Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/2011

24.2.2011

Túlkun 57. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

24. febrúar 2011 T-Ákv. 11-003

Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar, dags. 12. janúar sl., þar sem settar eru fram spurningar er lúta að túlkun 57. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Fram kemur að umbjóðandi fyrirspyrjanda, sem sé íslenskt einkahlutafélag (B), eigi 83% hlut í félagi á Cayman eyjum. Sá eignarhluti sem eftir stendur sé í eigu bandarísks félags. Félagið á Cayman eyjum sé gagnsætt félag og skattaleg meðhöndlun á því í Bandaríkjunum sé í samræmi við löggjöf þar í landi og með hliðsjón af þeirri stöðu að félagið sé skilgreint sem gegnsætt félag. Eina eign félagsins á Cayman eyjum sé 100% eignarhlutur í íslenska einkahlutafélaginu A. Settar eru fram eftirfarandi spurningar:

  1. Á grundvelli þess að eignarhald einkahlutafélags B sem á 87% eignarhlut í einkahlutafélaginu A hér á landi í gegnum gagnsætt félag á Cayman eyjum, myndi embætti ríkisskattstjóra þá á grundvelli 57. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðar breytingum, þá líta á að arðgreiðslur sem færu frá einkahlutafélagi A til einkahlutafélags B í gegnum gagnsætt félag á Cayman eyjum, væru í raun arðgreiðslur milli tveggja íslenskra einkahlutafélaga og er myndu vera skattlögð í samræmi við það hér á landi, með þeim hætti að embætti ríkisskattstjóra myndi líta framhjá félaginu á Cayman eyjum, að því er lítur á arðgreiðslur frá einkahlutafélagi A til einkahlutafélags B. Allar arðgreiðslur frá einkahlutafélagi B til hluthafa þess, sem eru einstaklingar, myndu fara fram í samræmi við ákvæði íslenskra skattalaga.
  2. Ef til þess kæmi að einkahlutafélag B myndi þurfa að leggja einkahlutafélaginu A til lánsfjármögnun í gegnum hið gagnsæja félag á Cayman eyjum, myndi embætti ríkisskattstjóra þá ekki líta svo á að í raun væri um að ræða lánveitingu frá einu íslensku einkahlutafélagi til annars íslensks einkahlutafélag og farið væri með vaxtatekjur af slíkri lánveitingu eins og um lánveitingu milli tveggja íslenskra einkahlutafélaga væri að ræða í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt með síðari breytingum.
  3. Í skattskilum einkahlutafélagsins B myndi embætti ríkisskattstjóra álykta að því félagi bæri þá ekki að telja fram eignarhlut sinn í einkahlutafélagi A á framtali og horfa framhjá eignarhlut í gagnsæju félagi á Cayman eyjum, eða myndi embætti ríkisskattstjóra telja að einkahlutafélag myndi jafnframt þurfa að telja fram eignarhlut sinn á hinu gagnsæju félagi á Cayman eyjum á grundvelli 57. gr. a laga nr. 90/2003, þrátt fyrir að litið yrði framhjá því félagi við skattlagningu milli hinna tveggja íslensku félaga.

Þá kemur fram að umbjóðanda fyrirspyrjanda sé umhugað um að haga starfsemi sinni í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2003 og að hann hefði ekki tekið þátt í stofnun á gagnsæju félagi á Cayman eyjum nema fyrir þær sakir að um var að ræða kröfu bandarísks hluthafa í félaginu.

Í tilefni af fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

Í samskiptum starfsmanns ríkisskattstjóra við fyrirspyrjanda kom fram að bandarískir eigendur lögaðilans væru skattlagðir í Bandaríkjunum á grundvelli subpart F reglna þar í landi.

Megineinkenni þeirrar reglu sem lögfest er í 57. gr. a laga nr. 90/2003, er sú að hagnaður þeirra erlendu lögaðila sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í ákvæðinu, er skattlagður hjá eigendum óháð úthlutun. Við ákvörðun á því hvort framangreint ákvæði eigi við ber að gera samanburð á þeim skatti sem lagður er á erlenda lögaðilann í heimilisfestisríki hans og þeim sköttum sem hefðu verið lagðir á lögaðilann væri hann með fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Við þann samanburð er nauðsynlegt að leiða fram skattstofn lögaðilans samkvæmt íslenskum reglum. Eðli málsins samkvæmt felur það m.a. í sér að litið er til þess hvort frádráttarheimildir samkvæmt 31. gr. laganna væru fyrir hendi væri lögaðilinn staðsettur hérlendis. Sé niðurstaða þessa samanburðar sú að lögaðilinn falli innan marka ákvæðisins, er hagnaði hans (rekstrartekjur að frádregnum rekstrarkostnaði skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003) skipt á milli eigenda í samræmi við eignarhlutdeild hvers eiganda fyrir sig í erlenda lögaðilanum og fer skattlagning fram hjá eigendum eftir þeim reglum sem um þá gilda. Má því segja að í reglunni felist að í raun sé horft í gegnum tilvist hins erlenda félags, þar sem hagnaðurinn er skattlagður beint hjá eigendum. Í þessu sambandi er lagt heildstætt mat á stöðu félagsins á ársgrundvelli. Í því felst ekki að íslensk lög gildi um einstaka gerninga, þannig að horft sé í framhjá tilvist félagsins og hver einstakur eigandi talinn aðili að þeim með þeim hætti sem sett er fram í fyrstu og annarri spurningu fyrirspyrjanda. Við framtalsskil ber eigendum að gera grein fyrir eignarhlutdeild sinni í þeim félögum sem heyra undir nefnda lagagrein.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum