Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 004/2011

9.3.2011

Ákvörðun arðs og launa

9. mars 2011 T-Ákv. 11-004

Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar, dags. 10. febrúar sl., er lýtur að túlkun lokamálsliðar 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Settar eru fram eftirfarandi fjórar spurningar:

  1. Í hlutafélagi eru starfandi 4 sérfræðingar án aðstoðarmanna sem allir eru hluthafar í félaginu. Allir hafa þeir reiknað sér endurgjald skv. reglum RSK. Fellur úthlutun arðs til viðkomandi sérfræðinga/hluthafa undir gildissvið ákvæðisins?
  2. Í hlutafélagi eru starfandi 4 sérfræðingar og 8 aðstoðarmenn. Allir sérfræðingarnir fjórir eru hluthafar í félaginu og hafa þeir reiknað sér endurgjald skv. reglum RSK. Fellur úthlutun arðs til viðkomandi sérfræðinga/hlutahafa undir gildissvið ákvæðisins?
  3. Í hlutafélagi sem rekur smávöruverslun eru starfandi 20 starfsmenn sem ekki eru hluthafar í félaginu. Jafnframt því starfa tveir hluthafar fyrir félagið og hafa þeir reiknað sér endurgjald skv. reglum RSK. Fellur úthlutun arðs til hluthafanna undir gildissvið ákvæðisins?
  4. Í hlutafélagi eru starfandi 30 sérfræðingar sem allir eru hluthafar í félaginu. Allir hafa þeir reiknað sér endurgjald skv. reglum RSK. Að auki starfa hjá félaginu 100 starfsmenn sem ekki eru hluthafar í félaginu. Fellur úthlutun arðs til sérfræðinganna/hluthafanna undir gildissvið ákvæðisins?

Í tilefni af fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

Í lokamálslið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að hjá þeim skattaðilum sem skylt er að reikna sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. skal telja til tekna sem laun skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. 50% af heimilum úthlutuðum arði samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, að því marki sem heimil arðsúthlutun félagsins er samtals umfram 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé þess í árslok viðmiðunarárs.

Að mati ríkisskattstjóra er ljóst að allir hluthafar sem bera skyldu til að reikna sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, heyri undir regluna, enda sé heimil arðsúthlutun félagsins samtals umfram 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé þess í árslok viðmiðunarárs. Af orðalagi ákvæðisins verður ekki lesið að áhrif hafi hversu margir hluthafar beri slíka skyldu eða fjöldi annarra starfsmanna hjá félaginu. Að því gefnu að aðstæður séu með þeim hætti skal telja hluta arðs til tekna sem laun samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laganna, enda sé arðsúthlutun umfram þau mörk sem sett eru fram í ákvæðinu.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum