Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/2004

30.3.2004

Verklagsreglur um slit og afskráningu einkahlutafélaga skv. 83. gr.

30. mars 2004 T-Ákv. 04-002 2004-01-0153

Lagagrundvöllur.

Með 8. gr. laga nr. 52/2003, um breytingu á lögum 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum, var hluthöfum einkahlutafélaga veitt heimild með nýju ákvæði, 83. gr. a, til að hafa frumkvæði að afskráningu einkahlutafélaga á einfaldan og öruggan hátt án aðkomu skilanefndar og lýsingu krafna á hendur félaginu með tilheyrandi kostnaði sem slíkum slitum fylgja.

Í athugasemdum í frumvarpinu um þetta nýmæli kemur fram að tilgangurinn með þessu ákvæði væri að gera hluthöfum skuldlausra einkahlutafélaga, sem oft eru mjög lítil og geta jafnvel verið með einum hluthafa, kleift að slíta félaginu með einföldum og ódýrum hætti en allmörg einkahlutafélög hafi algjörlega hætt starfsemi án þess að þeim hafi verið slitið formlega, m.a. vegna kostnaðar við að skipa skilanefnd. Aðalreglan við slit og afskráningu einkahlutafélaga sem og hlutafélaga samkvæmt hlutafélagalöggjöfinni væri að kosin skuli skilanefnd en skilanefndarmeðferð kostaði þó sitt. Í því tilfelli að félag ákveður að hætta rekstri og starfsemi hafi legið niðri um langt skeið væru engir þeir hagsmunir taldir vera fyrir hendi sem mæltu gegn því að félaginu væri slitið með einföldum og skjótum hætti og það síðan afskráð í hlutafélagaskrá. Núgildandi reglur um félagsslit skv. XIII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, halda að sjálfsögðu gildi sínu óbreyttar.

Lagagreinin hljóðar þannig:

Í skuldlausu einkahlutafélagi geta hluthafar afhent hlutafélagaskrá skriflega yfirlýsingu um að allar gjaldfallnar og ógjaldfallnar skuldir félagsins hafi verið greiddar og félaginu slitið. Yfirlýsingin skal vera undirrituð með nafni, kennitölu og heimilisfangi allra hluthafa félagsins. Með yfirlýsingu skal fylgja vottorð frá toll- og skattyfirvöldum um að félagið skuldi ekki opinber gjöld.

Hlutafélagaskrá má einungis skrá slit félagsins ef yfirlýsing hluthafanna berst skránni innan tveggja vikna frá undirskrift yfirlýsingarinnar.

Hluthafar bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum einkahlutafélagsins, hvort sem þær eru gjaldfallnar, ógjaldfallnar eða umdeildar, frá þeim tíma er yfirlýsingin um slit félagsins var gefin.

Úthluta skal til hluthafa þeim eignum einkahlutafélags sem eftir kunna að standa.

Í 1. málsl. 1. mgr. kemur fram að hluthafar skuldlaus einkahlutafélags geti með skriflegri yfirlýsingu lýst því yfir við hlutafélagaskrá að allar gjaldfallnar sem ógjaldfallnar skuldir félagsins hafi verið greiddar og félaginu slitið. Þetta ákvæði þýðir að þegar slit eru ákveðin á hluthafafundi skulu allar skuldir félagsins, gjaldfallnar sem ógjaldfallnar, hafa verið greiddar upp annað hvort með greiðslu til kröfuhafa eða yfirtöku hluthafa á kröfum á félagið með samþykki kröfuhafa. Ef um veðskuldir er að ræða sem hvíla á bifreiðum og fasteignum skal liggja fyrir staðfestur kaupsamningur fyrir sölu slíkra eigna og yfirtöku kaupanda á áhvílandi veðskuldum. Gerð er krafa að um skriflega yfirlýsingu sé að ræða þar eð verið er að afmá skráningu einkahlutafélags í hlutafélagaskrá.

Í 2. málsl. 1. mgr. er gerð sú krafa að allir hluthafar undirriti yfirlýsinguna um slitin. Gera má ráð fyrir að þeir séu venjulega fáir þegar þessi leið er farin, jafnvel aðeins einn. Mikilvægt er að þessu skilyrði sé fullnægt þar eð hluthafar einkahlutafélags bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins sem fram kunna að koma eftir slitin reynist yfirlýsing þeirra um skuldleysi félagsins vera röng.

Í 3. málsl. 1. mgr. er kveðið á um að með yfirlýsingu skuli fylgja vottorð frá toll- og skattyfirvöldum til tryggingar á því að einkahlutafélagið skuldi ekki opinber gjöld. Í yfirlýsingu skattyfirvalda skal koma fram að viðkomandi félag hafi fullnægt öllum skattalegum kröfum um skattskil og öðrum skyldum um upplýsingagjöf til skattyfirvalda með því að hafa lagt fram skattframtöl og ársreikninga fyrir starfstímabil sitt og skattstjóri lagt á opinber gjöld í samræmi við þá endurskoðun á gögnum og upplýsingum sem skattyfirvöldum voru tiltæk á þeim tíma. Hafi jafnframt farið fram álagning opinberra gjalda vegna ársins á undan slitaári eða endurákvörðun á opinberum gjöldum eldri ára, m.a. vegna framkominna framtala í stað áætlunar, skulu þær upplýsingar koma fram í yfirlýsingunni. Yfirlýsing tollyfirvalda, (innheimtumanna ríkissjóðs) lýtur að því að félagið hafi greitt öll álögð opinber gjöld í samræmi við yfirlýsingu skattyfirvalda.

Skv. 2. mgr. hafa hluthafar tvær vikur frá ákvörðun um slit félagsins til að afhenda hlutafélagaskrá undirritaða yfirlýsingu um slit félagsins til afskráningar á félaginu. Afskráning félagsins verður því að fara fram í beinu framhaldi af ákvörðun hluthafafundar um slit félagsins, framlagningu viðeigandi gagna til skattyfirvalda og álagningu opinberra gjalda og útgáfu yfirlýsinga skatt- og tollyfirvalda, sbr. 3. málsl. 1. mgr., og er frestur til afskráningar hafður eins skammur og kostur er.

Í 3. mgr. er kveðið á um að hluthafar beri beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á þeim skuldum sem enn kynnu að hvíla á einkahlutafélaginu miðað við þann tíma þegar yfirlýsing um félagsslit er gefin. Þetta þýðir að unnt er að ganga að eignum þeirra aðila sem síðast voru skráðir hluthafar einkahlutafélagsins.

Skv. 4. mgr. skal úthluta þeim eignum einkahlutafélags, sem eftir kunna að standa, til hluthafa. Með yfirlýsingunni til skattstjóra og hlutafélagaskrár skal jafnframt fylgja ákvörðun um úthlutun eigna félagsins sem eftir kunna að standa til hluthafa að teknu tilliti til óálagðra opinbera gjalda slitaársins.

Skilyrði til að félag verði afskráð skv. 83. gr. a.

Heimild til að afskrá félög með þessum hætti er frávik frá hinni almennu reglu laganna um slit á einkahlutafélagi. Þau ákvæði eru sett til að tryggja sem best hag viðskiptavina félagsins og þeirra sem hugsanlega eiga kröfur á félagið. Þar að auki tryggja þau ákvæði að einhverju marki rétt opinberra aðila svo sem skattkerfisins til að fá upplýsingar frá félögum þessum sem varðar skattskylda starfsemi þeirra og annarra sem það hefur átt í skiptum við.

Eins og í athugasemdum með lögunum segir er tilgangurinn að gera það mögulegt að slíta einkahlutafélögum, sem algerlega hafa hætt starfsemi sinni og er það rökstutt með því að þegar rekstur hafi legið niðri um langt skeið séu ekki þeir hagsmunir fyrir hendi sem mæltu gegn því að félaginu væri slitið með einföldum og skjótum hætti og félagið afskráð í hlutafélagaskrá.

Þótt lögin kveði ekki með ákveðnum hætti á um hvenær skilyrði til slita og afskráningar með þessum hætti skapast verður að túlka þau á þann hátt að slitin verði ekki til að rýra rétt kröfuhafa eða spilla réttindum þeirra sem átt hafa í viðskiptum við félagið eða opinberra aðila. Þótt lögin kveði á um að hluthafarnir beri beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum einkahlutafélagsins frá þeim tíma er yfirlýsingin um slit var gefin er að því að hyggja að kröfur af öðrum toga kunna að vera til staðar eða koma upp síðar svo sem vegna ábyrgða á seldum vörum eða verkum, sem erfitt kann að vera að fylgja eftir ef sá lögaðili, sem viðskiptin gerði er allur. Þá hefur félag í rekstri á árinu ýmsum skyldum að gegna í upphafi næsta árs varðandi skil á upplýsingum og gögnum skv. 92. gr. laga nr. 90/2003. Þetta eru skyldur sem ekki er almennt heimilt að flytja yfir á hluthafa.

Af framangreindu leiðir að rétt þykir að setja tiltekinn lágmarkstíma frá því að rekstri var hætt sem skilyrði fyrir afskráningu samkvæmt fráviksákvæðinu. Með hliðsjón af því að skattaleg uppgjör miðast almennt við almanaksárið eða annað tólf mánaða tímabil og að algengt er að ábyrgð og bótaréttur sé miðaður við eitt ár þykir rétt og eðlilegt að setja það skilyrði fyrir afskráningu að liðið sé eitt ár hið skemmsta frá því að rekstri var hætt.

Reglur um afskráningu einkahlutafélaga samkvæmt 83. grein a, laga nr. 138/1994.

Hér með eru fyrirtækjaskrá settar reglur um afskráningu einkahlutafélaga samkvæmt 83. grein a, laga nr. 138/1994 og skattstjórum settar verklagsreglur, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, hvernig skattyfirvöld skuli standa að útgáfu yfirlýsingar skv. 3. málsl. 1. mgr. 83. gr. a um skattalega stöðu viðkomandi félags við slit þess og undanfara afskráningar í hlutafélagaskrá.

A. Reglur um afskráningu einkahlutafélaga samkvæmt 83. grein a, laga nr. 138/1994:

  1. Til þess að ósk um afskráningu úr hlutafélagaskrá verði tekin til afgreiðslu skulu a. m. k. 12 mánuðir liðnir frá því að eiginlegum rekstri í nafni félagsins lauk. Með lokum á eiginlegum rekstri er átt við að félagið hafi ekki átt í neinum viðskiptum við aðila utan þess sem gera ber grein fyrir í bókhaldi þess að frátöldum hugsanlegum tekjum af arðberandi eignum og greiðslum á vöxtum af skuldum þess. Undanskilin er sala á rekstrareignum og aðrar ráðstafanir sem tengjast slitum félagsins.
  2. Félagið sé skuldlaust samkvæmt lokaefnahagsreikningi.
  3. Félaginu hafi verið slitið samkvæmt ákvörðun hlutahafafundar og fyrir liggi yfirlýsing til hlutafélagaskrár um að hluthafafundur hafi samþykkt að slíta félaginu og óska eftir afskráningu úr hlutafélagaskrá svo og yfirlýsing allra hluthafa um beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð þeirra á skuldum félagsins frá þeim tíma sem yfirlýsing um slit félagsins var gefin.
  4. Fyrir liggi yfirlýsing skattstjóra um að félagið hafi fullnægt öllum skattalegum kröfum um skattskil og öðrum skyldum um upplýsingagjöf til skattyfirvalda. Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 má ekki slíta félagi fyrr en allir skattar þess hafi verið að fullu greiddir. Skattar teljast samkvæmt þessari grein ekki vera að fullu greiddir fyrr en álagning þeirra hafi farið fram og álagningin tilkynnt innheimtumanni og innheimt af honum.
  5. Fyrir liggi yfirlýsing innheimtumanns um að félagið skuldi ekki opinber gjöld eða aðrar kröfur opinberra aðila í samræmi við yfirlýsingu skattstjóra.

B. Til þess að yfirlýsing skattstjóra verði gefin þarf eftirfarandi að liggja fyrir:

  1. Framtöl vegna tekjuskatts og eignarskatts fyrir öll ár til og með slitaári hafi verið lögð fram og skattstjóri lagt á opinber gjöld í samræmi við þau og tilkynnt innheimtumanni um álagninguna. Framtal fyrir slitaárið skal sæta endurskoðun í samræmi við gögn og upplýsingar sem skattyfirvöldum eru tiltæk þegar ósk um yfirlýsingu skv. 83. gr. a berst honum. Í lokarekstrarreikningi, þ.e. fyrir slitaárið, skal gera grein fyrir sölu á eignum eða mismun á markaðsverði og bókfærðu verði þeirra vegna úthlutunar til hluthafa. Í lokaefnahagsreikningi skulu koma fram eignir og eigið fé til úthlutunar eftir að skuldir hafa verið greiddar aðrar en skuldir vegna óálagðra skatta slitaársins.
  2. Að félag sem verið hefur á launagreiðendaskrá hafi skilað skilagreinum og sundurliðunum til rekstrarloka og tilkynnt að starfseminni sé hætt.
  3. Að félag sem verið hefur í virðisaukaskattskyldri starfsemi hafi skilað virðisaukaskýrslum til loka starfseminnar, m.a. vegna sölu á rekstrareignum, og óskað eftir afskráningu af virðisaukaskattskrá.
  4. Að félagið hafi staðið skil á upplýsingum samkvæmt 92. gr. og 94. gr. laga nr. 90/2003. Skattstjóri skal krefja um slíkar upplýsingar eftir því sem hann telur ársreikninga og framtöl félagsins gefa tilefni til.
  5. Að félagið hafi staðið skil á afdreginni staðgreiðslu af fjármagnstekjum og staðgreiðslu af greiðslum til aðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi eftir því sem skattstjóri telur ársreikninga og framtöl gefa tilefni til.
  6. Að ársreikningar fylgi framtölum. Fyrir þau almanaksár sem kunna að vera liðin frá því að rekstur var síðast hjá félaginu dugir þó yfirlýsing stjórnar félagsins um að félagið hafi ekki átt eignir né borið skuldir á þeim árum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum