Sjávarafurðir - leyfisnúmer

Leyfisnúmer framleiðanda sjávarafurða sett í reit númer 44 á útflutningsskýrslu (ebl. E-2)

Nýjasta útgáfa: 27. ágúst 2013.
Gildir frá og með 01.03.2013.

I. Breytingar og tilgangur

Þann 1. september 2012 breyttust reglur um frágang á útflutningsskýrslu (ebl. E-2) þegar um er að ræða útflutning á tilteknum sjávarafurðum. Í þeim tilfellum ber að tilgreina framleiðanda á Íslandi (sjá skýringar neðar) með því að skrá tiltekið leyfisnúmer hans í reit númer 44 á útflutningsskýrslunni ásamt viðeigandi leyfislykli. Þetta er gert að ósk Fiskistofu til að hægt sé að rekja sjávarafurð til síðasta vinnsluaðila á Íslandi.

Unnar og óunnar sjávarafurðir.

Í leiðbeiningum hér á eftir, er stundum rætt um unnar og óunnar sjávarafurðir. Hér er litið svo á, að sjávarafurðir teljist vera unnar, hafi meðhöndlun verið umfram blóðgun slægingu eða kælingu.

II. Reitur númer 44 á útflutningsskýrslu - hvern ber að tilgreina sem framleiðanda?

Í þessum leiðbeiningum er orðið framleiðandi notað sem samheiti yfir mismunandi fyrirtæki, sem tilgreina ber í reit númer 44 á útflutningsskýrslu, sbr. eftirfarandi:

 • Framleiðandi er veiðiskip þegar óunnar sjávarafurðir eru fluttar út (á við um slægðan og óslægðan fisk).
  • Sérregla: Flytji vinnsluleyfishafi út óunninn afla, telst vinnsluleyfishafinn vera framleiðandi en ekki veiðiskipið.
 • Framleiðandi er síðasti vinnsluleyfishafi þegar unnar sjávarafurðir eru fluttar út.
 • Framleiðandi er eldisstöð í þeim tilvikum sem sjávarafurð úr eldi er flutt út óunnin (á við um slægðan og óslægðan fisk).

Fyrirtæki, sem stundar eftirfarandi starfsemi á ekki að tilgreina sem framleiðanda í reit númer 44 á útflutningsskýrslu:

 • Fiskmarkaður (sjá þó lið III.C).
 • Slægingarþjónusta.
 • Umboðsaðili.

Á þessari teikningu má sjá mismunandi leiðir, sem fiskur getur farið frá því að hann er veiddur þar til hann er orðinn að vöru, sem tilgreind er á útflutningsskýrslu. Mismunandi leiðir hafa svo áhrif á það hvern tilgreina ber sem framleiðanda.

III. Reitur númer 44 á útflutningsskýrslu - hvernig er framleiðandi tilgreindur?

Framleiðandi er tilgreindur með því að skrá tiltekinn þriggja stafa lykil, sem Skatturinn ákveður, ásamt viðeigandi leyfisnúmeri framleiðandans í reit númer 44. Hér á eftir fara nákvæmari leiðbeiningar um lyklana og leyfisnúmerin.

A. Lykill leyfisnúmers

Eftirfarandi tveir lyklar eru notaðir með leyfisnúmerum vegna sjávarafurða og hefur hvor lykill ákveðna merkingu, sbr. eftirfarandi:

 • SFA er notaður um unnar sjávarafurðir.
 • SFB er notaður um óunnar sjávarafurðir.

B. Tegund og gerð leyfisnúmers framleiðanda

Á eftir þriggja stafa lyklinum á að setja tiltekið leyfisnúmer framleiðandans. Um leyfisnúmerið gilda eftirfarandi reglur:

 • Framleiðandi er veiðiskip - tilgreina á skipaskrárnúmer.
  Hér á að tilgreina skipaskrárnúmer Samgöngustofu að viðbættu IS- fyrir framan. Dæmi: IS-1234.
 • Framleiðandi er vinnslustöð - tilgreina á samþykkisnúmer.
  Hér á að tilgreina samþykkisnúmer Matvælastofnunar. Númerið er samsett úr stórum bókstaf og þriggja stafa tölu. Dæmi: A123.
 • Framleiðandi er fiskeldisstöð - tilgreina á rekstrarleyfisnúmer.
  Hér á að tilgreina rekstrarleyfisnúmer Fiskistofu. Númerið er fimm tölustafir að viðbættu IS- fyrir framan. Dæmi: IS-12345.

C. Sérstakar undanþágur sem Fiskistofa veitir

 • Ef útflytjandi flytur út kældan og óunninn afla í tollflokki 0302, sem keyptur hefur verið á fiskmarkaði og veiddur af mörgum skipum, getur hann sótt um undanþágu til Fiskistofu vegna skráningar á leyfisnúmeri framleiðanda í útflutningsskýrslu. Fiskistofa upplýsir í hverju ofangreindar undanþágur felast.
 • Ef útflytjandi flytur út innfluttar sjávarafurðir, sem ekki er hægt að rekja til íslenskra framleiðenda, getur hann sótt um undanþágu til Fiskistofu vegna skráningar á leyfisnúmeri framleiðanda í útflutningsskýrslu. Fiskistofa upplýsir í hverju ofangreindar undanþágur felast.

D. Sérreglur varðandi farangur og gjafasendingar

 • Erlendir veiðimenn skilja aflann stundum eftir hér landi til að láta vinna hann, t.d. til að láta reykja hann. Þegar unni aflinn er sendur til eigenda sinna erlendis, má nota tollskrárnúmer 9802.2000, og er þá ekki gerð krafa um leyfisnúmer. Þetta á við um minniháttar sendingar.
 • Minniháttar gjafasendingar, sem innihalda sjávarafurðir, mega bera tollskrárnúmer 9804.1000, og er þá ekki gerð krafa um leyfisnúmer.

IV. SMT/EDI tollafgreiðsla - tollskrárlyklar til innlestrar í hugbúnað vegna tollskýrslugerðar

Tollskrárlyklarnir innihalda leyfislyklana SFA og SFB. Útflytjendur og tollmiðlarar, sem stunda SMT-/EDI tollafgreiðslu, verða að setja upplýsingar um tollskrárlyklana inn í hugbúnað sinn vegna tollskýrslugerðar. Að öðrum kosti koma fram villur við tollafgreiðslu útflutningsskýrslna.

Tollskrárlyklar í útflutningi eru aðgengilegir hér.

V. Nýir villukódar í svarskeyti skattsins (CUSERR) - númer 2208 og 2209

Nýir villukódar bætast við í CUSERR-skeytum, sem send eru úr Tollakerfinu vegna útflutningsskýrslna (þetta eru skeyti með upplýsingum um villur og aðfinnsluatriði vegna SMT-/EDI-tollskýrslna).

 • Villukódi númer 2208 er sendur, ef samsetning á bókstöfum og tölustöfum í leyfisnúmeri framleiðanda er ekki rétt. Skýringartexti skattsins við villukódann er þannig: „Form leyfisnúmers í ósamræmi við reglur."
 • Villukódi númer 2209 er sendur, ef fleiri en eitt leyfisnúmer framleiðanda er tilgreint í einni og sömu vörulínunni. Skýringartexti skattsins við villukódann er þannig: „Leyfiskódi framleiðanda endurtekinn."

VI. Nýir skjalakódar í beiðnum skattsins um skjöl (CUSDOR)

Nýir skjalakódar bætast einnig við í CUSDOR-skeytum, sem send eru úr Tollakerfinu vegna útflutningsskýrslna (um er að ræða skjalabeiðni vegna SMT-/EDI-tollafgreiðslu).
Nýju skjalakódarnir eru SFA og SFB. Smella má hér til að fá nánari upplýsingar um skjalakóda í útflutningi.

VII. Nánari upplýsingar

Skatturinn veitir allar nánari upplýsingar um atriði, sem lúta að breytingum á útfyllingu útflutningsskýrslu. 
Fiskistofa veitir nánari upplýsingar um lagaheimildir, hugsanleg vafaatriði er tengjast skilgreiningum á framleiðanda og önnur tengd atriði.
Matvælastofnun veitir nánari upplýsingar um leyfisnúmer framleiðenda. 

Skatturinn: almennt um notkun eyðublaðs E2 við útflutning - reitur 44

Ítarefni

Eyðublöð

Eyðublað E2 - Útflutningsskýrsla

Nánari upplýsingar

CUSDOR-skeyti - skjalakódar

CUSDOR-skeyti - villukódar

Útflutningsskýrsla

Matvælastofnun: listi yfir samþykkisnúmer

Fiskistofa: Skráning leyfisnúmera framleiðanda í útflutningsskýrslurÞessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum