Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/2009

21.10.2009

Túlkun og framkvæmd á 14. og 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

21. október 2009
T-Ákv. 09-002

Ríkisskattstjóri hefur þann 19. október 2009 móttekið bréf frá fjármálaráðuneytinu um túlkun og framkvæmd á 14. og 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið hafi á undanförnum misserum verið í bréfaskiptum við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) vegna túlkunar á framangreindum ákvæðum. ESA hafi komist að þeirri niðurstöðu að skattframkvæmd hafi ekki verið í samræmi við grunnreglur EES-samningsins enda hafa skattyfirvöld túlkað framangreind ákvæði þannig að fyrning og lækkun á stofnverði eigna eigi eingöngu við um eignir sem staðsettar eru á Íslandi. Í bréfinu segir svo:

„Beinir ráðuneytið því þeim tilmælum til embættis ríkisskattstjóra til að gera ráðstafanir sem miða að því að tryggja að túlkun skattyfirvalda á 14. og 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði með þeim hætti að ákvæðin taki jafnt til fyrningar og lækkunar á stofnverði eigna hvort sem þær eru staðsettar á Íslandi, í einhverju aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
Tekið skal skýrt fram að skattaðili þarf að uppfylla öll skilyrði lagagreinanna og geta sýnt fram á það að eign hafi verið fyrnd eða færð niður í hinu erlenda ríki.“

Framangreindum tilmælum ráðuneytisins er hér með komið á framfæri við alla skattstjóra.

Ríkisskattstjóri áréttar að fjárfesti skattaðili í eign í öðru EES-ríki eða Færeyjum, þarf hann að sýna fram á með staðfestingu frá erlendu skattyfirvaldi að uppfyllt séu skilyrði um fyrningu á nýrri eign skv. 2. málsl. 14. gr. laga nr. 90/2003, eða lækkun á stofnverði skv. 1. málsl. 4. mgr. 15. gr. áður nefndra laga. Má í þessu sambandi hafa hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu Hrafnhildur Njálsdóttir gegn íslenska ríkinu, nr. 187/2007 frá 7. febrúar 2008, en þar segir:

„Samkvæmt framansögðu var það meginskilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981 [nú 14. gr. laga nr.90/2003] fyrir því að komast hjá skattlagningu söluhagnaðar að eignir sem fyrnanlegar væru samkvæmt 32. gr. laganna yrðu fyrndar sem söluhagnaðinum nam. Eins og að framan er rakið eru engin gögn í málinu um þann rekstur, sem áfrýjandi segist hafa hafið í Danmörku haustið 2002. Á hinn bóginn kemur fram í héraðsdómsstefnu að áfrýjandi „hefur ekki getað nýtt sér frestaða tekjufærslu í skattframtali 2002 ... að neinu leyti í dönskum skattframtölum hennar“. Með því er ljóst að áfrýjandi hefur ekki fullnægt framangreindu skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981 um að fyrna eignir um fjárhæð sem söluhagnaðinum nam. Verður þegar af þeirri ástæðu að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms og reynir þá ekki á reglur samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sem áfrýjandi vísar til, enda hefði skortur á að fullnægja skilyrði 13. gr. laga nr. 75/1981 um flýtifyrningu í rekstri, sem áfrýjandi hefði stundað hér á landi, leitt til skattlagningar frestaðs söluhagnaðar með sama hætti og raun varð á.“

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum