Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 001/2004

23.1.2004

Gildistaka laga 143/2003, um breyting á lögum nr. 90/2003, um

23. janúar 2004 T-Ákv. 04-001 2004-01-0206

Í desember sl. samþykkti Alþingi lög nr. 143/2003, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Í þessum breytingalögum er mælt fyrir um ýmsar breytingar ekki hvað síst á ýmsum fjárhæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Borið hefur á því að deildar meiningar væru uppi um það hvernig skýra bæri gildistökuákvæði laganna, og má m.a. sjá þessa merki í svonefndum skattabæklingum endurskoðendafyrirækja sem hefur verið dreift allvíða. Við samanburð á þessum bæklingum virðast menn hafa lagt mismunandi skilning í það hvernig gildistöku fyrrnefndra breytingalaga skyldi háttað. Þá hefur og borið mjög á fyrirspurnum til ríkisskattstjóra varðandi gildistöku nefndra laga, þar sem vafist hefur fyrir mönnum hvernig og hvenær einstök ákvæði laganna skuli koma til framkvæmda.

Umrætt gildistökuákvæði hljóðaði svo:

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2004 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2005 vegna tekna og eigna á árinu 2004. Ákvæði 2. gr., b-liðar 3. gr., b-liðar 6. gr. og b-liðar 9. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008. Ákvæði 10. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við endurákvörðun og álagningu eftir gildistöku ákvæðisins. Ákvæði b-liðar 12. gr. (ákvæði til bráðabirgða X) öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2004 vegna vaxtagjalda á árinu 2003

Ríkisskattstjóri taldi því rétt að leita eftir afstöðu fjármálaráðuneytisins um það hvernig bæri að túlka framangreint gildistökuákvæði, einkum með tilliti til þess hvaða útreikningsforsendur skyldu lagðar til grundvallar við álagningu opinberra gjalda og bóta á árinu 2004. Fjármálaráðuneytið svaraði embættinu þann 20. janúar sl. þar sem raktar eru forsendur frumvarps þess sem síðar var samþykkt sem lög nr. 143/2003 og telur að gildistökuákvæðið skuli túlkast í samræmi við þær forsendur. Í ljósi afstöðu ráðuneytisins til gildistökunnar ber að skilja umrætt gildistökuákvæði svo:

Lögin öðlast gildi 1. janúar 2004, sbr. þó a-lið hér að neðan, og koma til framkvæmda sem hér segir:

a. Ákvæði 1.gr, 10. gr. og 11. gr. koma til framkvæmda við birtingu laganna.

b. Ákvæði a-, b-, c-, e- og f-liðar 5. gr., 7. gr., 8. gr. a-liðar 9. gr. og b-liðar 12. gr. koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 og við ákvörðun bóta á því ári.

c. Ákvæði a-liðar 3. gr., a- og b-liðar 4. gr., d-liðar 5. gr. og a- og c-liðar 6. gr. koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2005 vegna tekna á árinu 2004 og eigna í lok þess árs og við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2005 vegna vaxtagjalda á árinu 2004. Ákvæði 4. gr. koma til framkvæmda í staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2004.

d. Ákvæði a-liðar 12. gr kemur til framkvæmda við fyrirframgreiðslu sérstaks tekjuskatts á árunum 2004 og 2005 og álagningu þessa skatts á árunum 2005 og 2006.

e. Ákvæði 2. gr., b-liðar 3. gr., b-liðar 6. gr. og b-liðar 9. gr. koma til framkvæmda þann 1. janúar 2008, þ.e. umrædd ákvæði gilda í síðasta sinn við álagningu opinberra gjalda á alþjóðleg viðskiptafélög á árinu 2008 vegna tekna á árinu 2007.

Það þykir rétt að taka sérstaklega fram að í bréfi ráðuneytisins sem vísað er til hér að framan er það kynnt að fjármálaráðherra hyggist á fyrstu dögum Alþingis að afloknu jólaleyfi leggja fram frumvarp til breytinga á gildistökuákvæði laga nr. 143/2003 og færa það til samræmis við framangreint til þess að engin tvímæli séu um hvenær einstök ákvæði laga nr. 143/2003 skuli koma til framkvæmda.

Að lokum þykir rétt að benda á upplýsingavef ríkisskattstjóra þar sem nánar er útlistað hvernig lagabreytingarnar koma [til] framkvæmda að því er varðar tölulegar forsendur álagningar opinberra gjalda á árinu 2004.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum