Ákvarðandi bréf nr. 2/2015
21. september 2015
T-ákv. 15-002
Skattskylda til stöðugleikaskatts
Með bréfi dags. 22. júlí 2015, mótteknu þann 23. sama mánaðar, er lögð fram fyrirspurn um skattskyldu til stöðugleikaskatts og áhrif þess að fjármálafyrirtæki fái staðfestingu héraðsdómara á nauðasamningi fyrir árslok 2015.
Í meginmáli fyrirspurnar eru rakin ákvæði laga nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, um skattskylda aðila og forsendur þess að nauðasamningur fáist staðfestur. Í því sambandi er vísað til almennra athugasemda með frumvarpi til laganna eftir því sem við á. Þá eru rakin ákvæði laga nr. 59/2015 og viðeigandi ummæli í greinargerð með þeim lögum.
Í niðurlagi fyrirspurnarinnar segir síðan:
„Með vísan til framanritaðs og athugasemda í greinargerðum með frumvörpum til framangreindra laga virðist vera gert ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem hafa fengið staðfestingu héraðsdóms á nauðasamningi fyrir 31. desember 2015, séu ekki skattskyld til stöðugleikaskatts. Tilvísun í ákvæðinu til efnda eigi einungis við þau fjármálafyrirtæki sem hafa við gildistöku laganna fengið staðfestan nauðasamning en ekki getað efnt vegna fjármagnshafta.
Óskað er eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á framangreindri túlkun. Þannig er óskað eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á því að nauðasamningur fjármálafyrirtækis í slitameðferð sem staðfestur hefur verið af héraðsdómi fyrir lok ársins 2015 leiði til þess að viðkomandi fjármálafyrirtæki sé undanþegið skattskyldu til stöðugleikaskatts.“
Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:
Í 2. gr. laga nr. 60/2015 eru afmarkaðir þeir aðilar sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum laganna.
Í almennum athugasemdum í frumvarpi sem varð að lögum nr. 60/2015, sbr. þskj. 1400 -786. mál, svo sem fyrirspyrjandi hefur vísað til kemur eftirfarandi fram í kafla 4.2 um afmörkun skattskyldu:
„Skattskyldir aðilar samkvæmt frumvarpi þessu eru þeir lögaðilar sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir en sæta nú slitameðferð eða hafa lokið henni vegna þess að héraðsdómur hefur úrskurðað að þeir skuli teknir til gjaldþrotaskipta. Í þessu felst að þeir aðilar sem nú sæta slitameðferð en fá staðfestan nauðasamning fyrir 31. desember 2015 teljast ekki meðal skattskyldra aðila.“ (feitletrað hér)
Þessi vilji löggjafans er síðan ítrekaður í nefndaráliti um frumvarp sem varð að lögum nr. 59/2015; sbr. þskj. 1610 -787 mál, sem lagt var fram samhliða frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/2015, en þar er fjallað um þau þáttaskil, sem verða í slitameðferðinni við staðfestingu nauðasamningsins, með eftirfarandi hætti:
„Í þessu sambandi er rétt að benda á að fáist frumvarp að nauðasamningi samþykkt og síðar staðfest af héraðsdómi fer um eignir fyrirtækisins eftir ákvæðum nauðasamningsins. Með staðfestingu nauðasamnings fjármálafyrirtækis lýkur því formlega slitameðferð þess og slitastjórn lýkur þar með störfum.“
Tilvitnaður texti felur reyndar í sér einfaldaða mynd, enda settur fram í samhengi við þau atvik að nauðasamningur fáist ekki samþykktur eða héraðsdómur hafni samþykki hans leiði það til þess að slitastjórn skuli óska eftir gjaldþrotaskiptum, sbr. það sem nánar segir í tilvitnuðu nefndaráliti um: Breytingar á tekjuskattslögum, en þar kemur eftirfarandi fram:
„Breytingin í b-lið felst í því að kveða jafnframt á um það að við ákvörðun álagningarstofns vegna sérstaks fjársýsluskatts skuli ekki taka tillit til tekna sem myndast við almenna eftirgjöf skulda í tengslum við lok slitameðferðar skattaðila skv. 103. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.“
Þrátt fyrir að verið sé að draga fram með nokkuð afdráttarlausum hætti þann vilja löggjafarvaldsins að brottfall skattskyldu til stöðugleikaskatts miðist við það tímamark að aðilar í slitameðferð fái í nánustu framtíð nauðasamning samþykktan með eftirfarandi staðfestingu héraðsdóms verður að hafa í huga að fleira kemur til. Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti má skjóta úrskurði dómara um staðfestingu nauðasamnings til æðra dóms innan viku frá uppkvaðningu hans. Hafi málsskot ekki átt sér stað innan þess frests verður niðurstaða dómara endanleg við lok frestsins. Þetta atriði er t.a.m. áréttað í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 459/2011, frá 10. maí 2012 en þar segir:
„Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti nauðasamninginn með úrskurði 18. ágúst 2010. Úrskurðurinn varð endanlegur að liðnum kærufresti 25. sama mánaðar, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991.“ (undirstrikað hér)
Með vísan til framanritaðs er staðfest að skattskylda aðila sem falla undir 1. málslið 2. gr. laga nr. 60/2015 telst falla niður samkvæmt þeim lögum frá og með þeim tímapunkti sem niðurstaða dómara um staðfestingu á nauðasamningi telst endanleg.
Í reynd sé um slíkt að ræða í síðasta lagi 31. desember 2015 að teknu tilliti til þess að sá tímafrestur sem tilgreindur er í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991 hafi runnið sitt skeið innan fyrst greindra tímamarka og niðurstaða dómara sé að því leyti endanleg.
Ríkisskattstjóri