Útflutningsleyfi

Í ákveðnum tilvikum er skylt að afla útflutningsleyfa áður en útflutningur vöru er heimilaður.
Vöruútflutningur er almennt frjáls nema annað sé ákveðið í lögum.

Hægt er að velja eftirtaldar vörur til að sjá hvaða leyfi þarf til að flytja þær út.

 

Fiskur

Ekki þarf leyfi til að flytja úr landi sýnishorn sem eru ætluð til kynningar á viðkomandi vöru. Sama gildir um gjafir og póstsendingar að sama verðmæti og gildir um tollfrjálsan innflutning ferðamanna.

Plöntur

Þegar plöntur eru fluttar frá Íslandi til annarra landa, skal fylgja þeim heilbrigðisvottorð í samræmi við kröfur innflutningslandsins, samanber nánar 10. grein reglugerðar númer 189/1990 um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum.

Ávana- og fíkniefni

Útflutningur ávana- og fíkniefna er bannaður skv. 2. og 3. grein laga númer 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

Lifandi hross

Á heimasíðu MAST er ítarleg umfjöllun um útflutning hrossa. Að öðru leiti vísast til laga um útflutning hrossa nr. 27/2011.

Dýraafurðir

Inn- og útflutningsskrifstofa MAST annast rekstur landamærastöðva og eftirlit með innflutningi dýraafurða til landsins og þar með inn á Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Fuglar

Fugla, egg, eggskurn og hreiður er óheimilt að flytja úr landi nema með undanþágu frá umhverfisráðuneyti, samanber nánar 32. grein laga númer 33/1966 um fuglaveiðar og fuglafriðun. Bannið tekur hvorki til rjúpna né alifugla.

Notaðir kælimiðlar

Sækja skal um leyfi til útflutnings á notuðum kælimiðli til Umhverfisstofnunar. Í umsókninni skal m.a. koma fram hvert fyrirhugað er að flytja efnið og upplýsingar um fyrirhugaða meðhöndlun þess í móttökulandinu.

Upplýsingar um útflutning kælimiðla, þ.á m. um magn og tegund ásamt móttakanda, skulu sendar eftirlitsaðila fyrir 31. janúar ár hvert fyrir árið á undan. Eftirlitsaðilar eru Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sem annast eftirlit á landi og Samgöngustofa sem annast eftirlit um borð í skipum, með flutningagámum og eftirlit um borð í flugvélum.

Forngripir

Unnið er að endurskoðun þessa texta:

Eigi má flytja úr landi neina muni eða gripi sem hér eru taldir nema safnráð leyfi, samanber 3. málsgrein 2. greinar laga númer 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa.

Eftirtaldir munir eru leyfisskyldir samkvæmt framangreindu:

 1. Forngripir, eldri en 100 ára, hvort sem eru í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga.
 2. Hlutar úr listrænum, sögulegum eða trúarlegum minjum er losaðir hafa verið frá þeim og eldri eru en 100 ára.
 3. Málverk og handgerðar myndir, aðrar en þær sem getið er um í b-lið 3. töluliðar og 4. tölulið hér á eftir, úr hvaða efni sem er ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
 4. Vatnslitamyndir, gvassmyndir og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti á hvaða efni sem er ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
 5. Mósaíkverk úr hvaða efni sem er og að öllu leyti handunnin, sem ekki falla undir 1. eða 2. tölulið hér að framan, og teikningar úr hvaða efni sem er séu myndverkin að öllu leyti handunnin, eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
 6. Frumeintök af stungum, þrykki, silkiprenti og steinprenti, ásamt tilheyrandi plötum og frumgerð veggspjalda, séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
 7. Frumeintök höggmynda eða myndastyttna og eftirmyndir þeirra sem eru gerðar með sömu aðferð og frumeintökin séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra, enda falli þau ekki undir 1. tölulið hér að framan.
 8. Ljósmyndir og kvikmyndir og filmur eða glerplötur af þeim, enda séu þær eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda myndanna.
 9. Bækur, prentaðar fyrir 1500 (vögguprent), svo og handrit, þar með talin landabréf og raddskrár, stakar eða sem safn, sem eldri eru en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
 10. Aðrar bækur, eldri en 100 ára, stakar eða sem safn.
 11. Prentuð landabréf, eldri en 200 ára.
 12. Skjalasöfn hvers konar og hluta þeirra, úr hvaða efni sem er, eldri en 50 ára.
 13. Dýrafræðileg, grasafræðileg, bergfræðileg eða líffræðileg söfn og safneintök og sömuleiðis söfn sem gildi hafa fyrir sagnfræði, steingervingafræði, þjóðflokkafræði eða myntfræði.
 14. Samgöngutæki, eldri en 75 ára.
 15. Aðrar menningarminjar, eldri en 50 ára.

Leiki vafi á um aldur minja sem taldar eru upp í 1.–11. og 13.–14. tölul. hér að framan ber útflytjanda að snúa sér til safnaráðs, en Náttúrufræðistofnunar Íslands ef vafi er um aldur minja sem 12. töluliður á við.

Sjá nánari upplýsingar á vef Minjastofnunar.

Náttúrugripir

Náttúrugripi má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni, samanber 4. málsgrein 15. greinar laga númer 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

Örverur frá jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra

Útflytjendur þurfa leyfi Náttúrustofnunar Íslands við útflutning á örverum sem eiga uppruna sinn á jarðhitasvæðum og erfðaefnum þeirra, samanber 4. málsgrein 15. greinar laga númer 60/1992.

Neysluvörur skaðlegar heilbrigði

Framleiðendur mega einungis markaðssetja örugga vöru.

Vörur, sem ætlaðar eru til sölu, leigu eða hvers kyns annarrar afhendingar í atvinnuskyni á markaði, skulu vera þannig úr garði gerðar að þær fullnægi kröfum sem vegna almannahagsmuna eru gerðar til þeirra í lögum og reglugerðum eða stöðlum um öryggi vöru og vernd heilsu og umhverfis, samanber 2. grein laga númer 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

Skotvopn

Enginn má flytja úr landi skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda nema með leyfi Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þarf leyfi fyrir fyrrgreindum tækjum og efnum sem flutt eru úr landi með skipum eða flugförum ef þessar vörur teljast vera nauðsynlegur búnaður skips eða flugfars. Útflutningsleyfi frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu skal sent Skattinum.

Varningur til hernaðarþarfa

Vísað er til reglugerðar nr. 361/2016 um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Reglugerðin felur í sér ákvæði um eftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi, varnartengdum vörum og miðlun þeirra samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

Jafnframt er að finna skrá yfir leyfisskyld hergögn í fylgiskjali 5 við reglugerðina og skrá yfir leyfisskylda hluti með tvíþætt notagildi kemur fram í fylgiskjali 3 við reglugerðina. Nánar er kveðið á um framkvæmd útflutningsleyfa í gerðum Evrópusambandsins sem innleiddar eru með fyrrnefndri reglugerð.

Viðskiptabönn og alþjóðlegar þvingunaraðgerðir

Íslandi er skylt að framkvæma öryggis- og þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á grundvelli 41. greinar sáttmála Sameinuðu þjóðanna til að viðhalda friði og öryggi og/eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi, samanber 1. grein laga númer 93/2008. Almenn ákvæði um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða eru í reglugerð númer 119/2009.

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka undir vissar þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins (ESB). Slíkar ákvarðanir eru teknar á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórna aðildarríkja EB og EFTA-ríkjanna um pólitísk skoðanaskipti, sem er hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Á vef utanríkisráðuneytisins eru upplýsingar um öryggis- og þvingunaraðgerðir gagnvart erlendum ríkjum og fleirum sem Ísland framfylgir.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum