Beinir skattar

Ákvarðandi bréf 1/2018

31.8.2018

Reykjavík, 31. ágúst 2018 
T-ákv 1/2018 

Vísað er til fyrirspurnar dags. 22. ágúst sl. þar sem óskað er svara við því hvort heimilt sé að færa söluhagnað af aflahlutdeild á móti keyptri veiðireynslu/veiðiréttindum, á grundvelli 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 (tsl.) Í fyrirspurninni segir m.a.:
„Álitamálið snýr að því að á árinu 2016 seldi félagið A ehf. aflaheimildir sem frestað var um tvenn áramót. Á árinu 2018 keypti félagið veiðireynslu í makríl og vill færa söluhagnað af aflahlutdeild á móti hinni keyptu veiðireynslu í makríl. Veiðireynsla í makríl er ekki aflahlutdeild en gengur kaupum og sölum á milli sjávarútvegsfélaga. Verði makríll síðar kvótasettur þá mun veiðireynslan liggja til grundvallar við úthlutun aflahlutdeildar, sbr. lög  nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.“

Þá segir:
„Þar sem að ákvæði 6. mgr. 15. gr. TSL um frestun og niðurfærslu segir að fresta megi söluhagnaði á aflahlutdeild og sambærilegum réttindum þá skyldi maður ætla að það mætti sömuleiðis færa hann að niður á móti keyptri aflahlutdeild og „sambærilegum réttindum“. Hins vegar þar sem það stendur ekki berum orðum að það nái líka til keyptra „sambærilegra réttinda“ heldur einungis vísað til aflahlutdeildar, þá væri gott ef þið gætuð staðfest að heimilt sé að færa söluhagnað af keyptri aflahlutdeild á móti kaupverði veiðireynslu í makríl á grundvelli 6. mgr. 15. gr. TSL?“

Eins og fram kemur í fyrirspurninni er álitamálið tvíþætt. Annars vegar það hvort veiðireynsla í makríl sé sambærileg réttindi og aflahlutdeild og hins vegar hvort heimilt sé að færa niður á söluhagnað af aflahlutdeild á móti sambærilegum réttindum í sjávarútvegi, en líkt og fram kemur í fyrirspurninni  kemur það ekki berum orðum fram í sjálfu ákvæði laganna. Í 6. mgr. 15. gr. tsl. er fjallað um söluhagnað af aflahlutdeild og þar kemur fram að heimilt sé að fresta söluhagnaði af henni og af sambærilegum réttindum.

Að virtum öllum málsatvikum verður ekki annað talið en að veiðireynsla sé sambærileg réttindi og aflahlutdeild. 
Kemur þá til skoðunar hvort heimilt sé að færa niður á móti söluhagnaði af aflahlutdeild kaupverð þessara sambærilegu réttinda. Ákvæði 6. mgr. 15. gr. tsl., þar sem heimilað er að færa niður stofnverð aflahlutdeildar á móti skattskyldum hagnaði af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi kom inn tsl. með 1. gr. laga nr. 118/1997. 

Fram kemur í athugasemdum um 1. gr. með frumvarpinu: 
„Um er að ræða frestunarákvæði, þ.e. stofnverð sambærilegra réttinda sem keypt eru á sama tíma, er lækkað sem nemur söluhagnaði þeirra réttinda, sem seld voru, þannig að það verður ekki fyrr en við sölu þeirra að söluhagnaður verður reiknaður af þeim hluta. Á þetta við þegar skattaðili, sem selt hefur aflahlutdeild eða sambærileg réttindi, kaupir á tekjuárinu eða hafði keypt á síðustu 12 mánuðum sambærilegar heimildir. Kaupi skattaðili ekki sambærileg réttindi innan framan  greindra tímamarka er honum heimilt að óska eftir frestun skattlagningar um tvenn áramót. Hann hefur þannig nokkurt svigrúm til að afla sambærilegra réttinda.“

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur því skýrlega fram það markmið að heimilt yrði að færa niður sambærileg réttindi. 
Það er því álit ríkisskattstjóra að heimilt sé að færa niður stofnverð af keyptri veiðireynslu í makríl á móti  söluhagnaði af aflahlutdeild á grundvelli 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum