Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 007/2004

2.12.2004

Svar við fyrirspurn varðandi túlkun á 4. gr. laga nr. 94/1996 um

2. desember 2004 T-Ákv. 04-007 2004-05-0139

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar dags. 10. maí 2004.

Í bréfinu er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort halda eigi eftir staðgreiðslu af þeim hluta greiðslu til hluthafa við slit á félagi eða lækkun á hlutafé sem greiddur er út til hluthafa og er skilgreindur sem arður samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt.

Í 4. tölulið C-liðar 7. gr. fyrrgreindra laga kemur fram að til skattskyldra tekna teljist:

Arður af hlutum og hlutabréfum í félögum sbr. 11. gr.

Um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur er fjallað í lögum nr. 94/1996 með síðari breytingum. Í lögunum kemur fram að innheimta skuli í staðgreiðslu 10% tekjuskatt til ríkissjóðs af vöxtum og arði eins og nánar er kveðið á um í lögunum.

Í 3. mgr. 4. gr. þeirra laganna segir að:

Stofn til staðgreiðslu sem arður samkvæmt lögum þessum teljast tekjur, sbr. 4. og 5. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 (nú lög nr. 90/2003), um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. fjárhæð sú er félög skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 greiða eða úthluta.

Ljóst má vera að tilvitnuð lagagrein er eins konar eyðuákvæði, þ.e. réttaratvik og réttaráhrif 3. mgr. 4. gr. ráðast á hverjum tíma af efnisatriðum þeirra lagaákvæða sem í greininni er vísað til. Framkvæmd staðgreiðslulaga ræðst því í umræddu tilviki af skilgreiningu á hugtakinu arður í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, eins og sú skilgreining er á hverjum tíma. Almennt verður staðgreiðsluframkvæmdin þannig að laga sig að rýmkun eða þrengingu á skilgreiningum í þeim lagaákvæðum sem vísað er til varðandi afmörkun þeirra tekna sem sæta staðgreiðslu samkvæmt staðgreiðslulögunum.

Í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 kemur eftirfarandi fram:

Nú er félagi sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. slitið án þess að um sameiningu félaga sé að ræða, sbr. 51. gr., og skal þá teljast til arðs úthlutun við félagsslit sem er umfram kaupverð bréfanna. Einnig telst til arðs lækkun hlutafjár, sem er greidd út til hluthafa, umfram kaupverð.

Arður sem úthlutað er með þeim hætti sem tiltekinn er í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 fellur ótvírætt undir þá skilgreiningu arðs í 4. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga, sem vísað er til í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996, samkvæmt orðanna hljóðan umræddra ákvæða.

Ríkisskattstjóri lítur svo á að ótvíræðri lagaskyldu til afdráttar 10% staðgreiðslu af arðstekjum verði ekki vikið til hliðar þótt óhagræði eða annmarkar kunni að fylgja framkvæmd skyldunnar. Vegna orða í fyrirspurnarbréfi um ómöguleika sökum skorts á upplýsingum um kaupverða hluta, vekur ríkisskattstjóri athygli á ákvæðum um hlutaskrár í 30. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 og í 19. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Samkvæmt þeim ákvæðum ber stjórnum slíkra félaga að halda skrá um eignarhald hluta, þ.m.t. um eigendaskipti.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum