Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/2012

23.5.2012

Eignfærsla á eignarhlut í sameignarfélagi í stofni til auðlegðarskatts

T-ákv 12-003
23. maí 2012

Með bréfi dags. 4. ágúst 2011 er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á nokkrum álitaefnum um hvernig telja beri fram eignarhlut í tilteknu samlagsfélagi til auðlegðarskatts. Fyrirspurnin var ítrekuð með bréfi dags. 11. apríl sl. Spurt er um eftirfarandi álitaefni:

 1. Ber mönnum að telja til auðlegðarskatts eignarhlut í samlagsfélagi? Skiptir máli í þeim efnum hvort um félagsmann er að ræða sem ber ótakmarkaða ábyrgð á fjárskuldbindingum samlagsfélagsins, eða hvort um félagsmann er að ræða sem ber ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins umfram tillag sitt til félagsins?
 2. Álíti ríkisskattstjóri að félagsmanni og/eða samlagsmanni beri að telja til auðlegðarskatts eignarhlut í samlagsfélagi, á hvaða verði ber þá að telja eignarhlut fram?
 3. Álíti ríkisskattstjóri að telja beri eignarhlut fram á verði sem svarar til hlutdeildar í skattalegu bókfærðu verði eigin fjár samlagsfélagsins, álítur hann þá að telja megi til skulda félagsins, sem dragast frá eignum þess, reiknaðan tekjuskatt félagsins vegna tekna viðkomandi reikningsárs?

Fram kemur í fyrirspurninni að samkvæmt félagssamningi er samlagsaðilum og félagsaðila óheimilt að selja, veðsetja eða ráðstafa eignarhlut sínum með öðrum hætti nema með samþykki allra eigenda. Af þeim sökum megi draga í efa að eignarhlutirnir hafi fjárhagslegt gildi og eigi að vera framtalsskyldir.

Framangreindum spurningum er svarað í sömu röð og þær eru settar fram.

 1. Sömu reglur gilda um eignfærslu á eignarhlut í samlagsfélagi og í sameignarfélagi. Eigandi í samlagsfélagi skal því eignfæra stofnfé sitt á framtali og skiptir þar ekki máli hvort félagsmaðurinn ber ótakmarkaða ábyrgð á fjárskuldbindingum samlagsfélagsins eða ekki.
 2. Í 2. mgr. b-liðar bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir: 

  „Við ákvörðun auðlegðarskattsstofns skal telja hlutabréf í félögum sem skráð eru í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði fram á markaðsvirði í árslok. Sá sem á hlut í félagi sem ekki er skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði skal telja fram til auðlegðarskattsstofns hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það er talið fram í skattframtali félagsins skv. 1. mgr. þessa stafliðar. Þann hluta virðis eignarhluta í félagi sem reiknað er á framangreindan hátt sem umfram er nafnverð eða stofnverð skal telja fram í skattframtali 2011, 2012 og 2013.“ 

  Þótt ekki sé sérstaklega tekið fram að þessi regla eigi við önnur félög en hlutafélög og einkahlutafélög þykir með hliðsjón af 1. mgr. greinds ákvæðis verða að álykta að svo sé. Í ákvæðinu segir: 

  „Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 73. gr. skulu lögaðilar telja fram hlutdeild sína í öðrum félögum á markaðsverði ef um er að ræða félög sem skráð eru í kauphöll eða á skipulögðum tilboðsmarkaði en annars hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags í stað nafnverðs. Þá skulu lögaðilar telja fram eignarhlutdeild sína í félögum skv. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. á sama hátt.“ 

  Þarna kemur skýrlega fram sú regla að félög skuli telja fram til eignar markaðsverð eða eftir atvikum skattalegt bókfært verð eigin fjár í öðru félagi og með vísan til 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 er sérstaklega áréttað að reglan nái einnig til samlagsfélaga og sameignarfélaga. Hlutafélag sem á í samlagsfélagi skal því eignfæra hlutdeild sína í skattalegu eigin fé samlagsfélagsins. Þannig er tryggt að fullt verðmæti eignarhlutarins sem hlutafélagið á í samlagsfélaginu skili sér inn á framtöl manna sem eru hluthafar í fyrrnefndu félagi. Með vísan til þessa verður því að álykta að eignarhlutur í samlagsfélagi eigi að eignfærast á markaðsverði eða skattalegu eigin fé hvort sem maður á í félaginu beint eða óbeint í gegnum hlutafélag. Það er því mat ríkisskattstjóra að við ákvörðun á stofni til auðlegðarskatts skuli eignfærsla í samlagsfélagi miðast við markaðsverð eða hlutdeild eigandans í skattalegu eigin fé félagsins. 

  Ekki er fallist á þá röksemd að eignarhlutir í samlagsfélagi séu ekki framtalsskyldur þar sem óvíst sé um fjárhagslegt gildi þeirra þar sem samþykki allra eigenda þurfi fyrir því að selja, veðsetja eða ráðstafa eignarhlutum með öðrum hætti. Takmarkanir á heimild til sölu eignarhluta í hlutafélagi hafa ekki orðið til þess að hluthöfum hafi ekki borið að eignfæra hlutabréf í félaginu á framtali sínu. Þá var algengt að samþykki stjórnar sparisjóðs þyrfti fyrir framsali stofnfjár í sparisjóðnum en stofnfjáreigendum bar eigi að síður að eignfæra bréfin á framtali sínu. Þá leiða takmarkanir á heimild til sölu hlutabréfa í samþykktum hlutafélags ekki til undanþágu frá skyldu til eignfærslu þeirra á framtali hluthafa.
 3. Fram kemur í 75. gr. tekjuskattslaganna hvaða skuldum skuli gera grein fyrir á framtali. Í 2. málslið greinarinnar segir: „Til skulda teljast öll opinber gjöld er varða viðkomandi reikningsár, þó ekki þau gjöld sem lögð eru á tekjur á næsta ári eftir lok reikningsárs.“ Með vísan til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að við ákvörðun á auðlegðarskatti sé óheimilt að draga frá reiknaðan tekjuskatt félags vegna tekna viðkomandi reikningsárs.

Beðist er velvirðingar á því hvað dregist hefur að svara þessari fyrirspurn.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum