjóðastofnanir sem hér eru.
 • Sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og keppnisbifhjól sem eru skráð sem slík og einungis notuð í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna, svo og til aksturs til og frá slíkum atburðum. Skráningarmerki bifreiðanna og bifhjólanna skulu auðkennd sérstaklega. Ráðherra setur nánari reglur um gerð og útbúnað þeirra, svo og til hvaða atburða akstursheimildin taki. Sé brotið í bága við þær reglur skal vörugjald innheimt að fullu.
 • Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum eða fatlaðs fólks sem eru sérstaklega útbúnar fyrir fatlað fólk. Bifreiðarnar skulu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði og samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands.
 • Ökutæki sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að viðkomandi ökutæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita.
 • Hópferðabifreiðar sem skráðar eru fyrir 10 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni að leyfðri heildarþyngd 5 tonn eða meira.
 • Bifhjól samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga sem knúin eru af rafhreyfli að öllu leyti. Sama gildir um golfbifreiðar, körtur og beltabifreiðar, þ.m.t. vélsleða, sem eingöngu eru knúnar rafhreyfli.
 • Sendibifreiðar og önnur ökutæki til vöruflutninga í atvinnuskyni sem eingöngu eru knúin metani, metanóli, rafmagni eða vetni.

Ökutæki sem bera 13% vörugjald við innflutning

 • Kranabifreiðar og borkranabifreiðar sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd.
 • Yfirbyggingar, þ.m.t. ökumannshús fyrir vélknúin ökutæki.
 • Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd, aðrir tengi- og festivagnar.
 • Dráttarbifreiðar fyrir festivagna sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
 • Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
 • Fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki 40 ára og eldri (fornbílar, fornbifhjól)
 • Sendibifreiðar með sambyggt stýrishús og flutningsrými, eftir atvikum búnar farþegasætum eða sætisfestingum fyrir allt að tvo farþega auk ökumanns í stýrishúsi en engum slíkum í farmrými og flutningsrými, sem eru ætlaðar til vöruflutninga og eru undir 5 tonnum að leyfðri heildarþyngd.
 • Grindur með hreyfli og ökumannshúsi og eftir atvikum með viðbættu vöruflutningarými. Með viðbættu vöruflutningarými er átt við vörukassa eða vörupall sem ekki er sambyggður ökumannshúsinu og myndar ekki sjónræna heild með því hvað varðar lögun, lit eða efni.
 • Ökutæki ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, sem ekki eru skráningarskyld samkvæmt umferðarlögum.

Ökutæki sem bera 30% vörugjald við innflutning

 • Hópferðabifreiðar sem skráðar eru fyrir 10 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni að leyfðri heildarþyngd 5 tonn eða minna. Sömu ökutæki í eigu hópferða- eða sérleyfishafa eða í fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við hópferða- eða sérleyfishafa skulu bera 5% vörugjald.
 • Bifhjól samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga og jafnframt stigin bifhjól, fjórhjól, sexhjól, körtur, golfbifreiðar og beltabifreiðar, þ.m.t. vélsleðar.
 • Önnur vélknúin ökutæki sem ekki eru sérstaklega talin upp í þessum kafla.

Sérstakar reglur 

Um eftirtaldar bifreiðar gilda, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sérstakar reglur um vörugjald.

Leigubifreiðar

Vörugjald skal lagt á leigubifreiðar til fólksflutninga miðað við skráða losun koltvísýrings (CO 2) viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Gjaldið skal vera sem hér segir en samanlagt ekki nema meira en 30% á hvert ökutæki:

 1. 0,26% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 132 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
 2. 0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.
 3. 0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Mismunur álagningar skv. 3. gr. og þessari grein skal að hámarki nema 1.250.000 kr.

Skilyrði lækkunar vörugjalds af leigubifreiðum eru að kaupandi hennar hafi atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og hafi akstur hennar að aðalatvinnu.

Lækkun vörugjalds er jafnframt háð því skilyrði að næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

 • Rétthafi skal hafa atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs, samkvæmt lögum um leigubifreiðar. Skal hann leggja fram vottorð því til staðfestingar í tengslum við umsókn um lækkun vörugjalds.
 • Rétthafi má ekki njóta eftirgjafar vegna annarrar leigubifreiðar á sama tíma.
 • Rétthafi skal hafa í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, næsta almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Að loknum tveimur árum frá eftirgjöf ber rétthafa að senda tollyfirvöldum staðfest endurrit af skattskýrslu næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt, til staðfestingar á tekjum rétthafa. Berist ekki framangreint skattframtal skal innheimta eftirgefið vörugjald að fullu.
 • Að bifreið verði skráð sem leigubifreið í ökutækjaskrá og nýtt sem slík.

Komi í ljós að skilyrði sem sett eru í þessari grein hafi ekki verið uppfyllt við álagningu vörugjalds samkvæmt þessari grein varðar það því að kaupandinn, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, missir rétt til að njóta ívilnunar vörugjalds samkvæmt þessari grein í þrjú ár frá síðasta broti.

Sé bifreið notuð til annars en hún er ætluð skv. c- og d-lið 3. mgr., sbr. 4. og 5. mgr., skulu tollyfirvöld leggja á skráðan eiganda hennar fullt vörugjald skv. 3. gr. eins og það hefði verið við upphaflega álagningu að viðbættu 50% álagi.

Lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi. 

Bifreiðar til ökukennslu

Vörugjald skal lagt á bifreiðar til ökukennslu miðað við skráða losun koltvísýrings (CO 2) viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Gjaldið skal vera sem hér segir en samanlagt ekki nema meira en 30% á hvert ökutæki:

a. 0,26% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 132 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.

b. 0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.

c. 0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Mismunur álagningar skv. 3. gr. og þessari grein skal að hámarki nema 1.250.000 kr.

Skilyrði fyrir því að bifreið til ökukennslu beri vörugjald samkvæmt framangreindu eru, að næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

 1. Rétthafi skal hafa hlotið löggildingu sem ökukennari, samkvæmt reglugerð um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla og hafi akstur bifreiðarinnar að aðalatvinnu. Skal hann leggja fram vottorð því til staðfestingar í tengslum við umsókn um lækkun vörugjalds.
 2. Rétthafi má ekki njóta eftirgjafar vegna annarrar bifreiðar til ökukennslu á sama tíma.
 3. Rétthafi skal hafa í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, næsta almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Að loknum tveimur árum frá eftirgjöf ber rétthafa að senda tollyfirvöldum staðfest endurrit af skattskýrslu næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt, til staðfestingar á tekjum rétthafa. Berist tollyfirvöldum ekki framangreint skattframtal skal innheimta eftirgefið vörugjald að fullu.
 4. Að bifreið verði skráð sem bifreið til ökukennslu í ökutækjaskrá og nýtt sem slík.

Ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum skulu tollyfirvöld innheimta fullt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar vörugjalds.

Lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi.

Ökuskólar geta jafnframt notið lækkunar samkvæmt framangreindu.

lækkun vörugjalds af bifreiðum til ökukennslu í eigu ökuskóla er háð því skilyrði að næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði nýting hennar og starfsemi ökuskóla hagað sem hér segir:

 1. Bifreið skal skráð á ökuskóla sem hefur starfsleyfi frá Samgöngustofu. Ökuskólar skulu haga starfsemi sinni að öllu leyti í samræmi við reglugerð um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla.
 2. Bifreið skal skráð sem bifreið til ökukennslu og tryggð sem slík.
 3. Bifreiðin skal eingöngu nýtt til ökukennslu hjá viðkomandi skóla. Við mat á því skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 80% af akstri hennar með framlagningu akstursdagbókar eða með öðrum hætti sem tollyfirvöld meta fullnægjandi.
 4. Ökuskóli skal haga bókhaldi sínu með þeim hætti að hann geti á hverjum tíma gert grein fyrir akstri bifreiðar. Tollyfirvöld geta án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um.

Komi í ljós að skilyrði sem sett eru í þessari grein hafi ekki verið uppfyllt við álagningu vörugjalds samkvæmt þessari grein varðar það því að kaupandinn, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, missir rétt til að njóta ívilnunar vörugjalds samkvæmt þessari grein í þrjú ár frá síðasta broti.

Sé bifreið notuð til annars en hún er ætluð skv. c- og d-lið 3. mgr., sbr. 4. og 5. mgr., skulu tollyfirvöld leggja á skráðan eiganda hennar fullt vörugjald skv. 3. gr. eins og það hefði verið við upphaflega álagningu að viðbættu 50% álagi.

Lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi.

Vakin er athygli á því að ökuskóli skal haga skráningu á akstri bifreiðar sem nýtur lægra vörugjalds þannig að á hverjum tíma sé unnt að gera grein fyrir akstri bifreiðarinnar í þágu ökukennslu. Tollyfirvöld geta án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Sé bifreið notuð til annars er tollyfirvöldum heimilt að innheimta fullt vörugjald með 50% álagi.

Sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga

Vörugjald skal lagt á sérútbútbúnar bifreiðar til fólksflutninga miðað við skráða losun koltvísýrings (CO 2) viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Gjaldið skal vera sem hér segir en samanlagt ekki nema meira en 30% á hvert ökutæki:

a. 0,26% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 132 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.

b. 0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.

c. 0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Mismunur álagningar skv. 3. gr. og þessari grein skal að hámarki nema 1.250.000 kr.

Skilyrði fyrir því að bifreið sem er sérútbúin til fólksflutninga beri vörugjald samkvæmt þessum reglum eru að kaupandi hennar hafi leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða skv. 10. gr. laga nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi, jafnframt að bifreiðin sé eingöngu notuð í tengslum við þjónustu við ferðamenn.

Bifreið sem er sérútbúin til fólksflutninga og ber vörugjöld samkvæmt þessum tölulið skal auðkenna með sérstökum hætti í ökutækjaskrá og skal hún bera sérstök skráningarmerki og skal útlit þeirra tilgreint nánar í reglugerð um skráningu ökutækja.

Komi í ljós að skilyrði sem sett eru í þessari grein hafi ekki verið uppfyllt við álagningu vörugjalds samkvæmt þessari grein varðar það því að kaupandinn, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, missir rétt til að njóta ívilnunar vörugjalds samkvæmt þessari grein í þrjú ár frá síðasta broti.

Sé bifreið notuð til annars en hún er ætluð skv. c- og d-lið 3. mgr., sbr. 4. og 5. mgr., skulu tollyfirvöld leggja á skráðan eiganda hennar fullt vörugjald skv. 3. gr. eins og það hefði verið við upphaflega álagningu að viðbættu 50% álagi.

Lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi.

Húsbifreiðar

Á árunum 2020 til 1. október 2024 skal lækka skráða losun húsbíla um 40%, en þó að hámarki niður í 150 g/km, áður en til álagningar vörugjalds kemur, hafi losun einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Þetta ákvæði á aðeins við ef:

a. ökutæki er skráð sem bifreið í ökutækjaskrá, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019,
b. ökutæki fellur í flokk húsbíla eða húsbifreiða samkvæmt ákvæðum umferðarlaga, nr. 77/2019, og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim og
c. ökutæki teldist grind í skilningi h-liðar 2. tölul. 4. gr. ef það væri án yfirbyggingar til bústaðarnota með borðum og sætum, rúmstæði, eldunaraðstöðu, o.fl.]

Einnig skal lækka skráða losun húsbíla um 40%, en þó að hámarki niður í 150 g/km, áður en til álagningar vörugjalds kemur, hafi losun verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni að uppfylltum skilyrðum a–c-liðar.

Rafmagns- og vetnisbifhjól, létt bifhjól eða rafmagnsreiðhjól og önnur reiðhjól

Við innflutning og skattskylda sölu nýs rafmagns- eða vetnisbifhjóls, létts bifhjóls sem knúið er rafmagni eða reiðhjóls er heimilt á eftirfarandi tímabilum að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki eins og nánar er kveðið hér að neðan. Ákvæðið skal jafnframt gilda um niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning og fyrstu sölu notaðs rafmagns- eða vetnisbifhjóls enda sé ökutækið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu.

Tollyfirvöldum er heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt af rafmagns- eða vetnisbifhjóli:

 1. Að hámarki 1.440.000 kr. frá 1. janúar til og með 30. júní 2020.
 2. Að hámarki 1.560.000 kr. frá 1. júlí 2020 til og með 31. desember 2022.
 3. Að hámarki 1.320.000 kr. frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2024.

Bifhjólið skal skráð sem bifhjól í ökutækjaskrá, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, vera eingöngu knúið rafmagni eða vetni og falla undir vöruliði 8703, 8704 eða 8711 í tollskrá.

Af léttu bifhjóli eða reiðhjóli sem knúið er rafmagni að hámarki 96.000 kr. Létt bifhjól eða reiðhjól skal falla undir b-lið 28. tölul. eða b-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vörulið 8711 í tollskrá. Létt bifhjól skal vera skráð sem létt bifhjól í ökutækjaskrá, sbr. 28. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019.

Af reiðhjóli með stig- eða sveifarbúnaði og öðrum tegundum reiðhjóla að hámarki 48.000 kr. Reiðhjól skal falla undir a- eða c-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vöruliði 8711 eða 8712 í tollskrá.

 

Metangasbifreiðar

Skattinum er heimilt að fella niður vörugjald af nýju og ónotuðu ökutæki að hámarki 1.250.000 kr. sé ökutækinu breytt fyrir nýskráningu þannig að það nýti metan í stað bensíns eða dísilolíu og breytingin sé staðfest og vottuð í skráningarskoðun ökutækisins.

Til þess að ökutæki geti notið lækkaðs vörugjalds skal það vera útbúið að lágmarki 78 lítra metangeymi. Umsókninni skulu fylgja upplýsingar sem embættið metur fullnægjandi til staðfestingar því að vél ökutækis sé að verulegu leyti knúin metangasi eða rafmagni.

Óheimilt er að fjarlægja eða gera breytingarbúnað ökutækis óvirkan innan fimm ára frá nýskráningu.

Sjá: Lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

 

Sérsmíðaðar bifreiðar til akstursíþrótta

Vörugjald skal falla niður af sérsmíðuðum bifreiðum til keppni í rallakstri, sem skráðar eru sem slíkar, ökutækjum sem ekki eru skráningarskyld og sérsmíðuð eru til nota í kvartmílukeppni og torfærugrindum til nota í torfærukeppni.

Niðurfelling vörugjalds er háð því skilyrði að næstu sjö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

 1. Ökutæki skal ætlað til og einungis notað í aksturskeppnum sem haldnar eru í samræmi við reglur um akstursíþróttir og aksturskeppni og haldnar eru á ábyrgð og samkvæmt reglum samtaka um akstursíþróttir, þ.e. skipulagsbundinna samtaka sem hafa akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni og hlotið hafa til þess viðurkenningu innanríkisráðuneytisins.
 2. Við umsókn um niðurfellingu vörugjalds skal lagt fram vottorð frá framleiðanda bifreiðar ásamt rökstuddri yfirlýsingu samtaka um akstursíþróttir um að um sé að ræða sérsmíðaða keppnisbifreið til aksturskeppni í viðkomandi keppnisgrein. Ef ökutæki er ekki skráningarskylt skal leggja fram vottorð um það frá skráningarstofu ökutækja. Við mat á því hvort ökutæki sé sérsmíðað ökutæki til keppni í viðkomandi keppnisgrein skal m.a. litið til þess hvort ökutækið uppfylli þær kröfur sem samtök um akstursíþróttir gera til keppnisbifreiða. Varðandi sérsmíðaðar bifreiðar til keppni í rallakstri skal jafnframt litið til þess hvort bifreiðin uppfylli kröfur sem gerðar eru varðandi skráningu samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja.
 3. Ef um sérsmíðaða bifreið til rallaksturs er að ræða skal hún skráð sem slík í ökutækjaskrá, samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja. Skráningarnúmer skulu vera í samræmi við ákvæði sömu reglugerðar.
 4. Ökutækjum sem njóta niðurfellingar samkvæmt þessari grein er óheimilt að aka á vegum. Þó er heimilt að aka sérsmíðuðum rallbifreiðum á vegum vegna þátttöku í rallaksturskeppnum samkvæmt reglum um akstursíþróttir og aksturskeppni og til æfingaaksturs samkvæmt sömu reglum.

Ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum skal Skatturinn innheimta fullt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar vörugjalds.

Lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi.

Framkvæmd lækkunar eða niðurfellingar vörugjalds af ökutækjum

Umsókn um lækkun eða niðurfellingu vörugjalds skal beint til tollyfirvalda.

Sá sem sækir um niðurfellingu eða lækkun skal undirrita yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann skuldbindi sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru í ákvæðum um nýtingu ökutækis o.fl. Með undirritun yfirlýsingar skuldbindur aðili sig til greiðslu ógreidds vörugjalds verði brotið gegn fyrrgreindum skilyrðum og staðfestir vitneskju þess efnis að lögveð sé í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi.

Sé skráður eigandi ökutækis eignarleiga skal hún jafnframt staðfesta vitneskju um fyrrgreind skilyrði og lögveð vegna vangoldins vörugjalds ef skilyrði eru ekki uppfyllt.

Eignarleigufyrirtæki sem hyggst nýta rétt til niðurfellingar vörugjalds skal afhenda skattinum undirritaða yfirlýsingu um að fyrirtækinu sé kunnugt um framangreind skilyrði um nýtingu ökutækis svo og skyldu fyrirtækisins til greiðslu á hluta eftirgefins vörugjalds verði ökutækið tekið til annarra nota.

Tilgreina skal í ökutækjaskrá ef vörugjald hefur verið lækkað í samræmi við framangreint. Óheimilt er að umskrá ökutæki sem tilgreint hefur verið með slíkum hætti fyrr en að fenginni heimild skattsins.

Ekki skal lækka eða fella niður vörugjald samkvæmt framangreindu nema sótt sé um eftirgjöf fyrir nýskráningu eða í beinum tengslum við hana.

Heimilt er að selja ökutæki sem notið hefur lækkunar vörugjalds samkvæmt framangreindu, enda greiði sá sem notið hefur lækkunar, hluta eftirgefins vörugjalds, í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir er miðað við heildartíma kvaðar.

Jafnframt er heimilt að taka ökutækið til annarrar notkunar en lá til grundvallar lækkunar, innan tilgreindra tímamarka, enda greiði sá sem notið hefur lækkunar, hluta eftirgefins vörugjalds, í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir er miðað við heildartíma kvaðar.

Útreikningur vörugjalds

Meginreglan við útreikning vörugjalds af skráningarskyldu ökutæki, skv. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993, er að reikna það út frá losun koltvísýrings (CO2-gildi) frá ökutækinu. Þeirri aðferð er beitt ef ökutækið ber ekki sérstakt hlutfall vörugjalds, það er undanþegið vörugjaldi eða ef sérstakar reglur gilda um það.

Losun koltvísýrings (CO2-gildi) - skráning í ökutækjaskrá Samgöngustofu

Losun koltvísýrings (CO2-gildi), sem skráð er í ökutækjaskrá Samgöngustofu, er mæld skv. tveimur aðferðum. Önnur aðferðin er nefnd evrópska aksturslotan, skammstöfuð sem NEDC, en hin aðferðin er nefnd samræmda prófunaraðferðin, skammstöfuð sem WLTP.

Breytilegt er eftir ökutækjum hvernig losun koltvísýrings (CO2-gildi) er skráð í ökutækjaskrá. Eftirfarandi fjögur gildi eru í ökutækjaskránni en stundum eru fleiri en eitt gildi skráð fyrir sama ökutækið:

 • CO2-gildi (NEDC)
 • Vegið CO2-gildi (NEDC)
 • CO2-gildi (WLTP)
 • Vegið CO2-gildi (WLTP)

Við útreikning vörugjalds er eftirfarandi aðferð notuð til að ákveða CO2-gildið, sem stuðst verður við:

 • Vegið-CO2 gildi (WLTP) notað, sé það til staðar, en annars er...
 • CO2-gildi (WLTP) notað, sé það til staðar, en annars er...
 • Vegið CO2-gildi (NEDC) notað, sé það til staðar, en annars er...
 • CO2-gildi (NEDC) notað.

Hafa ber hugfast, að aðferðin hér að ofan segir bara til um CO2-gildið, sem nota skal við útreikning vörugjalds. Hér á eftir er svo gerð grein fyrir því hvernig mismunandi skráning á CO2-gildum í ökutækjaskrá hefur áhrif á þær aðferðir, sem notaðar eru við útreikninginn.

Heiti vörugjalda, sem reiknuð eru skv. CO2-gildi

Vörugjöldin bera kódana N1, N2 og N3. Við útreikning er eitt gjaldanna svo valið í samræmi við skráningu í ökutækjaskrá.

Útreikningur N1, N2 og N3 vörugjalda

Aðferðin við að velja og reikna út N1, N2 og N3 vörugjöldin er þessi:

 • Vörugjaldið N1:
  0,34% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 69 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
 • Vörugjaldið N2:
  0,28% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 85 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.
 • Vörugjaldið N3:
  0,28% á hvert gramm skráðrar koltvísýrings­losunar umfram 85 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni hafi losunin verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni og evrópsku aksturslotunni.

Um N1, N2 og N3 vörugjöldin gildir þó, að þau verða aldrei hærri en 65% af tollverði ökutækis.

Undanþágur vegna vörugjalda af leigubifreiðum til fólksflutninga, bifreiðum til ökukennslu og sérútbúnum bifreiðum til fólksflutninga

Sérstakar reglur gilda um útreikning vörugjalds, sem lagt er á leigubifreiðar til fólksflutninga, bifreiðar til ökukennslu og sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga. Um er að ræða undanþágukódana LÖT15, LÖT23, LÖT24 og LÖT29.

Byrjað er á að reikna út fullt vörugjald í samræmi við þær aðferðir, sem lýst er hér að framan.

Því næst er vörugjaldið reiknað út skv. þessari undanþáguaðferð:

 • Vörugjaldið N1:
  0,26% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 132 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
 • Vörugjaldið N2:
  0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.
 • Vörugjaldið N3:
  0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni hafi losunin verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni og evrópsku aksturslotunni.

Upphæð N1, N2 og N3 vörugjalda skv. þessari undanþáguaðferð verður þó aldrei hærri en 30% af tollverði ökutækis. Þó gildir sú regla, að mismunur á fullu vörugjaldi og reiknuðu vörugjaldi skv. þessari undanþáguaðferð getur aldrei orðið hærri en 1.250.000 krónur.

Ítarefni

Lög og reglur

Lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.nr. 29/1993

Lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988

Reglugerð um vörugjald af ökutækjum nr. 331/2000

3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019.

Lög nr. 117/2018 - um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum um virðisaukaskatt (losunarviðmið, sendi-, vöru- og golfbifreiðar).

Reglugerð um skráningu ökutækja númer 751/2003

Eyðublöð

TS-V04 - Umsókn og yfirlýsing vegna eftirgjafar vörugjalds af ökutækis - lesið leiðbeiningar áður en umsókn er fyllt út.

Notið þetta eyðublað ef sótt er um samkvæmt ákvæðum og skilyrðum um eftirgjöf vörugjalda í II. kafla laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og V. kafla reglugerðar 331/2000, með síðari breytingum.

TS-E20 - Umsókn um endurgreiðslu aðflutningsgjalda - lesið leiðbeiningar áður en umsókn er fyllt út.

Eyðublaðið er notað m.a. þegar sótt er um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á ökutækjum slökkviliða.

TS-V01 - Tilkynning um vörugjaldsskylda starfsemi vegna aðvinnslu og framleiðslu ökutækja

TS-V03 - Vörugjaldsskýrsla vegna aðvinnslu eða framleiðslu ökutækis

Vistið eyðublaðið á tölvuna og notið Adobe Reader forritið til að fylla það út.

Nánari upplýsingar

Leiðbeiningar Alþjóðatollastofnunarinnar vegna tollflokkunnar á ökutækjum í vöruliðum 8703 og 8704 (ökutæki til fólks- og vöruflutninga)


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum