Ákvarðandi bréf nr. 008/2010
Hluti arðs er telst til tekna sem laun.
5. nóvember 2010 T-Ákv. 10-008Ríkisskattstjóri hefur þann 30. ágúst 2010 móttekið fyrirspurn varðandi þann hluta arðs sem telja ber til tekna sem launatekjur samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Frambornar spurningar og svör ríkisskattstjóra við þeim eru eftirfarandi:
„Hvernig/hvar/hvað“ er skattalegt eigið fé sem prósenturnar reiknast út frá að þínu mati?“
Skattalegt eigið fé félags er eignir félagsins að frádregnum skuldum. Á framtali rekstraraðila er skattalegt eigið fé nú fært í reit [7990]1.
„Hver reiknar það, hvenær og hvernig?“
Það félag sem greiðir út arðinn reiknar út frá eigin fé, í árslok viðmiðunarárs, hvernig skiptingin á að vera ef um skiptingu er að ræða yfir höfuð. Sjá svar við fyrstu spurningunni varðandi það hvernig skattalegt eigið fé er fundið.
„Hvílir það ekki á atvinnurekendum að skila inn greiðslum?“
Það hvílir á þeim aðila sem greiðir/úthlutar arði að halda eftir staðgreiðslu af honum og skila í ríkissjóð, eftir atvikum fjármagnstekjuskatti eða staðgreiðslu af launum.
„Við hvað á að miða ef skattframtal er í september en arðsúthlutun fer fram í janúar?“
Af ákvæði 99. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, leiðir að samþykktur ársreikningur verður að liggja fyrir áður en arðsúthlutun fer fram. Er því ljóst að þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við útreikning á skattalegu eigin fé samkvæmt framansögðu eru til staðar þrátt fyrir að ekki hafi verið gengið frá skattframtali félagsins.
„Hvernig verða launamiðar/hlutafjármiðar?“
Það liggur ekki fyrir á þessari stundu. Upplýsingar um það verða kynntar bráðlega.
„Getur þú ímyndað þér hvernig þetta er fært í launakerfum?“
Ríkisskattstjóri getur ekki svarað því hvernig upplýsingar skulu færðar í launakerfið. Gera þarf ráð fyrir því að unnt sé að veita skattyfirvöldum upplýsingar um þann hluta arðsúthlutunar sem telst til launa.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem hefur orðið á svari.
Ríkisskattstjóri.
1. Leiðrétting vegna misritunar.