Gjafir

Í ákveðnum tilvikum þarf ekki að greiða tolla og gjöld af gjöfum sem sendar eru til landsins.

Gjafir sendar af sérstöku tilefni

Gjafir sem einstaklingar búsettir erlendis hafa með sér eða senda hingað til lands af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Að verðmæti gjafar samkvæmt framlögðum reikningi sé ekki meira en 13.500 kr. Fylgi reikningur ekki vörusendingu áætlar Tollstjóri verðmætið með hliðsjón af líklegu smásöluverði á innkaupsstað. Sé verðmæti gjafar meira en 13.500 kr. eru aðflutningsgjöld reiknuð að því marki sem verðmætið er umfram þá fjárhæð. Brúðkaupsgjafir eru undanþegnar aðflutningsgjöldum þótt þær séu meira en 13.500 kr. að verðmæti, enda sé að mati Tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða sem flutt er inn eigi síðar en 6 mánuðum frá brúðkaupi.
  2. Að viðtakandi sýni fram á að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða. Gjafir vegna afmælis, brúðkaups, jóla eða fermingar teljast meðal annars vera gjafir af sérstöku tilefni í þessu sambandi.
  3. Að sending beri með sér að um sé að ræða gjöf frá gefanda búsettum erlendis og að tengsl séu á milli hans þess sem gjöfina fær.
  4. Sé ljóst af fylgiskjölum eða samsetningu gjafasendingar að hún sé ætluð tveimur eða fleiri og gjöfunum hafi eingöngu af hagkvæmnisástæðum eða vegna tilefnis sendingar verið pakkað saman til flutnings er gjöf til hvers og eins talin sjálfstæð gjöf við mat á því hvort gjöfin teljist innan verðmætamarka.

Undanþága aðflutningsgjalda samkvæmt framangreindu tekur hvorki til áfengis né tóbaks.

Gjafir til mannúðar og líknarstarfsemi

Tæki, búnaður og aðrar fjárfestingarvörur sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eru undanþegin aðflutningsgjöldum, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi.

Gjafir sem sendar eru hingað frá útlöndum og góðgerðarstofnanir eða aðrir slíkir aðilar eiga að annast dreifingu á til bágstaddra eru undanþegnar aðflutningsgjöldum.

Eftirtaldir aðilar geta nýtt sér framangreinda undanþágu:

  1. Rauði kross Íslands og einstakar deildir hans, slysavarnarfélög og hjálpar- og björgunarsveitir.
  2. Sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnanir, dvalar- og vistheimili, sambýli fyrir fatlaða, greiningarstöðvar, öldrunarstofnanir og aðrar stofnanir í hliðstæðri starfsemi.

Undanþágan tekur til neðangreindra tækja og búnaðar:

  1. Tækja og áhalda sem notuð eru til lækninga og sjúkdómsgreininga.
  2. Tækja sem notuð eru til endurhæfingar vegna sjúkdóma og slysa.
  3. Annarra tækja sem notuð eru á stofnunum sem taldar eru upp hér að ofan, við endurhæfingu eða í þágu sjúklinga og vistmanna.

Skilyrði undanþágu samkvæmt framangreindu eru eftirfarandi:

  1. Leggja þarf fram, við tollafgreiðslu, skriflega yfirlýsingu gefanda um gjöfina og tilgang hennar, ásamt staðfestingu gjafþega um að hún verði nýtt í viðkomandi starfsemi.
  2. Ekki mega vera fjárhagsleg tengsl á milli gefanda og þiggjanda gjafar.

Gjafir erlendis frá á grundvelli menningar- eða vináttutengsla við erlend ríki

Gjafir sem ríki, sveitarfélögum eða opinberum stofnunum eru gefnar erlendis frá í vináttuskyni eða á grundvelli menningartengsla við erlend ríki eru undanþegnar aðflutningsgjöldum.

Skilyrði undanþágu frá aðflutningsgjöldum er að fylgiskjöl sendingar eða önnur gögn beri skýrt með sér að um sé að ræða gjöf og að fyrirsvarsmaður á vegum gjafþega staðfesti viðtöku gjafar.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum