Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 005/2010

6.7.2010

Auðlegðarskattur og skattalegt bókfært eigið fé

6. júlí 2010
T-Ákv. 10-005

Með bréfi, dags. 5. maí 2010, var óskað eftir því að ríkisskattstjóri túlkaði sérstaklega b. lið ákvæðis til bráðabirgða XXXIII. i lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 24. gr. laga nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins. Vísað er til þess að í greindu lagaákvæði komi fram að við ákvörðun á auðlegðarskattsstofni skuli bæði lögaðilar og einstaklingar telja fram hlutdeild sína í félögum sem hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé, ef viðkomandi félag sé ekki skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði. Síðan segir orðrétt:

Óskað er eftir leiðbeiningum ríkisskattstjóra um hvernig framkvæma eigi framangreinda reglu þegar um er að ræða eignarhald í erlendu óskráðu félagi.

Til að afmarka álitaefnið nánar eru settar fram eftirfarandi spurningar:
a) Hvert er hið skattalega bókfærða eigið fé sem miða á við í þessum tilvikum?
b) Er það bókfært skattalegt eigið fé hins erlenda félags í samræmi við íslenskar skattareglur?
c) Er það bókfært skattalegt eigið fé hins erlenda félags samkvæmt gildandi skattareglum í viðkomandi landi?

Með lögum nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, voru m.a. gerðar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í bráðabirgðaákvæði XXXIII. í lögum nr. 128/2009 er kveðið á um álagningu auðlegðarskatts á eignir manna sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. og 4.-9. tölul. 3. gr. tekjuskattslaga. Álagning auðlegðarskatts skal fara fram árin 2010, 2011, 2012 og 2013. Stofn til auðlegðarskatts eru framtalsskyldar eignir, sbr. 72. gr. laga nr. 90/2003, að frádregnum skuldum, svo sem nánar er rakið í a. og c. lið bráðabirgðaákvæðisins. Við mat á eignum í þessu sambandi skal í meginatriðum taka mið af 73. gr. laga nr. 90/2003 en þó þannig að sérstaklega er kveðið á um hvernig meta skuli til eignar hlutabréf eða hlutdeild í félögum, sbr. 2. mgr. b. liðar bráðabirgðaákvæðisins. Þar segir orðrétt:

Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 73. gr. skulu lögaðilar telja fram hlutdeild sína í öðrum félögum á markaðsverði ef um er að ræða félög sem skráð eru í kauphöll eða á skipulögðum tilboðsmarkaði en annars hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags í stað nafnverðs. Þá skulu lögaðilar telja fram eignarhlutdeild sína í félögum skv. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. á sama hátt.

Við ákvörðun auðlegðarskattsstofns skal telja hlutabréf í félögum sem skráð eru í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði fram á markaðsvirði í árslok. Sá sem á hlut í félagi sem ekki er skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði skal telja fram til auðlegðarskattsstofns hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það er talið fram í skattframtali félagsins skv. 1. mgr. þessa stafliðar. Þann hluta virðis eignarhluta í félagi sem reiknað er á framangreindan hátt sem umfram er nafnverð eða stofnverð skal telja fram í skattframtali 2011, 2012 og 2013.

Samkvæmt 5. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 skal telja hlutabréf til eignar á nafnverði nema sannað sé að raunvirði eigna félags að frádregnum skuldum sé lægra en hlutafé þess. Sama gildir um stofnsjóðsinneignir hjá samvinnufélögum, stofnfjárbréf í sparisjóðum og stofnfjáreignir í sameignarfélögum. Séu hlutabréf skráð í erlendum gjaldmiðli skal færa þau til eignar á nafnverði umreiknuðu með kaupverði miðað við daggengi við kaup, en ef nafnverð er ekki þekkt skulu bréfin færð til eignar á kaupverði. Síðastgreind regla leiðir til þess að eignfært virði hlutabréfa sem skráð eru í erlendum gjaldmiðli breytist ekki milli ára þótt gengi viðkomandi gjaldmiðils breytist.

Samkvæmt greindu bráðabirgðaákvæði skal við ákvörðun á stofni til auðlegðarskatts víkja frá hinni almennu reglu um mat á framtalsskyldum eignum sem fram kemur í 73. gr. laga nr. 90/2003 að því er varðar hlutabréf og eignarhluta í félögum. Ljóst er að með þessu móti er leitast við að telja til eignar raunvirði hlutabréfa og eignarhluta í félögum, svo sem skýrt kemur fram í frumvarpi því er varð að lögum nr. 128/2009. Engin sérstök ákvæði eru um mat á eignarhlutdeild í erlendum félögum heldur skal annað tveggja miða við markaðsvirði, ef um er að ræða hlutabréf í félögum sem skráð eru í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði, eða hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins samkvæmt skattframtali þess, sbr. einnig 1. mgr. b. liðar bráðabirgðaákvæðisins.

Ríkisskattstjóri telur að þegar lögaðilar og einstaklingar sem skattskyldir eru hér á landi eiga hlut í erlendu félagi sem ekki er skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði skuli miða verðmæti eignarhluta í skattframtali viðkomandi eiganda við skattalegt bókfært eigið fé hins erlenda félags samkvæmt skattframtali í heimalandi þess, enda sé það byggt á sambærilegum reglum sem gilda í þessum efnum hér á landi. Þykir ekki varhugavert í þessum efnum að hafa hliðsjón af ákvæði 9. tölul. a. 31. gr. laga nr. 90/2003 þar sem gert er ráð fyrir að með söluhagnað af hlutabréfum sem skráð eru erlendis sé farið á sama hátt og íslensk hlutabréf að því gefnu að hagnaður af starfsemi hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og hér á landi. Séu skattareglur verulega frábrugðnar því sem gildir hér á landi, eða séu miklir annmarkar á því að nálgast þessar upplýsingar, telur ríkisskattstjóri unnt að fallast á að byggja á ársreikningi viðkomandi félags, enda sé hann byggður á almennum reikningsskilareglum. Er þá litið til þess grundvallaratriðis að tilgreind fjárhæð til auðlegðarskatts sé sem næst raunvirði eignarhluta í hverju félagi fyrir sig, hvort heldur það er innlent eða erlent. Tekið skal fram að ef um er að ræða félag sem einnig á sjálft hluta í öðrum félögum ber að leiðrétta eignfært virði á sama hátt með tilliti til raunverulegs virðis þeirra félaga, reiknað í samræmi við 1. mgr. b. liðar bráðabirgðaákvæðis XXXIII. í lögum nr. 128/2009.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum