Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/2004

30.3.2004

Verklagsreglur um heimild til að miða tekjuskatt og eignarskatt

30. mars 2004 T-Ákv. 04-003 2003-11-0330

Samkvæmt 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, er það almenn regla að miða tekjuskatt við tekjur næsta almanaksár á undan skattákvörðun og eignarskatt skal miða við eignarskattsstofn í árslok skv. 78. gr. laganna. Skattstjóri getur þó veitt félagi heimild til að miða tekjuskatt við það rekstrarár sem félagið ákvarðar í samræmi við 8. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, og miða eignarskatt við eignarskattsstofn í lok reikningsárs félagsins í stað almanaksársins.

Samkvæmt 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, getur skattstjóri heimilað að félagasamstæða, þ.e. móðurfélag ásamt dótturfélagi eða dótturfélögum sínum, sé skattlögð í stað einstakra félaga samstæðunnar. Skilyrði samsköttunar er, auk a.m.k. 90% eignarhlutdeildar móðurfélags í dótturfélögum, að samstæðan hafi sama reikningsár og eignarhald hafi varað allt reikningsárið, nema um sé að ræða dótturfélag sem er stofnað eða slitið á reikningsári samstæðunnar. Samsköttunin skal standa að lágmarki í fimm ár.

Með 15. gr. laga nr. 149/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, var gerð breyting á 93. gr. laganna, sbr. nú 93. gr. laga nr. 90/2003, varðandi skilafresti framtala og tímasetningu álagningar. Í athugasemdum við lagafrumvarpið við þessa breytingu er tekið fram að gerðar hafi verið breytingar á fyrirkomulagi og vinnubrögðum við skil á skattframtölum. Ný tækni við skattskil krefjist meiri sveigjanleika í álagningartíma og ýmsum skilafrestum. Í samræmi við það var lagt til í frumvarpinu að fjármálaráðherra auglýsi að fengnum tillögum ríkisskattstjóra álagningarfresti en ríkisskattstjóri ákveði skilafresti í samræmi við það. Sérstaklega er bent á að gert væri ráð fyrir að sérstakir frestir verði ákveðnir fyrir lögaðila sem hafa annað reikningsár en almanaksárið þannig að álagning á þá fari fram að liðnum jafnlöngum tíma frá lokum reikningsárs og hjá öðrum félögum.

Hér með eru því settar eftirfarandi verklagsreglur, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um veitingu heimildar til að reikningsár fyrir álagningu skatta sé annað en almanaksárið, skilafresti skattframtala og álagningu tekjuskatts og eignarskatts fyrir félög sem hafa fengið annað reikningsár samþykkt svo og um heimild til samsköttunar móður- og dótturfélaga.

Heimild til að skattalegt reikningsár sé annað en almanaksárið.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, skal reikningsár félaga vera 12 mánuðir og verður því aðeins breytt eftir að félag hefur hafið starfsemi sína að sérstakar aðstæður gefi tilefni til þess. Um getur verið að ræða aðlögun reikningsárs að reikningsári samstæðu sem félagið er að ganga inn í eða ganga úr samstæðu eða breyting á rekstrarlegum þáttum, sem gera það mögulegt að breyta reikningsári. Skal breytingin tilgreind og rökstudd.

Samkvæmt 59. og 78. gr. laga nr. 90/2003 skal að jafnaði miða við það að tekjuskattur sé lagður á tekjur hvers almanaksárs um sig og eignarskattur á eignir í lok almanaksárs. Skattstjóri getur þó heimilað annað skattalegt reikningsár sé til þess sérstakt tilefni.

Verulegir hagsmunir skattyfirvalda og annarra hvíla á því að samræmi sé á milli skattaðila á því hvaða tekjutímabili uppgjör skatta miðast við. Flest þau kerfi sem notuð eru við skattvinnslu eru miðuð við almanaksárið og öll frávik frá því leiða til aukins umstangs og kostnaðar. Vinna við skattlagningu byggir mikið á upplýsingamiðlun og samanburði upplýsinga frá ýmsum aðilum og er því mikilvægt að upplýsingarnar miðist sem mest við sama tímabil. Innheimta opinberra gjalda er miðuð við almanaksárið. Skattskil félaga eru í mörgum tilvikum lögð til grundvallar staðtölugerð og áætlanagerð opinberra aðila. Af þessum ástæðum er rétt að ekki sé vikið frá þeirri meginreglu að álagning skatta sé miðuð við almanaksárið nema til þess standi skýr rök og verulegir hagsmunir skattaðilans.

Ríkisskattstjóri telur nauðsynlegt að við ákvarðanir um skattalegt reikningsár sé gætt samræmis á landinu öllu og setur því eftirfarandi reglur fyrir skattstjóra til að miða ákvarðanir sínar í þessu efni við.

Sá sem hyggst taka upp eða breyta reikningsári sínu þannig að það falli ekki að almanaksárinu skal rökstyðja óskir sínar þess efnis og sýna fram á þá hagsmuni sem hann hefur af því fyrirkomulagi. Skattstjóri skal leggja mat á óskir um breytt reikningsár og fallast á þær sé eitthvert eftirfarandi atriða til staðar:

  • Að félagið sé að mestu leyti starfandi í atvinnugrein þar sem venjulegt rekstrarár er ekki almanaksárið og annað tímabil sé eðlilegt og algengt að nota til uppgjörs á rekstri. Sem dæmi má nefna fiskveiðar þar sem miðað sé við fiskveiðiárið eða skólarekstur þar sem miðað er við fast skólaár. Ekki nægir í þessu efni að til staðar séu venjulegar árstíðasveiflur t.d. í verslun eða þjónustustarfsemi svo sem ferðamennsku.
  • Að óskað hafi verið samsköttunar fyrir félagið með móðurfélagi, sem þegar hefur fengið samþykkt annað reikningsár en almanaksárið og að önnur skilyrði samsköttunar séu uppfyllt.
  • Að félagið sé í nánum fjárhags- og eignatengslum við annan aðila, innlendan eða erlendan, sem hefur reikningsár sem víkur frá almanaksárinu og verulegir hagsmunir tengjast því að fjárhagslegt uppgjör aðilanna fari saman. Starfsleg samvinna án fjárhagslegra tengsla eða eignarhald eitt og sér á ekki að ráða í þessum tilvikum.

Fallist skattstjóri á breytt skattalegt reikningsár skal hann tilkynna það til ríkisskattstjóra, fyrirtækjaskrár. Hann skal jafnframt kynna skattaðila þær reglur sem um framtalsskil og álagningu opinberra gjalda gilda um félög sem hafa annað reikningsár en almanaksárið. Hafni skattstjóri ósk um breytt skattalegt reikningsár skal hann tilkynna skattaðila það, veita rökstuðning sé eftir honum leitað og vekja athygli á að synjun hans megi kæra til ríkisskattstjóra innan 3ja mánaða.

Framtalsskil og álagning á félög sem fengið hafa heimild fyrir breyttu reikningsári.

Skattframtali og ársreikningi skal skila að loknu tilgreindu reikningsári innan þess mánaðarfjölda sem samsvarar auglýstum almennum skilafresti á árinu hjá þeim sem hafa almanaksárið sem reikningsár. Lengd þess skilafrests, sem auglýstur er í byrjun árs, skal gilda fyrir þau félög sem ljúka reikningsári á því almanaksári.

Svo fljótt sem unnt er að loknum framtalsfresti skal skattstjóri leggja tekjuskatt og eignarskatt á skattaðila samkvæmt framtali hans, sbr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og önnur opinber gjöld, s.s. tryggingagjald, iðnaðarmálalagjald og búnaðargjald. Álagningu skal vera lokið innan sömu tímalengdar frá lokum reikningsárs og gildir fyrir þau félög sem miða reikningsár sitt við almanaksárið samkvæmt auglýsingu fjármálaráðherra við upphafi almanaksárs, sbr. ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 93. gr. sömu laga. Tilkynna skal gjaldanda að álagningu sé lokið og niðurstöður hennar með ábyrgðarbréfi og veita honum kærufrest í 30 daga frá póstlagningu ákvörðunar.

Félag sem hefur ákveðið annað reikningsár eða breytt reikningsári sínu í samræmi við 8. gr. laga nr. 144/1994 og fengið samþykki skattstjóra að skattskil geti verið miðuð við þá ákvörðun skal hlíta eftirgreindum reglum við fyrsta skattuppgjör eftir slíka ákvörðun.

Tekjuskattsstofn skal að meginreglu miða við 12 mánuði en getur verið skemmra við stofnun eða slit félags eða þegar verið er að breyta reikningsári. Þó getur skattstjóri heimilað félagi að lengja reikningsárið um allt að þrjá mánuði þ.e. í 15 mánuði, í því tilfelli þegar verið er að breyta reikningsári þannig að hið skerta reikningsár frá lokum fyrra viðmiðunartímabilsins að upphafi þess seinna yrðu þrír mánuðir eða skemmra. Heimilt er þá að miða fyrsta reikningsár hins breytta reikningsárs frá lokum fyrra reikningsársins. Skil á skattframtali og álagning tekjuskatts og eignarskatts og annarra opinberra gjalda skal fara fram innan þeirra tímamarka sem fram kemur hér að framan.

Ef tímabilið frá lokum þess reikningsárs sem horfið er frá að upphafi á breyttu reikningsári er lengra en 3 mánuðir skal leggja fram skattframtal og ársreikning fyrir það skerta reikningsár og ljúka álagningu tekjuskatts og eignarskatts og annarra opinberra gjalda innan þeirra tímamarka sem fram kemur hér að framan.

Tekjuskattur og gjöld sem miðast við tekjur eða veltu skal leggja á fyrir hvert framtalstímabil. Eignarskatt skal leggja á fyrir framtalstímabil sem ná yfir 31. desember eða ef það er 9 mánuðir eða lengra

Samsköttun félaga og breyting á reikningsári.

Umsókn um samsköttun skv. 55. gr. laga nr. 90/2003 skal beint til skattstjóra í því umdæmi þar sem móðurfélagið er heimilisfast og skal umsóknin berast eigi síðar en þrjátíu dögum fyrir lok framtalsfrests samkvæmt auglýsingu ríkisskattstjóra í upphafi almanaksárs vegna fyrsta tekjuársins sem óskað er eftir samsköttun fyrir.

Skattstjóri skal fallast á samsköttun móðurfélags og dótturfélaga ef:

  • að a.m.k. 90% hlutafjár hvers dótturfélags er í eigu móðurfélagsins eða annars dótturfélags, sem samsköttunin á að taka til,
  • að eignarhald sbr. framangreint hafi varað allt reikningsárið sem óskað er samsköttunar fyrir nema dótturfélag hafi verið stofnað eða því slitið á reikningsárinu,
  • að reikningsár allra félaga sem samsköttunin á að taka til hafi verið samræmd

Fallist skattstjóri á samsköttun félaga í samræmi við framangreint skal hún vera bindandi í fimm reikningsár. Stofni eða kaupi móðurfélagið eða eitthvert þeirra félaga sem samsköttunin tekur til félag, sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar innan samstæðunnar, skal hún heimil án þess að binditími samsköttunar hér að framan lengist.

Reglur þær sem að framan eru settar um skil á framtali og álagningu skulu gilda um þau félög í samstæðunni sem aðlaga verða reikningsárið nýju reikningsári. Þegar hið skerta reikningsár frá lokum fyrra viðmiðunartímabils félagsins að upphafi reikningsárs samstæðunnar eru þrír mánuðir eða skemmra getur skattstjóri heimilað því félagi að lengja nýtt reikningsár um allt að þrjá mánuði, þ.e. í 15 mánuði, samkvæmt framangreindri reglu og telja þannig fram á skattframtali samstæðunnar. Þegar þetta tímabil á milli breyttra reikningsára er lengra en 3 mánuðir skal leggja fram ársreikning og skattframtal fyrir það tímabil og leggja á félagið opinber gjöld innan framangreindra tímamarka og tilkynna gjaldanda að álagningu sé lokið, niðurstöður hennar og kærufrest með ábyrgðarbréfi.

Samkvæmt 54. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, skulu félög í sömu samstæðu hafa sama reikningsár nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Sú heimild í sömu grein laganna að fella ársreikning dótturfélags inn í samstæðureikningsskilin ef reikningsári dótturfélags ljúki þrem mánuðum eða skemur fyrir lok reikningsárs samstæðunnar gildir ekki í skattskilum samstæðunnar óski hún eftir samsköttun. Í því tilfelli eru viðskipti sem falla til hjá dótturfélaginu eftir lok reikningsárs þess og fyrir lok reikningsárs samstæðunnar ekki tekin með í reikningsskilunum samstæðunnar.

Skipting félaga.

Sömu reglur gilda eftir því sem við á þegar verið er að skipta félagi samkvæmt 52. gr. laga nr. 90/2003 og í framhaldi af því er reikningsári eins eða fleiri félaga breytt frá óskiptu félagi. Félagi sem er skipt skal skila skattframtali og ársreikningi fyrir það tímabil sem það er starfandi á árinu í venjubundnum skilafresti þess.

Önnur atriði.

Almennar fyrningar skv. 37. gr. laga nr. 90/2003 skulu reiknaðar með venjulegum hætti, þar sem upphaf rekstrar og reikningsárs fer saman eða frá og með breyttu heilu 12 mánaðar rekstrarári. Fyrir þann hluta skerts rekstrarárs vegna breytinga á rekstrarári skulu fyrningar ákvarðast sem hlutfall af ársfyrningu. Sama gildir þegar félag hefur heimild til samkvæmt þessum reglum að hafa reikningsárið allt að 15 mánuðum. Þá skulu fyrningar eigna skv. 1. tölul. 1. mgr. 33. gr. skattalaga reiknast af bókfærðu verði í upphafi reikningsárs. Aðrar fyrningar skulu reiknaðar með venjulegum hætti í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2003.

Þegar svo háttar í skattalögum að miða skuli við kaup- eða sölugengi í árslok, eða vísitölu í janúar á næsta ári eftir lok reikningsárs, skal við mat á eigna- og skuldaliðum, sbr. 5. og 6. tölul. 73. gr. og 75. gr. laga nr. 90/2003 miða við kaup- og sölugengi í lok reikningsárs og vísitölu í næsta mánuði á eftir lokum reikningsárs.

Þegar félag kýs að gera upp skattskil sín miðað við annað tímabil en almanaksárið, skulu þær skattareglur sem voru í gildi við lok reikningsárs þess gilda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts. Á þetta m.a. við um skatthlutfall og fyrningar.

Um kærufrest skattaðila vegna álagningar fer eftir 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og skal hann vera 30 dagar frá póstlagningu álagningar.

Álagning opinberra gjalda á félög með annað reikningsár en almanaksárið skal birt í næstu álagningarskrá og skattskrá eftir álagningu sem gefnar er út skv. 1. og 2. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003. Kærufrestur fylgir ekki birtingu skránna.

Launamiða svo og önnur gögn svo sem hlutafjármiðar sem fylla skal út og afhenda skattstjóra skv. 92. gr. laga nr. 90/2003 og gögn sem launþegar og hluthafar nota við framtalsgerð sína skal miðað við greiðslur á almanaksári og eignarstöðu í árslok og skila í auglýstum framtalsfresti, sbr. skattaðila sem hafa almanaksárið sem reikningsár. Með skattframtali skal fylgja sundurliðun á framangreindum greiðslum, þannig að fram komi skipting heildargreiðslna á rekstrarárinu milli almanaksáranna.

Verklagsreglur þessar taka gildi fyrir hvert það félag sem er með upphaf rekstrarárs eftir 1. janúar 2002 og lok rekstrarárs eftir 1. janúar 2003.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum