Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 006/2011

28.3.2011

Breytingar á uppreiknuðum eftirstöðvum lána - leiðrétting á gjaldfærðum fjármagnskostnaði

28. mars 2011
T-Ákv. 11-006

Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar, dags. 14. mars 2011, þar sem óskað er eftir áliti embættisins á því hvernig rétt sé að framkvæma leiðréttingu á gjaldfærðum fjármagnskostnaði þegar breytingar eru gerðar á uppreiknuðum eftirstöðvum lána, sbr. 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXVI í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í fyrirspurninni eru þrír eftirfarandi möguleikar settir fram um mögulega framkvæmd leiðréttingar:

  • með því að taka upp framtöl fyrri ára
  • með því að færa leiðréttinguna á skattframtal á því ári þegar endurreikningur lánanna fer fram
  • valkvætt, þ.e. annar af framangreindum kostum eftir því sem hentar gjaldanda

Tilvitnað ákvæði til bráðabirgða var tekið upp í lögin með a. (I.)-lið 1. gr. laga nr. 104/2010, en ákvæðið lýtur að skattalegri meðferð á eftirgjöf skulda hjá lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Í ákvæðinu er að finna tímabundna undanþágu frá þeirri reglu að ætíð skuli telja til skattskyldra tekna eftirgjöf skulda sem tengjast atvinnurekstri, auk þess sem kveðið er á um það hverjar séu lögfylgjur þess að breyta láni þannig að endurgreiðsla sé miðuð við íslenskar krónur í stað umsamins erlends gjaldmiðils eða ef breyting verður á viðmiðunarvísitölu verðtryggðra lána.. Um síðastgreint atriði er fjallað í 8. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar. Tekið er fram að í slíkum breytingum felist skilmálabreyting láns en ekki eftirgjöf skuldar í skilningi laganna, þótt uppreiknaður höfuðstóll sé leiðréttur til lækkunar, enda sé breytingin gerð á málefnalegum forsendum og lánskjörum breytt í kjör sem eru almennt í boði við sambærilegar aðstæður. Þá er tekið fram að ef breyting er gerð á uppreiknuðum eftirstöðvum lána, skv. ákvæðinu, skuli leiðrétta áður gjaldfærðan fjármagnskostnað til samræmis.

Að mati ríkisskattstjóra ber við framangreindar aðstæður að færa leiðréttingu á skattframtal á því ári þegar endurreikningur lánanna fer fram, enda liggur ekki fyrir fyrr en á þeim tíma að hve miklu leyti kostnaður hefur verið offærður miðað við nýja stöðu láns. Fjármagnskostnaður sem færður hefur verið til gjalda á fyrri árum í samræmi við þá gildandi lagareglur stendur þannig óhaggaður á framtölum viðkomandi ára. Rétt er að taka það sérstaklega fram að leiðréttingin skal alfarið bundin við þann fjármagnskostnað sem þegar hefur verið gjaldfærður í rekstrinum, s.s. vaxtakostnað, verðbætur og kostnað vegna gengismismunar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum