Vaxtatekjur

Til skattskyldra fjármagnstekna einstaklinga teljast m.a. vaxtatekjur. Af vaxtatekjum er dregin staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts en endanleg álagning fer fram við álagningu opinberra gjalda.

Ekki er lagt útsvar á vaxtatekjur og þær hafa engin áhrif við ákvörðun á tekjuskattsþrepi. Hins vegar teljast þær með öðrum tekjum til stofns við útreikning á vaxtabótum og barnabótum.

Tapaðar fjármagnstekjur

Heimilt er að draga tapaða vexti frá fjármagnstekjum hafi skattur þegar verið greiddur af vöxtunum. Frádrátt má færa í framtali þess árs þegar sýnt er fram á að krafan sem vextirnir voru reiknaðir af fæst ekki greidd og má þá krafan ekki vera eldri en fimm ára. Frádráttinn má einungis færa á móti fjármagnstekjum. Ef ekki er um að ræða fjármagnstekjur á því ári þegar mótreikningur á sér stað eða frádrátturinn nýtist ekki að fullu á móti fjármagnstekjum þess árs yfirfærist heimildin til næsta framtals, í allt að fimm ár. Á sama hátt má draga frá aðrar tapaðar fjármagnstekjur sem skattur hefur verið greiddur af. Óska skal eftir mótreikningi vegna tapaðra fjármagnstekna með athugasemd á framtali.

Vaxtatekjur

Allar vaxtatekjur eru skattskyldar tekjur, þ.m.t. verðbætur, afföll og gengishagnaður.

Vexti af reikningum í innlánsstofnunum á að telja til tekna þegar þeir eru færðir eiganda til eignar á reikningi. Þó skulu vextir af reikningum þar sem höfuðstóll og vextir eru bundnir til lengri tíma en 36 mánaða ekki teljast til tekna fyrr en þeir eru greiddir eða greiðslukræfir. Vextir af hlutdeildarskírteinum færast til tekna þegar þeir eru lausir til ráðstöfunar.

Vexti af kröfu, s.s. af skuldabréfi, skal færa til tekna þegar þeir eru greiddir eða eru greiðslukræfir.

Afföll af kröfum færast til tekna með hlutfallslegri fjárhæð ár hvert eftir afborgunartíma kröfunnar.

Hjá hjónum og samsköttuðu sambúðarfólki eru vaxtatekjur beggja taldar til tekna hjá því hjóna eða sambúðaraðila sem hefur hærri hreinar tekjur. Með hreinum tekjum er átt við allar tekjur – aðrar en fjármagnstekjur – að teknu tilliti til heimilaðs frádráttar. Ekki skiptir máli hvort tekjurnar eru af séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign. 

Vaxtatekjur barna

Vaxtatekjur barna færast með tekjum foreldris/forráðamanns nema um sé að ræða sérskattlagningu barnsins ef annað eða báðir foreldrar eru látnir og barnið ekki verið ættleitt.

Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum

Af öllum vaxtatekjum sem maður fær af inneignum, bréfum eða kröfum, og greiddar eru af bönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum eða öðrum staðgreiðsluskyldum aðilum, ber að halda eftir 22% staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts þegar tekjurnar eru greiddar eða eru greiðslukræfar.

Af vaxtatekjum sem maður fær með öðrum hætti, t.d. af kröfum í eigin innheimtu, er ekki greidd staðgreiðsla, heldur er skattur af þeim greiddur eftirá miðað við upplýsingar í skattframtali.

Gengishagnaður

Gengishagnað á að færa til tekna þegar hann er innleystur, hvort heldur hann stafar af innlánsreikningi eða vegna annars konar kröfu. Gengishagnaður miðast við mismun á kaupgengi hlutaðeigandi erlends gjaldeyris frá 1. janúar 2010 eða síðar og á úttektar- eða greiðsludegi. Heimilt er að jafna saman gengishagnaði og gengistapi hvers innlánsreiknings fyrir sig innan sama ársins. Það er gert í skattframtali þegar gengishagnaður er tekjufærður. Sé um gengistap að ræða færist það ekki í skattframtal og óheimilt er að taka tillit til þess síðar. Óheimilt er að jafna saman gengistapi af einum reikningi á móti gengishagnaði af öðrum.

Söfnunartryggingar

Vexti, arð og aðra ávöxtun af söfnunartryggingum skal almennt telja til tekna þegar tekjurnar koma til greiðslu. Ef ekki er heimild í söfnunartryggingarsamningi til að innleysa innstæðuna á samningstímanum án uppsagnar mynda áfallnar vaxtatekjur fyrst skattstofn þegar samningstíminn er liðinn eða á því tímamarki sem fyrst er hægt að krefjast greiðslu á sparnaðinum og vaxta af honum.

Frítekjumark vegna vaxta

Ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af heildarvaxtatekjum að fjárhæð 150.000 kr. á ári hjá hverjum manni, þótt dregin hafi verið staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjunum. Þetta frítekjumark er ákvarðað í álagningu á grundvelli skattframtals og kemur oftekin staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts þá til endurgreiðslu. 

Frá og með álagningu 2021 verður frítekjumarkið 300.000 kr. samtals á ári hjá hverjum manni og á annars vegar við vaxtatekjur og hins vegar tekjur af hlutabréfaeign í formi arðs og söluhagnaðar í félögum skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga. Frádráttur er nýttur þannig að fyrst skal jafna út vaxtatekjur, næst arðstekjur og loks söluhagnað af hlutabréfum þar til hámarki frádráttar hefur verið náð.

 

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Frítekjumark vegna vaxtatekna - 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Mótreikningur vaxtatekna - 2. tölul. B-liðar 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Sérskattlagning barns - 3. mgr. 64. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattskyldar fjármagnstekjur – C-liður 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattskyldir vextir, afföll og gengishagnaður - 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Staðgreiðsla fjármagnstekna - lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Skattmat

Eyðublöð

Mótreikningur, vegna tapaðra fjármagnstekna - RSK 3.16

Einu sinni var...

Skattprósenta fjármagnstekjuskatts var lengst af 10%. Frá árinu 2009 hefur skattprósentan hins vegar tekið breytingum. Samhliða hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 10% í 18% var 100.000 kr. frítekjumark sett á heildarvaxtatekjur einstaklinga. Breytingarnar tóku gildi 1. janúar 2010 (álagning 2011).

Frá 1. janúar 2014 (álagning 2015) var frítekjumark vaxtatekna hækkað í 125.000 kr. Í frumvarpinu var tekið fram að um væri að ræða eðlilega verðuppfærslu á þessum viðmiðunarmörkum frá árinu 2010, auk þess sem raunávöxtun í formi vaxta hefði lækkað verulega undanfarin ár.

Frá 1. janúar 2018 (álagning 2019) breyttist skattprósentan í 22% og frítekjumark varð 150.000 kr. (sú breyting tók gildi við álagningu 2018).

Ítarefni

Frítekjumark af heildarvaxtatekjum 100.000 kr. - c-liður 13. gr. laga nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins

Frítekjumark af heildarvaxtatekjum hækkað í 125.000 kr. - e-liður 1. gr. laga nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016

 

Annað

Fjármagnstekjuskattur


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum