Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 006/2004

22.11.2004

Styrkir - skattskylda - heimildir til frádráttar

22. nóvember 2004 T-Ákv. 04-006 2004-05-0097

Ríkisskattstjóra hefur borist erindi yðar sem dagsett er 6. maí 2004. Í erindinu er óskað eftir upplýsingum um það hvernig telja skuli fram styrki frá Styrktar- og sjúkrasjóði stéttarfélags X og hvernig telja megi fram kostnað á móti þeim. Í erindinu eru nefndir styrkir vegna; gleraugnakaupa, heyrnartækjakaupa, glasafrjóvgunar, krabbameinsskoðunar, ættleiðinga, tannviðgerða, líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, sálfræðiþjónustu, dvalar á heilsustofnun NLFÍ og útfarar. Spurt er hvort sömu reglur gildi um alla þessa styrki og hvar sé hægt að finna upplýsingar um þetta atriði.

Til svars við erindi yðar skal tekið fram að almennt teljast styrkir til skattskyldra tekna, sbr. ákvæði 1. málsliðar 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Styrki vegna gleraugnakaupa, heyrnartækjakaupa, glasafrjóvgunar, krabbameinsskoðunar, ættleiðinga, tannviðgerða, líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, sálfræðiþjónustu, dvalar á heilsustofnun NLFÍ og útfarar ber því að telja til skattskyldra tekna sbr. áðurnefnt ákvæði. Á skattframtali 2004 (vegna tekjuársins 2003) bar að færa slíkar styrkveitingar til tekna undir liðnum 2.3., í reit merktum "Annað, hvað?" Þá skal tekið fram að um staðgreiðsluskyldar tekjur er að ræða sbr. 3. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að því frátöldu að útfararstyrkir verkalýðsfélaga falla ekki undir staðgreiðslu sbr. 3. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu.

Um frádrátt frá slíkum tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt því ákvæði skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt eiga einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri, samt sem áður gilda um beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna eftir því sem við á, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kemur fram að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á, og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Það leiðir af tilvísun 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 til 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna að við skilgreiningu á beinum kostnaði ber að fara eftir almennum reglum um rekstrarkostnað, eftir því sem við á, með þeim takmörkunum sem ákvæðið sjálft mælir fyrir um. Persónuleg útgjöld heimilast þannig ekki til frádráttar sem rekstrarkostnaður. Útgjöld vegna gleraugnakaupa, heyrnartækjakaupa, glasafrjóvgunar, krabbameinsskoðunar, ættleiðinga, tannviðgerða, líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, sálfræðiþjónustu, dvalar á heilsustofnun NLFÍ og útfarar teljast persónuleg útgjöld sem ekki er heimilt að draga frá umræddum styrkjum.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að ekki er heimilt að draga kaupverð tækja, s.s. tölva og tölvubúnaðar, frá styrkjum skv. 1. málslið 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áðurnefnt ákvæði 2. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.

Upplýsingar um skattskyldu vegna styrkja er að finna í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra sem bæði eru til á prentuðu formi og einnig á upplýsingavef ríkisskattstjóra www.rsk.is. Um hliðstæð tilvik og spurt er um í erindi yðar hefur verið fjallað um í nokkrum úrskurðum yfirskattanefndar og má t.a.m. nefna úrskurð nr. 803/1997 sem hægt er að nálgast á heimasíðu yfirskattanefndar, www.yskn.is.

Með bréfi þessu er jafnframt afturkallað svarbréf ríkisskattstjóra við sömu fyrirspurn sem dagsett er 4. nóvember 2004 T-ákv 04-005.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum