Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 010/2011

30.6.2011

Vakin er athygli á því að bréf þetta er að hluta til fallið úr gildi í kjölfar úrskurða yfirskattanefndar, m.a. úrskurðar nr. 586/2012 sem birtur er á heimasíðu nefndarinnar, yskn.is. Í greindum úrskurði er fallist á að skattleggja beri hluta vaxtatekna einstaklings miðað við gildandi fjármagnstekjuskattshlutfall á þeim tíma er vextir féllu til, þótt skattlagningin fari fram við innlausn teknanna. Um ávinning af sölu hlutdeildarskírteina gildir þó að fjármagnstekjuskattur er reiknaður á innlausnarári og miðast við gildandi skatthlutfall á því tímamarki. Sjá einnig nánar í skilalýsingu vegna upplýsinga um vaxtatekjur í skattframtali 2013.

Fjármagnstekjuskattur - vextir einstaklinga utan rekstrar

30. júní 2011

T-ákv 11-010



Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri vekja athygli á reglum er lúta að því við hvaða tímamark skuli miða við ákvörðun á skatthlutfalli vaxta af kröfum og verður sérstaklega vikið að hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða í því sambandi. Tilefni bréfs þessa eru breytingar á skatthlutfalli fjármagnstekjuskatts, fyrst á miðju ári 2009 og síðan frá 1. janúar 2011. Fram til þess tíma hafði skatthlutfall fjármagnstekjuskatts verið óbreytt allt frá upptöku sérstaks skatts á fjármagnstekjur á árinu 1997.

Vaxtatekjur einstaklinga utan atvinnurekstrar

Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að til tekna teljist vextir af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Í sjö töluliðum er að finna nánari afmörkun á því hvenær telja beri vaxtatekjur til tekna og kemur þar fram í 2. tölul. að vextir af kröfu skuli teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir. Samkvæmt framansögðu er þannig ekki miðað við áfallna vexti við tekjufærslu heldur hvort þeir hafi verið greiddir eða greiðslukræfir.

Sérstök sjónarmið eiga þó við um vexti sem skattskyldir voru á árinu 2009, þ.e. greiddir eða greiðslukræfir á því ári, sem helgaðist af sérstakri viðbót á 10% skattþrep fjármagnstekjuskatts frá 1. júlí, þ.e. 5% til viðbótar, en um ákvörðun skattþreps réði úrslitum á hvoru tímabili ársins vextirnir féllu til, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Framangreint bráðarbirgðaákvæði gilti til 31. desember 2009 og átti því einungis við um ákvörðun fjármagnstekjuskatts á tilteknu afmörkuðu tímabili. Eftir þann tíma gildir meginregla 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 sem rakin er hér að framan.

Vaxtatekjur aðila með takmarkaða skattskyldu

Með 6. gr. laga nr. 70/2009 voru aðilar með heimilisfesti og skattskyldu utan Íslands einnig felldir undir skattskyldusvið laga nr. 90/2003 vegna vaxta sem þeir fá greidda af bankareikningum, verðbréfa- og fjárfestingasjóðum, skuldabréfum og öðrum kröfum og fjármálagerningum hér á landi. Ákvæðið gildir þó hvorki um vexti sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands né þá vexti sem greiðast erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum opinberum aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu í heimilisfestarríki sínu. Ennfremur á ákvæðið ekki við kveði tvísköttunarsamningur sem Ísland hefur gert við erlent ríki á um að ekki skuli haldið eftir afdráttarskatti af vöxtum. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 70/2009, öðlaðist 6. gr. laganna þegar gildi og kom til framkvæmda vegna vaxta sem gjaldféllu og urðu greiðslukræfir frá og með 1. september 2009 eða síðar. Sá hluti vaxta sem áunninn var fyrir gildistöku laganna var hvorki skattskyldur né staðgreiðsluskyldur.

Hlutdeildarskírteini

Víkur þá sérstaklega að skattlagningu hlutdeildarskírteina. Hugtakið hlutdeildarskírteini er skilgreint í 6. tölul. 2. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sem fjármálagerningur sem er staðfesting á tilkalli allra þeirra sem eiga hlutdeild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu, eða einstakri deild hans, til verðbréfaeignar sjóðsins. Skírteinishafar eiga þannig hlutdeild í hagnaði sjóðsins eins og hann er á hverjum tíma. Eingöngu sá hagnaður sem raungerist í hendi skírteinishafa við innlausn er skattlagður og ræðst á þeim tímapunkti hvort og þá hversu háir skattar eru greiddir til ríkissjóðs. Þannig er engum skatti haldið eftir ef enginn hagnaður raungerist í hendi handhafa skírteinis þrátt fyrir að á fyrri stigum hafi ávöxtun verið jákvæð. Að mati ríkisskattstjóra er ljóst að ávinning af hlutdeildarskírteinum skuli ekki færa til tekna fyrr en þau eru seld eða innleyst, enda eru tekjur af þeim óvissar fram að þeim tíma, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í því ákvæði er sett fram sú meginregla að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum. Þó að undanskildum óvissum tekjum. Slíkar tekjur eru fyrst taldar til tekna þegar þær teljast ekki óvissar. Þannig er hlutdeild í hagnaði verðbréfasjóðs, samkvæmt framansögðu, ekki talin til tekna fyrr en við innlausn og þá eingöngu sem svarar til þess hagnaðar sem innleystur er á þeim tímapunkti.

Tímamark tekjufærslu og afdráttar staðgreiðslu

Þess ber að geta að um afdrátt staðgreiðslu af vaxtatekjum gilda annars vegar lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, ef móttakandi vaxtanna er skattskyldur samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og hins vegar lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, ef móttakandinn er skattskyldur skv. 3. gr. áður nefndra laga um tekjuskatt.

Í 1. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1996, kemur fram að staðgreiðsla af vöxtum skv. 1.-3. tölul. 1. mgr. 4. gr. skuli fara fram þegar vextir eru greiddir út eða færðir eiganda til eignar á reikningi, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. Þá segir að með greiðslu sé átt við greiðslu í hvaða formi sem er, hvort heldur greiðslu í peningum, kröfum eða öðru því sem hefur peningalegt verðgildi og látið er af hendi í stað peninga. Meðal vaxta sem falla undir framangreint ákvæði, sbr. 1. tölul. 4. gr. laganna, eru vextir af innstæðum í innlendum bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum samvinnufélaga, á póstgíróreikningum og orlofsreikningum, svo og vextir af verðbréfum sem hliðstæðar reglur gilda um samkvæmt sérlögum. Til vaxta í þessu sambandi teljast enn fremur m.a. verðbætur á höfuðstól og vexti og verðbætur á inneignir og kröfur sem bera ekki vexti. Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laganna falla einnig innan ramma ákvæðisins vextir hjá innlendum aðilum af sérhverjum öðrum innstæðum og inneignum en um getur í 1. og 2. tölul. 4. gr., þar með taldir vextir af víxlum, verðbréfum og öllum öðrum kröfum sem bera vexti. Verðbætur teljast einnig til vaxta í þessu sambandi, sbr. lokamálsl. 3. tölul. 4. gr. laganna.

Um staðgreiðslu skatts á vaxtatekjur erlendra aðila, sbr. 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fer eins og áður segir eftir lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt 6. tölul. 5. gr. þeirra laga teljast greiðslur til aðila sem ber takmarkaða skattskyldu hér á landi og m.a. er getið um í 8. tl. 3. gr. laga nr. 90/2003, sem laun. Afdráttur opinberra gjalda af launum skal fara fram þegar þau eru greidd eða færð til tekna, sbr. 14. gr. laga nr. 45/1987.

Í gildi eru tvísköttunarsamningar við 36 lönd en í þessum samningum er m.a. kveðið á skattlagningu vaxtatekna. Skatthlutfall vaxtatekna samkvæmt þessum samningum er 0-10 %. Til að geta nýtt sér ákvæði samnings þarf að sækja um undanþágu frá skattlagningu á eyðublaði RSK 5.42 en bært yfirvald í viðkomandi landi þarf að staðfesta skattskyldu og heimilisfesti umsækjanda. Hafi skatti verið haldið eftir þá má sækja um endurgreiðslu í allt að fjögur ár frá afdrætti. Sótt er um endurgreiðslu á eyðublaði RSK 5.43. Undanþága gildir í 5 ár frá samþykkt að því gefnu að ekki verði breyting á heimilisfesti.

Við ákvörðun skatthlutfalls ber að miða við þann tímapunkt þegar vaxtatekjurnar teljast til tekna. Samkvæmt framansögðu er ljóst að sú meginregla gildi að líta beri til þess hvenær vextir af kröfum eru greiddir eða greiðslukræfir. Ekki ber því að líta til þess hvenær vextir eru áfallnir í þessu sambandi.

Ríkisskattstjóri.



Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum