Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/2010

6.5.2010

Skattskylda vaxta - viðskipti með skuldabréf milli erlendra aðila

6. maí 2010
T-Ákv. 10-003

Ríkisskattstjóri hefur þann 5. mars 2010 móttekið fyrirspurn sem lýtur að túlkun á 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fyrirspyrjandi óskar eftir að ríkisskattstjóri staðfesti eftirfarandi túlkun á framangreindu ákvæði tekjuskattslaga:

„Ef um er að ræða sölu kröfu, og íslenskur aðili er skuldari, frá einum aðila til annars erlends aðila þar sem sá fyrrnefndi hagnast þá telst slíkur hagnaður ekki skattskyldur á Íslandi á grundvelli 3. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 8. tölul. 3. gr.“

Ákvæði 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt kveður á um þeir aðilar sem hafa vaxtatekjur hér á landi af tilteknum eignum beri að greiða tekjuskatt af þeim vöxtum. Nánar tiltekið er ákvæðið svohljóðandi:

„Allir aðilar sem hafa vaxtatekjur hér á landi af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum, sbr. 3. tölul. C-liðar 7. gr., skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Ákvæði þetta gildir þó hvorki um vexti sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands í eigin nafni né þá vexti sem greiðast erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum opinberum aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu í heimilisfestarríki sínu. Ákvæðið á ekki við kveðið tvísköttunarsamningur sem Ísland hefur gert við erlent ríki á um að ekki skuli haldið eftir afdráttarskatti af vöxtum. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð er kveður nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Framangreint ákvæði var lögfest með 6. gr. laga nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í athugasemdum með 6 gr. í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 70/2009 kemur eftirfarandi fram:

„Hér er lagt til að aðilar með heimilisfesti og skattskyldu utan Íslands beri hér á landi takmarkaða skattskyldu vegna vaxta sem þeir fá greidda af bankareikningum, verðbréfa- og fjárfestingasjóðum, skuldabréfum og öðrum kröfum og fjármálagerningum hér á landi. Ákvæðið á við um þá vexti sem íslenskir skattaðilar greiða erlendum aðilum.“

Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að vextir sem myndast við kaup og sölu á íslenskum kröfum milli tveggja erlendra aðila, þ.e. aðila sem ekki bera hér á landi fulla og ótakmarkaða skattskyldu skv. 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru ekki skattskyldir samkvæmt 8. tölul. 3. gr. áður greindra laga og þar af leiðandi ber ekki að halda eftir staðgreiðslu skv. lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum