Ákvarðandi bréf nr. 002/2010
Telst SICAV fjárfestingarsjóður heimilisfastur aðili skv. tvísköttunarsamningi.
4. mars 2010 T-Ákv. 10-002Ríkisskattstjóri hefur þann 12. febrúar 2010 móttekið fyrirspurn frá A dags. 10. sama mánaðar.
Fyrirspurnin lýtur að því „hvort að fjárfestingarsjóður stofnsettur í Lúxemborg beri skattskyldu á Íslandi, skv. 8. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, að teknu tilliti til tvísköttunarsamnings Íslands og Lúxemborg, og þurfi því að sæta afdrætti af vaxtatekjum héðan skv. lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.“ Í fyrirspurninni kemur fram að sjóðurinn sé í svokölluðu SICAV formi og upplýsir fyrirspyrjandi um félagaformið með tilvísun til skráningarlýsingar. Leggur fyrirspyrjandi það fyrir ríkisskattstjóra að svara því til hvort að slíkur sjóður, stofnsettur í Lúxemborg teljist heimilisfastur aðili í skilningi tvísköttunarsamnings Íslands og Lúxemborgar sbr. 4. gr. samningsins og njóti þar með hagræðis af 11. gr. hans þar sem kveðið er á um að vextir skuli skattlagðir í heimilisfestarríki móttakanda vaxtagreiðslna.
Fyrirspyrjandi vísar til þess að 28. gr. áður nefnds tvísköttunarsamnings hafi að geyma ákvæði sem kveður á um að samningurinn taki ekki til tiltekinna félaga. Bendir fyrirspyrjandi á að SICAV félög séu ekki nefnd í ákvæðinu. Ennfremur vísar fyrirspyrjandi til nýlegs dóms Evrópudómstólsins nr. C-303/07 og fylgir útprentun á dóminum með fyrirspurninni. Bendir fyrirspyrjandi á að fram komi í dóminum að skattframkvæmd í Finnlandi sé með þeim hætti að SICAV sé viðurkennt sem heimilisfastur aðili í skilningi tvísköttunarsamnings milli Finnlands og Lúxemborgar.
Framangreindu til svars vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:
Samkvæmt 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu allir þeir sem hafa vaxtatekjur hér á landi af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingasjóðum, skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum greiða af þeim tekjum tekjuskatt. Ákvæðið á þó ekki við kveði tvísköttunarsamningur sem Ísland hefur gert við erlent ríki á um að ekki skuli haldið eftir afdráttarskatti af vöxtum. Þá taka lög um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 til staðgreiðslu tekjuskatts af tekjum sem skattskyldar eru samkvæmt 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatts, sbr. A-lið 2. gr. laga nr. 45/1987.
Ísland og Lúxemborg hafa gert með sér samning til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir. Samkvæmt 1. gr. samningsins tekur hann til aðila sem eru heimilisfastir í öðru eða báðum samningsríkjum. Í 1. tölul. 4. gr. samningsins er að finna skilgreiningu á því hvað felist í hugtakinu „heimilisfastur aðili“ í skilningi samningsins. Þar segir að hugtakið merki hvern þann aðila sem samkvæmt lögum þess ríkis er skattskyldur þar vegna búsetu, heimilisfesti, aðseturs stjórnar eða af öðrum svipuðum ástæðum. Ennfremur kemur fram að hugtakið nái ekki til neins aðila sem eingöngu er skattskyldur í öðru hvoru ríkinu af tekjum sem eiga uppruna sinn í því ríki eða af eignum sem þar eru staðsettar. Að þessu virtu er ljóst að samningurinn gerir fulla og ótakmarkaða skattskyldu að skilyrði fyrir því að aðili geti talist heimilisfastur aðili í skilningi samningsins. Í 28. gr. framangreinds samnings milli Íslands og Lúxemborgar kemur svo fram að samningurinn taki hvorki til eignarhaldsfélaga (sociétés holding) í merkingu sérstakra laga í Lúxemborg, svokölluð 1929 félög, né til fyrirtækja sem svipuð fjármálalöggjöf gildir um í Lúxemborg.
Í framangreindi fyrirspurn kemur fram að SICAV fjárfestingarsjóðurinn sem fyrirspurnin lýtur að sé stofnsettur í Lúxemborg. Ekkert kemur fram í fyrirspurninni eða fylgigögnum hennar hvernig skattlagningu umrædds sjóðs sé háttað í Lúxemborg eða hvort að skattyfirvöld þar í landi geti staðfest að viðkomandi sjóður sé heimilisfastur aðili í skilningi umrædds tvísköttunarsamnings milli Íslands og Lúxemborgar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ríkisskattstjóri hefur aflað um þetta félagaform, SICAV, þá er félagið ekki tekjuskattsskylt í Lúxemborg heldur greiðir aðeins árlegt skráningargjald af stofnfé.
Vegna tilvísana fyrirspyrjanda til ummæla í dómi Evrópudómstólsins nr. C-303/07 þar sem fram kemur að í skattframkvæmd í Finnlandi sé aðili sem þessi viðurkenndur sem heimilisfastur aðili í skilningi tvísköttunarsamnings milli Finnlands og Lúxemborgar vill ríkisskattstjóri taka fram að 29. gr. umrædds samnings fellir með ótvíræðum hætti eingöngu svokölluð 1929 félög undan gildissviði samningsins, en ekki jafnframt hvert það fyrirtæki sem svipuð fjármálalöggjöf gildir um í Lúxemborg eins og gert er í 28. gr. samningsins milli Íslands og Lúxemborgar.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af tilgangi tvísköttunarsamninga, þ.e. að koma í veg fyrir tvísköttun, er það álit ríkisskattstjóra að umspurður aðili, fjárfestingarsjóður í SICAV formi stofnsettur í Lúxemborg, sé ekki heimilisfastur aðili í skilningi 4.gr. samnings milli Íslands og Lúxemborgar til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir.
Ríkisskattstjóri.