Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 001/2009

8.4.2009

Fjármagnstekjuskattur - hlutdeildarskírteini.

8. apríl 2009 T-Ákv. 09-001

Vísað er til bréfs yðar sem barst ríkisskattstjóra rafrænt þann 19. mars sl. Þar kemur fram að yður hafi borist bréf þar sem vakin er athygli á „óréttlæti varðandi fjármagnstekjuskatt vegna sölu bréfa sem fólk hefur í góðri trú verið áskrifandi af.“ Í því bréfi er sett fram dæmi um einstakling sem hafi sparað árum saman og keypt „Úrvalsvísitölubréf“ í áskrift. Við sölu bréfanna hafi hluti þeirra skilað hagnaði en önnur verið seld með tapi. Fjármagnstekjuskattur hafi verið greiddur að fullu vegna þeirra bréfa sem skiluðu hagnaði, en ekki hafi verið unnt að jafna tap vegna sölu annarra bréfa á móti þeim hagnaði. Í tilefni þess að yður barst nefnt bréf óskið þér eftir upplýsingum um það hvaða lög og reglur gilda um þetta efni. Einnig óskið þér eftir sjónarmiðum ríkisskattstjóra á því hvort slík skattlagning teljist sanngjörn.

Þann 24. mars 2009 óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum um það hvort hér væri um að ræða sjóð þar sem hlutabréf væru undirliggjandi verðmæti. Svar barst degi síðar þar sem fram kom að um væri að ræða bréf í hlutabréfasjóðnum „Úrvalsbréf Landsbankans“ og vísað í upplýsingar á upplýsingavef bankans.

Í tilefni af fyrirspurn yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Í upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er tekið fram að skattskyldar tekjur teljist með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Í sérstökum stafliðum greinarinnar eru síðan í dæmaskyni taldar upp tilteknar tegundir tekna sem skattskyldar eru samkvæmt lögunum og fer um skattlagningu þeirra eftir því hvort þær verða felldar undir A-, B- eða C-lið greinarinnar. Skattskyldar fjármagnstekjur eru þær tekjur sem upp eru taldar í 1.-8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, tekjur af hlutdeildarskírteinum, tekjur af arði, leigu íbúðarhúsnæðis og hagnaður af sölu eigna.

Tekin var upp samræmd skattlagning allra fjármagnstekna einstaklinga með lögum nr. 97/1996, um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt (nú lög nr. 90/2003, um tekjuskatt). Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 97/1996 kemur fram að gert sé ráð fyrir að skattur á allar fjármagnstekjur einstaklinga verði 10%. Ennfremur kemur fram að skatturinn reiknist af öllum vaxta- og fjármagnstekjum án frádráttar vaxtagjalda eða annars kostnaðar. Meginreglan er því sú að skattlagning fjármagnstekna sé brúttóskattlagning. Undantekningu frá þeirri meginreglu er þó að finna í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003. Þar segir að ekki sé heimilt að draga frá skattskyldum tekjum, tap af sölu eigna sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri. Þó megi skattaðili draga frá heildarhagnaðinum það tap sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári áður en skattskyldur hagnaður af sölu er ákveðinn. Ákvæðið felur þannig m.a. í sér að á móti söluhagnaði af hlutabréfum megi færa tap af sölu hlutabréfa á sama ári.

Á upplýsingavef Landsbankans kemur fram að sá sjóður sem fyrirspurnin lýtur að er fjárfestingarsjóður, skv. lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Hann fjárfestir að lágmarki 90% eigna sinna í hlutabréfum skráðum í Kauphöll Íslands og að hámarki 100%. Sjóðurinn er rekinn af rekstrarfélaginu Landsvaki hf. og er Landsbankinn vörsluaðili sjóðsins.

Fjárfestingarsjóður er skilgreindur sem sjóður með starfsleyfi án heimildar til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu og gefur út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 30/2003. Fjárfestingarsjóðir geta þannig ýmist verið reknir af rekstrarfélagi líkt og verðbréfasjóðir eða í hlutafélagaformi (hlutabréfasjóður). Hlutabréfasjóðum er einungis heimilt að hafa með höndum rekstur fjárfestingarsjóðs, sbr. 1. mgr. 62. gr. laganna. Af þeim upplýsingum sem eru að finna á upplýsingavef bankans verður ráðið að fjárfestingarsjóðurinn „Úrvalsbréf“ sé sk. hlutdeildarskírteinasjóður, þ.e. fjárfestingarsjóður sem gefur út hlutdeildarskírteini.

Hlutdeildarskírteini eru sérstök skírteini sem gefin eru út fyrir eignarréttindi að sjóðnum. Þeir sem eiga hlutdeild að slíkum sjóði eða einstakri deild hans eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína. Þannig er um að ræða sjóð um sameiginlega fjárfestingu þar sem sjóðsfélagi á tilkall til ávinnings af heildareignum sjóðsins. Þrátt fyrir að undirliggjandi verðmæti einstakra sjóða sé í einhverjum tilvikum eingöngu hlutabréf felur framlag einstakra sjóðfélaga þannig ekki í sér eiginleg kaup á hlutabréfum. Tekjur af gengishækkun hlutdeildarskírteina eru skattskyldar tekjur á grundvelli 3. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Teljast tekjur af hlutdeildarskírteinum þannig til vaxta, en ekki til söluhagnaðar. Fyrrnefnt ákvæði 1. mgr. 24. gr. laganna nær því ekki til innlausnar á hlutdeildarskírteinum.

Umfjöllun um skattlagningu fjármagnstekna er að finna í leiðbeiningabæklingi ríkisskattstjóra; Skattlagning fjármagnstekna, sem gefinn var út á árinu 1997. Í almennum kafla um tekjur af fjármagnskröfum segir m.a.:

Stofn til skatts af fjármagnskröfum er sá jákvæði mismunur sem er á milli þeirrar fjárhæðar sem rétthafi kröfu hefur gefið fyrir hverja einstaka kröfu eða metin er í hans hendi við upphaf eignarhaldstíma og þeirrar fjárhæðar sem hann fær fyrir kröfuna í lok eignarhaldstímans. Skiptir ekki máli hvort hækkun þessi kemur fram í áföngum (með afborgunum) eða í einu lagi við greiðslu á kröfunni, innlausn eða sölu hennar til þriðja aðila. Skattlagning þannig skilgreindra fjármagnstekna miðast við það tekjuár þegar greiðsla á sér stað eða fjárhæðin færð rétthafa til eignar á reikningi. Neikvæður mismunur á hverri einstakri kröfu á viðkomandi tekjutímabili fellur niður. [feitletrað hér]

Ríkisskattstjóri leggur ekki mat á það hvort einstök ákvæði skattalaga séu sanngjörn, en á það skal þó bent að skattlagningin er í samræmi við þá meginreglu um skattlagningu fjármagnstekna sem rakin er hér að framan.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum